Fjórir auðveldir chia-grautar

Mér finnst ótrúlega þægilegt að gera mér chia-graut á kvöldin til að taka með mér í vinnuna daginn eftir. Það er svolítið síðan ég byrjaði að búa mér til grauta en fyrst um sinn flækti ég það mikið fyrir mér og grautarnir innihéldu mörg hráefni. Síðan þá hef ég þróað þá mikið og ákvað ég að deila með ykkur hversu einföld uppskriftin er orðin. Hver grautur inniheldur einungis þrjú hráefni. Það eru á markaðnum í dag alls konar tegudnri af plöntumjólk með alls konar mismunandi bragði. Mér finnst tilvalið að nota bragðbætta mjólk í grautinn minn til að auðvelda fjölbreyttni, en þá fæ ég ekki leið á grautnum. Ég ákvað að nota uppáhalds mjólkina mína í þetta skiptið en það er haframjólkin frá sænska merkinu Oatly.

Hefðbundni grauturinn

Þessi grautur er æðislegur og ótrúlega hollur. Vanillan er alls ekki nauðsynleg en hún gerir mjög gott bragð sem passar æðislega við peruna.

Hráefni:

  • 3 msk chiafræ

  • 250 ml Oatly haframjólk

  • Örlítið af lífrænni vanillu (má sleppa)

  • 1/2 pera

Aðferð:

  1. Hrærið saman chiafræunum, mjólkinni og vanillunni. 

  2. Skerið peruna í litla bita og bætið út í.

  3. Leyfið grautnum að sitja í allavega 30 mínútur í ísskáp áður en hann er borðaður. Ég geri minn á kvöldin og læt að bíða í ísskáp yfir nóttina.

 

Bleiki grauturinn

Ótrúlega góður grautur en það að hann sé bleikur gerir hann ennþá betri. 

Hráefni:

  • 3 msk chiafræ

  • 1 ferna Oatly jarðaberja drykkjarjógúrt

  • 1/2 - 1 epli

Aðferð:

  1. Hrærið saman chiafræunum og jógúrtinni

  2. Skerið eplið í litla bita og bætið út í.

  3. Leyfið grautnum að sitja í ísskáp í minns 30 mínútur. Ég geri minn á kvöldin og hef hann í ísskápnum yfir nótt.

 

 

 

Suðræni grauturinn

Þessi er uppáhalds grauturinn minn en ég er mjög mikið fyrir mangó. Hann bókstaflega kitlar bragðlaukana.

Hráefni:

  • 3 msk chiafræ

  • 1 ferna Oatly mangó og appelsínu drykkjarjógúrt (230 ml)

  • 1/2 mangó

Aðferð:

  1. Hrærið saman chiafræunum og drykkjarjógúrtinni

  2. Skerið mangóið í litla bita og setjið út í

  3. Leyfið grautnum að sitja í minnst 30 mín í ísskáp. Ég geri minn á kvöldið og leyfi honum að sitja yfir nótt.

 

 

Helgar grauturinn

Þessi grautur er tilvalinn fyrir laugardagsmorgnanna þar sem manni líður bókstaflega eins og maður sé að borða súkkulaðibúðing. Mér finnst súkkulaði og bananar passa fullkomlega saman og þess vegna toppaði ég hann með niðurskornum banana.

Hráefni:

  • 3 msk chiafræ

  • 250 ml Oatly súkkulaðimjólk

  • 1/2 - 1 banani

Aðferð:

  1. Hrærið saman chiafræunum og mjólkinni.

  2. skerið bananan í litla bita og blandið saman við

  3. Leyfið grautnum að sitja í að minnsta kosti 30 mínútur eða yfir nótt.