Pönnubrauð

IMG_1978.jpg
IMG_1985.jpg

Heimabakað brauð getur sett punktinn yfir i-ið þegar kemur að ýmsum máltíðum. Það er því virkilega hentugt að kunna að gera einfalt og fljótlegt brauð til að hafa með matnum. Ég komst fyrir nokkru upp á lagið með að gera pönnubrauð en það er einstaklega þægilegt þar sem þarf hvorki að hefa það né baka í ofni.  Hráefnunum er einfaldlega skellt saman og brauðið steikt í nokkrar mínútur á pönnu. Þetta brauð passar fullkomlega með alls konar pottréttum og súpum.

IMG_2011.jpg

Hráefni:

 • 4 dl spelt hveiti
 • 2 dl vatn
 • örlítið salt

Aðferð:

 1. Blandið öllum hráefnunum saman og bætið við meiru hveiti ef deigið er blautt.
 2. Skiptið deiginu í 6 litlar kúlur.
 3. Fletjið kúlurnar út og steikið í nokkrar mínútur á heitri þurri pönnu.
 4. Gott er að pensla brauðið með vegan hvítlaukssmjöri um leið og það kemur af pönnunni en það er alls ekki nauðsynlegt.

-Veganistur

 

Hemp-parmesan

IMG_9105.jpg

Ég geri oft parmesan úr kasjúhnetum og næringargeri sem er fullkominn á pastarétti. Þar sem kærastinn minn er með ofnæmi fyrir hnetum byrjaði ég að prufa mig áfram og útbúa parmesan úr t.d sólblómafræjum og hempfræjum. Það bragðast virkilega vel og í dag ætla ég að deila með ykkur þessari einföldu uppskrift.

Hemp-parmesan:

 • 1/2 bolli hempfræ
 • 3 msk næringarger
 • Örlítið hvítlauksduft
 • Örlítið laukduft
 • 1/2 tsk salt

Skellið öllu í blandara og púlsið nokkrum sinnum. Það þarf ekki að mylja hann alveg niður í duft heldur er betra að hafa hann smá "chunky"

Veganistur

Einfalt hvítlauksbrauð

IMG_9107.jpg

Þessi uppskrift er svo einföld að hún telst varla sem uppskrift. Þó langaði okkur að deila henni með ykkur því þetta hvítlauksbrauð er ómissandi með góðum pastaréttum. Þegar við vorum yngri keypti mamma okkar stundum tilbúið hvítlauksbrauð til að setja í ofninn og við héldum mikið uppá það. Þetta brauð bragðast nákvæmlega eins, ef ekki betra.

IMG_9050.jpg

Hvítlauksbrauð:

 • Baguette
 • Vegan smör eftir smekk
 • 1-2 hvítlauksgeirar (fer eftir því hversu mikið smjör notað er)
 • Örlítið salt

Aðferð:

 1. Skerið baguette í sneiðar. Ekki skera alveg niður samt heldur búið til svona djúpar rákir en passið að brauðið haldist ennþá saman
 2. Blandið saman smöri, pressuðum hvítlauk og salti. Það fer alfarið eftir smekk hversu mikið hvítlaukssmjör fólk vill hafa. Ég vil hafa mitt vel safaríkt að innan svo ég notaði 2 kúfullar msk af smjöri og svo 2 frekar litla hvítlauksgeira
 3. Skiptið smjörinu niður í rákirnar og troðið því vel á milli. það má alveg verða smá eftir ofan á brauðinu, það er bara betra
 4. Setjið í ofninn á 200°c í nokkrar mínútur eða þar til brauðið er orðið smá gullið að ofan og smjörið alveg bráðið innan í
 5. Berið fram heitt með því sem ykkur lystir

-Veganistur

Gómsætt grænkálssnakk

IMG_8736.jpg

Ég gleymi því aldrei þegar ég smakkaði grænkál í fyrsta sinn. Ég hafði enga hugmynd um hvernig ætti að matreiða það svo ég skellti því í skál ásamt allskonar grænmeti og útbjó stærðarinnar salat. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvernig mér leið þegar ég tók fyrsta bitann. Kálið var gróft, þykkt og stíft. Ég gat með engu móti skilið afhverju grænkálið var svona vinsæl fæða og afhverju fólk borðaði ekki miklu frekar venjulegt iceberg. Ég ákvað því að grænkál væri ekki minn tebolli.

