Kínóa og haframjöls laugardagsnammi

Ég elska að eyða tíma í eldhúsinu en um helgar þegar ég hef tíma langar mig oft að búa til eitthvað gott með kaffinu. Mér datt í hug þessa helgina að gera gömlu góðu rice krispies kökurnar sem allir þekkja örugglega vel. 

Það er örlítið vandasamt að finna vegan rice krispies hér á landi en það er þó til. Ég hef bara fundið það í Nettó en þeir virðast einungis selja vegan útgáfuna. Það sem þarf að passa þegar leita á af vegan úgáfunni er að ekki sé viðbætt D-vítamín í morgunkorninu. Ég átti því miður ekki rice krispies og nennti ekki út í búð þar sem ég vissi að ég ætti örugglega eitthvað sem ég gæti notað í staðin. 

Ég fann í skápunum hjá mér poppað kínóa og haframjöl og ákvað að prófa að nota það. Það kom ótrúlega vel út og er nammið hollara fyrir vikið. Ég ákvað því aðeins að breyta þessari hefðbundnu uppskrift og reyna að gera hana örlítið hollari. Ég skipti smjöri út fyrir kókosolíu og sykrinu fyrir kókospálmasykur og síróp, en þetta átti nú einu sinni að vera nammi. Ég ákvað svo að setja smá hnetusmjör útí þar sem ég átti það til og datt í hug að það myndi gefa mjög gott bragð.

Hráefni:

  • 150 ml kókosolía

  • 80 gr gott dökkt súkkulaði (ég notaði 70% súkkulaði)

  • 1/2 dl kókospálmasykur

  • 2 msk agave síróp

  • 1 dl hnetusmjör (ég nota hnetusmjörið frá Sollu)

  • 4 dl poppað kínóa

  • 3 dl haframjöl

Aðferð:

  1. Bræðið saman við lágan hita súkkulaði, kókospálmasykur og síróp. Það þarf að passa að hræra stanslaust í sykrinum því hann brennur mjög auðveldlega.

  2. Þegar sykurinn er bráðin setjið kókosolíuna útí og hitið þar til suðan kemur upp. Hrærið ennþá stanslaust í blöndunni svo hún brenni ekki.

  3. Takið pottið af hellinn um leið og suðan kemur upp og hrærið hnetusmjörinu út í. Leyfið blöndunni að kólna í 5-10 mínútur svo hún þykkni örlítið. 

  4. Hellið út í kínóanu og haframjölinu og hrærið vel svo það sé allt blandað í súkkulaðinu.

  5. Hellið blöndunni í eldfastmót, en það er mjög gott að hafa smjörpappír undir. Leyfið namminu að vera í frysti í 40-60 mínútur, áður en það er tekið út og skorið í bita.