Vegan lagterta

Jólaundirbúningurinn heldur áfram hjá okkur systrum og enn einu sinni sannast það að maður þarf ekki dýraafurðir til að njóta matarins sem fylgir þessari hátíð. Núna í nóvember prófuðum við í fyrsta skipti síðan við gerðumst vegan að gera lagtertu. við gerðum okkur þó ekki miklar vonir og vissum í raun ekki alveg út í hvað við værum að fara.

Við skoðuðum nokkrar uppskriftir og sáum að þær voru ekkert rosalega flóknar. Uppistaðan í þeim flestum var u.þ.b. sú sama en auðvitað innihéldu þær allar egg. Við ákváðum að þróa okkar eigin uppskrift og nota aquafaba í staðin fyrir egg. 

Aquafaba er orðið flestum kunnungt en það notum við t.d. í marengsuppskriftirnar okkar. Júlía bakaði köku fyrir jólin í fyrra sem minnti mikið á lagtertu og notaði aquafaba í hana og því ákváðum við bara að halda okkur við það. En fyrir þá sem ekki vita hvað það er þá er það soðið sem kemur af kjúklingabaunum í dós.

Það að baka lagtertu er alls ekki eins flókið og við héldum. Ástæðan fyrir því að okkur hafði ekki dottið í hug að baka lagtertu áður er sú að við borðuðum ekki mikið af henni í æsku. Hún var aldrei bökuð heima og því ekki mjög stór partur af okkar jólum. Núna í vetur höfum við samt mikið verið að gæla við þessa hugmynd þar sem kakan er svo rosalega jólaleg.

Einnig fundum við fyrir svolítilli eftirspurn eftir uppskrift af þessari köku og við sjáum svo sannarlega ekki eftir að hafa skellt í hana. Við erum núna búnar að prófa uppskriftina nokkrum sinnum og hefur hún alltaf heppnast mjög vel.

Hráefni:

 • 150 gr vegan smjör (við notum Krónu smjörlíki)
 • 3 dl sykur
 • 6 msk aquafaba
 • 7 1/2 dl hveiti
 • 2 tsk kanill
 • 1 1/2 tsk negull
 • 1 1/2 tsk matarsódi
 • 1 msk kakó
 • 2 1/2 dl plöntumjólk (við notum Oatly haframjólkina)

Aðferð:

 1. Þeytið smjörið og sykurinn í hrærivél og bætið síðan aquafaba útí. Þeytið þetta þar til létt og ljóst.
 2. Blandið þurrefnunum saman í aðra skál.
 3. Bætið því út í smjörhræruna ásamt mjólkinni og hrærið saman.
 4. Skiptið deginu jafnt í tvennt og bakið tvo botna í 18 mínútur við 175°C. Botnarnir eiga að vera u.þ.b. 25 x 35 cm. Skerið hvorn botn í tvennt svo þið hafið fjóra botna og smyrjið smjörkreminu jafnt á milli þeirra.

Smjörkrem:

 • 200 gr vegan smjör
 • 3 msk aquafaba
 • 2 tsk vanilludropar
 • 1 pakki flórsykur (500 gr)

Aðferð:

 1. Setjið öll hráefnin í hrærivel og þeytið vel saman.
 2. Smyrjið á milli botnanna.

Njótið vel!
-Veganistur

Súkkulaðibitakökur

Smákökur eru stór hluti af jólunum hjá öllum Íslendingum. Á öllum heimilum eru bakaðar smákökur fyrir jólin og allir eiga sína uppáhalds sort. Við bökuðum alltaf fullt af jólasmákökum heima þegar ég var yngri. Prófuðum alls konar uppskriftir, góðar og ekki jafn góðar. Þó voru súkkulaðibitakökur alltaf uppáhald allra.

Súkkulaðibitakökur eru virkilega einfaldar í bakstri og alltaf jafn vinsælar hjá stórum sem smáum. Að gera vegan útgáfu af þessum gömlu góðu kökum var alls ekki erfitt. Ef eitthvað er þá er vegan uppskriftin auðveldari en sú upprunalega.

Nú þegar fyrsti í aðventu er liðinn getur fólk með góðri samvisku farið á fullt í bakstur, og borðað allt það góðgæti sem hugurinn girnist. Það er allavega það sem ég geri á aðventunni, á sama tíma og ég plana alla þá hollustu sem ég ætla að demba mér í, í janúar...