IMG_8636.jpg
IMG_8644.jpg

Það leið þó ekki á löngu þar til ég fékk grænkálssalat sem lét mig endurskoða málið. Salatið var mjúkt, yndislega bragðgott og síður en svo erfitt að tyggja. Ég lærði þá að galdurinn til að útbúa gott grænkálssalat er að nudda það vel uppúr góðri dressingu. Síðan þá hefur grænkál verið reglulegur partur af matarræðinu mínu. 

Grænkál er hægt að njóta á ýmsa vegu. Auk þess að henta vel í salöt er það góður grunnur í þeytinga og græna safa, en einnig er hægt að útbúa úr því dýrindis grænkálssnakk. Ég viðurkenni að ég hafði ekki mikla trú á því að mér myndi þykja grænkálssnakk neitt svakalega gott. Mér hefði seint dottið í hug að gera snakk úr káli, en var þó svolítið forvitin. Það má með sanni segja að snakkið hafi komið mér gríðarlega á óvart. Ég ætla að deila með ykkur uppskriftinni sem ég geri yfirleitt, en hún er bæði einföld og fljótleg. 

IMG_8688.jpg
IMG_8710-2.jpg

Grænkálssnakk

Uppskriftin er fyrir tvær ofnplötur

 • 1 búnt grænkál
 • 1 msk olía
 • 2 tsk hvítlauksduft
 • 1 tsk laukduft
 • Chili flögur eftir smekk
 • 3 msk næringarger
 • salt eftir smekk
 1. Hitið ofninn á sira 150°c
 2. Þvoið grænkálið, þurrkið það vel, fjarlægið blöðin af stilkunum og rífið hvert blað í nokkra stóra bita
 3. Setjið grænkálið í stóra skál og nuddið olíunni saman við. Passið að hún þekji öll blöði. 
 4. Hellið kryddunum og næringargerinu út í og blandið vel saman við kálið
 5. Leggið kálið á ofnplötu með bökunarpappír. Það skiptir máli að dreifa vel úr kálinu og hafa einungis eitt lag á hverri plötu svo snakkið verði stökkt og gott. Þess vegna geri ég frekar tvær plötur ef ég þarf.
 6. Bakið snakkið á 140°c hita í 20-25 mínútur. stundum sný ég plötunni þegar bökunartíminn er hálfnaður en það er samt ekki nauðsynlegt. 
 7. Leyfið snakkinu að kólna aðeins á plötunni áður en það er borið fram. 

Mér finnst gott að útbúa ídýfu með snakkinu. Uppskriftin af henni er mjög einföld. Ég blanda sýrða rjómanum frá Oatly saman við laukduft, hvítlauksduft, steinselju eða kóríander, salt og pipar. Þessi ídýfa er virkilega góð og hentar mjög vel með grænkálssnakkinu sem og öðru snakki. 

Helga María

 

Bananamöffins

download (4).jpeg

Þegar ég á banana sem eru orðnir mjög þroskaðir skelli ég yfirleitt í þessar góðu bananamuffins en ég baka þær örugglega að minnsta kosti einu sinni í viku. En þær eru ótrúlega góðar og hollar og fara einstaklega vel í nestisboxi

download (2).jpeg

Hráefni:

 • 1 bolli spelt frá himneskri hollustu
 • 1/2 bolli malað haframjöl frá himneskri hollustu
 • 1 tsk matarsódi
 • 1 tsk lyftiduft
 • 1/2 tsk kanill
 • 1 bolli stappaðir bananar (rúmlega 3)
 • 1/3 bolli hlynsíróp
 • 1 bolli plöntumjólk
 • 1 bolli saxað súkkulaði eða rúsínur

Aðferð:

