Bolludags-gerbollur og þrenns konar fyllingar

Bolludagurinn er að mínu mati mjög góð tilbreyting í hversdagsleikanum svona rétt eftir áramótin. Dagur sem snýst um að gúffa í sig sætabrauði, hver tekur ekki á móti svoleiðis mánudegi fagnandi?
Bollur eru hins vegar oftast ekki vegan, að minnsta kosti ekki þessar sem við þekkjum úr bakaríum og búðum landsins. Það eru þó einhverjir staðir farnir að selja vegan bollur á bolludaginn.

Nú í ár ákvað ég að baka bollur í fysta skipti síðan ég gerðist vegan, og hef því ekki fengið bolludagsbollur í fimm ár.  Ég skil ekkert í mér að hafa ekki prufað að baka þær fyrr því það var virkilega einfalt og bollurnar ótrúlega gómsætar. Ég ákvað að gera gerbollur þar sem ég var með mjög gott gerbolludeig í huga. Bollurnar urðu mjög loftkenndar og mjúkar og hvet ég því alla til að prófa bollubakstur heima þetta árið. Bollurnar má alveg geyma í nokkra daga en þær eru þó lang bestar samdægur

Hráefni:

 • 1 3/4 dl plöntumjólk (ég notaði haframjólk)

 • 50 gr plöntusmjör

 • 2 tsk þurrger + 1 tsk sykur

 • örlítið salt

 • 1/2 tsk vanilludropar

 • 50 gr sykur

 • 250 gr hveiti

Aðferð:

 1. Setjið mjólkina og smjörið í pott og hitið þar til smjörið er bráðnar. Hrærið stanslaust í á meðan.

 2. Hellið blöndunni í skál og leyfið henni að kólna þar til hún er við líkamshita (sirka 37°C). Ég athuga hitan með því að stinga fingrinum ofan í mjólkina en þegar ég finn ekki fyrir neinum hitabreytingum er mjólkin sirka við réttan hita.

 3. Stráið þurrgerinu yfir mjólkina og einni teskeið af sykri og leyfið þessu að standa í tíu mínútur.

 4. Setjið restina af hráefnunum útí og hrærið saman. Hnoðið deigið í dágóða stund annað hvort í höndunum eða í hrærivél. Deigið á að vera heldur blautt en samt auðvelt að meðhöndla með höndunum án þess að það klessist mjög mikið.

 5. Leyfið deiginu að hefast í skál með hreinu viskustykki yfir í allavega klukkutíma áður en litlar kúlur eru myndaðar og settar á bökunarplötu. Bollurnar eiga alls ekki að vera of stórar þar sem þær stækka vel í ofninum. Það koma u.þ.b. 12-14 bollur úr deiginu. Leyfið bollunum að hefast á plötunni í tuttugu til þrjátíu mínútur í viðbót áður en þær eru bakaðar í 15 mínútur við 180°C.

IMG_8563.jpg

Ég ákvað að gera þrjár mismunandi fyllingar í bollurnar að þessu sinni, en það er auðvitað líka hægt að skella bara sultu og rjóma á þær og njóta. Ég mæli með að taka aðeins innan úr bollunum áður en sett er á þær svo rjóminn renni ekki allur út þegar þær eru borðaðar.

Hindberja-chia sulta

 • 2 dl frosinn hindber

 • 1 msk síróp

 • 1 msk chiafræ

 • 1/2 dl vatn

Aðferð

 1. Hitið hindberinn og síróp í potti þar til dágóður vökvi hefur myndast.

 2. Blandið saman chiafræunum og vatni og leyfið því að standa í allavega 10 mínútur. Chiafræin bólgna út og þá verður þetta eins konar hlaup.

 3. Blandið chiahlaupinu út í hindberin þegar þau hafa kólnað.

 

Súkkulaði glassúr

 • 1 dl flórsykur

 • 1 msk kakó

 • vatn

Aðferð

 1. Blandið saman flórsykri og kakó í skál.

 2. Bætið við vatni eftir þörfum sirka 1 msk í einu.

 

Karamella

 • 1/2 dl smjör

 • 1/2 dl sykur

 • 1 dl síróp

 • 1/2 dl plönturjómi (ég notaði hafrarjóma)

Aðferð

 1. Setjið allt saman í pott og leyfið að sjóða við vægan hita í u.þ.b. 20-30 mínútur og hrærið vel í á meðan.

 2. Leyfið karamellunni og kólna áður en hún er sett á bollurnar en þegar hún kólna þykknar hún.

Ég bar karamellubollurnar fram með soyatoo rjóma, niðurskornum jarðaberjum og jarðaberjasúkkulaðihjúp

 

 

 

Lakkríssósa

 • 1 dl niðurskornar lakkrísreimar

 • vatn

Aðferð

 1. Setjið lakkrísinn í lítinn pott og sirka hálfan dl af vatni.

 2. Hitið þetta þar til lakkrísinn er bráðnaður, en það þarf að hræra vel í á meðan.

 3. Bætið út í vatni á meðan að lakkrísinn bráðnar ef þarf.

Ég bar lakkrísbollurnar fram með soyatoo rjóma, lakkrískurli, súkkulaðispæni og dökkum súkkulaðihjúp.

 

 

Vonandi njótiði vel
-Júlía Sif

Vegan brauðterta

Brauðtertur voru virkilega vinsælar hér áður fyrr. Varla kom það fyrir að maður færi í veislu þar sem ekki voru bornar á borð fallega skreyttar brauðtertur. Svo virðist sem þær séu að detta úr tísku og persónulega datt okkur aldrei í hug að reyna að "veganæsa" slíka uppskrift. Fyrir ári fórum við svo að taka eftir ákveðnu "trendi" á sænskum facebookhóp þar sem meðlimir hópsins kepptust við að útbúa fallegustu vegan brauðtertuna, eða ,,smörgåstårta¨ eins og hún er kölluð á sænsku. Þar sem okkur þykir skemmtilegt að sýna ykkur hversu auðvelt er að útbúa vegan útgáfur af því sem manni þykir gott að borða ákváðum við að útbúa vegan brauðtertu og getum sagt ykkur að hún kom okkur virkilega mikið á óvart.

