Hamborgarar með frönskum og pikkluðu chilli

IMG_2460.jpg

Í dag deili ég með ykkur uppskrift af borgurum sem eru fullkomnir fyrir helgina! Sjálfir borgararnir eru djúsí og góðir, og henta bæði til steikingar og til að grilla, en til að gera þá enn ómótstæðilegri toppaði ég þá með chilimajó, djúpsteiktum strimluðum frönskum og pikkluðu chili. Þið trúið því ekki hversu gott þetta var!

IMG_2415-2.jpg

Uppskrift dagsins er í samstarfi við Anamma, en borgarana útbjó ég úr “formbar” hakkinu frá þeim. Munurinn á því sem heitir formbar og því hefðbundna er að hið fyrra hentar einstaklega vel í að búa til hamborgara, bollur og annað sem krefst þess að maður móti eitthvað úr hakkinu. Það virkar þó líka að steikja það beint úr pokanum og ég geri það sjálf oft líka. Þessvegna á ég alltaf til poka af formbar färs í frystinum.

Það hefur aldrei verið jafn auðvelt að útbúa góða vegan borgara og í dag. Þegar ég varð vegan fyrir 10 árum (já, það eru komin 10 ár síðan!!) þá var grænmetisbuff með tómatsósu og sinnepi það sem við grænkerarnir borðuðum í stað borgara. Ég vissi heldur ekki á þeim tíma hversu hlægilega auðvelt það er að gera vegan mæjónes svo allar gómsætar sósur hurfu af mínum matseðli í nokkur ár.

IMG_2438-2.jpg

Ég á ekki grill svo ég steikti borgarana á steypujárnspönnunni minni, en það er svakalega gott að skella þeim á grillið!

IMG_0002.jpg

Ég var í stuði til að prófa eitthvað nýtt og spennandi og ákvað að útbúa þunnar franskar til að hafa á borgaranum. Á ensku heita þær shoestring fries eða skóreimafranskar (hehe). Þær eru ekkert smá krispí og góðar og eru bæði geggjaðar á borgarann og til að bera fram með.

IMG_2470.jpg

Ég útbjó einnig pikklað chili. Ég hef verið með æði fyrir að pikkla allskonar og ísskápurinn fullur af pikkluðu grænmeti. Mæli virkilega með.

IMG_2465-3.jpg

Ég vona að þið prófið þessa dásamlegu borgara, þeir eru hin fullkomna grilluppskrift fyrir sumarið.

IMG_2456.jpg

Borgararnir

Hráefni:

  • 500 gr formbar hakkið frá Anamma

  • 1 msk laukduft

  • 1 msk hvítlauksduft

  • 1-2 tsk sojasósa

  • 1 tsk gróft sinnep eða dijon sinnep

  • 1 tsk paprikuduft

  • salt og pipar

  • 1 tappi liquid smoke. Það er hægt að skipta því út fyrir 1 tsk reykt paprikuduft. Ef þið gerið það er óþarfi að hafa venjulegt paprikuduft

Aðferð:

  1. Takið hakkið úr frysti um það bil klukkutíma áður en matreiða á borgarana.

  2. Setjið öll kryddin út í þegar hakkið hefur aðeins fengið að þiðna.

  3. Mótið 4-5 buff út hakkinu (fer eftir því hversu þykka þið viljið hafa þá) og steikið eða grillið í nokkrar mínútur á hvorri hlið.

Shoestring franskar

Hráefni

  • Ferskar kartöflur eftir smekk. Fer algjörlega eftir því hversu margir ætla að borða. Ég útbjó franskar úr 6 stórum kartöflum og fékk frekar mikið úr þeim.

  • 1 líter olía til að djúpsteikja með

  • salt og pipar eða frönsku krydd. Ég blanda yfirleitt saman hvítlauksdufti, laukdufti, reyktri papriku, þurrkaðri steinselju, salti og pipar og strái yfir.

Aðferð:

  • Hitið olíu í stórum potti í 180°c

  • Skrælið kartöflurnar og rífið niður gróft. Ég nota svona julienne eins og þið sjáið á myndinni. Annars myndi ég skera niður mjööög þunnt með hníf bara.

  • Djúpsteikið hluta af kartöflunum í einu í hrærið varlega til að aðskilja þær í pottinum. Djúpsteikið í sirka 2-3 mínútur eða þar til þær eru orðnar gylltar og fínar.

  • Veiðið upp með sleif með götum og leggið á disk með eldhúspappír. stráið kryddinu yfir.

Pikklað chili

  • 5-6 fersk rauð chili

  • 2 dl vatn

  • 1 dl edik

  • 1/2 dl sykur

  • örlítið salt

Aðferð:

  1. Byrjið á því að skera niður chili. Ég hafði steinana með en takið þá úr ef þið viljið ekki hafa þetta mjög sterkt.

  2. Setjið vatn, edik og sykur í pott og leyfið því að hitna á hellu þar til sykurinn leysist upp.

  3. Setjið chili í glerkrukku og hellið blöndunni yfir og látið standa uppá borði þar til það hefur kólnað. Hægt að borða svo eftir svona klukkutíma.

  4. Geymist í ísskáp í 2 vikur.

Chilimæjó

  • Heimagert vegan mæjó eða keypt út í búð (Uppskrift af mæjóinu hér að neðan)

  • Sambal Olek

  1. Blandið saman og smakkið til. Hægt að salta smá í lokinn.

Vegan mæjónes:

  • 1 bolli ósæt sojamjólk (helst við stofuhita.) Ég nota þessa í rauðu fernunni frá Alpro, en svo er einnig til mjög góð frá Provamel, einnig í rauðri fernu

  • 2 tsk eplaedik

  • Bragðlaus olía eftir þörf. Ég nota sólblómaolíu eða rapsolíu

  • 1 tsk gróft sinnep

  • 1/2 tsk salt

  1. Hellið sojamjólkinni í blandara eða matvinnsluvél ásamt eplaedikinu og hrærið á miklum hraða í nokkrar sekúndur

  2. Hellið mjórri bunu af olíu ofan í á meðan blandarinn vinnur. Ég hefði átt að mæla fyrir ykkur hvað ég notaði mikla olíu, en ég gleymdi því. Ég nefnilega helli henni beint úr flöskunni í mjórri bunu þar til mæjónesið er orðið eins þykkt og ég vil hafa það. Það er mikilvægt að hella henni hægt svo þetta tekur alveg mínútu.

  3. Þegar mæjóið er orðið þykkt bæti ég sinnepinu og saltinu útí og hræri í nokkrar sekúndur í viðbót.

Takk fyrir að lesa og vonandi smakkast vel!

-Helga María

-Þessi uppskrift er í samstarfi við Anamma á Íslandi-

 
anamma.png