Tómatgalette með hvítlauk og rjómaosti

Hæ! Ég vona að þið hafið það gott og séuð að njóta þess síðasta af sumrinu. Persónulega get ég ekki beðið eftir haustinu, en það er mín uppáhalds árstíð. Á haustin er ég sem mest skapandi í eldhúsinu og haustlegar súpur og pottréttir eru eitthvað sem ég get borðað endalaust af. Í dag ætla ég þó ekki að deila með ykkur súpu heldur unaðslega góðri tómatgalette með rjómaosti og hvítlauk sem ég hef heldur betur beðið spennt eftir að geta birt hérna á blogginu. Galette er franskt orð yfir flata böku. Eða ég skil það svoleiðis, þið megið endilega leiðrétta mig ef ég hef rangt fyrir mér.

Ég elska bökur og galette er virkilega einföld tegund af böku. Það þarf að hafa nokkra hluti í huga þegar botninn er gerður, en þrátt fyrir það er auðvelt að útbúa hann. Það sem mér þykir kostur við galette bökur er að þær mega gjarnan líta svolitið heimagerðar og frjálslegar út. Það er algjörlega óþarfi að reyna að gera þær fullkomnar.

DSCF0396-4.jpg

Uppskrift dagsins er unnin í samstarfi með Violife á Íslandi og ég notaði bæði hvítlauks- og jurtarjómaostinn þeirra og epic mature cheddar ostinn. Já, sum ykkar munið kannski eftir því að ég nefndi það í færslu um daginn að ég finni hvergi epic mature ostinn hérna í Piteå. Fyrir nokkrum vikum hljóp ég inní matvöruverslun í bænum Skellefteå, sirka klukkutíma frá Piteå, til að kaupa mér eitthvað að drekka. Þar rak ég augun í ostinn góða og keypti hvorki meira né minna en fimm stykki. Nú er ég að klára þann síðasta svo ég þarf kannski að gera mér ferð þangað aftur hehe.. Epic mature cheddar er minn uppáhalds ostur og passar virkilega vel á bökuna með rjómaostinum og tómötunum. Mæli virkilega með.

Sjáið alla þessa fallegu liti. Ferskir tómatar í öllum stærðum og gerðum.

Eins og ég sagði hér að ofan er alger óþarfi að reyna að gera bökuna fullkomna. Ég brýt hana bara einhvernveginn yfir kantinn og hún verður alltaf fullkomlega ófullkomin.

DSCF0446-4.jpg

Uppskrift

Botninn

  • 3 og 1/2 dl hveiti

  • 1 tsk salt

  • 120 g kalt smjörlíki

  • sirka 1/2 dl ísvatn (ég byrja á 1/2 dl bæti svo við tsk eftir þörfum. Og já ísvatn= vatn með klökum)

  • 1 msk eplaedik

Aðferð:

  1. Blandið saman hveiti og salti.

  2. Skerið smjörið í litla teninga og myljið saman við hveitið með höndunum þar til klumparnir eru á stærð við litlar baunir.

  3. Látið klaka liggja í vatninu þar til það er ískalt. Sigtið klakana frá og byrjið á því að hræra 1/2 dl saman við deigið með gaffli ásamt eplaedikinu.

  4. Hellið blöndunni á borð og vinnið með hönunum. Bætið við vatni í tsk þar til þið fáið þétt deig úr blöndunni. Vinnið ekki of mikið.

  5. Mótið kúlu og vefjið í plastfilmu og setjið í kæli í 1-2 klst.

Fylling:

  • 500 gr ferskir tómatar

  • 2-3 hvítlauksgeirar

  • 100 gr jurta- og hvítlauksrjómaostur frá Violife

  • Epic mature cheddar ostur eftir smekk. Ég reif niður svo að hægt var að þekja stóran hluta bökunnar. Mæli ekki með því að hafa of þykkt lag af osti því það er frekar mikið af rjómaosti. Held ég hafi notað sirka 1/4 af oststykkinu

  • Salt og pipar

  • Ferskar jurtir til að toppa með (ég notaði basiliku og smá timían)

  • Sítrónusafi til að toppa með

  • Chiliflögur (má sleppa)

Aðferð:

  1. Stillið ofninn á 190°c.

  2. Fletjið út deigið svo að það verði sirka kringlótt.

  3. Smyrjið rjómaosti yfir deigið en skiljið eftir smá kant. Ég hef ekkert á móti því að hafa örlítið af rjómaosti í skorpunni.

  4. Stráið osti yfir.

  5. Skerið tómatana í sneiðar og hvítlaukinn líka. Raðið tómötunum á eldhúspappír og saltið. Leyfið þeim að standa í 5-10 mínútur og þurrkið svo safann af sem myndast. Þetta er gert svo það myndist ekki of mikið af tómatsafa í bökunni. Raðið yfir ostinn ásamt hvítlauknum. Athugið að það mun líta út fyrir að þetta sé svakalega mikið magn af tómötum en þeir munu minnka í ofninum svo ekki hafa áhyggjur af því.

  6. Saltið og piprið.

  7. Bakið bökuna í sirka 30 mínútur eða þar til hún er gyllt að ofan. Það fer svolítið eftir ofnum hversu langan tíma þetta tekur. Ég bakaði mína í um 30 mínútur á blæstri en í gamla ofninum tók það næstum 40 mínútur. Ég myndi byrja að fylgjast með bökunni eftir 20 mín.

  8. Takið bökuna út og kreistið yfir hana smá sítrónusafa og stráið chiliflögum yfir ef þið viljið.

  9. Berið fram með ferskum jurtum. Ég mæli líka með að hafa klettasalat og vegan sýrðan rjóma.

Takk fyrir að lesa og vonandi líkar ykkur vel!

-Helga María



-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Violife á Íslandi-

 
violife-logo-1.png