Pulled Oumph! borgari með jalapeno mæjó og gómsæt ídýfa

Ég held að flestum Íslendingum líði þessa dagana eins og þeir gangi um í draumi. Karlalandsliðið okkar í fótbolta spilar í átta liða úrslitum á Evrópumeistaramótinu á morgun. Þetta lið er eitt af átta bestu fótboltaliðum evrópu. Og ekki gengur kvennaliðinu verr, efstar í undankeppni evrópumótsins sem fer fram á næsta ári, búnar að skora tæp 30 mörk og fá engin á sig. Ég er allavega í sjokki og ekkert smá stolt af þessu fólki og því að litla landið okkar skari fram úr á svo mörgum sviðum. Líkt og flestir Íslendingar ætla ég að horfa á leikinn á sunnudaginn, en leikurinn er sýndur klukkan 19:00, einmitt á kvöldmatartíma. Því er eiginlega nauðsynlegt að hafa eitthvað gott að borða á meðan. Það verður þó að vera eitthvað auðvelt þar sem spennan og stressið sem við munum finna fyrir á sunnudaginn mun örugglega hindra flókna eldamennsku. Ég ákvað því að á sunnudaginn þyrfti ég að hafa eitthvað rosalega gott en einnig rosalega auðvelt í matinn.

Þegar ég var í Svíþjóð hjá Helgu í maí fórum við á skyndibitastaðinn Max, en hann er nýlega farin að bjóða upp á vegan borgara. Þetta er þó ekki hinn hefðbundni grænmetisborgari en uppistaðan í honum var Pulled Oumph. Mér datt því í hug að reyna að endurgera þennan borgara þar sem ekki er erfitt að nálgast Pulled Oumph þessa dagana á Íslandi. Það gekk líka svona ljómandi vel og útkoman varð æðisleg máltíð sem tók örskamman tíma að útbúa. Ég ætla að deila með ykkur uppskriftinni af borgaranum svo þið getið notið hans yfir leiknum á morgun líkt og ég mun gera.

Pulled Oumph borgari (ein uppskrift verður að tveimur borgurum)

1 poki Pulled Oumph
2 hamborgarabrauð (athugið að brauðin sem þið kaupið séuð vegan, en brauðin frá Myllu eru það til dæmis)
Það grænmeti sem hugurinn girnist, en ég notaði kál, gúrku og tómata.
Jalapeno mæjónes

Borgarinn er mjög auðveldur í eldamennsku en það eina sem þarf að gera er að steikja Oumphið þar til það er tilbúið og setja á hamborgarabrauð ásamt sósunni og grænmetinu. Ég bar borgarann fram með kartöflubátum og vegan hrásalati. En uppskriftin af hrásaltinu má finna HÉR. Fyrir þá sem ekki vita hvað Oumph er, þá er það soja kjöt sem líkist kjúklingi mjög mikið. Pulled Oumph er í bbq sósu og því þarf ekki einu sinni að krydda það og því mjög auðvelt að gera góða máltíð úr því. Hægt er að fá Oumph í nánast öllum Krónu búðum á landinu.

Jalapeno mæjónes

1 dl vegan mæjónes
3 skífur niðursoðið jalapeno mjög smátt skorið
nokkrir dropar af sítrónusafa
salt og pipar

Hrærið öllu saman í skál. Hægt er að fá vegan mæjónes t.d. í Hagkaup frá Just Mayo en mér finnst lang best að gera bara heimatilbúið mæjónes en það er mjög auðvelt. Uppskrif af mæjó er að finna HÉR


Ég ætla einnig að deila með ykkur uppáhalds sjónvarpsmönnsinu mínu. Þessa ídýfu kenndi mamma vinkonun minnar okkur að gera þegar við vorum litlar en mér fannst þessi uppskrift hljóma svo illa að ég var staðráðin í að mér myndi sko ekki finnast þetta gott. Ástæðan var örugglega sú að ídýfan samanstendur af sósu með fullt af grænmeti ofan á. Mér fannst alveg furðulegt að maður myndi setja grænmeti á eitthvað sem ætti að vera borðað yfir sjónvarpinu á föstudagskvöldi. Ég hefði þó ekki getað haft meira rangt fyrir mér þar sem þessi ídýfa er það besta sem ég veit og heldur betur tilvalinn með leiknum á sunnudaginn. Einnig er hún alls ekkert óholl og þarf maður því ekki að sitja með samviskubit eftir að maður gæðir sér á henni.

Ídýfa Önnu í Túni (ein uppskrift verður að ágætisstærð af ídýfu sem gott er að deila með vinum og fjölskyldu)

1 dós vegan rjómaostur (tofutti rjómaosturinn er mjög góður en hann fæst í Hagkaup)
1 dós (sirka 300 gr) salsa sósa
Það grænmeti sem hugurinn girnist, t.d. kál, gúrka, tómatar og paprika, en það er það sem ég notaði

Hrærið rjómaostinn ötlitla stund með handþeytara. Hrærið salsasósunni út í og setjið blönduna í það ílát sem þið hyggist bera ídýfuna fram í. Gott er að nota einhversskona eldfast mót eða bakka en blandan á að vera sirka einn cm þykk í botninum. Skerir grænmetið mjög smátt og stráið yfir. Berið ídýfuna fram kalda með tortilla snakki eða svörtu doritos, en það er vegan. Ef tíminn fyrir leikinn er naumur er gott að gera ídýfuna fyrr um daginn en þá er sniðugt að skera vatnsmesta partin úr gúrkunni (miðjuna) og sleppa tómötunum svo ídýfan verði ekki vatnskennd.

 

Ég hvet alla til að prófa þessar uppskriftir og hafa með leiknum á morgun, en ef þið gerið það má alltaf pósta á instagram og merkja #veganistur eða senda okkur myndir á snapchat, en við elskum að fá myndir frá ykkur.

 

 Júlía Sif