Vegan pizzasnúðar á tvo vegu

IMG_1137-2.jpg

Hæ!

Nú erum við loksins mættar aftur á bloggið eftir svolitla pásu. Mörg ykkar sem lesið færslurnar okkar fylgið okkur líka á samfélagsmiðlum og vitið því hvað við höfum verið að gera síðan um jólin. Við héldum meðal annars útgáfuhóf fyrir bókina okkar í janúar og fórum í allskyns viðtöl til að kynna hana. Ég (Helga) eyddi öllum janúar á Íslandi og það var æðislegt. Við náðum að gera svo margt skemmtilegt saman, bæði í tengslum við bókina og annað.

IMG_1024-2.jpg

Nú er ég hinsvegar komin aftur til Svíþjóðar og eins og staðan er núna er háskólanámið mitt kennt í fjarnámi sem er ekkert svakalega hentugt fyrir okkur sem erum í tónlistarnámi sem snýst mikið um að syngja og spila með öðru fólki. Ég hef verið lítil í mér uppá síðkastið og á þessum skrítnu tímum sakna ég fjölskyldunnar og á svolítið erfitt með alla óvissuna sem ríkir þessa stundina. Það huggar mig þó örlítið að finna hvað við stöndum öll mikið saman og ég reyni að muna að þetta ástand er tímabundið.

Ég hef eytt miklum tíma í eldhúsinu síðustu vikur og hef reynt að vera dugleg að sýna frá því á Instagram. Við erum einnig byrjaðar að gera matreiðslumyndbönd og þau finniði á Instagram TV og svo á YouTube þar sem við heitum Veganistur. Ég viðurkenni þó að ég hef saknað þess að blogga og er svakalega glöð að vera loksins komin með uppskrift handa ykkur.

Uppskrift dagsins er af þessum dásamlegu pizzasnúðum. Ég ákvað að gera bæði pizzasnúða og hvítlaukssnúða og guð minn góðurrr hvað þeir eru góðir. Færslan er í samstarfi við Hagkaup og þar fáiði allt sem þarf í snúðana. Í Hagkaup er gríðarlegt úrval af góðum vegan mat og ekkert smá gaman að prófa nýjar og spennandi vörur t.d. úr frystinum þeirra. Ég ákvað að nota Pulled Oumph! í snúðana mína en það er auðvitað hægt að nota eitthvað annað ef þið viljið. Ég mæli þó eindregið með því að þið prófið að nota Oumphið.

IMG_1057.jpg

Eins og ég sagði hér að ofan er ég rosalega glöð að vera loksins að blogga aftur og ég er búin að gera langan lista yfir það sem ég vil gera á næstunni. Ég hef verið svolítið mikið í bakstrinum uppá síðkastið en lofa því að það fer að koma meira af réttum hérna inn sem gott er að elda t.d. í kvöldmat. Þið megið líka alltaf senda okkur ef þið viljið sjá eitthvað sérstakt á blogginu hjá okkur.

Fyllingin í snúðana alls ekki heilög og lítið mál að breyta henni eins og maður vill. Ég hef líka útbúið snúða með sveppum, ólífum og sólþurrkuðum tómötum og þeir voru ekkert smá góðir. Í rauninni virkar að setja bara það sem manni þykir gott á pizzu.

fyrir ofninn.jpg

Hveeersu girnilegir?!

Ég ákvað á seinustu stundu að útbúa hvítlaukssnúða með og var ekki viss um að þeir myndu yfir höfuð heppnast vel. Þeir komu mér þvílíkt á óvart og smökkuðust dásamlega. Það var alveg fullkomið að gera báðar tegundirnar og borða saman.

hvítlaukssmjör.jpg
hrært smjör.jpg

Ég hef oft bakað hvítlauksbrauð heima og mér hefur aldrei þótt það jafn gott og það sem ég panta á veitingastöðum en mér þótti þessir snúðar það. Þeir urðu dúnmjúkir og góðir að innan og voru akkúrat eins og ég vildi hafa þá. Ég mæli því mikið með því að þið prófið.

hvítl. snúðar.jpg

Ég vona að ykkur líki vel og ef þið prófið að baka snúðana megiði endilega láta mig vita hvað ykkur fannst. Við elskum þegar þið eldið og bakið af blogginu og úr bókinni okkar og taggið okkur á instagram svo við sjáum afraksturinn. Okkur þykir svo ótrúlega vænt um það og það gefur okkur mikinn kraft í að halda áfram að útbúa nýjar og spennandi uppskriftir. Síðan bókin okkar kom út höfum við fengið svo mikið af fallegum skilaboðum frá ykkur, við erum ykkur endanlega þakklátar.