Hráfeni:

 • 250 gr vegan smjör (Krónu smjörlíkið er alltaf gott en svo fæst smjör í Hagkaup frá merkinu Earth balance
 • 1 dl sykur
 • 1 dl púðusykur
 • 1/2 dl plöntumjólk
 • 1 tsk vanilludropar
 • 4 1/2 dl hveiti
 • 1 tsk matarsódi
 • örlítið salt
 • 150 gr suðusúkkulaði

Aðferð:

 1. Þeytið saman smjörið og sykurinn í smá tíma, bætið síðan útí mjólkinni og vanniludropunum og þeytið örlítið lengur.
 2. Blandið saman öllum þurrefnunum í skál og hrærið síðan saman við smjörið og sykurinn.
 3. Síðast er súkkulaðið saxað og því blandað saman við deigið.
 4. Rúllið litlar kúlur úr deiginu og bakið í 7-9 mínútur við 180°C. Leyfið kökunum að kólna í nokkrar mínútur á plötunni áður en þær eru teknar af henni svo súkkulaðið verði ekki eftir.

Njótið vel
-Júlía Sif

Vegan lakkrístoppar

Nú nálgast jólin óðfluga og flestir farnir að huga að jólabakstrinum. Við systurnar erum að sjálfsögðu engin undantekning. Þegar við gerðumst vegan bjuggumst við ekki við því að baka lakkrístoppa aftur. Vegan marengs var eitthvað sem fólk almennt hafði ekki hugmynd um að hægt væri að gera. Það var svo fyrir sirka tveimur árum að aquafaba, próteinríki vökvinn sem fylgir kjúklingabaunum í dós, uppgvötaðist. Það var frakkinn Joël Roessel sem fann upp á þessarri snilld. Aquafaba gjörsamlega breytti lífi vegan fólks um allan heim. Nú geta þeir sem kjósa að borða ekki egg eða eru með ofnæmi fyrir eggjum notið þess að borða til dæmis marengstertur og mæjónes svo eitthvað sé nefnt. 

Síðustu jól bökuðum við lakkrístoppa í fyrsta skipti síðan við urðum vegan. Við vorum örlítið skeptískar í fyrstu og vildum ekki gera okkur of miklar vonir. Við urðum því heldur betur hissa þegar lakkrístopparnir komur úr ofninum og smökkuðust nákvæmlega eins og þeir gömlu góðu sem við vorum vanar að borða áður fyrr. 

Við þróuðum uppskriftina sjálfar og birtum á facebooksíðunni okkar en hún vakti strax mikla lukku. Uppskriftin er virkilega einföld og hefur slegið í gegn hjá öllum sem hafa smakkað toppana hjá okkur. Það er að sjálfsögðu vel hægt að bjóða öllum uppá lakkrístoppana, hvort sem fólk er vegan eða ekki, því það er enginn munur á þeim. 

Við erum á fullu að safna góðum hátíðaruppskriftum á bloggið okkar sem henta vel fyrir jólin og í allskonar veislur. 
Núna erum við til dæmis komnar með

Marengstertu
Aspasbrauðrétt
Döðlunammi
Súkkulaðiköku

... Og það er margt fleira á leiðinni. 
 

IMG_6712-2.jpg

Vegan Lakkrístoppar

 • 9 msk aquafaba

 • 300g púðursykur

 • 150g lakkrískurl

 • 150g suðusúkkulaði

 

Aðferð:

 1. Byrjið á því að hita ofninn í 150°c

 2. Þeytið aquafaba í hrærivél þar til vökvinn verður alveg stífur, eða í sirka 15-20 mínútur

 3. Bætið púðursykrinum hægt út í, það er fínt að setja bara eina matskeið í einu og þeytið á meðan

 4. Hrærið vel og lengi, alveg í aðrar 20 mínútur

 5. Slökkvið á hrærivélinni og blandið lakkrísnum útí, ásamt brytjuðu súkkulaðinu, varlega með sleif.

 6. Bakið lakkrístoppana í 15-17 mínútur. Leyfið þeim að kólna í svolítinn tíma á plötunni eftir að þið takið þá út.

Vonum að þið njótið 

-Veganistur

Klassísk súkkulaðiterta

Súkkulaðikökur eru í miklu uppáhaldi hjá flestum. Þegar við gerðumst vegan urðu vinir og ættingar oftar en ekki stressaðir að fá okkur í afmælis- og matarboð. Þeim fannst tilhugsunin um að baka vegan köku yfirþyrmandi og ómöguleg. ,,Getið þið ekki bakað sjálfar bara, ég kann ekkert að baka svona vegan kökur" heyrðum við í hvert einasta skipti. Ástæðan fyrir því að fólk hræðist bakstur á vegan kökum er yfirleitt sá algengi misskilningur að vegan kökur innihaldi þrjátíu hráefni og að það taki marga klukkutíma að búa þær til. Það gæti hreinlega ekki verið meira fjarri sanni.

