Kanilsnúðar með eplum og rjómaostakremi

IMG_2371-4.jpg

Hæ! :)

Ég vona að þið hafið það gott. Hérna í Piteå er allt á kafi í snjó og kuldinn yfirleitt í kringum mínus 10 gráður. Ég nýt vetrarins í botn og finnst snjórinn gera allt svo fallegt. Á köldum vetrardögum sem þessum finnst mér fátt betra en að baka eitthvað gott og bjóða vinum í kaffi. Ég bý á stúdentagörðum svo vinirnir búa allir annað hvort í sama húsi eða í húsunum í kring, svo hjá mér er yfirleitt opið hús og eitthvað bakkelsi í boði.

Uppskrift dagsins er einmitt tilvalið að baka þegar von er á gestum í kaffi. Þessir kanilsnúðar eru ekki bara kanilsnúðar, heldur eru epli í fyllingunni og ofan á er svo rjómaostakrem og ristaðar möndlur. Ég held ég hafi sjaldan bakað eitthvað jafn gott.

IMG_0002-9.jpg

Ég hef ekki gert bloggfærslu síðan í sumar. Lífið mitt tók miklum breytingum í byrjun haustsins og ég þurfti að taka mér smá pásu í kjölfarið. Nú er ég þó virkilega spennt að koma til baka og fannst tilvalið að byrja á þessum dúnmjúku snúðum, þeir eru algjört sælgæti. Ég bauð vinum mínum, Hans og Malin. uppá kaffi og snúða um helgina. Þau gáfu þeim heldur betur góð meðmæli; “Helga, þessir snúðar eru betri en kynlíf” sagði Malin og Hans bætti við “Já, Helgaaaa, þetta eru bestu snúðar sem ég hef nokkurntíman smakkað!!” Það er ekkert annað hehe.

IMG_0004-6.jpg

Ég get ekki lofað ykkur að snúðarnir séu betri en kynlíf en góðir eru þeir!

IMG_0008-2.jpg

Í nokkrar vikur hefur mig langað að baka eitthvað gott með eplum. Það var svo einn morguninn sem mér datt í hug að útbúa kanilsnúða og hafa epli í fyllingunni og vissi ég vildi hafa möndlur með, annað hvort í fyllingunni eða ofan á. Ég ákvað á endanum að rista möndluflögur og strá ofan á eftir að þeir komu úr ofninum og útkoman var akkúrat eins og ég hafði vonað. Það er örugglega líka mjög gott að saxa niður möndlur og hafa í fyllingunni.

Ef ykkur þykja epli ekki góð er auðvitað ekkert mál að sleppa þeim. Það er líka hægt að nota hugmyndaflugið og gera einhverja nýja og spennandi fyllingu. Hvítt súkkulaði og appelsínufylling hljómar t.d. mjög vel finnst mér hehe.

IMG_0011-3.jpg

Ég held ég verði að sækja mér einn snúð úr frystinum og borða á meðan ég skrifa þessa færslu heh.

Rjómaostakremið er svo punkturinn yfir i-ið að mínu mati. Það gerir snúðana extra safaríka og góða. Já, ég skrifaði hér að ofan að þeir séu algjört sælgæti, ég meinti það bókstaflega. Gott bakkelsi er mitt uppáhalds nammi!

IMG_2363.jpg

Kanilsnúðar með eplum og rjómaostakremi

Snúðarnir:

  • 8-10 dl hveiti (byrjið á 8 og bætið svo við eftir þörfum)

  • 1 pakki þurrger

  • 1 og 1/2 dl sykur

  • örlítið salt

  • 5 dl plöntumjólk

  • 100 gr smjörlíki

  • 1 tsk kardimommudropar

Aðferð:

  1. Bætið öllum þurrefnum í stóra skál

  2. Bræðið smjörlíki í potti og bætið mjólkinni saman við. Mjólkin þarf ekki að hitna mikið, heldur vera við líkamshita.

  3. Hellið blöndunni saman við þurrefnin ásamt kardimommudropum

  4. Bætið við meira hveiti ef þarf. Ég held ég hafi á endanum notað um 9 dl. Deigið má ekki vera of þurrt, þið eigið að geta stunduð hreinum fingri ofan í án þess að deig klessist við hann. Hnoðið deigið létt.

  5. Leyfið deiginu að hefast í klukkutíma í skál með viskustykki eða plastfilmu yfir.

  6. Skiptið deiginu í tvennt og fletjið út hvern helming fyrir sig. Smyrjið fyllingunni á, rúllið upp og skerið niður.

  7. Leggið snúðana í eldföst mót eða í tvær ofnskúffur, leggið plastfilmu eða viskustykki yfir og látið þá hefast aftur í klukkutíma.

  8. Hitið ofninn á meðan í 200°c. Minn ofn er ekki með blástur svo ég nota undir og yfir hita.

  9. Bakið snúðana í 12-15 mínútur.

  10. Pennslið snúðana með sykurlagi um leið og þið takið þá út. Sykurlagið er gert með því að blanda 1 dl sykri og 1 vatni saman svo að sykurinn leysist upp í vatninu.

  11. Smyrjið rjómaostakreminu yfir. Ég ristaði möndluflögur á pönnu og setti yfir líka. Mér fannst það koma mjög vel út.

Fylling:

  • 200 gr smjörlíki við stofuhita

  • 1 og 1/2 dl púðursykur

  • 1 msk flórsykur

  • 2 msk kanill plús aðeins meira til að strá yfir eplin

  • Epli eftir smekk. Ég skar niður 2 frekar lítil

Aðferð:

  1. þeytið allt saman (fyrir utan eplin)

  2. Skerið niður eplin

Rjómaostakrem:

  • 150 gr vegan rjómaostur (Ég notaði påmackan frá Oatly)

  • 100 gr smjörlíki

  • 250 - 300 gr flórsykur

  • 1 msk vanillusykur

Aðferð:

  1. Þeytið saman smjörlíki og rjómaost.

  2. Bætið saman við flórsykri og vanillusykri og þeytið þar til úr verður mjúkt krem.

Takk fyrir að lesa og vona að þið njótið

Helga María