Vegan skonsubrauðterta

IMG_3058-2.jpg

Uppskrift dagsins er af þessari dásamlegu skonsubrauðtertu. Mörgum finnst tilhugsunin kannski svolítið skrítin, en ég lofa ykkur því að þetta passar fullkomlega saman. Mér þótti ekkert smá gaman að útbúa þessa fallegu brauðtertu og salatið sem er á milli er algjört lostæti. Ég hef oft gert það áður og það er dásamlegt á ritzkex og í allskonar samlokur.

IMG_3008-2.jpg

Ég veit að það eru sumir sem hafa alltaf borðað svona skonsutertur og aðrir sem aldrei hafa smakkað þær. Tengdamamma mín útbýr oft svoleiðis en í okkar fjölskyldu voru alltaf þessar hefðbundnu löngu brauðtertur, en þegar ég fór að tala um þetta við mömmu um daginn sagði hún mér að hún hafi oft fengið skonsutertu hjá ömmu sinni þegar hún var barn. Þar sem ég hafði aldrei smakkað svoleiðis ákvað ég að gúggla aðeins og sjá hvað fólk væri að setja á milli og hvernig þetta liti út. Ég fann ekkert svakalega margar uppskriftir og eiginlega engar myndir af svoleiðis, en hinsvegar virðist það vera svo að margir hafi alist upp við að borða svona og geri enn í dag. Síðan við opnuðum bloggið okkar höfum við fengið mikinn áhuga á að veganvæða klassískar uppskriftir, eins og þið flest kannski hafið tekið eftir, og þessi skemmtilega brauðterta er frábær viðbót í safnið.

IMG_3014-3.jpg

Við erum nú þegar með eina uppskrift af brauðtertu á blogginu, en sú uppskrift er ein af þeim fyrstu á blogginu. Vegan skinkan sem við notuðum í þá uppskrift fæst ekki lengur, en í dag eru aðrar tegundir til sem passa alveg jafn vel í salatið. Það er að sjálfsögðu líka hægt að gera “betra en túnfisksalat” uppskriftina okkar og setja á svona brauðtertu auk þess sem aspas- og sveppafylling væri pottþétt fullkomin. Möguleikarnir eru endalausir.

Það kemur fyrir þegar ég útbý rétti fyrir bloggið að ég nýt mín svo mikið og tek svo mikið magn af myndum að ég á erfitt með að velja og langar að hafa þær allar með. Stundum hef ég orðið svolítið hrædd um að færslurnar verði of langar í kjölfarið. Í dag var svoleiðis dagur, en mér fannst svo gaman að mynda þessa tertu að ég á erfitt með að velja og hafna, og þið verðið bara að sætta ykkur við allt myndaflóðið.

IMG_3027.jpg
IMG_3034.jpg

Það eru mörg tilefni framundan til þess að búa til þessa gómsætu brauðtertu, en páskarnir eru á næsta leiti og fermingarnar líka. Þrátt fyrir að það sé allt á kafi í snjó hérna í Piteå ákvað ég að reyna að skreyta tertuna svolítið sumarlega því ég er komin í vorskap. Ég viðurkenni að ég var frekar stressuð fyrir því að skreyta hana og til að vera viss um að ég eyðilegði tertuna ekki smurði ég mæjónesi á disk og æfði mig að skreyta svoleiðis áður en ég lagði í sjálfa tertuna. Ég held barasta að ég sé nokkuð ánægð með lokaútkomuna.

IMG_3045.jpg

Eruði með einhverjar fleiri skemmtilegar hugmyndir að vegan salötum til að setja á svona brauðtertu? Ég væri mikið til í að prufa að gera fleiri útgáfur!

