Afmælis brunch + tvær uppskriftir

Ég átti 21. árs afmæli í vikunni og ákvað að bjóða vinum mínum í smá brunch um helgina. Ég var búin að ákveða fyrir löngu að halda upp á afmælið mitt þar sem ég hef ekki gert það í mörg ár. Ég ætlaði að halda partý og bjóða öllum og hafa rosa gaman en þar sem ég er alls ekki djamm manneskja hætti ég fljótt við það þegar ég fór að hugsa þetta betur. Ég alveg elska að elda eins og þið vitið líklegast öll en það sem mér finnst eiginlega ennþá skemmtilegra er að leyfið öðrum að njóta með mér. Ég ákvað því að bjóða þeim í brunch þar sem að það er svo rosalega vinsælt hjá öllum núna.

Mér fannst tilvalið að gera smá bloggfærslu úr þessu til þess að sýna ykkur að það er ekkert mál að gera risastóran og góðan brunch með alls konar góðgæti þó maður sé vegan. Engin af vinum mínum sem komu er vegan en auðvitað var allt sem var í boði vegan og þeim fannst þetta ótrúlega gott og söknuðu einskis. Það þarf því engin að vera hræddur við að bjóða bara uppá vegan bakkelsi í boðum þar sem að lang flestir eru ekki einu sinni að fara að átta sig á því! Ég ætla því að deila með ykkur því sem ég bauð upp á ásamt tveimur uppskriftum.

 

Matseðilinn í afmælis brunchinum var eftirfarandi:

Amerískar pönnukökur m/bönunum, jarðaberjum og sírópi
Heimabakað brauð
Fræbrauð
Hummus & Pestó
Kasjú ostakaka
Bakaðar baunir
Pinto-villisveppapylsur
Gulrótarmuffis
Súkkulaðimuffins
Vatsmelónur & appelsínur

Epla og engifer safi
Appelsínusafi
Súkkulaði haframjólk

Hér fyrir neðan ætla ég að deila með ykkur uppskriftunum af pinto-villisveppapylsum og mjög einföldu heimabökuðu brauði.

Ernubrauð

Erna er í tengdafjölskyldunni minni en hún á heiðurinn af þessu brauði. Þetta brauð er svo ótrúlega einfalt og gott að það er bakaðr fyrir hverja einustu veislu í jfölskyldunni. Það er hægt að leika sér með það eins og hugurinn girnist en ég set oft ólífur og sólþurrkaðar tómata í það eða hvítlauk. Hérna kemur uppskrift af hinu hefðbundna brauði en hægt er að bæta við eftir eigin höfði.

Hráefni:

  • 1/2 lítri volgt vatn

  • 3 tsk þurrger

  • 1 msk salt

  • 600 gr hveiti

  • olía og gróft salt til að smyrja

Aðferð:

  1. Setjið volgt vatn í skál og dreyfið þurrgerinu yfir. Leyfið þessu að standa í 5 mínútur áður en haldið er lengra.

  2. Bætið hveitinu og saltinu útí. (Ef setja á eitthvað fleira í brauðið er best að bæta því útí á þessu stigi, áður en deigið er hrært saman.)

  3. Hrærið deigið með sleif þar til hveitið er alveg blandað, sem sagt ekkert þurrt hveiti eftir. Setjið plastfilmu eða poka yfir skálina og leyfið henni að standa í ísskáp í 8 klukkustundir eða yfir nótt.

  4. Hellið deiginu beint á plötu, smyrjið með olíu og dreyfið vel af salti yfir. Bakið við 200°C í 50 mínútur eða þar til brauðið er gullið að ofan.

Pinto-villisveppapylsur

Ég ákvað þrátt fyrir að mikið sé af vegan pylsum á markaðnum í dag, að gera mínar eigin. Þær komu ótrúlega vel út en þessa uppskrift má einnig nota í buff eða sem grænmetiskæfu ofan á brauð og kex. Það er hægt að gera stóra uppskrift og frysta pylsurnar eða buffin en mér finnst það ótrúlega þægilegt t.d. til þess að grípa með mér í nesti þegar ekki hefur gefist mikill tími í að útbúa eitthvað annað.

Hráefni:

  • 2 dósir pintobaunir (480 gr eftir að vatnið er tekið frá)

  • 2 msk olía 

  • 1 bolli frosnir villisveppir (mælt áður en þeir eru steiktir)

  • 1/2 meðalstór laukur

  • 2 hvítlauksrif

  • 3 sólþurrkaðir tómatar

  • 1 msk franskar jurtir (herbs de provence krydd)

  • 1 msk grænmetiskraftur

  • salt og pipar eftir smekk

  • 2 dl hveitiglútein eða malað haframjöl (því er sleppt ef gera á grænmetiskæfu)

Aðferð:

  1. Steikið laukinn, sveppina og hvítlaukinn upp úr olíunni í góðan tíma.

  2. Setjið allt nema hveitiglúteinið eða haframjölið í blandara eða matvinnsluvél og vinnið saman þar til vel blandað. 

  3. Hrærið hveitiglúteininu eða haframjölinu út í með sleif.

  4. Mótið pylsur, bollur eða buff og bakið við 180°C í 20-25 mínútur. 

Takk fyrir mig
-Júlía Sif