Við ákváðum að hafa tvær týpur af fyllingu. Annarsvegar tófú "eggjasalat" og hinsvegar "skinkusalat" með reyktri vegan skinku. Bæði salötin smakkast virkilega vel og skinkusalatið munum við hiklaust gera við fleiri tilefni.

Það er einfalt að gera brauðtertu og við erum hissa á því að hafa ekki dottið það í hug fyrr. Hver og einn getur að sjálfsögðu gert þá fyllingu sem hann langar en við erum mjög ánægðar með þessi salöt. Reykta vegan skinkan sem við notuðum gefur brauðtertunni skemmtilega jólalegt bragð. 

Eitt af því skemmtilegasta við að "veganæsa" klassískar uppskriftir er hvað fólk verður vanalega hissa yfir því að þetta sé vegan. Fólk á það til að halda að vegan matur smakkist ekki eins vel og sé minna spennandi. Þessvegna er svo skemmtilegt að sjá svipinn á fólki þegar það uppgvötar að því hefur svo sannarlega skjátlast. 

Það er gaman að heyra hversu margir eru farnir að gera uppskriftirnar okkar. Við höfum fengið sendar myndir þar sem fólk hefur bakað súkkulaðikökuna okkar eða gert aspasbrauðið fyrir ættingja og vini sem eru vegan. Fyrir nokkrum árum þótti fólki yfirleitt mjög stressandi að fá vegan manneskju í matarboð eða veislu því flestir vissu ekkert hvað þeir gætu boðið þeim uppá. Nú er þetta loksins að breytast og fólk farið að sjá hversu auðvelt það er að útbúa vegan rétti. Brauðtertan er einmitt tilvalinn réttur til þess að mæta með í veislu til þess að sýna öðrum að veganismi stoppar mann ekkert í því að borða góðan og fallegan mat. Við vegan fólkið getum svo sannarlega belgt okkur út um jólin á smákökum, lakkrístoppum, súkkulaðitertum og brauðréttum alveg eins og aðrir. 

Hráefni

Vegan brauðterta

 • 1 pakki af brauðtertubrauði
 • Vegan eggjasalat (uppskrift fyrir neðan)
 • Vegan skinkusalat (uppskrift fyrir neðan)
 • Auka mæjónes til að smyrja á tertuna (við gerum okkar mæjónes sjálfar, það er hægt að kaupa margar týpur af vegan mæjó til dæmis í Hagkaup og Gló fákafeni en okkur þykir alltaf miklu betra að gera okkar eigin. Það tekur innan við 5 mínútur og smakkast æðislega. Uppskriftin okkar er HÉR og tvöföld uppskrift passar fullkomlega í brauðtertuna, bæði í salötin og til að smyrja utan um tertuna)
 • Grænmeti til að skreyta. Það fer að sjálfsögðu bara eftir smekk og hugmyndaflugi hvað fólk kýs að hafa ofan á tertunni. Við notuðum graslauk, steinselju, kirsuberjatómata, gúrku og radísur. 

1. Leyfið brauðinu að þiðna og skerið skorpuna af

2. Smyrjið salötunum á hverja brauðsneið fyrir sig

3. Smyrjið vegan mæjónesi utan um brauðtertuna og skreytið með því sem ykkur dettur í hug

4. Ef þið hafið tök á er fínt að leyfa tertunni að fara í ísskáp í svolítinn tíma en þá er þægilegra að skera hana, hinsvegar er það bara aukaatriði og skiptir engu hvað bragðið varðar. 

Salat 1 - Tófú "eggjasalat"

 • 1 tófústykki (við kaupum tófúið sem fæst í Bónus)
 • Örlítil olía til steikingar
 • 1/2 tsk túrmerik
 • 1 tsk hvítlauksduft
 • 1 tsk laukduft
 • 1 msk sítrónusafi
 • 1 og 1/2 dl vegan mæjónes. 
 • 1 dl hreint sojajógúrt frá Sojade (jógúrtin fæst í Bónus og Hagkaup og ein dolla af stærri gerðinni er nóg í bæði salötin)
 • 1 tsk gróft sinnep eða dijon sinnep
 • 1 msk smátt skorinn graslaukur
 • salt og pipar eftir smekk

1. Brjótið tófúið niður á pönnu og steikið létt uppúr smá olíu, kryddum og sítrónusafa.

2. Leyfið tófúhrærunni að kólna í nokkrar mínútur, setjið hana í stóra skál og blandið mæjó, jógúrt, sinnepi og graslauk saman við. 

Salat 2 - Vegan skinkusalat

 • 1 dós blandað grænmeti frá Ora
 • 1 bréf vegan skinka (Við notuðum reyktu skinkuna frá Astrid och Aporna sem kom nýlega í Hagkaup. Auk þess fæst góð skinka frá Veggyness í Nettó)
 • 1 og 1/2 dl vegan mæjónes
 • 1 dl hreina jógúrtin frá Sojade
 • 1/2 tsk hlynsíróp
 • salt eftir smekk

1. Skerið skinkuna í bita og blandið öllu saman í skál.

 

 

Við vonum að þið njótið! 
Veganistur

 

 

Heitt súkkulaði

Heitt súkkulaði er eitt af því sem gerir veturinn betri. Það er fátt jafn gott eftir göngutúr í kuldanum en hentar líka fullkomlega á köldum sunnudagsmorgnum þegar mann langar ekkert frekar en að kúra uppi í sófa í náttfötum vafin í teppi! 

Margir halda að það sé mun fljótlegra að útbúa heitt kakó úr tilbúnu kakódufti, eins og Swiss miss, og verða því svekktir að komast að því að Swiss miss er alls ekki vegan. Að okkar mati er heitt súkkulaði gert "frá grunni" mun betra og meira alvöru. Það tekur innan við 10 mínútur að útbúa og er algjörlega þess virði.

Mjólkin frá Oatly er alveg frábær. Þau framleiða meðal annars mjólk sérstaklega gerða fyrir kaffi. Hún freyðir betur og er svolítið þykkari. Ég notaði hana í heita súkkulaðið og það kom virkilega vel út. Oatly fæst í krónunni. 
Sykurpúðarnir fást í Gló í Fákafeni og koma bæði svona litlir og einnig stærri. Þeir eru mjög góðir og pössuðu mjög vel við kakóið. 

