Ég ætla að breyta lífi mínu - 3. kafli

Jæja Helga, hvað er að frétta? Þessi færsla ætti að vera löngu komin og eins og mig langar að geta sagt að ég hafi fjölmargar gildar ástæður, er eiginlega engin afsökun nógu góð. Ætli það verði ekki efst á listanum fyrir næstu viku að birta færsluna á réttum tíma ehhehe.. 

IMG_0107-2.jpg

Síðustu vikur hefur líf mitt breyst að mörgu leyti en á sama tíma er erfiðara en ég hélt að breyta ýmsu. Ég get þó byrjað á því að segja að ég hef ekki verið jafn hamingjusöm lengi. Ég talaði um það í síðustu færslu hvernig ég vil segja skilið við þær ákveðnu hugmyndir um hver ég er og hvað ég get og get ekki gert. Það hefur verið ákveðin áskorun og ég hef komist að því að hugmyndir mínar um hver ég er, eru mun skorðaðri en ég gerði mér grein fyrir. Samt sem áður er það skemmtileg áskorun því ég hef kynnst sjálfri mér betur í kjölfarið. Það er þó ekki nóg að breyta því hvernig ég hugsa, heldur þarf ég að læra að taka skrefið og gera hlutina sem mig hefur alltaf langað en annaðhvort ekki þorað eða fundist ég ekki geta gert. Síðan ég var unglingur hef ég meðal annars forðast það að gera hluti sem ég er ekki nú þegar orðin góð í (ég átta mig fyllilega á því að dæmið gengur eiginlega ekki upp.) Ég myndi aldrei spila mini-golf eða reyna að búa til málverk, því ég kann það ekki. Þessi hugsunarháttur hefur gert það að verkum að ég stoppa sjálfa mig oft og geri ekkert af því sem mig langar því mér finnst ég ekki geta gert það nógu vel. 

IMG_9984-2.jpg

Ég hef mikið hugsað um þetta síðustu vikur og er ákveðin í að breyta þessu. Ég tók því fyrsta skrefið í síðustu viku. Síðan ég var barn hefur mér þótt gaman að búa til tónlist og hef í gegnum tíðina samið fullt af hálfkláruðum lögum. Mér hefur aldrei þótt ég hafa það sem þarf til að klára lögin og hvað þá leyfa fólki að heyra þau. Við Siggi höfum síðastliðna mánuði leikið okkur í GaragaBand í símanum mínum og búið til lög sem mér hefur þó aldrei þótt nálægt því nógu góð til að setja á netið, þar til ég áttaði mig á því að lögin sem ég geri núna eru einfaldlega eins góð og ég gert þau akkúrat núna, og að það er ekkert að því. Í síðustu viku settist ég við píanótið og samdi lag sem Siggi hjálpaði mér svo að setja upp í GaragaBand appið á símanum mínum og gerði meðal annars fyrir mig trommur og fl. Ég tók svo sönginn upp í iPhone heyrnatólin, svo gæðin eru allt annað en góð. Við ákváðum að setja það á Soundcloud og Youtube þrátt fyrir að lagið sé langt frá því að vera fullkomið. Oft er sagt að eyða þurfi 10.000 klukkutímum í að gera eitthvað til að verða mjög góð/ur í því, og ég hef alls ekki eytt 10.000 klukkutímum í að semja tónlist, svo það væri virkilega skrítið ef ég væri einhver snillingur í því. 

Lagið heitir I'll be fine og það var virkilega gaman að búa það til. Ég get leyft mér að segja að ég sé stolt af því, þrátt fyrir að mér finnist margt mega vera betra. Ég hlakka til að sýna ykkur fleiri lög og kannski eftir svona hundrað í viðbót kemur eitthvað meistaraverk. 

Síðustu vikur hef ég:

  • Vaknað í kringum klukkan 8 alla daga
  • Klætt mig í almennileg föt daglega og leyft kósýgallanum að bíða þar til á kvöldin
  • Talað oftar við systkini mín en ég hef gert síðasta hálfa árið nánast
  • Eytt miklum tíma í að læra að hugsa öðruvísi um sjálfa mig 
  • Bloggað það sem ég ætlaði fyrir páskana, þ.a.m. fyrstu færlsuna fyrir samstarfið sem við erum í
  • Hlustað á miiiikið af tónlist og sungið miklu meira en ég hef verið vön síðustu ár. Ég hef uppgvötað fullt af skemmtilegum tónlistarmönnum og notið þess að hlusta á eitthvað nýtt
  • Klárað lagið sem ég var að vinna í og birt það 
  • Haldið matarboð og kynnst vinum okkar hérna í Piteå betur
  • Unnið við borð en ekki í sófanum - stór sigur ehe
  • Borðað næringaríkan mat (fyrir utan nokkra daga um páskana)
  • Hugsað vel um húðina mína
  • Átt yndislegt símtal við Siggu vinkonu mína, sem var löngu orðið tímabært
  • Brosað meira og hlegið meira en ég hef gert lengi
  • Haldið áfram að þykja vænt um mig 

Það sem hefði mátt fara betur og ég mun bæta í þessari viku:

  • Ég hef hreyft mig vandræðalega lítið (af hverju er svona erfitt að fara í ræktina þegar maður hefur tekið pásku?!)
  • Ég hef stundum leyft uppvaskinu að bíða þar til daginn eftir, sem er aldrei þess virði
  • Ég hef oft gleymt mér í Youtube glápi þegar ég á að vera að gera eitthvað annað
  • Ég hef nokkrum sinnum dottið í sjálfsvorkunn varðandi vanvirka skjaldkirtilinn minn og því sem fylgir og ég ætla að tala betur um það í næstu færslu. 
  • Ég fór ekki á kaffihúsadeit eins og ég hafði ætlað mér
  • Ég færði EKKI lögheimilið!! Ég ætlaði að gera það tvisvar og fattaði að ég hafði gleymt vegabréfinu heima í bæði skiptin, halló Helga, þú getur þetta!

Þessa vikuna ætla ég að:

  • Halda áfram að tileinka mér þær daglegu venjur sem ég hef verið að taka upp
  • Færa lögheimilið í eitt skipti fyrir öll, ég verð!
  • Halda áfram að vinna í hinu laginu sem við Siggi erum að gera
  • Gera uppskriftarfærslurnar sem ég er með á dagskrá
  • Byrja að fara reglulega í ræktina, ég fór í gær og það lét mér líða virkilega vel
  • Hringja í ömmu
  • Hringja í systkini mín
  • Halda áfram að ganga frá eftir mig jafn óðum, það lætur mér líða mun betur í eigin umhverfi
  • Klára bókina sem ég er að lesa
  • Fara á kaffihúsadeit með sjálfri mér og skrifa
  • Byrja að undirbúa Póllandsferðina með kórnum (þarf m.a. að fara í blóðprufu og fá nýjan skammt af skjaldlyfjum áður en við förum)
IMG_9645.jpg

Næsta færsla kemur á réttum tíma, ég ætla að lofa sjálfri mér því!

Helga María