Kakan okkar er gríðarlega einföld og virkar bæði sem hefðbundin súkkulaðikaka og einnig sem dýrindis bollakökur. Þeir sem hafa smakkað hjá okkur kökuna eru yfirleitt steinhissa á því hvað hún er bragðgóð. ,,Vá þetta bragðast nú bara nákvæmlega eins og súkkulaðikakan sem ég er vön að gera."
Ástæðan er einmitt sá algengi misskilningur að vegan matur og kökur séu alltaf öðruvísi og verri á bragðið en annar matur. Aftur gæti það ekki verið meira fjarri sanni. 

Kökuna birti Helga fyrir tveimur árum á www.helgamaria.com. Hún varð strax lang vinsælasta uppskriftin á síðunni og var birt meðal annars á vefsíðu Kvennablaðsins. Fljótlega fór það að spyrjast út að til væri uppskrift af vegan súkkulaðiköku sem innihéldi færri en tíu hráefni og ekki bara það, að hún innihéldi einungis hráefni sem allir þekkja og flestir eiga til inni í skáp. Skyndilega hætti fólkið í kringum okkur að vera hrætt við að fá okkur í afmælisveislur. Í dag notar til dæmis mágkona Júlíu þessa uppskrift í sínum veislum og amma okkar hefur verið að biðja Júlíu að baka fyrir sig botna til að bjóða gestum uppá. 

download (12).jpeg

Það er ekki einungis kakan sem slær í gegn heldur skiptir smjörkremið miklu máli líka. Það er nefnilega ekkert mál að útbúa vegan smjörkrem og það myndi enginn þekkja það í sundur frá öðru kremi. Það fæst gríðarlega gott vegan smjör bæði í Hagkaup og Gló Fákafeni frá merkinu Earth balance, en okkur þykir mjög fínt að nota smjörlíkið frá Krónunni í kremið okkar. Það er ódýrara og alveg 100% vegan líka. 

Þriðji algengi misskilningurinn hvað varðar vegan bakstur er sá að vegan kökur séu hollustukökur. Fólk setur oft upp svip þegar við segjumst ætla að baka köku því það sér fyrir sér harða hráfæðiköku úr hnetum og döðlum.  

Ef þið eruð að leita ykkur að uppskrift af hollri köku er þessi uppskrift ekki fyrir ykkur. Hér er á ferð klassísk súkkulaðikaka úr hveiti og sykri og uppistaða kremsins er smjörlíki og flórsykur. 

Júlía nýtur þess mikið að útbúa fallegar kökur. Þegar hún útskrifaðist úr menntaskóla bakaði hún súkkulaðikökur og skreytti með hvítum rósum úr smjörkremi. Gestir veislunnar voru handvissir um að kökurnar hefði hún pantað úr bakaríi.

Súkkulaðikaka

 • 3 bollar hveiti
 • 2 bollar sykur
 • 1/2 bolli kakó
 • 2 tsk matarsódi
 • 1 tsk salt
 • 2 bollar vatn
 • 2/3 bolli bragðlaus olía - við notuðum sólblómaolíu
 • 2 tsk vanilludropar
 • 1 msk eplaedik

1. Hitið ofninn í 175°c með blæstri

2. Blandið þurrefnum saman í skál 

3. Bætið restinni af hráefnunum saman við og hrærið þar til engir kekkir eru í deiginu

4. Smyrjið tvö kökuform og skiptið deiginu jafnt í þau.  Þessi uppskrift passar akkurat í tvö 24 cm hringlaga kökuform. Það er þó einnig hægt að baka kökuna í eldföstu móti.

5. bakið í 20-30 mínútur

 

Smjörkrem

 • 350g smjörlíki við stofuhita
 • 500g flórsykur
 • 1/2 dl kælt, sterkt uppáhelt kaffi
 • 1 msk kakó
 • 1 tsk vanilludropar
 • 50g 70% súkkulaði

1. Þeytið smjörið í hrærivél eða með rafmagnsþeytara þar til það er mjúkt

2. Bætið öllum hráefnum nema súkkulaðinu útí og hrærið vel saman

3. Bræðið súkkulaðið og hellið því útí og hrærið á meðan á litlum hraða

4. Leyfið kökubotnunum að kólna alveg áður en kreminu er smurt á. 

ATH: Ef þið ætlið að gera rósir á kökuna þarf að gera eina og hálfa uppskrift af kreminu. Það fer mjög mikið krem í rósirnar. Okkur þykir gott að gera bara tvöfallda uppskrift af kreminu og ef það verður afgangur frystum við það og setjum á bollakökur við tækifæri. 