Hráefni:

 • 175g suðusúkkulaði
 • 2 dl vatn
 • 1L kaffimjólk frá Oatly - eða önnur jurtamjólk
 • Smá salt
 • Kanilstöng

Valfrjálst: 

 • Jurtarjómi frá Soyatoo, fyrir þá sem vilja þeyttan rjóma með heita súkkulaðinu (fæst í Gló Fákafeni)
 • Vegan sykurpúðar (Fást í Gló Fákafeni)

 

Aðferð:

 1. Setjið vatnið í pott og brjótið súkkulaðið ofan í. Hrærið vel í pottinum á meðan súkkulaðið bráðnar í vatninu
 2. Hellið mjólkinni út í pottinn ásamt kanilstönginni og leyfið suðunni að koma upp.
 3. Saltið eftir smekk

Berið fram með sykurpúðum, þeyttum jurtarjóma eða bara eitt og sér. Uppskriftin er fyrir sirka 4-5.

Vona að þið njótið
Helga María

Innbakað hátíðarOumph!

Þegar gerast skal vegan er það oft jólamaturinn sem þvælist hvað mest fyrir fólki. Hvað skal borða á jólunum? er spurning sem við fáum ótrúlega oft á hverju ári. Flestir eiga margar góðar jólaminningar og tengjast þær nánast allar mat. Margir eru mjög vanafastir og líður illa við tilhugsunina um að borða eitthvað annað en það sem þau eru vön á jólunum. Við systur komumst hinsvegar að því að jólin verða alveg jafn hátíðleg og eftirminnileg sama hvað við borðum. Vegan matur er nefnilega ekki síðri öðrum mat líkt og margir virðast oft halda. 

Við höfum báðar prófað margt, annars vegar rétti sem hafa heppnast mjög vel og hins vegar rétti sem hafa endað í ruslinu. Ein jólin var það hnetusteik sem brann við, önnur jólin hnetusteik sem var óæt og fleira þess háttar. Svo hafa það verið gómsætar sveppasúpur sem hinir í fjölskyldunni geta ekki staðist og mjög gómsætar hnetusteikur. Við höfum komist að því að það skiptir í rauninni litlu máli hvað við borðum á jólnum, svo lengi sem það er gott.  Eftir þónokkuð mörg veganjól, áramót, páska og fleiri hátíðir höfum við þó loksins fundið rétt sem okkur finnst vera fullkomin fyrir hátíðirnar. 

Helga kynntist Oumph! vörunum á undan flestum Íslendingum þar sem hún bjó í Svíþjóð, en þaðan er varan upprunalega. Fyrir þá sem ekki vita hvað Oumph! er þá er það soyjakjöt sem inniheldur einungis soyja, vatn og olíu og er lang besta soyjakjötið á markaðnum í dag að okkar mati. Helga ákvað eftir að hafa kynnst þessari vöru að gera einhvern rétt úr henni um jólin í fyrra.  Tengdamamma hennar var að innbaka einhvers konar kjöt í smjördeigi og fannst henni tilvalið að prófa bara eitthvað þess háttar með Oumphinu.

Það kom ekkert smá vel út og vörum við staðráðnar í því að fyrir jólin í ár myndum við deila uppskriftinni með ykkur. Við fundum rosalega mikla þörf fyrir uppskrift af einhverju öðru en hnetusteik fyrir þessi jól. Hnetusteik er algengasti jólamatur grænmetisæta og sumir skiljanlega komnir með smá leið á henni. Júlía er að minnsta kosti spennt fyrir því að borða eitthvað annað þessi jóla eftir að hafa borðað hnetusteikina á aðfangadag, annan í jólum, gamlárskvöld og nýársdag í fyrra.  

Innbakað hátíðarOumph! (10 bökur)

 • 1 poki OumphI (annað hvort the chunk eða garlic and thyme)

 • 1-2 skallotlaukar

 • 3 hvítlauksrif

 • 2-4 blöð grænkál, allt eftir smekk

 • 1 tsk rósmarín

 • salt og pipar eftir smekk

 • 1 dl Oatly-hafrarjómi

 • 1 tsk gróft sinnep

 • 1/2 sveppateningur

 • 1 pakki Findus smjördeig

Aðferð:

 1. Leyfið Oumphinu að þiðna þar til auðvelt er að skera það í litla bita. Saxið einnig niður laukinn og grænkálið og setjið til hliðar.

 2. Steikið Oumphið upp úr smá olíu þar til það er vel heitt og setjið síðan laukinn, grænkálið og hvítlaukinn útí ásamt kryddunum.

 3. Steikið þetta í nágóðan tíma, eða um 10 - 15 mínútur, áður en rjómanum, sveppakraftinum og sinnepinu er bætt út í.

 4. Leyfið fyllingunni að hitna vel áður en slökkt er undir, en rjóminn þarf ekki að sjóða.

 5. Fletjið hverju smjördeigsplötu örlítið út (ekki hafa áhyggjur þó þið eigið ekki kökukefli, við redduðum okkur með glerflösku hehe) og skerið í tvennt. Leggið hvern ferhyrning af smjördeigi í eitt hólf á möffinsskúffu og setjið sirka 2 msk af fyllingunni ofan í. Festið öll fjögur hornin vel saman.

 6. Penslið hverja böku með þeirra plöntusmjólk sem er til hverju sinni, það má einnig nota afgangin af hafrarjómanum og bakið við 190 °C í 20 til 30 mínútur eða þar til gullinbrúnar.

Við bárum innbakaða Oumphið fram með brúnuðum kartöflum, rauðvínssveppasósu, grænum baunum og rauðkáli.

Rauðvíns-sveppasósa

 • 100 gr sveppir

 • 1 peli Oatly-hafrarjómi (250ml)

 • 1 msk rauðvín

 • 1/2 sveppateningur

 • salt og pipar

 • 2 msk hveiti

 • 3/4 dl vatn

 1. Steikið sveppina þar þeir eru mjúkir og svolítið vökvi myndast.

 2. Bætið rjóma, rauðvíni, sveppateningi, salti og pipar á í pottinn og látið sjóða í u.þ.b. 15 mínútur,

 3. Hristið eða þeytið saman með písk vatninu og hveitinu þar til alveg kekklaust og hellið út í í mjórri bunu á meðan hrært er stanslaust í súpunni.

