Rjómaostasnúðar með rauðu pestói

Í dag deilum við með ykkur dásamlegum rjómaostasnúðum með rauðu pestói. Þessir snúðar eru ótrúlega einfaldir en ekkert smá mjúkir og gómsætir. Þeir henta fullkomlega til að eiga í nesti í útileguna, skólan eða bara með kaffinu. Það má leika sér með þessa uppskrift á ótal vegu og hægt er að setja nánast hvað sem hugurinn girnist sem fyllingu í snúðana.

Ég elska að baka sætar kökur, muffins og snúða með kaffinu en oft gleymi ég hvað er ótrúlega gaman að baka ósætt bakkelsi, líkt og þessa dásamlegu snúða. Það er svo fullkomið í kaffitímanum eða í nesti, þegar manni langar ekki endilega bara í eitthvað sætt. Mér finnst einhvern veginn alltaf meiri matur í ósætu bakkelsi. Þessir snúðar eru akkúrat þannig, ég geri þá frekar stóra svo það sé hægt að borða einn og verða ágætlega saddur af honum.

Ég hef síðan ég var barn ELSKAÐ rautt pestó og borðaði það oft eintómt ofan á brauð þegar ég var krakki, sem er kannski örlítið furðulegt, en það skiptir svo sem ekki máli. Ég nota það þó mikið í dag til að bragðbæta alls kyns hluti og er rauða vegan pestóið frá Sacla Italia í mjög miklu uppáhaldi hjá mér, hvort sem það er í pastarétti, súpur, eða í baksturinn. Pestóið hentar fullkomlega með vegan rjómaosti og verða snúðarnir svo mjúkir og djúsí með þessari fyllingu.

Ég baka oft snúðana í eldföstu móti þar sem þeir koma svo fallega út en það má einnig baka þá staka á ofnplötu og hentar það kannski betur ef það á til dæmis að frysta eitthvað af þeim til að geyma. Ég geri oft minni snúða úr helmingnum af deiginu til að eiga í frysti og geta gripið þegar mér vantar eitthvað til að taka með mér eða ef ég fæ óvænta gesti. Það er ekkert þægilegra en að vera með bakkelsi í frysti sem er hægt að henda í ofninn í nokkrar mínútur þegar fólk kemur í heimsókn.

Rjómaostasnúðar með rauðu pestói

Rjómaostasnúðar með rauðu pestói
Höfundur: Júlía Sif
Undirbúningstími: 2 HourEldunartími: 20 Min: 2 H & 20 M

Hráefni:

  • 5 dl plöntumjólk
  • 100 gr vegan smjör eða smjörlíki
  • 1 pakki þurrger
  • 1 tsk sykur
  • 1/2 tsk salt
  • 11-12 dl hveiti
  • 200 gr vegan rjómaostur (t.d. Sheese eða oatly)
  • 1 krukka rautt vegan pestó frá Sacla Italia
  • 2 msk plöntumjólk
  • 1-2 msk beyglukrydd (t.d. sesamgaldur frá pottagöldrum)

Aðferð:

  1. Hitið ofnin í 220°C
  2. Byrjið á því að bræða smjörlíki og bæta síðan mjólkinni út í og saman þar til það er sirka við líkamshita.
  3. Stráið þurrgerinu yfir og sykrinum síðan yfir það og leyfið því að bíða í um 5 mínútur. Þurrgerið ætti aðeins að fara að freyða.
  4. Bætið saltinu og hveitinu saman við og hnoðið saman þar til allt deigið hefur losnað frá skálinnni. Byrjið á því að setja 11 dl af hveiti og bætið síðan út í eftir þörfum.
  5. Leyfið deiginu að hefast í skálinni í u.þ.b. 40 mínútur.
  6. Fletjið deigið út, smyrjið rjómaostinum yfir ásamt pestóinu. Rúllið þétt upp og skerið í bita í þeirri stærð sem hver og einn kýs.
  7. Raðið á plötu eða í eldfast mót og pressið aðeins niður á hvern og einn snúð. Leyfið þeim síðan að hefast í 20 mínútur í viðbót.
  8. Smyrjið smá plöntumjólk á hvern snúð og dreyfið beyglukryddinu yfir.
  9. Bakið í 17 til 20 mínútur eða þar til þeir verða fallega gylltir ofan á.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við Sacla Italia á Íslandi -

 
 

Vegan ostahorn með aspas og sveppum

IMG_0333-4.jpg

Í dag deilum við með ykkur uppskrift af gómsætum ostahornum með sveppa- og aspasfyllingu. Þessi ostahorn eru fullkomin til að taka með sér í ferðalagið eða bjóða uppá í veislum. Þau bragðast eins og uppáhalds heiti brauðrétturinn okkar og við erum vissar um að þau munu slá í gegn við allskonar tilefni.

