Gómsætt vegan heitt súkkulaði með skemmtilegu tvisti!

Hátíðlegt heitt súkkulaði með Cointreau og þeyttum vegan rjóma. Svo dásamlega gott. Fullkomið eftir langan göngutúr í desemberkuldanum. NAMM!

Í dag er annar sunnudagur í aðventu og ég er svo sannarlega komin í jólaskap. Ég mun eyða jólunum í Svíþjóð í fyrsta sinn og er bæði spennt og pínulítið stressuð. Venjurnar á t.d. aðfangadagskvöld eru aðeins öðruvísi en heima og ég mun líklega sakna þess að hlusta á kirkjuklukkurnar hringja inn jólin klukkan 6. Eins varð ég mjög hissa þegar ég fékk að heyra að þau deila út pökkunum og opna þá svo bara öll samtímis. En ég er viss um að ég mun njóta jólanna í botn.

En að heita súkkulaðinu. Ég vildi gera eitthvað aðeins öðruvísi en ég er vön og ákvað að setja smá Cointreau út í. Það sló heldur betur í gegn. Útkoman var gómsætt heitt súkkulaði með appelsínusúkkulaðibragði og smá extra kikki frá áfenginu. Fullorðinskakó hehe. Ég bauð vinum mínum uppá bolla af súkkulaðinu og þau sögðust aldrei hafa smakkað jafn gott heitt súkkulaði. Ætli það séu ekki ágætis meðmæli?!

Það sem þú þarft í þennan góða drykk er:

Suðusúkkulaði
Vatn
Vegan mjólk
Kanilstöng
Smá salt
(mikilvægt)
Cointreau
(Má sleppa auðvitað)
Þeyttan veganrjóma að toppa með

Gæti ekki verið einfaldara.

ímyndið ykkur að koma heim eftir kaldan göngutúr í desember, setja á ljúfa jólatónlist, baka vöfflur og skella í heitt súkkulaði. Ég veit fátt meira kósý.

Vegan heitt súkkulaði með Cointreau (fyrir 4-5)

Hráefni:

  • 175g suðusúkkulaði

  • 2 dl vatn

  • 1 líter vegan mjólk. Ég notaði Oatly haframjólk

  • Smá salt

  • Kanilstöng

  • 8 cl. Cointreau. Má sleppa eða nota annað áfengi sem ykkur finnst gott. Get t.d. ímyndað mér að Kahlúa passi mjög vel

  • Vegan þeyttur rjómi að toppa með. Mæli með Oatly eða Aito

Aðferð:

  1. Setjið vatnið í pott og brjótið súkkulaðið ofan í. Hrærið vel í pottinum á meðan súkkulaðið bráðnar í vatninu

  2. Hellið mjólkinni út í pottinn ásamt kanilstönginni og leyfið suðunni að koma upp. Hrærið í á meðan svo það brenni ekki við botninn.

  3. Takið af hellunni, saltið örlítið og bætið Cointreau út í og hrærip saman við.

  4. Berið fram með þeyttum vegan rjóma og njótið!

Takk fyrir að lesa og vona að ykkur líki vel!
-Helga María