 1. Blandið þurrefnunum saman í skál
 2. Bætið öllu nema súkkulaðinu/rúsínunum saman við og hrærið saman. Setjið súkkulaðið/rúsínurnar síðast og blandið við deigið.
 3. Bakið muffinsarnar í 18-20 mín í 175°C heitum ofni.
download (1).jpeg

Njótið vel
- Júlía Sif

Fjórir Vegan Partýréttir

Eurovision er næstu helgi. Flestir Íslendingar fara í Eurovision-partý, hvort sem þeim þykir keppnin skemmtileg eða ekki. Það er alltaf fínt að hafa afsökun til þess að hitta vini og/eða ættingja, belgja sig út af allskonar grillmat og snarli og skemmta sér fram eftir kvöldi. 

Við systur elskum öll tilefni sem tengjast mat. Við elskum að útbúa spennandi rétti til að taka með í partý og matarboð. Það er samt svolítið algengt að í boðunum séu allskonar fjölbreyttar kræsingar en ekkert vegan fyrir utan saltaðar kartöfluflögur. Við ákváðum því í samstarfi við Krónuna að skella í fjóra gómsæta rétti sem eru fullkomnir fyrir Euro-partýin og allir ofur einfaldir og fljótlegir. 

 

1. Vegan eðla

Sko, þessi uppskrift er kannski engin svaka uppskrift, en þessi gómsæta heita ídýfa er ómissandi í alvöru partý. Ídýfan hefur verið vinsæl í langan tíma en síðustu ár hefur hún gengið undir nafninu ,,eðla." Við höfum gert vegan eðlu ótal oft, hún er alveg jafn góð og þessi sem við borðuðum hér áður fyrr. Nýlega hóf Krónan að selja uppáhalds vegan rjómaostinn okkar sem hefur ekki fengist hér á landi í rúm tvö ár. Það gleður okkur að sjálfsögðu mikið því okkur finnst hann langbestur í svona eðlu. 

 • 1 askja creamy Sheese original 
 • 1 krukka salsasósa
 • Follow your heart pizzeria blend ostur - það er undir hverjum og einum komið hversu mikið magn af osti er sett yfir, en við setjum vel af honum. Osturinn frá Follow your heart er einn af okkar uppáhalds vegan osti.
  Ath: Það er mismunandi hversu stórt eldfast mót fólk notar. Við miðum yfirleitt við að hafa sirka 1 cm þykkt af rjómaostinum, 1 cm af salsasósunni og setjum ostinn þannig að hann hylji allt. 
 1. Smyrjið rjómaosti í eldfast mót
 2. Hellið salsasósunni yfir
 3. Stráið osti yfir þannig að hann hylji vel
 4. Setjið inn í ofn á 200°c í 15-20 mínútur eða þar til osturinn er bráðinn
 5. Berið fram með snakki að eigin vali. Við notuðum tegund af Dorítós flögum sem er ný í verslunum hér á landi. Flögurnar eru í gulum pokum og heita Lightly salted. (Svart dórítos er líka vegan og mjög gott.)

Eins og við segjum, þetta er varla uppskrift, en það er ekki hægt að gera partýrétta færslu án þess að hafa þessa ídýfu með. 

2. Rocky road bitar

Næsta uppskrift er eiginlega svolítið ólík öllu sem við höfum smakkað. Þetta gómsæta sælgæti kallast Rocky road á ensku, en við vitum ekkert íslenskt nafn yfir bitana. Þetta var í fyrsta skipti sem við útbúum rocky road og urðum því að nota hugmyndarflugið. Það heppnaðist heldur betur vel og bitarnir eru ómótstæðilega góðir. 