 4. Leyfið suðunni að koma aftur upp og slökkvið undir.

Brúnaðar kartöflur (10-12 litlar)

 • 10-12 soðnar litlar kartöflur

 • 50 gr vegan smjör

 • 100 gr sykur

 • 1/2 dl Oatly-hafrarjómi

 1. Bræðið sykurinn á meðalhita á pönnu og passið að fylgjast vel með.

 2. Setjið smjörið útí um leið og sykurinn er bráðinn svo hann brenni ekki.

 3. Þegar smjörið er bráðið er slökkt undir, rjómanum hellt útí og hrært standslaust í hálfa mínútu áður en kartöflunum er helt út í.

Njótið vel
-Veganistur

 

 

Vegan lagterta

Jólaundirbúningurinn heldur áfram hjá okkur systrum og enn einu sinni sannast það að maður þarf ekki dýraafurðir til að njóta matarins sem fylgir þessari hátíð. Núna í nóvember prófuðum við í fyrsta skipti síðan við gerðumst vegan að gera lagtertu. við gerðum okkur þó ekki miklar vonir og vissum í raun ekki alveg út í hvað við værum að fara.

Við skoðuðum nokkrar uppskriftir og sáum að þær voru ekkert rosalega flóknar. Uppistaðan í þeim flestum var u.þ.b. sú sama en auðvitað innihéldu þær allar egg. Við ákváðum að þróa okkar eigin uppskrift og nota aquafaba í staðin fyrir egg. 

Aquafaba er orðið flestum kunnungt en það notum við t.d. í marengsuppskriftirnar okkar. Júlía bakaði köku fyrir jólin í fyrra sem minnti mikið á lagtertu og notaði aquafaba í hana og því ákváðum við bara að halda okkur við það. En fyrir þá sem ekki vita hvað það er þá er það soðið sem kemur af kjúklingabaunum í dós.

Það að baka lagtertu er alls ekki eins flókið og við héldum. Ástæðan fyrir því að okkur hafði ekki dottið í hug að baka lagtertu áður er sú að við borðuðum ekki mikið af henni í æsku. Hún var aldrei bökuð heima og því ekki mjög stór partur af okkar jólum. Núna í vetur höfum við samt mikið verið að gæla við þessa hugmynd þar sem kakan er svo rosalega jólaleg.

Einnig fundum við fyrir svolítilli eftirspurn eftir uppskrift af þessari köku og við sjáum svo sannarlega ekki eftir að hafa skellt í hana. Við erum núna búnar að prófa uppskriftina nokkrum sinnum og hefur hún alltaf heppnast mjög vel.

Hráefni:

 • 150 gr vegan smjör (við notum Krónu smjörlíki)
 • 3 dl sykur
 • 6 msk aquafaba
 • 7 1/2 dl hveiti
 • 2 tsk kanill
 • 1 1/2 tsk negull
 • 1 1/2 tsk matarsódi
 • 1 msk kakó
 • 2 1/2 dl plöntumjólk (við notum Oatly haframjólkina)

Aðferð:

 1. Þeytið smjörið og sykurinn í hrærivél og bætið síðan aquafaba útí. Þeytið þetta þar til létt og ljóst.
 2. Blandið þurrefnunum saman í aðra skál.
 3. Bætið því út í smjörhræruna ásamt mjólkinni og hrærið saman.
 4. Skiptið deginu jafnt í tvennt og bakið tvo botna í 18 mínútur við 175°C. Botnarnir eiga að vera u.þ.b. 25 x 35 cm. Skerið hvorn botn í tvennt svo þið hafið fjóra botna og smyrjið smjörkreminu jafnt á milli þeirra.

Smjörkrem:

 • 200 gr vegan smjör
 • 3 msk aquafaba
 • 2 tsk vanilludropar
 • 1 pakki flórsykur (500 gr)

Aðferð:

 1. Setjið öll hráefnin í hrærivel og þeytið vel saman.
 2. Smyrjið á milli botnanna.

Njótið vel!
-Veganistur

Súkkulaðibitakökur

Smákökur eru stór hluti af jólunum hjá öllum Íslendingum. Á öllum heimilum eru bakaðar smákökur fyrir jólin og allir eiga sína uppáhalds sort. Við bökuðum alltaf fullt af jólasmákökum heima þegar ég var yngri. Prófuðum alls konar uppskriftir, góðar og ekki jafn góðar. Þó voru súkkulaðibitakökur alltaf uppáhald allra.

Súkkulaðibitakökur eru virkilega einfaldar í bakstri og alltaf jafn vinsælar hjá stórum sem smáum. Að gera vegan útgáfu af þessum gömlu góðu kökum var alls ekki erfitt. Ef eitthvað er þá er vegan uppskriftin auðveldari en sú upprunalega.

Nú þegar fyrsti í aðventu er liðinn getur fólk með góðri samvisku farið á fullt í bakstur, og borðað allt það góðgæti sem hugurinn girnist. Það er allavega það sem ég geri á aðventunni, á sama tíma og ég plana alla þá hollustu sem ég ætla að demba mér í, í janúar...

Hráfeni:

 • 250 gr vegan smjör (Krónu smjörlíkið er alltaf gott en svo fæst smjör í Hagkaup frá merkinu Earth balance
 • 1 dl sykur
 • 1 dl púðusykur
 • 1/2 dl plöntumjólk
 • 1 tsk vanilludropar
 • 4 1/2 dl hveiti
 • 1 tsk matarsódi
 • örlítið salt
 • 150 gr suðusúkkulaði

Aðferð:

 1. Þeytið saman smjörið og sykurinn í smá tíma, bætið síðan útí mjólkinni og vanniludropunum og þeytið örlítið lengur.
 2. Blandið saman öllum þurrefnunum í skál og hrærið síðan saman við smjörið og sykurinn.
 3. Síðast er súkkulaðið saxað og því blandað saman við deigið.
 4. Rúllið litlar kúlur úr deiginu og bakið í 7-9 mínútur við 180°C. Leyfið kökunum að kólna í nokkrar mínútur á plötunni áður en þær eru teknar af henni svo súkkulaðið verði ekki eftir.