Njótið
Veganistur 

 

Vegan döðlunammi

Þegar halda á veislur, hvort sem þær eru stórar eða litlar, boð eða bara þegar fólk ber að garði langar manni að geta boðið uppá eitthvað. Þá er gott að eiga eitthvað auðvelt, sem hægt er að henda í á örstundu eða grípa úr frystinum. Þessir döðlubitar henta ótrúlega vel með kaffinu, bæði um miðjan daginn og sem eitthvað sætt eftir matinn í boðinu. Það þarf nefnilega ekki alltaf að vera með eitthvað rosalega flókið svo að það slái í gegn. Þess vegna elska ég þessa uppskrift, hún er ótrúlega einföld en hittir alltaf beint í mark.

Hráefni:

 • 250 gr ferskar döðlur (u.þ.b. einn bolli þegar búið er að taka steinana úr)
 • 130 gr vegan smjör
 • 1/2 bolli kókospálmasykur
 • 100 gr lakkrís
 • 2 1/2 bolli rice krispies (passa að það sé vegan)
 • 150 gr suðusúkkulaði (1 1/2 plata)

Aðferð

 1. Saxið döðlurnar og setjið í pott ásamt smjörinu og sykrinum og bræðið yfir meðalhita. 
 2. Látið sjóða á vægum hita í 7-9 mínútur, eða þar til döðlurnar eru vel bráðnaðar.
 3. Saxið lakkrísinn í smátt kurl og blandið saman við rice krispies í skál. Þegar karamellan er tilbúinn er henni hellt yfir krispies'ið og þessu blandað vel saman. 
 4. Ég rúllaði mínu nammi upp í kúlur og hjúpaði ýmist með muldu krispies'i eða súkkulaði en einnig er hægt að dreifa blöndunni þétt í eldfast mót og hella bráðnu súkkulaði yfir. Þá er það látið sitja í frystinum í allt að klukkutíma áður en það er skorið í bita. 

Það þarf að passa vel þegar gera á þessar kúlur vegan að ekki allt rice krispies er vegan. Lang flest rice krispies sem fæst hér á landi frá kellog's hefur viðbætt D-vítamín sem er unnið úr ull. Það er þó ein tegund til frá þeim sem er vegan en hún fæst einungis í nettó en það sést vel á innihaldslýsingunni þar sem hún er mikið styttri og ekkert talað um viðbætt næringarefni og vítamín.

Njótið vel

-Júlía Sif

 

 

Vegan Marengsterta

Marengstertur eru eitthvað sem ég hélt að ég þyrfti að gefa alfarið upp á bátinn þegar ég varð vegan. Mér fannst engar líkur á því að hægt væri að baka tertu sem samanstendur af sykri og eggjahvítu án eggjanna. Svo virðist sem ég hafi haft rangt fyrir mér í þessum efnum þar sem það er ekkert mál að gera marengsbotna án eggjana, en það er nú orðið að einum af mínum uppáhalds kökum. Þetta er gert með svokölluðu aquafaba, en það er soðið sem kemur af kjúklingabaunum í dós. Þessi kaka er því ekki einungis jafn bragðgóð og hin hefðbundna marengsterta heldur líka töluvert ódýrari í framleiðslu. Það er ekki skrítið að marengstertur séu svona vinsælar á veisluborðið en auk þess að vera mjög góðar á bragðið eru þær svo ótrúlega fallegar. Það gekk þó ekki áfallalaust fyrir sig að ná að fullkomna þessa uppskrift en oftar en ekki hefur uppskriftin sem ég prófaði að baka misheppnast. Ég held þó að ég sé komin nokkuð nálægt því með þessari uppskrift en hún hefur ekki enn misheppnast hjá mér þó ég sé búin að baka hana nokkrum sinnum.

