Rósakál með ristuðum möndlum og appelsínuberki

IMG_2168.jpg

Ég uppgvötaði rósakál fyrir nokkrum árum. Mér hefði eiginega aldrei dottið í hug að mér myndi þykja það gott, því ég hafði oft heyrt frá öðrum að það væri hrikalega vont. Því er ég algjörlega ósammála, og í dag borða ég rósakál í hverri viku. Yftirleitt kaupi ég það frosið og borða sem meðlæti með mat, en um jólin kaupi ég það ferskt og útbý það á aðeins hátíðlegri máta.

IMG_2163-2.jpg

Ég hef smakkað margar skemmtilegar og gómsætar uppskriftir sem innihalda rósakál, eins og gratín og fleira gúrmé. Yfir hátíðirnar er ég þó vanalega með kartöflugratín, sósu og fleira sem inniheldur rjóma eða mæjónes, svo ég vil hafa rósakálið aðeins meira ferskt.

IMG_2166.jpg

Þar sem jólamaturinn getur tekið langan tíma er svo gott að gera meðlæti sem þarfnast ekki mikillar fyrirhafnar. Þetta rósakál er einmitt dæmi um svoleiðis meðlæti en smakkast á sama tíma ótrúlega vel og passar fullkomlega yfir hátíðirnar.

IMG_2174-2.jpg

Rósakál með appelsínuberki og möndlum

  • 400 g ferskt rósakál

  • Smá olía til að steikja upp úr

  • 1-2 tsk hlynsíróp

  • 1 dl möndlur

  • 2 msk appelsínusafi

  • börkur af einni appelsínu

  • salt og pipar

Aðferð:

  1. Skerið rósakálið í tvennt og takið botninn af ef hann er mjög stór og harður

  2. Saxið niður möndlurnar og þurrristið á pönnu. Takið frá þegar þær eru orðnar ristaðar

  3. Hitið olíu á pönnu og bætið rósakálinu út á

  4. Steikið það í smá stund þar til það er orðið svolítið gyllt á litinn

  5. Bætið út á pönnuna appelsínusafanum og sírópinu og steikið þar til rósakálið er orðið svolítið dökkt

  6. Bætið þá út á möndlunum, berkinum, salti og pipar og steikið örlítið í viðbót.

  7. Berið fram heitt eða kalt

Njótið

Veganistur