Tortellini með Anamma pylsum

Það eru líklegast margir sem hafa sjaldan eytt jafn miklum tíma heimavið og á þessu ári. Ég er allavega ein af þeim og hefur nánast allt, skólinn, vinnan og fleira færst heim, og það er ekkert skrítið við það lengur að vera lang oftat heima í hádeginu. Mér hefur fundist nauðsynlegt á þessum tímum að luma á góðum, fljótlegum uppskriftum, sérstaklega fyrir hádegin þegar ég er á kafi í einhverju og vil ekki eyða of miklum tíma í að elda.

Ein af þeim uppskriftum sem ég hef mikið gripið í síðustu mánuði er þetta einfalda tortellini með Anamma pyslunum. Þetta er þó svo einföld uppskrift að það er varla hægt að kalla þetta uppskrift. Ég er búin að vera með algjört æði fyrir þessu vegan tortellini sem ég fann í vegan búðinni í skeifunni fyrr á árinu. Ég hef ekki borðað tortellini áður frá því að ég varð vegan svo ég var mjög spennt þegar ég fann þetta.

Þessi vara olli mér svo sannarlega engum vonbrigðum. Það er virkilega bragðgott og þarf mjög lítið að gera svo það verði að gómsætri máltíð. Ég hef einnig borðað mikið af anamma pylsunum og förum við oftast með tvo eða þrjá poka á viku á mínu heimili. Mér finnst algjör snilld að stappa pylsurnar niður og gera þær að einskonar hakki. En líkt og tortelliníið eru þær mjög bragðgóðar og þarf lítið að gera við þær aukalega þegar þær eru notaðar í mat.

Rétturinn verður því til á nokkrum mínutum, það þarf fá hráefni og lítið umstang í kringum eldamennskuna en það finnst mér akkúrat það besta við þessa uppskrift. Þessi réttur hentar líka fullkomlega sem nesti og er ekki síðri þó hann sé orðin kaldur þegar maður gæðir sér á honum.

Hráefni

  • 1 pakki PORCINI tortellini

  • 2-3 anamma vegokorv pylsur

  • 50 gr vegan smjör eða smjörlíki

  • 2 hvítlauksgeirar

  • 1 lítill vorlaukur

  • 1 dl söxuð fersk steinselja (má nota 1-2 msk þurrkuð steinselja)

  • smá salt og pipar

Aðferð:

  1. Byrjið á því að setja vatn í pott, bíða eftir að suðan komi upp og sjóða tortelliníið eftir leiðbeiningum á pakkningunni

  2. Þíðir pyslurnar, t.d. í örbylgjuofni ef þær hafa ekki fengið tíma til að þiðna) og stappið þær síðan með gaffli þar til þær verða að mauki.

  3. Brærðið smjörið á pönnu og bætið síðan vorlauknum, hvítlauknum og pylsunum út á og steikið.

  4. Þegar pylsurnar eru orðan steiktar og orðnar að góðu hakki bætið þá steinseljunni og soðnu tortellini út á og steikið í 2 til 3 mínútur í viðbót.

-Njótið vel

Þessi færsla er unninn í samstarfi við Anamma á íslandi og Tortellini var gjöf frá vegan búðinni.

 
anamma_logo.png