Njótið vel
-Júlía Sif

Rjómalöguð sveppasúpa í brauðskál

IMG_6705.jpg

Á veturna eru súpur og kássur algjörir bjargvættir. Það er fátt meira kósí en ylvolg súpa eftir langan og kaldan dag. Við ætlum að vera duglegar að deila með ykkur góðum súpuuppskriftum í vetur, en í dag ætlum við að sýna ykkur sveppasúpu uppskriftina okkar sem er ein af okkar eftirlætis súpum. 

Súpur eru ekki einungis þægilegar vegna þess að þær ylja manni á köldum dögum, heldur einnig vegna þess að við eldamennskuna þarf yfirleitt bara einn pott og eitthvað til að hæra með. Oftar en ekki er gott að skella hráefnunum í pottinn og leyfa þeim að malla í svolítinn tíma á lágum hita án þess að þurfa mikið að skipta sér af. Eins og okkur þykir gaman að eyða tíma í eldhúsinu er oft rosalega fínt að geta gert fljótlegan, bragðgóðan og næringarríkan mat án mikillar fyrirhafnar. Það skemmtilegasta við þessa súpu er það að hún hentar fullkomlega sem kvöldmatur á venjulegu miðvikudagskvöldi en hentar einnig einkar vel sem forréttur við hvaða tilefni, eins og til dæmis sem forréttur á aðfangadagskvöld. 

Við erum duglegar að gera sveppasúpu við allskonar tilefni.  Við höfum mikið borðað hana á hátíðum og Júlía bar hana til dæmis fram í útskriftarveislunni sinni. Hún er klassísk og það finnst flestum hún góð svo hún hentar til dæmis vel fyrir tilefni þar sem ekki eru allir vegan, því fæstir finna nokkurn bragðmun. Eini munurinn er sá að jurtarjóminn er alls ekki jafn þungur í magann og hinn hefðbundni og við getum lofað ykkur að fólk mun ekki kvarta yfir því. 

Við ákváðum að prufa að bera súpuna fram í brauðsskál. Við keyptum súrdeigsbrauð í Passion bakaríi og einfaldlega skárum ofan af brauðinu, tókum það mesta innan úr og stungum í ofnin á 200°C í sirka 10 mínútur svo skálin yrði ekki blaut í gegn.

Þar sem brauðið var heldur stórt komst nóg af súpu í það fyrir okkur tvær. Næst ætlum við að reyna að finna aðeins minni brauð svo maður geti fengið sína eigin brauðskál. Við þurfum þó varla að taka það fram að brauðskálin er engin nauðsyn, hún var gerð einungis uppá gamanið en kom virkilega vel út. Við mælum þó sterklega með súrdeigsbrauðunum úr Passion bakarí, hvort sem þið viljið nota þau sem skálar eða einfaldlega njóta þess að borða það með súpunni. 

Hráefni:

 • 100 gr vegan smjör
 • 1/2 til 1 laukur (við notuðum hálfan stóran)
 • 200 gr frosin villisveppablanda
 • 250 (1 pakki) sveppir
 • hveitiblanda (2 kúfullar msk hveiti + 1 dl vatn hrisst saman)
 • 1 til 2 greinar ferskt timian
 • 1 tsk þurrkað timian
 • salt og pipar
 • 1 sveppateningur
 • 1 til 2 tsk grænmetiskraftur
 • 250 ml vatn
 • 750 ml Oatly haframjólk
 • 500 ml (tvær fernur) Oatly hafrarjómi

Aðferð:

 1. Leyfið frosnu sveppunum að þiðna í nokkrar mínútur. Skerið þá svo niður ásamt fersku sveppunum og saxið laukinn.
 2. Bræðið smjörið í potti og bætið sveppunum og lauknum saman við. Steikið við lágan hita í dágóðan tíma eða u.þ.b. 15 mínútur. 
 3. Nýtið tímann á meðan í að sjóða vatn í katli eða öðrum potti. Þetta er ekki nauðsynlegt en okkur þykir gott að búa til grænmetissoð með því að sjóða vatn, hella því í skál og leyfa kraftinum að leysast almennilega upp í því áður en við hellum því út í pottinn með sveppunum. 
 4. Hristið saman hveitiblönduna þar til engir kekkir eru eftir. Okkur þykir fínt að nota sultukrukku í verkið því þá er engin hætta á að þetta hristist uppúr. Hellið blöndunni hægt útí og hrærið vel í á meðan.
 5. Hellið grænmetissoðinu útí 50 ml í einu og hrærið vel í á meðan svo ekki myndist kekkir í súpuna. Leyfið suðunni svo að koma upp og hellið síðan mjólkinni útí. 
 6. Látið súpuna malla í 15-20 mínútur áður en rjóminn fer útí.  Á þessu stigi er fínt að smakka súpuna og sjá hvort vantar meira af kryddum. 
 7. Hellið hafrarjómanum útí, leyfið suðunni að koma upp, slökkvið undir og berið fram. 
 8. Ef gera á súpuna daginn áður, líkt og við gerum t.d. oft á jólunum, er fínt að geyma það að setja rjómann útí þar til hún er hituð upp rétt áður en það á að borða hana.
 9. Það má auðvitað mauka súpuna með töfrasprota ef þess er kosið en við kjósum að gera það ekki.

Vonandi njótið þið vel! 
-Veganistur

Vegan lakkrístoppar

Nú nálgast jólin óðfluga og flestir farnir að huga að jólabakstrinum. Við systurnar erum að sjálfsögðu engin undantekning. Þegar við gerðumst vegan bjuggumst við ekki við því að baka lakkrístoppa aftur. Vegan marengs var eitthvað sem fólk almennt hafði ekki hugmynd um að hægt væri að gera. Það var svo fyrir sirka tveimur árum að aquafaba, próteinríki vökvinn sem fylgir kjúklingabaunum í dós, uppgvötaðist. Það var frakkinn Joël Roessel sem fann upp á þessarri snilld. Aquafaba gjörsamlega breytti lífi vegan fólks um allan heim. Nú geta þeir sem kjósa að borða ekki egg eða eru með ofnæmi fyrir eggjum notið þess að borða til dæmis marengstertur og mæjónes svo eitthvað sé nefnt. 

