Kryddbrauð

Suma daga langar mig að baka eitthvað gott en er samt varla í stuði til þess. Svoleiðis daga er ég vön að skella í uppáhalds súkkulaðikökuna mína því hún er svo hlægilega einföld. Það kemur samt fyrir að mann langar í eitthvað annað en súkkulaðiköku og í dag var svoleiðis dagur. Mig hefur lengi langað að prufa að baka kryddbrauð svo ég lét loksins vaða. Útkoman varð æðisleg og ég trúi því ekki að ég hafi ekki gert þetta áður.

Ég reyni að forðast það að borða glútein svo ég notaðist við glúteinlaust hveiti. Ég hef verið að prufa mig áfram með glúteinlausan bakstur og ég verð að segja að það hefur komið mér skemmtilega á óvart. Kryddbrauðið kom úr ofninum mjúkt og undursamlega gott á bragðið.  Ég hef aðallega verið að nota hveitiblöndu frá Toro hérna erlendis en á Íslandi fæst meðal annars glúteinlaust hveiti frá Doves farm sem hefur vakið mikla lukku. 

Þessi uppskrift er virkilega einföld og er tilvalin til þess að leyfa krökkum að spreyta sig í bakstrinum.
Það tekur enga stund að útbúa deigið og einu áhöldin sem þarf eru:
stór skál
desilítramál
teskeið
sleif
brauðform

Kryddbrauðið er ekki einungis gott á bragðið heldur fyllist húsið af unaðslegum ilmi. Mér finnst það best volgt með vegan smjöri. Þetta verður klárlega bakað aftur á næstunni. 

Ég vil taka það fram að þó ég notist við glúteinlaust hveiti og haframjöl er ekkert mál að skipta því út fyrir venjulegt hveiti og haframjöl. 

Hráefni:

  • 3,5 dl glúteinlaust hveiti. Hveitið frá Doves farm fæst í Nettó og er mjög vinsælt. Ef þið eruð að nota venjulegt hveiti ætti að vera nóg að nota 3 dl

  • 3 dl glúteinlaust haframjöl. Ég mæli með haframjölinu frá Semper

  • 4 tsk kakó

  • 1 tsk engifer (krydd, ekki ferskt)

  • 1 tsk negull

  • 2 tsk matarsódi

  • 2 og 1/2 dl púðursykur

  • 3 dl jurtamjólk að eigin vali

  1. Hitið ofninn í 200°c 

  2. Blandið öllu saman í stóra skál

  3. Smyrjið brauðform með vegan smjöri eða penslið með olíu

  4. Hellið deiginu ofan í og bakið í 40-50 mínútur. 

  5. Leyfið brauðinu að kólna í nokkrar mínútur áður en þið fjarlægið það úr forminu. 

Ég vona að þið njótið
Helga María