 • 4 stykki Vego súkkulaði
 • 100 g suðusúkkulaði
 • 1 tsk kókosolía
 • 2 bollar nammi að eigin vali (Við notuðum tvær tegundir af hlaupinu frá Bubs, saltstangir, lakkrísreimar frá Appolo og svolítið af heslihnetunum úr Vego súkkulaðinu)
 1. Bræðið vego súkkulaðið og suðusúkkulaðið ásamt kókosolíu
 2. Veiðið hneturnar uppúr súkkulaðinu þegar það er bráðið. Ef þið viljið hafa mikið af hnetum þá auðvitað hafiði þær bara í, en við notuðum sirka 1 msk af hnetunum því þær eru annars svolítið yfirþyrmandi. Ástæðan fyrir því að við notuðum Vego súkkulaðið er því það er langbesta súkkulaðið að okkar mati, það gjörsamlega bráðnar uppí manni. 
 3. Klippið lakkrísreimarnar í bita, brjótið saltstanginar niður og blandið saman við súkkulaðið í stóra skál ásamt hlaupinu og hnetunum
 4. Setjið smjörpappír í eldfast mót og hellið sælgætisblöndunni ofan í 
 5. Geymið í ísskáp í klukkutíma og skerið svo niður í munnbita

Við vorum ekkert smá ánægðar með rocky road bitana. Það er algjörlega valfrjálst hvaða sælgæti er notað en okkur fannst þessi blanda alveg fullkomin.

3. BBQ Oumph! salat með mæjónesi

Við fengum hugmyndina af næsta rétti í Pálínuboði fyrir rúmu ári. Þar var gómsætt BBQ-mæjónes salat borið fram með ritzkexi og við ákváðum strax að búa til okkar útgáfu af svoleiðis. Salatið er æðislegt og er fullkomið með kexi eða á samlokur. Júlía bauð uppá svona salat á kaffistofunni í vinnunni sinni fyrir stuttu og það sló í gegn. 

 • 1 poki Oumph - pure chunk. Við ætluðum að nota pulled Oumph því það inniheldur BBQ sósu. Það var hinsvegar ekki til í Krónunni í dag svo við tókum til okkar ráða og bjuggum til okkar eigin útgáfu
 • 1 miðlungs laukur - smátt saxaður 
 • 6 sneiðar af jalapenos - smátt saxað (það er undir hvern og einn komið hversu sterkt hann við hafa salatið) 
 • 3 dl BBQ sósa
 • 3 msk vegan mæjónes frá Follow your heart (Vegenaise)
 • örlítið salt
 1.  Ef þið notið pulled oumph er fyrsta skrefið ekki nauðsynlegt. Hinsvegar ef þið notið pure chunk mælum við með því að leyfa því að þiðna í sirka hálftíma, rífa bitana í sundur (við notuðum tvo gaffla í verkið), blanda þeim saman við BBQ sósuna í stórri skál og leyfa því að standa í marineringu í sirka hálftíma. 
 2. Steikið laukinn á pönnu í nokkrar mínútur
 3. Bætið jalapenos á pönnuna ásamt oumph-bitunum og steikið í sirka 10 mínútur
 4. Hellið blöndunni í skál og leyfið henni að kólna
 5. Blandið mæjónesinu saman við
 6. Berið fram. Okkur þykir gott að bera salatið fram með ritz kexi eða útbúa litlar samlokur t.d úr Baguette brauði

4. Smjördeigs-hnetusmjörs-súkkulaði-ávaxtasæla með vanilluís

Þennan "rétt" skálduðum við upp í morgun. Við vissum ekkert hvort þetta myndi koma vel út eða misheppnast hryllilega. Við urðum ekkert smá hissa á því hvað þetta smakkaðist æðislega vel en á sama tíma hissa yfir því að okkur hafi ekki dottið þetta í hug fyrr. Við höfum ekkert nafn yfir þessa dásemd. Okkur datt fyrst í hug að útbúa einhverskonar eftirrétta-pizzu en ákváðum svo að nota smjördeig. Það vita það ekki allir en smjördeig inniheldur sjaldan smjör og er því oft vegan. Það kemur sér einstaklega vel því smjördeig býður uppá allskonar möguleika. 

