Heitt súkkulaði

Heitt súkkulaði er eitt af því sem gerir veturinn betri. Það er fátt jafn gott eftir göngutúr í kuldanum en hentar líka fullkomlega á köldum sunnudagsmorgnum þegar mann langar ekkert frekar en að kúra uppi í sófa í náttfötum vafin í teppi! 

Margir halda að það sé mun fljótlegra að útbúa heitt kakó úr tilbúnu kakódufti, eins og Swiss miss, og verða því svekktir að komast að því að Swiss miss er alls ekki vegan. Að okkar mati er heitt súkkulaði gert "frá grunni" mun betra og meira alvöru. Það tekur innan við 10 mínútur að útbúa og er algjörlega þess virði.

Mjólkin frá Oatly er alveg frábær. Þau framleiða meðal annars mjólk sérstaklega gerða fyrir kaffi. Hún freyðir betur og er svolítið þykkari. Ég notaði hana í heita súkkulaðið og það kom virkilega vel út. Oatly fæst í krónunni. 
Sykurpúðarnir fást í Gló í Fákafeni og koma bæði svona litlir og einnig stærri. Þeir eru mjög góðir og pössuðu mjög vel við kakóið. 

Hráefni:

  • 175g suðusúkkulaði

  • 2 dl vatn

  • 1L kaffimjólk frá Oatly - eða önnur jurtamjólk

  • Smá salt

  • Kanilstöng

Valfrjálst: 

  • Jurtarjómi frá Soyatoo, fyrir þá sem vilja þeyttan rjóma með heita súkkulaðinu (fæst í Gló Fákafeni)

  • Vegan sykurpúðar (Fást í Gló Fákafeni)

 

Aðferð:

  1. Setjið vatnið í pott og brjótið súkkulaðið ofan í. Hrærið vel í pottinum á meðan súkkulaðið bráðnar í vatninu

  2. Hellið mjólkinni út í pottinn ásamt kanilstönginni og leyfið suðunni að koma upp.

  3. Saltið eftir smekk

Berið fram með sykurpúðum, þeyttum jurtarjóma eða bara eitt og sér. Uppskriftin er fyrir sirka 4-5.

Vona að þið njótið
Helga María