IMG_0296-3.jpg

Svona horn er að sjálfsögðu hægt að leika sér endalaust með og breyta til hvað varðar fyllingu. Færsla dagisins er í samstarfi með Violife og í aspashornin notuðum við bæði hreina rjómaostinn þeirra og rifinn ost. Vegan ostarnir og rjómaostarnir eru svo fullkomnir í svona horn en Violife framleiða allskonar spennandi bragðtegundir. Við gætum t.d. ímyndað okkur að bæði hvítlauks- og jurtarjómaosturinn og chilirjómaosturinn séu æðislegir í svona horn. Af sneiddu ostunum væri svo örugglega æði að nota t.d. þann með sveppabragði og þann með “kjúklingabragði”.

Það er langt síðan við systur hittumst síðast og blogguðum saman. Ég (Helga) bý í Svíþjóð svo við erum vanar að þurfa að vinna svolítið i sitthvoru lagi. Núna er ég þó á landinu og því höfum við getað tekið okkur smá tíma í að blogga. Það er alltaf jafn gaman þegar við vinnum saman og það minnir okkur á það hversu dýrmætt það er að við rekum þessa síðu saman, sem í fyrstu átti bara að vera lítið “hobbí”, en er í dag orðið svo stór hluti af lífinu okkar.

IMG_0309.jpg

Við hlökkum til að heyra hvað ykkur finnst um aspashornin og hvort þau munu klárast jafn fljótt og þau gerðu hjá okkur. Eins megiði endilega deila með okkur ef þið prófið að gera aðra fyllingu í hornin og hvernig það kom út. Við elskum að fá nýjar og skemmtilegar hugmyndir.

IMG_0342-3.jpg

Ostahorn með aspas og sveppum

Hornin sjálf:

  • 8-10 dl hveiti (byrjið á 8 og bætið svo við eftir þörfum)

  • 1 pakki þurrger

  • 1 msk sykur

  • 1 tsk salt

  • 5 dl plöntumjólk

  • 100 gr smjörlíki

Aðferð:

  1. Bræðið smjörlíki í potti og bætið mjólkinni saman við. Mjólkin þarf ekki að hitna mikið, heldur vera við líkamshita.

  2. Hellið mjólkurblöndunni í stóra skál og stráið þurrgerinu saman við. Leyfið því að standa í nokkrar mínútur eða þar til það byrjar að freyða svolítið.

  3. Bætið restinni af hráefnunum útí.

  4. Bætið við meira hveiti ef þarf. Ég held ég hafi á endanum notað um 9 dl. Deigið má ekki vera of þurrt, þið eigið að geta stunduð hreinum fingri ofan í án þess að deig klessist við hann. Hnoðið deigið létt. Ef þið notið hrærivél er fínt að miða við að deigið sé tilbúið þegar það byrjar að losna frá skálinni.

  5. Leyfið deiginu að hefast í klukkutíma í skál með viskustykki eða plastfilmu yfir.

  6. Hitið ofninn í 200°c

  7. Skiptið deiginu í tvennt ef þið viljið hafa hornin frekar stór en í fernt ef þið viljið hafa þau minni (við gerðum stór) og fletjið út hvern helming fyrir sig í hring. Skerið niður í sneiðar (sjá mynd að ofan), setjið fyllingu á og stráið rifnum Violife osti yfir. Passið ykkur að setja ekki alltof mikið af fyllingu í hvert því það þarf að vera hægt að rúlla þessu upp án þess að allt velli úr. Rúllið upp frá breiðari endanum.

  8. Smyrjið með örlítilli vegan mjólk og stráið yfir einhverju sem ykkur þykir gott. Við notuðum sesamgaldur frá pottagöldrum en það er líka gott að strá yfir sesamfræjum, grófu salti eða jafnvel rifnum Violife osti.

  9. Bakið í 10-12 mínútur eða þar til hornin hafa fengið gylltan og fínan lit.

  10. Leyfið þeim að kólna svolítið áður en þau eru borin fram.

Aspas- og rjómaostafylling:

  • Olía til steikingar

  • 2 öskjur hreinn rjómaostur frá Violife

  • 1 dós grænn aspas plús 1 msk safi úr dósinni

  • 100 gr sveppir

  • 1 sveppakraftur

  • Salt og pipar ef þarf. Sveppakrafturinn er saltur svo smakkið til svo að þetta verði ekki of salt.

Aðferð:

  1. Hitið olíu á pönnu

  2. Saxið sveppina smátt og steikið á pönnunni

  3. Saxið aspasinn líka aðeins og bætið á pönnuna

  4. Myljið sveppakraftinn og bætið á pönnuna ásamt 1 msk af aspas safanum

  5. Takið af pönnunni og leyfið að kólna aðeins

  6. Setjið rjómaostinn í skál og bætið sveppa- og aspasblöndunni út í og hrærið saman.

  7. Bætið salti og pipar ef ykkur finnst þurfa.

Takk fyrir að lesa og njótið vel!

-Helga María og Júlía Sif

-Þessi færsla er í samstarfi við Violife á Íslandi-

 
violife-logo-1.png