Síðustu jól bökuðum við lakkrístoppa í fyrsta skipti síðan við urðum vegan. Við vorum örlítið skeptískar í fyrstu og vildum ekki gera okkur of miklar vonir. Við urðum því heldur betur hissa þegar lakkrístopparnir komur úr ofninum og smökkuðust nákvæmlega eins og þeir gömlu góðu sem við vorum vanar að borða áður fyrr. 

Við þróuðum uppskriftina sjálfar og birtum á facebooksíðunni okkar en hún vakti strax mikla lukku. Uppskriftin er virkilega einföld og hefur slegið í gegn hjá öllum sem hafa smakkað toppana hjá okkur. Það er að sjálfsögðu vel hægt að bjóða öllum uppá lakkrístoppana, hvort sem fólk er vegan eða ekki, því það er enginn munur á þeim. 

Við erum á fullu að safna góðum hátíðaruppskriftum á bloggið okkar sem henta vel fyrir jólin og í allskonar veislur. 
Núna erum við til dæmis komnar með

Marengstertu
Aspasbrauðrétt
Döðlunammi
Súkkulaðiköku

... Og það er margt fleira á leiðinni. 
 

IMG_6712-2.jpg

Vegan Lakkrístoppar

 • 9 msk aquafaba

 • 300g púðursykur

 • 150g lakkrískurl

 • 150g suðusúkkulaði

 

Aðferð:

 1. Byrjið á því að hita ofninn í 150°c

 2. Þeytið aquafaba í hrærivél þar til vökvinn verður alveg stífur, eða í sirka 15-20 mínútur

 3. Bætið púðursykrinum hægt út í, það er fínt að setja bara eina matskeið í einu og þeytið á meðan

 4. Hrærið vel og lengi, alveg í aðrar 20 mínútur

 5. Slökkvið á hrærivélinni og blandið lakkrísnum útí, ásamt brytjuðu súkkulaðinu, varlega með sleif.

 6. Bakið lakkrístoppana í 15-17 mínútur. Leyfið þeim að kólna í svolítinn tíma á plötunni eftir að þið takið þá út.

Vonum að þið njótið 

-Veganistur

Klassísk súkkulaðiterta

Súkkulaðikökur eru í miklu uppáhaldi hjá flestum. Þegar við gerðumst vegan urðu vinir og ættingar oftar en ekki stressaðir að fá okkur í afmælis- og matarboð. Þeim fannst tilhugsunin um að baka vegan köku yfirþyrmandi og ómöguleg. ,,Getið þið ekki bakað sjálfar bara, ég kann ekkert að baka svona vegan kökur" heyrðum við í hvert einasta skipti. Ástæðan fyrir því að fólk hræðist bakstur á vegan kökum er yfirleitt sá algengi misskilningur að vegan kökur innihaldi þrjátíu hráefni og að það taki marga klukkutíma að búa þær til. Það gæti hreinlega ekki verið meira fjarri sanni.

Kakan okkar er gríðarlega einföld og virkar bæði sem hefðbundin súkkulaðikaka og einnig sem dýrindis bollakökur. Þeir sem hafa smakkað hjá okkur kökuna eru yfirleitt steinhissa á því hvað hún er bragðgóð. ,,Vá þetta bragðast nú bara nákvæmlega eins og súkkulaðikakan sem ég er vön að gera."
Ástæðan er einmitt sá algengi misskilningur að vegan matur og kökur séu alltaf öðruvísi og verri á bragðið en annar matur. Aftur gæti það ekki verið meira fjarri sanni. 

Kökuna birti Helga fyrir tveimur árum á www.helgamaria.com. Hún varð strax lang vinsælasta uppskriftin á síðunni og var birt meðal annars á vefsíðu Kvennablaðsins. Fljótlega fór það að spyrjast út að til væri uppskrift af vegan súkkulaðiköku sem innihéldi færri en tíu hráefni og ekki bara það, að hún innihéldi einungis hráefni sem allir þekkja og flestir eiga til inni í skáp. Skyndilega hætti fólkið í kringum okkur að vera hrætt við að fá okkur í afmælisveislur. Í dag notar til dæmis mágkona Júlíu þessa uppskrift í sínum veislum og amma okkar hefur verið að biðja Júlíu að baka fyrir sig botna til að bjóða gestum uppá. 

download (12).jpeg

Það er ekki einungis kakan sem slær í gegn heldur skiptir smjörkremið miklu máli líka. Það er nefnilega ekkert mál að útbúa vegan smjörkrem og það myndi enginn þekkja það í sundur frá öðru kremi. Það fæst gríðarlega gott vegan smjör bæði í Hagkaup og Gló Fákafeni frá merkinu Earth balance, en okkur þykir mjög fínt að nota smjörlíkið frá Krónunni í kremið okkar. Það er ódýrara og alveg 100% vegan líka. 

Þriðji algengi misskilningurinn hvað varðar vegan bakstur er sá að vegan kökur séu hollustukökur. Fólk setur oft upp svip þegar við segjumst ætla að baka köku því það sér fyrir sér harða hráfæðiköku úr hnetum og döðlum.  

Ef þið eruð að leita ykkur að uppskrift af hollri köku er þessi uppskrift ekki fyrir ykkur. Hér er á ferð klassísk súkkulaðikaka úr hveiti og sykri og uppistaða kremsins er smjörlíki og flórsykur. 

Júlía nýtur þess mikið að útbúa fallegar kökur. Þegar hún útskrifaðist úr menntaskóla bakaði hún súkkulaðikökur og skreytti með hvítum rósum úr smjörkremi. Gestir veislunnar voru handvissir um að kökurnar hefði hún pantað úr bakaríi.

