Hátíðlegur vegan ís með saltkaramellu

Við deilum með ykkur gómsætri uppskrift að ís sem er dásamlegur eftirréttur að bjóða upp á við allskyns tilefni. Hvort sem það er um jólin, Í afmæli, matarboð eða önnur veisluhöld. Gómsætur ís með karamellusúkkulaði, karamellusósu og berjum.

Uppskriftin er í samstarfi við Happi á Íslandi og Krónuna. Happi súkkulaði er nýtt vegan súkkulaði gert úr haframjólk og er selt í Krónunni. Virkilega gott vegan súkkulaði.

Það besta við þennan ís, fyrir utan hversu bragðgóður hann er, er hvað það er auðvelt að búa hann til. Grunnuppskriftina er hægt að leika sér með og bæta út í allskyns góðgæti ef maður vill. Skemmtilegur ís sem býður uppá ýmsa möguleika.

Við elskum að útbúa ísinn sem eftirrétt á aðfangadagskvöld og hann slær í gegn á hverju ári. Við vonum að ykkur líki við og ekki gleyma að tagga okkur á Instagram ef þið gerið uppskriftirnar okkar, okkur þykir svo vænt um það! <3

Vegan jóla ís með saltkaramellu súkkulaði:

  • 1 ferna (250 ml) vanillu sósa frá Oatly

  • 1 ferna Oatly þeytirjóminn

  • 1 dl sykur

  • 2 tsk vanillusykur frá gestus

  • 2 plötur saltkaramellusúkkulaði frá HAPPI

Aðferð:

  1. Byrjið á því að þeyta rjóman í hrærivél eða með handþeytara. Setjið í aðra skál og geymið til hliðar.

  2. Þeytið vanillusósuna, vanillusykurinn og sykur saman þar til þa'ð verður mjjög loftkennt.

  3. Hrærið vanillusósublönduna og þeytta rjóma mjög varlega saman þar til það er alveg blandað.

  4. Saxið súkkulaðið mjög smátt, Við mælum með að hafa ekki mjög stóra bita af súkkulaðinu í ísnum þar sem það verður aðeins hart þegar það er fryst. Blandið súkkulaðinu varlega saman við ísinn.

  5. Setjið í köku- eða ísform, setjið plastfilmu yfir og látið hana alveg þétt við ís”deigið” svo ekkert loft sé á milli. Setjið í frysti í að minnska kosti 12 kklukkustundir.

Karamellusósa

  • 100 g smjör

  • 100 g púðursykur

  • 1 tsk vanilludropar

  • 1 dl hafrarjómi

  • 1/4 tsk salt

Aðferð:

  1. Setjið allt í pott og kveikið undir á meðal hita.

  2. Leyfið smjörinu og sykrinum að bráðna alveg og látið síðan sjóða í 5-7 mínútur. Hrærið í stanslaust á meðan.

  3. Sósuna má bera fram heita með ísnum eða leyfa henni aðeins að kólna ef þið viljið skreyta ístertu með henni.

Takk fyrir að lesa og vona að ykkur liki vel.

-Veganistur

-Þessi uppskrift er í samstarfi við Krónuna og Happi vegan súkkulaði úr haframjólk-

 
 

Frosin ostakaka með Oreo botni

IMG_1113-3.jpg

Það er fátt sem toppar góða máltíð betur en gómsætur eftirréttur. Þegar ég held matarboð þykir mér eftirrétturinn oft alveg jafn mikilvægur og máltíðin sjálf. Eins og það er þægilegt að kaupa góðan vegan ís, ávexti og súkkulaði, þá er líka stundum skemmtilegt að útbúa eitthvað aðeins meira extra. Það er virkilega auðvelt að gera allskonar vegan eftirrétti og sætindi, og við ætlum að reyna að vera duglegri að birta uppskriftir af svoleiðis hérna á blogginu. 

IMG_1029-3.jpg

Í dag ætla ég að deila með ykkur uppskrift af ótrúlega góðri vegan ostaköku. Ég myndi kalla þetta blöndu af ostaköku og ísköku því best er að borða hana nánast beint úr frystinum. Þessi kaka er svo góð að ég hef ekki getað hætt að hugsa um hana síðan ég gerði hana. Oreo botninn passar fullkomlega við fyllinguna sem hefur smá kaffikeim. Ég held það væri gaman að gera úr uppskriftinni litlar ostakökur í bollakökuformi, til að bjóða upp á í matarboðum eða afmælum. 

