Vegan sörur

Ég myndi ekki segja að sörur væri ómissandi partur af jólaundirbúningnum frá mér en ef ég kemst í að baka sörur fyrir jólin þá finnst mér þær virkilega góðar. Það er smá vinna að baka sörur og tekur yfirleytt frekar langan tíma en mér finnst frábært að taka tíma frá fyrir jólin í sörubakstur að plata t.d. vinkonur mínar eða mömmu með mér í sörubaksturinn. Úr verður ótrúlega notaleg stund með fólkinu mínu og baksturinn auðveldari fyrir vikið.

Að gera vegan sörur þarf alls ekki að vera mikið mál. Botnarnir eru gerðir á aðeins öðruvísi hátt en hefðbundar sörur þar sem þeir líkjast aðeins meira marengstoppum en þessum algengustu söru uppskriftum. Það þarf að þeyta aquafaba, sem er vökvin sem er í dós af kjuklingabaunum, vel með sykrinum og bæta síðan möndlunum varlega saman við. Ég hef bæði verið að notast við malaðar möndlur og einnig hakkaðar en mér finnst baksturinn verða aðeins auðveldari ef notaðar eru hakkaðar möndlur. Hitt virkar þó alveg svo ég hvet ykkur til að prófa ykkur einfaldlega áfram. Það er líka sniðugt t.d. að skipa deiginu í tvennt og prufa að setja malaðar í annað og hakkaðar í hitt og sjá hvort kemur betur út.

Hráefni:

  • 1 dl auquafaba (kjúklingabaunavatn)

  • 100 gr sykur

  • 100 gr flórsykur

  • 200 gr hakkaða möndlur (eða malaðar)

Aðferð:

  1. Stífþeytið aquafaba á hæsta styrk í hrærivél þar til það verður að mjög þykkri froðu

  2. Bætið sykrinu og flórsykrinum út í mjög hægt, sirka 1 msk í einu, á meðan að hrærivélin hrærið á háum styrk. Hrærið síðan áfram á háum styrk þar til marengsin verður mjög stífur og hægt að hvolfa skálinni án þess að hann detti eða hreyfist.

  3. Blandið möndlunum mjög varlega saman við með sleif.

  4. Setjið í sprautupoka og sprautið litla botna á bökunarplötu

  5. Bakið við 150°C í 16 mínútur, leyfið botnunum að kólna alveg á plötunni áður en þeir eru teknir upp.

Kremið í fyllinguna

  • 175g vegan smjör eða smjörlíki við stofuhita

  • 1/2 dl síróp

  • 250g flórsykur

  • 1/4 dl kælt, sterkt uppáhelt kaffi

  • 1/2 msk kakó

  • 1 tsk vanilludropar

Aðferð:

  1. Þeytið smjörið í hrærivél þar til það er mjúkt

  2. Bætið sírópinu út í, í mjórri bunu.

  3. Bætið restinni af hráefnunum saman við og hrærið vel saman.

  4. Setjið sirka 1 tsk af kremi á hvern botn og setjið botnana í frysti í 30 til 60 mínútur áður en þið dýfið þeim í bráðið súkkulaði til að hjúpa fyllinguna.

Ég var með sirka 100 gr af hvítu,- “mjólkur”- og suðusúkkulaði og hjúpaði kökurnar sitt á hvað.

IMG_9032.jpg

-Njótið vel og gleðilega aðvenntu.