Súkkulaðikaka með kirsuberjamarmelaði og súkkulaðiganache

Dúnmjúk súkkulaðikaka með kirsuberjamarmelaði og rjómakenndu súkkulaðiganache. Svo undursamlega góð. Ég stráði svolitlu af grófu salti ofan á og bar kökuna fram með þeyttum rjóma. Saltið passar svo vel við súkkulaðið, kirsuberjamarmelaðið gefur kökunni ferskleika sem vegur upp á móti sætunni og rjóminn sömuleiðis. Fullkomið jafnvægi að mínu mati.

Kökubotninn er okkar klassíski súkkulaðibotn sem við systur höfum bakað í yfir tíu ár. Það gæti bókstaflega ekki verið auðveldara að baka hann og hann verður alltaf jafn dúnmjúkur og góður. Ég á afmæli á morgun og ákvað að þessi gómsæta kaka yrði mín afmæliskaka. Fullkomin!

Í staðin fyrir hefðbundið krem toppaði ég kökuna með kirsuberjamarmelaði frá St. Dalfour, en þessi færsla er einmitt gerð í samstarfi við þau. Við Júlía notum marmelaðið þeirra mikið í okkar daglegu lífi, bæði í bakstur, ofan á brauð og annað. Hugmyndin um að para kirsuberjamarmelaðið með súkkulaðiköku fékk ég fyrir þónokkru síðan og ég varð svo sannarlega ekki fyrir vonbrigðum.

Ofan á marmelaðið setti ég svo súkkulaðiganache. Ég gerði ganache með því að hita rjóma í potti og hella svo yfir smjörlíki og saxað súkkulaði. Áferðin er fyrst eins og þykk súkkulaðisósa en þegar það hefur fengið að kælast í nokkra tíma verður það að ganache sem bráðnar bókstaflega í munninum.

Sjáið bara þessa fallegu kökusneið. Ég hefði ekki getað valið betri afmælisköku!

Ég mæli mikið með því að þið prófið kirsuberjamarmelaðið frá St. Dalfour. Það er bæði geggjað með súkkulaðiköku og líka með góðu kexi og ostum. Ég get ímyndað mér að það væri fullkomið í þessar smjördeigsbökur!

Takk innilega fyrir að lesa og vona að þið njótið!

-Helga María

Súkkulaðikaka með kirsuberjamarmelaði og súkkulaðiganache

Súkkulaðikaka með kirsuberjamarmelaði og súkkulaðiganache
Höfundur: Helga María
Dúnmjúk súkkulaðikaka með kirsuberjamarmelaði og rjómakenndu súkkulaðiganache. Svo undursamlega góð.

Hráefni:

  • 3 dl hveiti
  • 2 dl sykur
  • 1/2 dl kakó
  • 1 tsk matarsódi
  • 1/2 tsk salt
  • 2 dl vatn (gæti þurft að bæta örlitlu við ef deigið er of þykkt)
  • ca 2/3 dl bragðlaus olía
  • 1 tsk vanilludropar
  • 1/2 msk eplaedik
  • 1 krukka kirsuberjamarmelaði frá St. Dalfour
  • Súkkulaðiganache (uppskrift af því hér að neðan)
Súkkulaðiganache
  • 1 peli vegan þeytirjómi (ég notaði alpro)
  • 300 gr súkkulaði (Ég notaði 200 gr suðusúkkulaði og 100 gr 85% súkkulaði)
  • 50 smjörlíki við stofuhita

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 175°c.
  2. Blandið saman þurrefnunum í skál.
  3. Bætið blautu hráefnunum út í og hrærið saman.
  4. Klæðið bökunarform í smjörpappír (ég notaði 20 cm form) og hellið deiginu ofan í og bakið kökuna í 20-30 mínútur eða þar til tannstöngull kemur hreinn út þegar stungið er í hana.
  5. Látið botninn kólna alveg áður en þið haldið áfram.
  6. Setjið botninn á kökudisk og skerið hana til hún er ójöfn að ofan, svo hún sé alveg slétt. Smellið hringnum utan um kökuna aftur og bætið sultunni ofan á. Hellið að lokum ganache yfir og látið kökuna kólna í ísskáp í minnst klukkutíma. Það er svo súkkulaðiganache-ið nái að harðna.
  7. Berið fram með þeyttum rjóma.
Súkkulaðiganache
  1. Saxið súkkulaðið og setjið í skál með smjörlíkinu. Passið að smjörlíkið sé við stofuhita.
  2. Hitið rjómann í potti þar til hann nær suðu. Hellið yfir súkkulaðið og setjið lok eða disk yfir og látið standa í 5 mínútur sirka.
  3. Hrærið svo í þannig að súkkulaðið bráðni vel í rjómanum.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur