Kókos-karrísúpa

Súpur eru í miklu uppáhaldi hjá mér. Þær eru svo ótrúlega þægilegar og henta vel við ýmis tilefni, til dæmis þegar letin ræður ríkjum og okkur langar að geta hent hráefnum í pott án þess að þurfa mikið að spá í það eða þegar við eigum von á gestum í mat og þurfum að gera mikið magn í einu. Ég myndi segja að ég eldi súpu vikulega og oft tvisvar í viku. Í uppáhaldi hjá mér þessa dagana eru sætkartöflusúpa, sveppasúpa, linsubaunasúpa og svo þessi undursamlega kókos-karrýsúpa. Ég hef eldað hana nokkrum sinnum og hún slær alltaf í gegn á heimilinu.

Uppskriftin varð til á einu af þessum rigningarkvöldum þegar fátt hljómar betur en ilmandi súpa og góð bók. Ég notaði það sem ég átti til í ísskápnum og úr varð þessi æðislega súpa. Hún er bragðmikil og það er mikill matur í henni. Ef þið eigið afgang og ætlið að borða daginn eftir er mjög líklegt að hún hafi breyst í kókos-karrýpottrétt sem er líka mjög gott.


Hráefni:

1/2 kúrbítur skorinn mjótt
1/2 paprika skorin mjótt
1 meðalstór gulrót skorin mjótt
Nokkrir stiklar brokkólí
Nokkrir stiklar blómkál
2 hvítlauksgeirar
Lúka af spínati (Ég reyndar gleymdi því í þetta sinn en mæli með því)
1 dós kókosmjólk
1 bolli grænmetissoð
1 dós kjúklingabaunir
Karrý
Túrmerik
Cayenne pipar
Kóríander
Cumin
Salt

ATH: Ég á alveg ótrúlega erfitt með að venja mig á að mæla hversu mikið ég nota af kryddi. Ég set alltaf bara lítið í einu og smakka til. Ég er að reyna að bæta þetta hjá mér.

Aðferð:

1. Ég byrjaði á því að hita örlitla olíu í potti og bætti grænmetinu út í. Eftir nokkrar mínútur bætti ég hvítlauknum útí ásamt smávegis af kryddi og hrærði vel saman.

2. Eftir sirka 5 mínútur bætti ég kókosmjólkinni, baununum og grænmetissoðinu í pottinn, hrærði vel saman og smakkaði. Ég þurfti að krydda töluvert til að fá það bragð sem ég vildi.

3. Þegar það var komið skellti ég lokinu á og sauð hrísgrjón á annarri hellu á meðan ég leyfði þessu að malla í sirka 20 mínútur.

Njótið
Helga María