Innbakað hátíðarOumph!

Þegar gerast skal vegan er það oft jólamaturinn sem þvælist hvað mest fyrir fólki. Hvað skal borða á jólunum? er spurning sem við fáum ótrúlega oft á hverju ári. Flestir eiga margar góðar jólaminningar og tengjast þær nánast allar mat. Margir eru mjög vanafastir og líður illa við tilhugsunina um að borða eitthvað annað en það sem þau eru vön á jólunum. Við systur komumst hinsvegar að því að jólin verða alveg jafn hátíðleg og eftirminnileg sama hvað við borðum. Vegan matur er nefnilega ekki síðri öðrum mat líkt og margir virðast oft halda. 

Við höfum báðar prófað margt, annars vegar rétti sem hafa heppnast mjög vel og hins vegar rétti sem hafa endað í ruslinu. Ein jólin var það hnetusteik sem brann við, önnur jólin hnetusteik sem var óæt og fleira þess háttar. Svo hafa það verið gómsætar sveppasúpur sem hinir í fjölskyldunni geta ekki staðist og mjög gómsætar hnetusteikur. Við höfum komist að því að það skiptir í rauninni litlu máli hvað við borðum á jólnum, svo lengi sem það er gott.  Eftir þónokkuð mörg veganjól, áramót, páska og fleiri hátíðir höfum við þó loksins fundið rétt sem okkur finnst vera fullkomin fyrir hátíðirnar. 

Helga kynntist Oumph! vörunum á undan flestum Íslendingum þar sem hún bjó í Svíþjóð, en þaðan er varan upprunalega. Fyrir þá sem ekki vita hvað Oumph! er þá er það soyjakjöt sem inniheldur einungis soyja, vatn og olíu og er lang besta soyjakjötið á markaðnum í dag að okkar mati. Helga ákvað eftir að hafa kynnst þessari vöru að gera einhvern rétt úr henni um jólin í fyrra.  Tengdamamma hennar var að innbaka einhvers konar kjöt í smjördeigi og fannst henni tilvalið að prófa bara eitthvað þess háttar með Oumphinu.

Það kom ekkert smá vel út og vörum við staðráðnar í því að fyrir jólin í ár myndum við deila uppskriftinni með ykkur. Við fundum rosalega mikla þörf fyrir uppskrift af einhverju öðru en hnetusteik fyrir þessi jól. Hnetusteik er algengasti jólamatur grænmetisæta og sumir skiljanlega komnir með smá leið á henni. Júlía er að minnsta kosti spennt fyrir því að borða eitthvað annað þessi jóla eftir að hafa borðað hnetusteikina á aðfangadag, annan í jólum, gamlárskvöld og nýársdag í fyrra.  

Innbakað hátíðarOumph! (10 bökur)

  • 1 poki OumphI (annað hvort the chunk eða garlic and thyme)

  • 1-2 skallotlaukar

  • 3 hvítlauksrif

  • 2-4 blöð grænkál, allt eftir smekk

  • 1 tsk rósmarín

  • salt og pipar eftir smekk

  • 1 dl Oatly-hafrarjómi

  • 1 tsk gróft sinnep

  • 1/2 sveppateningur

  • 1 pakki Findus smjördeig

Aðferð:

  1. Leyfið Oumphinu að þiðna þar til auðvelt er að skera það í litla bita. Saxið einnig niður laukinn og grænkálið og setjið til hliðar.

  2. Steikið Oumphið upp úr smá olíu þar til það er vel heitt og setjið síðan laukinn, grænkálið og hvítlaukinn útí ásamt kryddunum.

  3. Steikið þetta í nágóðan tíma, eða um 10 - 15 mínútur, áður en rjómanum, sveppakraftinum og sinnepinu er bætt út í.

  4. Leyfið fyllingunni að hitna vel áður en slökkt er undir, en rjóminn þarf ekki að sjóða.

  5. Fletjið hverju smjördeigsplötu örlítið út (ekki hafa áhyggjur þó þið eigið ekki kökukefli, við redduðum okkur með glerflösku hehe) og skerið í tvennt. Leggið hvern ferhyrning af smjördeigi í eitt hólf á möffinsskúffu og setjið sirka 2 msk af fyllingunni ofan í. Festið öll fjögur hornin vel saman.

  6. Penslið hverja böku með þeirra plöntusmjólk sem er til hverju sinni, það má einnig nota afgangin af hafrarjómanum og bakið við 190 °C í 20 til 30 mínútur eða þar til gullinbrúnar.

Við bárum innbakaða Oumphið fram með brúnuðum kartöflum, rauðvínssveppasósu, grænum baunum og rauðkáli.

Rauðvíns-sveppasósa

  • 100 gr sveppir

  • 1 peli Oatly-hafrarjómi (250ml)

  • 1 msk rauðvín

  • 1/2 sveppateningur

  • salt og pipar

  • 2 msk hveiti

  • 3/4 dl vatn

  1. Steikið sveppina þar þeir eru mjúkir og svolítið vökvi myndast.

  2. Bætið rjóma, rauðvíni, sveppateningi, salti og pipar á í pottinn og látið sjóða í u.þ.b. 15 mínútur,

  3. Hristið eða þeytið saman með písk vatninu og hveitinu þar til alveg kekklaust og hellið út í í mjórri bunu á meðan hrært er stanslaust í súpunni.

  4. Leyfið suðunni að koma aftur upp og slökkvið undir.

Brúnaðar kartöflur (10-12 litlar)

  • 10-12 soðnar litlar kartöflur

  • 50 gr vegan smjör

  • 100 gr sykur

  • 1/2 dl Oatly-hafrarjómi

  1. Bræðið sykurinn á meðalhita á pönnu og passið að fylgjast vel með.

  2. Setjið smjörið útí um leið og sykurinn er bráðinn svo hann brenni ekki.

  3. Þegar smjörið er bráðið er slökkt undir, rjómanum hellt útí og hrært standslaust í hálfa mínútu áður en kartöflunum er helt út í.

Njótið vel
-Veganistur