IMG_3053.jpg

Skonsubrauðterta

  • 5 skonsur (uppskrift fyrir neðan)

  • Vegan “kjúklingasalat” (uppskrift fyrir neðan)

  • Mæjónes til að smyrja ofan á

  • Grænmeti til að skreyta með

Aðferð:

  1. Byrjið á því að útbúa salatið. Það er nefnilega frekar mikilvægt að mínu mati að leyfa því að standa í svolitla stund svo það taki vel í sig allt bragð. Ég set það yfirleitt í ísskápinn í minnst klukkustund og helst alveg þrjár.

  2. Bakið skonsurnar og leyfið þeim að kólna.

  3. Setjið saman brauðtertuna og skreytið með því sem ykkur lystir.

Vegan “kjúklingasalat”

  • Vegan mæjónes. Ég gerði eina og hálfa uppskrift af þessu ótrúlega góða vegan mæjónesi. Ég notaði það allt í salatið fyrir utan smá sem ég tók frá til að smyrja ofan á kökuna. Ég var svo fljótfær að ég fattaði ekki að mæla magnið af mæjónesinu fyrir ykkur sem kaupið tilbúið í stað þess að gera sjálf, en ég held það hafi verið um 3 bollar. Ég lofa að gera mæjóið sem fyrst aftur og uppfæra færsluna þá með nákvæmu magni, en ein og hálf uppskrift af því sem ég póstaði hérna með er fullkomið magn.

  • 1 pakki filébitar frá Hälsans Kök

  • Vorlaukur eftir smekk (ég setti 1 dl og fannst það passlegt en myndi jafnvel setja aðeins meira næst)

  • Gular baunir eftir smekk (ég notaði líka 1 dl af þeim og ég kaupi frosnar og leyfi þeim að þiðna. Mér þykja þær mun betri en þessar í dós.)

  • 1 msk gróft sinnep

  • 1 tsk hvítlauksduft

  • salt eftir smekk

Aðferð:

  1. Leyfið bitunum að þiðna í smá stund og steikið þá svo létt á pönnu upp úr olíu og smá salti. Takið af pönnunni og rífið þá í sundur með höndunum eða tveimur göfflum. Það er auðvitað hægt að skera þá bara niður í bita, en mér finnst gott að taka tvo gaffla og rífa bitana aðeins niður með þeim. Mér finnst það gefa þeim góða áferð fyrir salatið.

  2. Útbúið mæjónesið og takið smá af því frá til að smyrja ofan á kökuna. Blandið bitunum saman við mæjóið.

  3. Skerið niður vorlaukinn og blandið saman við ásamt restinni af hráefnunum.

  4. Leyfið salatinu að standa í ísskáp í allavega klukkustund ef kostur er á.

Skonsur

  • 5 dl hveiti

  • 2 msk sykur

  • 4 tsk lyftiduft

  • 1 tsk salt

  • 6-7 dl jurtamjólk. Mér finnst oft fara mikið eftir því hvernig mjólk og hvaða hveiti ég nota. Ég byrja yfirleitt á því að setja 5 dl og sé hversu þykkt deigið er og bæti svo við eftir þörf. Í dag notaði ég 7 dl af sojamjólk. Deigið á að hafa sömu þykkt og amerískar pönnukökur (semsagt þykkara en t.d íslenskar pönnsur)

  • 2 msk olía

Aðferð:

  1. Blandið saman þurrefnunum.

  2. Bætið við blautefnunum og hrærið þar til deigið er laust við kekki.

  3. Útbúið úr deiginu 5 stórar og þykkar pönnukökur. Ég á ekki pönnukökupönnu svo ég notaði venjulega pönnu í svipaðri stærð og passaði að þær væru allar jafn stórar. Deigið er akkúrat passlegt fyrir 5 pönnsur.

  4. Leyfið þeim að kólna áður en tertan er sett saman.

Takk innilega fyrir að lesa og vonandi líkar ykkur vel. Ef þið gerið brauðtertuna þætti okkur ekkert smá gaman að heyra hvað ykkur finnst. Við minnum á að við erum á Instagram og facebook líka fyrir ykkur sem hafið áhuga á að fylgja okkur þar.

-Veganistur