Hráefni:

 • 12 msk aquafaba

 • 220 gr sykur

 • 2 dl mulið kornflex

 • 1/2 tsk lyftiduft

Aðferð:

 1. Þeytið vökvan á hæsta stigi þar til hann verður að stífri, u.þ.b. 15 mínútur. Bætið síðan við einni matskeið af sykrinum í einu á meðan hrært er á miklum hraða. Þeytið þetta tvennt lengi og vel, eða þar til hægt er að hvolfa skálinni án þess að blandan detti úr. þetta tekur allt að 20 mínútum.

 2. Blandið muldu kornflexinu mjög varlega saman við ásamt lyftiduftinu með sleikju.

 3. Bakið marengsin í 50 mínútur við 120°C heitan ofn en ég hef ofninn á blæstri og leyfið botnunum að kólna vel áður en þeir eru teknir af plötunni. Best er að slökkva á ofninum og leyfa botnunum að kólna með honum.

Ég bar marengstertuna mína fram með þeyttum soyatoo rjóma í milli, en í hann setti ég niðurskorin jarðaber og Ichoc núggatsúkkulaði. Bæði rjóminn og súkkulaðið má finna í Nettó. Kökuna skreytti ég svo með heimagerðri vegan karamellu, jarðaberjum og afganginum af súkkulaðinu sem ég reif niður. Jarðaberin og karamellan gera kökuna svo ótrúlega fallega og girnilega en ég lofa að engin sem smakkar hana mun verða fyrir vonbrigðum.

-Júlía Sif 

Svartbauna-brownies með kókosrjóma

Það er ótrúlega skemmtilegt að uppgötva nýja hluti í matargerð. Ég hef oft talað um það hversu mikið matarvenjurnar mínar breyttust til hins betra þegar ég gerðist vegan. Ég hef líka sagt frá því hvernig eldamennskan mín varð mun fjölbreyttari og meira spennandi en nokkurn tímann áður. Fyrir nokkrum mánuðum bakaði ég í fyrsta sinn svartbauna-brownies. Ég viðurkenni að mér fannst tilhugsunin ekkert svakalega spennandi. En ég er alltaf til í að prófa eitthvað nýtt svo ég ákvað að láta reyna á þetta. Útkoman kom mér heldur betur skemmtilega á óvart! Kökurnar voru æðislegar á bragðið!  Þvert á það sem ég bjóst við finnur maður ekkert bragð af baunum í kökunum svo hafið engar áhyggur af því. 

Uppskriftin sem ég prófaði fyrst var af bloggsíðunni Minimalist baker. Hún smakkaðist mjög vel en ég fann á mér að ég gæti búið til mína eigin uppskrift og gert kökurnar enn betri. Nú hefur mér tekist það og ég er mjög ánægð með útkomuna. Kökurnar eru gómsætar, flöffí og mun hollari en margar aðrar kökur. Ég þeytti kókosrjóma með og ég mæli með því að bera hann fram með kökunum því rjóminn gefur þeim þetta litla extra. Ég get líka ímyndað mér að vegan vanillu-ís passi vel með.

Mér finnst glúteinlausar kökuuppskriftir oft innihalda of mikið af (oft rándýrum) hráefnum. Gjarnan innihalda þær margar tegundir af glúteinlausu hveiti og getur það tekið mikinn tíma að útbúa þær. Þar sem ég er öll fyrir einfaldleikann nenni ég svoleiðis stússi ekki alltaf. Jú, það kemur fyrir að maður er í stuði til að gefa sér tíma í hlutina en mér líður yfirleitt best þegar mér tekst að útbúa auðveldar uppskriftir sem eru á sama tíma bæði fljótlegar og virkilega bragðgóðar. Þessi uppskrift er ein af þeim. 

IMG_5442-4.jpg

Eins og þið sjáið sparaði ég ekki súkkulaðið. Ég setti helminginn inn í deigið og hinum helmingnum stráði ég yfir kökurnar áður en þær fóru í ofninn. Það er ekki bara ótrúlega bragðgott heldur gerir það kökurnar líka virkilega fallegar. Mér finnst mun skemmtilegra að borða góðan mat þegar hann er fallegur. 

Svartbauna brownies

1 1/2 bolli soðnar svartar baunir. Ég keypti lífrænar baunir í fernu, helti þeim í sigti og skolaði vel undir köldu vatni áður en ég maukaði þær
1/2 bolli glúteinlaust haframjöl. (Ef þið þolið glútein virkar venjulegt haframjöl að sjálfsögðu líka)
1/2 bolli hrísgrjónahveiti
1 tsk matarsódi
1/4 tsk salt
1/2 bolli kakóduft
4 msk olía. Ég mæli mest með bráðinni kókosolíu eða sólblómaolíu
1 tsk eplaedik
1/2 bolli vatn
1/2 bolli agave- eða hlynsíróp
1 bolli brytjað suðusúkkulaði

Það er auðveldast að nota matvinnsluvél eða góðan blandara til að gera deigið en það er ekki nauðsynlegt. Ég notaði töfrasprota í þetta sinn og það virkaði mjög vel. Eina sem þarf að passa er að mauka allar baunirnar vel því maður vill helst ekki bíta í heila baun. 

