Ómótstæðileg Ella - Sætkartöflubrúnkur

Við systur fengum að gjöf bókina Ómótstæðileg Ella rétt fyrir jól. Eftir að hafa átt bókina í svolítinn tíma og prófað að elda og baka úr henni fannst okkur vert að tala aðeins um hana hérna á blogginu. Við höfum fylgst með Ellu á samfélagsmiðlum í dágóðan tíma og getum svo sannarlega sagt að hún sé algjör snillingur í eldhúsinu. Það er sko enginn leikur að elda og baka úr svona hollum og heilnæmum hráefnum og láta það heppnast svona ótrúlega vel og girnilega.

Vegna þess hversu vel okkur hefur líkað bókin ætlum við systur, ásamt forlaginu Angústúra, að gefa tvö eintök af henni. Það eina sem þarf að gera til að komast í pottinn er að setja athugasemd við þessa færslu hér að neðan. Við lofum að enginn verður svikinn af þessari bók en allar uppskriftirnar í henni eru auðvitað vegan, fyrir utan nokkrar þar sem notast er við hunang. Það er þó ekkert vandamál að skipta hunangi út fyrir aðra sætu en við notumst þá aðallega við agave- og hlynsíróp.

Bókin hefur að geyma alveg ótrúlega mikið af æðislegum fróðleik og girnilegum uppskriftum en sætkartöflubrúnkurnar urðu strax ein af okkar uppáhalds. Þessi kaka er svo holl að það væri hægt að borða hana í morgunmat, hádegismat og kvöldmat. Maður myndi þó ekki trúa því þegar maður smakkar hana en hún uppfyllir svo sannarlega sætindaþörfina og bragðast eins og hefðbundin heit súkkulaðikaka.

Við höfum gert þessa köku nokkrum sinnum, boðið vinum og vandamönnum uppá hana og fengið góðar viðtökur. Þess vegna ætlum við að deila með ykkur uppskriftinni af þessari æðislega köku hérna fyrir neðan. Við systur erum þó örlítið erfiðar þegar kemur að því að fylgja uppskrift og auðvitað þurftum við aðeins að bæta við hana. Það er þó alls ekki nauðsynlegt þar sem kakan er æðisleg eins og hún er í bókinni.

Hráefni: úr uppskriftinni koma 10-12 brúnkur

 • 2 miðlungstórar sætar kartöflur (600 gr)
 • 14 ferskar döðlur (muna að taka steininn úr)
 • 2/3 stór bolli malaðar möndlur (80 gr)
 • 1/2 stór bolli bókhveiti- eða hýðishrísmjöl (100 gr) (við notum bókhveitimjöl)
 • 4 msk hrákakó
 • 3 msk hlynsíróp
 • saltklípa
 • (ég bætti útí 30 gr af söxuðum heslihnetum og 60 gr af dökku appelsínusúkkulaði)

Aðferð:

 1. Hitið ofninn á 180°C (blástur 160°C)
 2. Skrælið sætu kartöflurnar. Skerið þær í bita og gufusjóðið í 20 mínútur, þar til þær verða mjög mjúkar.
 3. Þegar kartöflurnar eru orðnar mjúkar í gegn og byrjaðar að detta í sundur blandið þið þær í matvinnsluvél ásamt steinlausum döðlum þar til þetta verður að mjúku deigi.
 4. Blandið þeim hráefnum sem eftir eru saman í skál, áður en þið hrærið sætu kartöflunum og döðlunum vel saman við.
 5. Setjið bökunarpappír í eldfast mót, hellið deiginu í það og bakið í um 20 - 30 mínútur, þar til þið getið stungið í kökuna með gaffli og hann kemur þurr út. Losið kökuna úr forminu og leyfið henni að kólna í um 10 mínútur. Það skiptir miklu máli þar sem brúnkurnar þurfa þenna tíma til að loða saman.

Njótið vel og munið að skrifa athugasemt fyrir neðan til að eiga möguleika á að vinna bókina.
-Veganistur