En hér kemur uppskriftin loksins!!

IMG_1147.jpg

Pizzadeig:

Hráefni:

  • 320 ml vatn við líkamshita

  • 1/2 pakki þurrger (6 gr)

  • 1 tsk salt

  • 2 msk ólífuolía

  • 450-500 gr hveiti

Aðferð:

  1. Hellið vatninu í skál og stráið þurrgerinu yfir og leyfið því að leysast upp í vatninu

  2. Bætið salti og ólífuolíu út í skálina

  3. Bætið hveitinu við í skömmtum þar til auðvelt er að hnoða deigið án þess að það klessist. Ég bætið því við í skömmtum því það er alltaf hægt að bæta við ef þarf en alls ekki gott að setja of mikið.

  4. Hnoðið deigið og leyfið því svo að hefast í 90 mínútur.

Ég skipti þessu deigi í tvennt og gerði pizzasnúða úr helmingnum og hvítlaukssnúða úr restinni. Ef þið ætlið bara að gera pizzansúða þá tvöfaldiði uppskriftina af fyllingunni.


Pizzasnúðar:

Hráefni:

  • Helmingurinn af pizzadeiginu

  • Pizzasósa eftir smekk

  • Rifinn vegan ostur eftir smekk. Það er mjög misjafnt hversu mikinn ost fólk vill hafa, en ég notaði Violife og setti sirka 150 grömm á pizzasnúðana og svipað á hvítlauks.

  • Hálf lítil rauð paprika

  • hálfur lítill rauðlaukur

  • Hálfur poki af pulled Oumph!

  • Vegan rjómaostur eftir smekk. Ég notaði påmackan frá Oatly

  • Þurrkað oregano

  • Þurrkuð basilika

  • Gróft salt

  • Fersk basilika til að toppa snúðana með

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 200°c

  2. Fletjið deigið út og passið að hafa svolítið hveiti á borðinu svo deigið festist ekki við það.

  3. Smyrjið eins mikilli sósu og þið viljið á deigið. Mér finnst gott að setja vel af henni.

  4. Stráið ostinum yfir, því næst Oumphinu, og svo grænmetinu.

  5. Setjið rjómaostinn á. Mér finnst best að taka smá með skeið og setja litlar klípur yfir allt deigið.

  6. Stráið kryddunum yfir.

  7. Rúllið upp og skerið í snúða. Það komu sirka 13 snúðar hjá mér og þá tel ég með þessa ljótu úr endunum.

  8. Raðið á ofnsplötu með smjörpappír og bakið í 12-15 mínútur eða þar til snúðarnir eru orðnir vel gylltir að ofan. Ég byrjaði að fylgjast með mínum eftir svona 10 mínútur.

Hvítlaukssnúðar:

Hráefni:

  • Hinn helmingurinn af pizzadeiginu

  • 100 gr. vegan smjörlíki

  • 2 hvítlauksgeirar

  • Rifinn vegan ostur (ég setti sirka 150 gr.)

  • 1 msk þurrkuð steinselja

  • 1 -2 msk saxaður graslaukur

  • Spínat eftir smekk. Ég raðaði bara yfir deigið en mældi ekkert sérstaklega (sjá mynd)

  • Salt eftir smekk

Aðferð:

  1. Setjið smjörlíkið í skál (best að hafa það við stofuhita svo auðvelt sé að hræra það og smyrja)

  2. Pressið eða rífið hvítlaukinn út í og hrærið saman við smjörlíkið ásamt steinseljunni og graslauknum.

  3. Saltið aðeins ef þarf.

  4. Fletjið deigið út og smyrjið hvítlaukssmjörinu á.

  5. Stráið ostinum yfir.

  6. Raðið spínatinu yfir.

  7. Rúllið upp og skerið niður.

  8. Bakið í 12-15 mínútur eða þar til snúðarnir eru orðnir vel gylltir að ofan. Ég byrjaði að fylgjast með mínum eftir svona 10 mínútur.

Takk fyrir að lesa

Helga <3

 
hagkaup_orange_sv_meirasvona.png
 

-Þessi færsla er í samstarfi við Hagkaup og fást öll hráefnin þar-