IMG_0964-2.jpg

Ég get ekki sagt að ég hafi alist upp við að borða ostakökur, en þær eru núna orðnar mikið uppáhald hjá mér. Ég er með aðra mjög góða uppskrift í pokahorninu sem er líka frosin, en á eftir að prufa mig áfram með bakaðar ostakökur. Ég get þó lofað ykkur því að um leið og ég hef masterað svoleiðis köku fáið þið uppskriftina strax. Ég er búin að skora á sjálfa mig að ögra sjálfri mér meira þegar kemur að því að útbúa kökur og deserta. Mér finnst ekkert mál að elda mat og það kemur til mín mjög náttúrulega, en ég er rosalega óöruggur bakari og er yfirleitt með Júlíu í tólinu á meðan ég baka. Ég er þó ákveðin í að hætta að vera hrædd við að baka og sætta mig við það að stundum misheppnast hlutirnir í fyrsta sinn og þá er ekkert annað að gera en að reyna aftur. 

IMG_1066-2.jpg

Þið megið endilega láta okkur vita hvað er ykkar uppáhalds desert og hvort það er eitthvað sem þið viljið að við reynum að "veganæsa." Við erum með endalausar hugmyndir af kökum og skemmtilegu bakkelsi sem okkur langar að setja á bloggið, en það væri mjög gaman að heyra frá ykkur hvað er í uppáhaldi. 

IMG_1120-2.jpg

Hráefni: 

  • 20 Oreo kexkökur

  • 70 gr bráðið vegan smjör (notið hvaða vegan smjör sem er virkar, t.d Krónu smjörlíki eða Ljóma smjörlíki)

  • 1 þeytirjómi frá Alpro (2 dl)

  • 2 öskjur påmackan rjómaosturinn frá Oatly (300gr)

  • 1,5 dl sykur

  • 1 msk vanillusykur

  • 2-3 msk kalt uppáhellt kaffi (fer alfarið eftir því hversu mikið kaffibragð þið viljið hafa. Ég setti 2 msk og það var mjög milt kaffibragð af minni, sem mér fannst fullkomið).

Aðferð:

  1. Myljið niður Oreo kexið, annaðhvort í matvinnsluvél eða með því að setja það í lokaðan nestispoka og brjóta kexið með kökukefli. Hellið muldu kexinu í skál.

  2. Bræðið smjörið, hellið því ofan í skálina og blandið vel saman við kexið með sleif.

  3. Hellið blöndunni í 20 cm smelluform og þrýstið vel í botninn. Setjið formið í frystinn á meðan þið undirbúið fyllinguna.

  4. þeytið rjómann í stórri skál og leggið til hliðar.

  5. Bætið restinni af hráefnunum í aðra stóra skál og þeytið saman.

  6. Bætið þeytta rjómanum útí skálina og þeytið allt saman í nokkrar sekúndur, eða þar til allt er vel blandað saman.

  7. Hellið blöndunni ofan í smelluformið og setjið í frystinn yfir nótt eða í allavega fjóra klukkutíma.

  8. Toppið kökuna með því sem ykkur lystir. Í þetta sinn bræddi ég súkkulaði og toppaði með því, sem voru smá mistök því það var virkilega erfitt að skera í gegnum súkkulaðið þegar það var orðið frosið. Næst myndi ég bræða súkkulaðið og blanda saman við það nokkrum matskeiðum af þykka hlutanum úr kókosmjólk í dós, því þannig harðnar súkkulaðið aldrei alveg. Eins er ótrúlega gott að toppa kökuna bara með muldu Oreo kexi, súkkulaðikurli eða setja yfir hana fullt af ferskum jarðarberjum þegar hún er tekin út. Í rauninni er kakan fullkomin ein og sér, en útlitsins vegna finnst mér skemmtilegt að toppa hana með einhverju gómsætu.

  9. Berið kökuna fram nánast beint úr frystinum. Gott er að láta hana standa í nokkrar mínútur, en hún er svolítið eins og ísterta og er því best ísköld.

Njótið
Helga María