1. Byrjið á því að hita ofninn á 175°c með blæstri.  

2. Hellið haframjölinu í skál og malið það niður með töfrasprotanum þar til áferðin verður svipuð hveiti. Leggið það svo til hliðar.

3. Sigtið baunirnar og skolið vel með köldu vatni. Hellið þeim í stóra skál, maukið þær vel og passið að engin baun sé heil. 

4. Hellið vatni, sírópi, eplaediki og olíu saman við og maukið vel saman.

5. Bætið haframjölinu, hrísgrjónahveitinu, kakóinu, saltinu og matarsódanum saman við og maukið þar til engir kekkir eru. 

6. Hellið helmingnum af súkkulaðinu útí og blandið saman við deigið með sleif.

7. Pennslið muffins ofnskúffuform með olíu. Formið sem ég nota gerir 12 kökur og deigið passar nákvæmlega í það.

8. Stráið hinum helmingnum af súkkulaðinu yfir kökunar. Það er hægt að leika sér aðeins þarna og setja á kökurnar hnetur, þurrkaða ávexti, kókosmjöl eða bara það sem manni dettur í hug. 

9. Bakið kökurnar í 20-30 mínútur. Það er stundum mismunandi eftir ofnum hversu langan tíma tekur að baka kökurnar en mínar tóku sirka 26 mínútur. Leyfið kökunum að kólna í 10 mínútur áður en þið takið þær úr muffins forminu. 

Þeyttur kókosrjómi

1 dós kókosmjólk. (Passið ykkur að kaupa ekki létta kókosmjólk. Hún þarf helst að vera yfir 70% ef maður ætlar að þeyta hana.)
1 msk agave- eða hlynsíróp
1/2 tsk vanilludropar (má sleppa)

1. Kælið kókosmjólkina í dósinni. Ég reyni að setja hana í ísskápinn nóttina áður en ég ætla að þeyta hana, en að sjálfsögðu er það ekki alltaf hægt og þá hef ég skellt henni í ísskápinn í 1-2 klst eða í frystinn í hálftíma.

2. Takið kókosmjólkina úr kælinum.  Við kælingu skilur mjólkin sig og vatnið verður yfirleitt eftir í botninum. Við viljum bara nota þykka partinn af kókosmjólkinni þegar við þeytum hana svo passið ykkur að skilja vatnið eftir. 

3. Þeytið kókosmjólkina með rafmagnsþeytara ásamt sírópinu og vanilludropunum. Ef þið hafið tök á því að kæla rjómann örlítið er mjög gott að setja hann í kæli í sirka hálftíma eftir þeytingu, hann þykknar enn meira við það. 

Ég vona að ykkur líki uppskriftin og ekki hika við að hafa samband ef þið hafið einhverjar spurningar

Helga María

 

 

Glúteinlaus pizza

Um helgina útbjó ég æðislega glúteinlausa pizzu. Ég fann úti í búð grófa, glúteinlausa hveitiblöndu sem ég blandaði saman við þurrger, vatn og krydd og úr því kom þessi líka fíni pizzabotn! 

Ég er ekki viss hvort hún fæst á Íslandi en það hlýtur að vera hægt að kaupa einhverja sambærilega. 

Á pizzuna setti ég:

 • pizzasósu
 • sveppi
 • rauðlauk
 • tómata
 • rauða papriku
 • spínat (setti það á pizzuna þegar sirka 5 mínútur voru í að hún yrði tilbúin), kjúklingabaunir sem ég kryddaði með reyktri papriku
 • pizzakrydd
 • og að lokum tahinisósu sem fór á pizzuna eftir að hún kom úr ofninum. 

Tahini sósuna geri ég með því að blanda saman:

 • tahini (sesamsmjöri),
 • smá vatni, 
 • sítrónusafa
 • og salti. 


Ég skvetti einnig yfir pizzuna smá hvítlauksolíu því mér finnst hún alltaf ómissandi. 

Alveg sjúlega gott

-Helga María