Bláberjasæla

IMG_1739.jpg

Síðan skólinn byrjaði höfum við verið alveg á kafi og hefur bloggið því aðeins setið á hakanum í haust. Ég (Helga) byrjaði í bachelor námi í jazzsöng hérna í Piteå, sem hefur verið stór draumur síðan ég var barn. Það hefur verið æðislegt og ég get sagt að ég hef ekki verið svona hamingjusöm lengi. Á sama tíma hef ég þurft að læra að skipuleggja tímann minn upp á nýtt. Síðustu ár hef ég haft gríðarlega mikinn tíma og hef því getað ráðið því sjálf hvernig ég eyði deginum. Það hefur því orðið mikil breyting hjá mér síðustu mánuði, og ég er enn að læra að nýta tímann vel svo ég nái að koma öllu fyrir sem ég vil gera. Ég hef þó líka þurft að sætta mig við að ég get ekki endilega gert allt sem mig langar á hverjum degi. Ég viðurkenni að ég hef stundum verið svolítið svekkt yfir því og ég fæ oft samviskubit yfir því að geta ekki verið nógu dugleg í öllu sem ég vil. Í hinum fullkomna heimi myndi ég standa mig gríðarlega vel í skólanum, vera alltaf vel undirbúin þegar ég syng með tríóinu mínu, blogga einu sinni í viku, vera dugleg að pósta á Instagram, snappa, hreyfa mig, nota eins lítið plast og ég get, lesa meira… og listinn heldur áfram. Ég hef sem betur fer áttað mig á því að ég er að setja alltof mikla pressu á sjálfa mig, og er að vinna í því að sleppa tökunum aðeins svo ég nái að njóta þess sem ég er að gera. Það gengur svona misvel hjá mér, en ég finn að þetta er allt á réttri leið.

IMG_1709.jpg

Ég hef komist að því að þegar ég blogga ekki lengi missi ég allt sjálfstraust og mikla hlutina gríðarlega fyrir mér. Allt í einu finnst mér ég ekkert kunna að blogga lengur og fresta því endalaust að taka fram myndavélina og skella í einhverja gómsæta uppskrift. Í hvert skipti sem ég upplifi þetta þarf ekki meira til en að byrja á einni færslu og þá byrjar þetta að rúlla. Í gær ákvað ég að setjast niður og gera vikumatseðil og birta á blogginu. Það eitt og sér var nóg til þess að kveikja í mér. Þegar ég vaknaði í morgun komst ekkert annað að en þessi dásamlega bláberjasæla sem ég hef ætlað mér að birta hérna á blogginu í sirka tvær vikur. Ég rauk fram úr og hófst handa. Ég mundi strax af hverju ég blogga, þetta er eitt það skemmtilegasta sem ég geri og ég gleymi stund og stað á meðan. Allar áhyggjur af prófum, tónleikum og verkefnum hurfu á meðan ég bakaði og myndaði og það er akkurat það sem ég þurfti á að halda eftir annasamar vikur.

Uppskriftin af bláberjasælunni er ótrúlega einföld, eins og flest sem við deilum hérna á blogginu. Hún bragðast dásamlega, fyllir húsið guðdómlegum ilmi og gefur fullkominn haustfíling. Sælan minnir vissulega svolítið á hjónabandssælu, en þar sem ég nota bláber er hún ekki alveg eins. Ég leyfði henni að kólna alveg áður en ég bar hana fram, aðallega svo ég gæti auðveldlega skorið hana fyrir myndatökuna. Þó er líka hægt að bera hana fram volga og þá er æðislegt að hafa þeyttan soja- eða kókosrjóma eða vegan ís með.

IMG_1725.jpg

Bláberjablanda:

(ATH: bollin sem ég notaði er 2,5 dl)

  • 680 gr frosin bláber

  • Safi úr einni sítrónu

  • 1/2 bolli sykur

  • 2 msk hveiti

  • 1 msk maíssterkja

Krömbl:

  • 3 bollar hveiti

  • 3 bollar haframjöl

  • 2 bollar púðursykur. Ég pressaði hann lauslega

  • 1 tsk lyftiduft

  • 1/2 tsk salt

  • 1 og 1/2 bolli smjörlíki. Ég bræddi 1 bolla og blandaði saman við deigið og muldi svo niður 1/2 bolla af köldu smjörilíki og hnoðaði saman við með höndunum

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 175°C

  2. Leyfið bláberjunum að þiðna alveg og hellið þeim svo í sigti til að losna við allan auka vökva. Ég kreisti berin einnig örlítið í sigtinu til að taka af smá af safanum, samt bara aðeins.

  3. Blandið berjunum saman við restina af hráefnunum fyrir berjablönduna í blandara, matvinnsluvél eða með töfrasprota. Blandann verður svolítið þunn, en hún mun þykkna í ofninum.

  4. Blandið saman þurrefnunum fyrir krömblið og hellið svo útí bráðna smjörinu og blandið saman með sleif. Brjótið svo út í kalda smjörið og hnoðið saman með höndunum. Ef ykkur finnst deigið mjög þurrt mæli ég með að bæta við örlitlu smjöri.

  5. Hellið tveimur þriðju af deiginu í eldfast mjót og pressið því í botninn. Ég lagði bökunarpappír í formið mitt svo það væri auðveldara að ná sneiðunum upp úr. Eldfasta mótið sem ég notaði er 21x31 cm.

  6. Bakið botninn í 10 mínútur og takið svo út.

  7. Hellið bláberjablöndunni yfir og myljið svo restina af krömblinu yfir.

  8. Bakið í 25-30 mínútur

  9. Hægt er að bera þetta fram volgt, en ef þið viljið ná fallegum sneiðum úr þessu mæli ég með því að leyfa sælunni að kólna.

Vonum að þið njótið :)

veganisturundirskrift.jpg