Súkkulaðikaka

 • 3 bollar hveiti
 • 2 bollar sykur
 • 1/2 bolli kakó
 • 2 tsk matarsódi
 • 1 tsk salt
 • 2 bollar vatn
 • 2/3 bolli bragðlaus olía - við notuðum sólblómaolíu
 • 2 tsk vanilludropar
 • 1 msk eplaedik

1. Hitið ofninn í 175°c með blæstri

2. Blandið þurrefnum saman í skál 

3. Bætið restinni af hráefnunum saman við og hrærið þar til engir kekkir eru í deiginu

4. Smyrjið tvö kökuform og skiptið deiginu jafnt í þau.  Þessi uppskrift passar akkurat í tvö 24 cm hringlaga kökuform. Það er þó einnig hægt að baka kökuna í eldföstu móti.

5. bakið í 20-30 mínútur

 

Smjörkrem

 • 350g smjörlíki við stofuhita
 • 500g flórsykur
 • 1/2 dl kælt, sterkt uppáhelt kaffi
 • 1 msk kakó
 • 1 tsk vanilludropar
 • 50g 70% súkkulaði

1. Þeytið smjörið í hrærivél eða með rafmagnsþeytara þar til það er mjúkt

2. Bætið öllum hráefnum nema súkkulaðinu útí og hrærið vel saman

3. Bræðið súkkulaðið og hellið því útí og hrærið á meðan á litlum hraða

4. Leyfið kökubotnunum að kólna alveg áður en kreminu er smurt á. 

ATH: Ef þið ætlið að gera rósir á kökuna þarf að gera eina og hálfa uppskrift af kreminu. Það fer mjög mikið krem í rósirnar. Okkur þykir gott að gera bara tvöfallda uppskrift af kreminu og ef það verður afgangur frystum við það og setjum á bollakökur við tækifæri. 

Njótið
Veganistur 

 

Vegan döðlunammi

Þegar halda á veislur, hvort sem þær eru stórar eða litlar, boð eða bara þegar fólk ber að garði langar manni að geta boðið uppá eitthvað. Þá er gott að eiga eitthvað auðvelt, sem hægt er að henda í á örstundu eða grípa úr frystinum. Þessir döðlubitar henta ótrúlega vel með kaffinu, bæði um miðjan daginn og sem eitthvað sætt eftir matinn í boðinu. Það þarf nefnilega ekki alltaf að vera með eitthvað rosalega flókið svo að það slái í gegn. Þess vegna elska ég þessa uppskrift, hún er ótrúlega einföld en hittir alltaf beint í mark.

Hráefni:

 • 250 gr ferskar döðlur (u.þ.b. einn bolli þegar búið er að taka steinana úr)
 • 130 gr vegan smjör
 • 1/2 bolli kókospálmasykur
 • 100 gr lakkrís
 • 2 1/2 bolli rice krispies (passa að það sé vegan)
 • 150 gr suðusúkkulaði (1 1/2 plata)

Aðferð

 1. Saxið döðlurnar og setjið í pott ásamt smjörinu og sykrinum og bræðið yfir meðalhita. 
 2. Látið sjóða á vægum hita í 7-9 mínútur, eða þar til döðlurnar eru vel bráðnaðar.
 3. Saxið lakkrísinn í smátt kurl og blandið saman við rice krispies í skál. Þegar karamellan er tilbúinn er henni hellt yfir krispies'ið og þessu blandað vel saman. 
 4. Ég rúllaði mínu nammi upp í kúlur og hjúpaði ýmist með muldu krispies'i eða súkkulaði en einnig er hægt að dreifa blöndunni þétt í eldfast mót og hella bráðnu súkkulaði yfir. Þá er það látið sitja í frystinum í allt að klukkutíma áður en það er skorið í bita. 

Það þarf að passa vel þegar gera á þessar kúlur vegan að ekki allt rice krispies er vegan. Lang flest rice krispies sem fæst hér á landi frá kellog's hefur viðbætt D-vítamín sem er unnið úr ull. Það er þó ein tegund til frá þeim sem er vegan en hún fæst einungis í nettó en það sést vel á innihaldslýsingunni þar sem hún er mikið styttri og ekkert talað um viðbætt næringarefni og vítamín.

Njótið vel

-Júlía Sif

 

 

Heitt rúllubrauð með aspas og sveppum

Síðastliðin ár hefur mér þótt virkilega gaman að prufa mig áfram með allskonar uppskriftir. Þegar ég tók út dýraafurðir varð það að svolitlu sporti hjá mér að veganæsa rétti sem mér þóttu góðir. Hinsvegar lagði ég einhvernveginn aldrei í að útbúa vegan heitan brauðrétt. Ég held að það hafi verið vegna þess að svona brauðréttir voru virkilega eitt það besta sem ég fékk, og ég var mögulega hrædd um að valda sjálfri mér vonbrigðum. Ég prufaði það svo í fyrsta sinn í gær og ég eiginlega trúi ekki að ég hafi verið vegan í rúm 5 ár og farið í gegnum afmælisveislur og jólaboð og svona án þess að gera svona brauðrétt. Þetta er bæði fáránlega einfalt og smakkast aaalveg eins og þessir sem ég var vön að elska sem barn. Ég bauð ömmu minni uppá réttinn, sem er langt frá því að vera vegan, og henni þótti hann gjörsamlega æðislegur. Það eitt og sér er nógu góð staðfesting á því að þetta hafi heppnast vel hjá mér!

Í brauðréttinn nota ég meðal annars heimagerða mæjónesið mitt. Uppskriftina birti ég í annarri færslu í sumar og hérna er linkur á hana. Það er að sjálfsögðu hægt að kaupa vegan mæjónes útum allt en það er mun ódýrara að gera sitt eigið og alveg jafn gott, ef ekki betra. Ég á það til að mikla fyrir mér hlutina og ég frestaði því lengi að prufa að gera mæjó, aðallega því mér fannst það hljóma eins og svaka vesen en það er einmitt hlægilega einfalt. 

