Jákvætt hugarfar gagnvart blæðingum

Blæðingar eru einn af náttúrulegustu hlutum kvenlíkamans. Þrátt fyrir að flestar konur byrji á blæðingum á unglingsárunum líta margir á blæðingar sem ónáttúrulegt fyrirbæri, leyndarmál jafnvel, sem best sé að geyma inni á klósetti og tala sem minnst um. Hvers vegna? Jú, líklega tengist það því hvaðan tíðarblóð kemur. Með því að tala um að við séum á blæðingum eða með túrverki finnst sumum (oft karlmönnum sem hafa aldrei upplifað það að fara á blæðingar) við því vera að "deila of miklu".  Afhverju ætti þá að langa að vita að píkunni okkar blæði? Getum við ekki haldið því bara fyrir okkur?? 

Á meðan þetta hugarfar ríkir þykir mér ekkert skrítið að stelpur upplifi sorg og jafnvel skömm þegar þær byrja fyrst á blæðingum. Ég man allavega að svoleiðis upplifði ég túrinn minn lengi vel. Ég man hvað mér fannst þetta hryllilegt. Ég grátbað mömmu að segja pabba alls ekki frá því að ég væri byrjuð því mér þótti það svo neyðarlegt. Ég man einnig eftir því þegar það lak í fyrsta skipti í gegn hjá mér. Ég var að gista hjá frænku minni og það lak í rúmið. Þetta var mín versta martröð og ég bjó um rúmið og passaði mig að segja ekkert, hrædd um að hún yrði reið. 

Það er ekki langt síðan ég áttaði mig á því hvað þetta er rangt.
Hvað það er rangt að ungar stelpur upplifi skömm yfir því að byrja á blæðingum. Skömm yfir því hvernig líkaminn þeirra virkar og þörf til að fela það. 
Hvað það er rangt að konur þurfi að skammast sín fyrir eitthvað svo náttúrulegt og magnað eins og tíðarhringinn.
Hvað það er rangt að stelpur og konur aftengi sig líkama sínum og forðist það að skilja og upplifa það sem er að gerast. 

Er ekki löngu kominn tími til þess að þetta úrelta hugarfar deyi út? Er ekki kominn tími til þess að við myndum jákvætt hugarfar gagnvart blæðingunum okkar? Jákvætt.. tíðarfar? 

Nýlega skrifaði ég færslu um mánabikarinn og fór ítarlega í það hvers vegna ég nota hann og afhverju mér þykir hann besti kosturinn þegar kemur að tíðarvörum. Færsluna má lesa HÉR
Þegar ég byrjaði að nota mánabikarinn gjörbreyttist hugarfarið mitt gagnvart blæðingunum mínum. Ég fór að kynnast sjálfri mér og blæðingunum betur og lærði inná það til dæmis hvaða daga mér blæðir mikið og hvaða daga mér blæðir minna. Mér hætti að þykja þetta subbulegt og fór að átta mig á því hversu ótrúlega náttúrulegar og magnaðar blæðingar raunverulega eru. Það var þá sem eitthvað small hjá mér. Ég sá hversu eitrað hugarfar ég hafði haft alveg síðan ég byrjaði í fyrsta skipti á túr. En það sem meira var, ég áttaði mig á því að þetta eitraða hugarfar kom ekki frá sjálfri mér heldur samfélaginu í heild.  Þess vegna er mikilvægt að þessu verði breytt og breytingarnar byrja hjá okkur sjálfum. 

Frelsið sem ég fann hjá sjálfri mér þegar ég ákvað að horfa á blæðingarnar mínum öðrum augum var vissulega mikið. Jákvætt hugarfar gagnvart blæðingum þýðir þó ekkert endilega að þú þurfir að elska það að vera á túr. Við vitum jú flestar að sá tími getur verið erfiður. Til að mynda fá margar stelpur mikla túrverki og verða jafnvel svolítið viðkvæmar. Mundu að þínar blæðingar eru þínar blæðingar og þú hefur fullan rétt á að upplifað þær á þinn hátt.

Jákvætt hugarfar gagnvart blæðingum þýðir einfaldlega að talað sé um blæðingar sem náttúrulegan, eðlilegan hlut sem er ekki vitund subbulegur eða neitt til að skammast sín fyrir. 
 

Hvað hefur breyst síðan ég fór að tileinka mér jákvætt "tíðarfar"?

  • Ég er tengdari sjálfri mér sem konu.
  • Ég er mun fróðari um líkamann minn og hef áttað mig á því að blæðingarnar mínar eru ekki ógeðslegar. Þvert á móti gegna þær mikilvægu hlutverki og hjálpa mér að skilja hormónastarfsemi mína betur.
  • Ég hlúi betur að sjálfri mér þegar ég er á blæðingum og sérstaklega þegar ég er með mikla túrverki. Ég leyfi mér að slaka á og prufa mig áfram með það hvernig ég geti látið sjálfri mér líða sem best á þeim tímum. Því má segja að ég sé loksins farin að hlusta meira á líkamann minn. 
  • Ég er hætt að vera hrædd við að tala um blæðingar og finnst mikilvægt að talað sé opinskátt um þær. 
  • Ég er hætt að bölva því að vera kona og hætt að líta á blæðingar sem neikvæðan hlut eða "álög" í fari kvenna. 
  • Í rauninni líður mér bara mun betur í eigin skinni og sýni sjálfri mér og líkamanum mínum meiri ást og umhyggju. 

Ég mæli með því að við stoppum aðeins og hugsum dæmið uppá nýtt. Blæðingar eiga ekki að vera tabú. Við eigum að vera stoltar af líkamanum okkar og starfsemi hans. Það er okkar að breyta þessu hví ekki að byrja í dag?

Helga María