Pinto-villisveppapylsur

Ég hélt Brunch um daginn og ákvað þrátt fyrir að mikið sé af vegan pylsum á markaðnum í dag, að gera mínar eigin. Þær komu ótrúlega vel út en þessa uppskrift má einnig nota í buff eða sem grænmetiskæfu ofan á brauð og kex. Það er hægt að gera stóra uppskrift og frysta pylsurnar eða buffin en mér finnst það ótrúlega þægilegt t.d. til þess að grípa með mér í nesti þegar ekki hefur gefist mikill tími í að útbúa eitthvað annað.

Hráefni:

  • 2 dósir pintobaunir (480 gr eftir að vatnið er tekið frá)

  • 2 msk olía 

  • 1 bolli frosnir villisveppir (mælt áður en þeir eru steiktir)

  • 1/2 meðalstór laukur

  • 2 hvítlauksrif

  • 3 sólþurrkaðir tómatar

  • 1 msk franskar jurtir (herbs de provence krydd)

  • 1 msk grænmetiskraftur

  • salt og pipar eftir smekk

  • 2 dl hveitiglútein eða malað haframjöl (því er sleppt ef gera á grænmetiskæfu)

Aðferð:

  1. Steikið laukinn, sveppina og hvítlaukinn upp úr olíunni í góðan tíma.

  2. Setjið allt nema hveitiglúteinið eða haframjölið í blandara eða matvinnsluvél og vinnið saman þar til vel blandað. 

  3. Hrærið hveitiglúteininu eða haframjölinu út í með sleif.

  4. Mótið pylsur, bollur eða buff og bakið við 180°C í 20-25 mínútur.