Annað hráefni sem mér þykir mikivægt í uppskriftinni er sveppakrafturinn. Hann gefur réttinum æðislegt bragð sem kemur í stað sveppasúpunnar frá Campbell/sveppasmurostsins sem ég notaði alltaf í brauðrétti áður en ég varð vegan. Það fást bæði sveppateningar frá Kallo og frá Knorr hér á landi. Ef þið notið þennan frá Knorr þarf alls ekki að salta fyllinguna því krafturinn er vel saltur. Ég hef ekki prufað að nota þennan frá Kallo svo ég er ekki viss hversu mikið salt er í honum. Að sjálfsögðu smakkið þið bara og finnið hvort ykkur finnst vanta salt. 

Rúllubrauðið kaupi ég frosið og það fæst í Bónus. Ég leyfi því að þiðna áður en ég nota það og það tekur yfirleitt svona rúmlega hálftíma. Brauðið kemur rúllað upp í plasti og gott er að leggja plastið undir brauðið, smyrja fyllingunni á og nota plastörkina til að rúlla brauðinu upp. Það verður nefnilega svolítið viðkvæmt þegar fyllingin er komin inn í það. 

Í fyrstu ætlaði ég að hafa rifinn vegan ost ofan á brauðinu en átti hann ekki til. Ég smurði því vel af vegan mæjónesinu ofan á og stráði kryddi yfir. Í þetta sinn notaði ég Old bay kryddið en það er líka æðislegt að nota bara paprikuduft. Eftir að hafa prufað þetta finnst mér ostur aaalgjör óþarfi ofan á þetta því mæjóið kemur svolítið út eins og bráðinn ostur og er sjúklega gott! 

Ég er svo ánægð að hafa loksins tekið af skarið og búið til svona heitt brauð. Þessi uppskrift mun svo sannarlega vera notuð mikið í framtíðinni við allskonar tilefni. Mig langar helst að halda veislu bara til þess að geta boðið uppá svona brauðrétt og vegan marengstertuna sem Júlía birti hérna á blogginu fyrir stuttu. Ég vona að ykkur líki uppskriftin og endilega sendið okkur snap (veganistur) ef þið gerið uppskriftirnar okkar, við elskum að fá að fylgjast með ykkur! :)

Hráefni:

1 Rúllubrauð. Ég notaði þetta brauð.
1 bolli vegan mæjónes. (Plús tvær matskeiðar auka til að smyrja ofan á brauðið áður en það fer í ofninn)
1 sveppateningur. Ég notaði þennan frá Knorr
100 g sveppir
Smávegis af olíu til að steikja sveppina uppúr
1/2 dós aspas plús 1 msk af safanum úr dósinni
Old bay krydd eða paprikuduft

Aðferð:

1. Hitið ofninn í 200°c

2. Skerið sveppina smátt og steikið á pönnu í svolítilli olíu í sirka 5 mínútur, eða þar til þeir eru svolítið mjúkir

3. Bætið mæjónesinu útá pönnuna ásamt sveppakrafi, aspasinum og safanum frá aspasinum og blandið vel saman

4. Smyrjið fyllingunni í rúllubrauðið og notið plastörkina sem fylgir með til þess að rúlla brauðinu upp. 

5. Smyrjið toppinn á brauðinu með mæjónesi og stráið kryddinu yfir

6. Bakið í ofninum í 15-20 mínútur. Það fer svolítið eftir því hvernig ofninn er. Endarnir á brauðinu voru orðnir svolítið gylltir þegar það var tilbúið og tók sirka 17 mínútur hjá mér. 

Ég vona innilega að uppskriftin muni nýtast ykkur. Mæli klárlega með því að prufa! 

Helga María 

 

Vegan Marengsterta

Marengstertur eru eitthvað sem ég hélt að ég þyrfti að gefa alfarið upp á bátinn þegar ég varð vegan. Mér fannst engar líkur á því að hægt væri að baka tertu sem samanstendur af sykri og eggjahvítu án eggjanna. Svo virðist sem ég hafi haft rangt fyrir mér í þessum efnum þar sem það er ekkert mál að gera marengsbotna án eggjana, en það er nú orðið að einum af mínum uppáhalds kökum. Þetta er gert með svokölluðu aquafaba, en það er soðið sem kemur af kjúklingabaunum í dós. Þessi kaka er því ekki einungis jafn bragðgóð og hin hefðbundna marengsterta heldur líka töluvert ódýrari í framleiðslu. Það er ekki skrítið að marengstertur séu svona vinsælar á veisluborðið en auk þess að vera mjög góðar á bragðið eru þær svo ótrúlega fallegar. Það gekk þó ekki áfallalaust fyrir sig að ná að fullkomna þessa uppskrift en oftar en ekki hefur uppskriftin sem ég prófaði að baka misheppnast. Ég held þó að ég sé komin nokkuð nálægt því með þessari uppskrift en hún hefur ekki enn misheppnast hjá mér þó ég sé búin að baka hana nokkrum sinnum.

Hráefni:

 • 12 msk aquafaba

 • 220 gr sykur

 • 2 dl mulið kornflex

 • 1/2 tsk lyftiduft

Aðferð:

 1. Þeytið vökvan á hæsta stigi þar til hann verður að stífri, u.þ.b. 15 mínútur. Bætið síðan við einni matskeið af sykrinum í einu á meðan hrært er á miklum hraða. Þeytið þetta tvennt lengi og vel, eða þar til hægt er að hvolfa skálinni án þess að blandan detti úr. þetta tekur allt að 20 mínútum.

 2. Blandið muldu kornflexinu mjög varlega saman við ásamt lyftiduftinu með sleikju.

 3. Bakið marengsin í 50 mínútur við 120°C heitan ofn en ég hef ofninn á blæstri og leyfið botnunum að kólna vel áður en þeir eru teknir af plötunni. Best er að slökkva á ofninum og leyfa botnunum að kólna með honum.

Ég bar marengstertuna mína fram með þeyttum soyatoo rjóma í milli, en í hann setti ég niðurskorin jarðaber og Ichoc núggatsúkkulaði. Bæði rjóminn og súkkulaðið má finna í Nettó. Kökuna skreytti ég svo með heimagerðri vegan karamellu, jarðaberjum og afganginum af súkkulaðinu sem ég reif niður. Jarðaberin og karamellan gera kökuna svo ótrúlega fallega og girnilega en ég lofa að engin sem smakkar hana mun verða fyrir vonbrigðum.

-Júlía Sif