Matardagbók nr. 1

Við erum reglulega spurðar að því hvað við borðum yfir daginn. Síðustu ár hefur orðið gríðarleg aukning á fólki sem er áhugasamt um vegan lífsstílinn og langar að prufa en er hrætt að taka skrefið vegna hræðslu um að vegan matur sem of einhæfur og leiðinlegur. Ég get ekki lýst því mér orðum hversu mikið það breytti matarvenjum mínum til hins betra að gerast vegan. Um leið og ég tók dýraafurðir út úr matarræðinu tók ég inn ótrúlega mikið af nýju spennandi hráefni sem ég hefði aldrei eldað hér áður fyrr. Ég reyni að borða hollt og næringarríkt heilfæði en auðvitað koma dagar þar sem ég leyfi mér að borða aðeins "sveittari" og minna hollan mat. Ég forðast glútein að mestu en það kemur svo sannarlega ekki í veg fyrir að ég borði góðan mat. 

Við ætlum að vera duglegar að deila með ykkur hvað við borðum yfir daginn og vonandi fáiði einhverjar hugmyndir út frá því. Ekki hika við að senda okkur spurningar um hvað sem er.
 

Morgunmatur:
Ég elska að borða góðan morgunmat. Ég fæ samt fljótt leið á því að borða alltaf það sama svo ég passa að hafa morgunmatinn fjölbreyttan. Á veturna finnst mér best að fá mér hafragraut en þegar fer að vora langar mig meira í ávexti og þeytinga. Núna er jarðarberjatímabilið byrjað hérna í Svíþjóð og því eru berin oft á lægra verði en vanalega. Ég fagna því að sjálfsögðu og þennan morgun var veðrið æðislegt svo ég útbjó mér gómsætt ávaxtasalat. Í skálina setti ég jarðarber, bláber, epli, kiwi og appelsínu. Ég skolaði ávöxtunum niður með stóru glasi af vatni. Fullkominn morgunmatur á sólríkum sumardegi. 


Millimál:
Í millimál steikti ég mér edamame baunir á pönnu uppúr safanum úr hálfri límónu, chili flögum, hvítlauksdufti og salti. Ég er að taka smá edamame tímabil og gæti borðað þær á hverjum einasta degi. Þær eru ekki bara ótrúlega bragðgóðar heldur mjög þægilegar að narta í þegar ég sit og vinn við tölvuna. 

 

Hádegismatur:
Í hádegismat útbjó ég súper einfalt og fljótlegt karrí.  Í þetta sinn var ég ekki í miklu stuði til að elda svo ég sauð kínóa og steikti á pönnu frosið lífrænt wok-mix, maísbaunir og kjúklingabaunir uppúr vatni, túrmerik, cayenne pipar og svörtum pipar. Ég sauð um daginn helling af kjúklingabaunum og setti í frystinn. Það hefur gert matargerðina mun auðveldari að eiga alltaf tilbúnar baunir í fyrstinum.
Þegar grænmetið var steikt hellti ég út á pönnuna karrísósu sem ég átti afgangs inni í ísskáp. Sósan er mjög einföld og inniheldur einungis kókosmjólk, karríduft og grænmetiskraft. Hún er svo þykkt með örlitlu maísmjöli. 

Þegar kínóað var soðið skellti ég þessu á disk og skolaði niður með ísköldu vatni. mjög einfalt og fljótlegt en fáránlega gott og næringarríkt!


Kvöldmatur:
Þar sem ég borðaði frekar stóran hádegismat ákvað ég að gera léttari kvöldmat. Ég bakaði í ofninum gulrætur sem ég skar í strimla og rauðrófu. Ég kryddaði gulræturnar með reyktri papriku, hvítlauksdufti, salti og pipar. Ég borðaði rótargrænmetið með stóru fjalli af ruccola, furuhnetum, sólþurrkuðum tómötum og næringargeri. Ég geri mér grein fyrir því að þetta lítur ekki út fyrir að vera neitt svaðalega spennandi en ég lofa ykkur að þetta er rosalega gott! Suma daga er einfalt best.