 • 3 plötur af smjördeigi. Við notuðum deigið frá TC brød
 • 100 g suðusúkkulaði
 • 2,5 msk fínt hnetusmjör
 • 1 tsk flórsykur
 • ávextir að eigin vali - við notuðum banana og jarðarber
 • NadaMoo! vanilluís  - valfrjáls
 1. Leyfið smjördeigsplötunum að þiðna svona hálfpartinn
 2. Leggið plöturnar hlið við hlið, fletjið þær aðeins út og festið saman þannig þær myndi eina plötu. Gatið deigið vel með gaffli og útbúið smá kannt (það er gert svo sósan hellist ekki um allt þegar henni er smurt á)
 3. Bakið smjördeigið í 15 mínútur á 190°c eða þar til það verður örlítið gyllt
 4. Bræðið súkkulaðið og blandið saman við það hnetusmjörinu og flórsykrinum
 5. Smyrjið sósunni á smjördeigið þegar það er tilbúið og komið úr ofninum
 6. Raðið ávöxtunum á, sigtið flórsykur yfir og toppið að lokum með vanilluís. Þetta er bæði hægt að bera fram heitt og kalt, við smökkuðum bæði og fannst hvoru tveggja æðislegt. 

Vonandi gefa þessir réttir ykkur smá innblástur til þess að útbúa fjölbreytta veganrétti í Europartýunum næstu helgi, við erum allavega ótrúlega spenntar. 

 

Færslan er unnin í samstarfi við Krónuna og fást öll hráefnin þar. 

Kínóa og haframjöls laugardagsnammi

Ég elska að eyða tíma í eldhúsinu en um helgar þegar ég hef tíma langar mig oft að búa til eitthvað gott með kaffinu. Mér datt í hug þessa helgina að gera gömlu góðu rice krispies kökurnar sem allir þekkja örugglega vel. 

Það er örlítið vandasamt að finna vegan rice krispies hér á landi en það er þó til. Ég hef bara fundið það í Nettó en þeir virðast einungis selja vegan útgáfuna. Það sem þarf að passa þegar leita á af vegan úgáfunni er að ekki sé viðbætt D-vítamín í morgunkorninu. Ég átti því miður ekki rice krispies og nennti ekki út í búð þar sem ég vissi að ég ætti örugglega eitthvað sem ég gæti notað í staðin. 

Ég fann í skápunum hjá mér poppað kínóa og haframjöl og ákvað að prófa að nota það. Það kom ótrúlega vel út og er nammið hollara fyrir vikið. Ég ákvað því aðeins að breyta þessari hefðbundnu uppskrift og reyna að gera hana örlítið hollari. Ég skipti smjöri út fyrir kókosolíu og sykrinu fyrir kókospálmasykur og síróp, en þetta átti nú einu sinni að vera nammi. Ég ákvað svo að setja smá hnetusmjör útí þar sem ég átti það til og datt í hug að það myndi gefa mjög gott bragð.

Hráefni:

 • 150 ml kókosolía
 • 80 gr gott dökkt súkkulaði (ég notaði 70% súkkulaði)
 • 1/2 dl kókospálmasykur
 • 2 msk agave síróp
 • 1 dl hnetusmjör (ég nota hnetusmjörið frá Sollu)
 • 4 dl poppað kínóa
 • 3 dl haframjöl

Aðferð:

 1. Bræðið saman við lágan hita súkkulaði, kókospálmasykur og síróp. Það þarf að passa að hræra stanslaust í sykrinum því hann brennur mjög auðveldlega.
 2. Þegar sykurinn er bráðin setjið kókosolíuna útí og hitið þar til suðan kemur upp. Hrærið ennþá stanslaust í blöndunni svo hún brenni ekki.
 3. Takið pottið af hellinn um leið og suðan kemur upp og hrærið hnetusmjörinu út í. Leyfið blöndunni að kólna í 5-10 mínútur svo hún þykkni örlítið. 
 4. Hellið út í kínóanu og haframjölinu og hrærið vel svo það sé allt blandað í súkkulaðinu.
 5. Hellið blöndunni í eldfastmót, en það er mjög gott að hafa smjörpappír undir. Leyfið namminu að vera í frysti í 40-60 mínútur, áður en það er tekið út og skorið í bita.

Súkkulaði prótínstykki

Ég er búin að vera soldið að taka matarræðið mitt í gegn núna í janúar, eftir allt sukkið fyrir jólin. En nú er það orðið svoleiðis hérna á Íslandi að úrvalið af vegan mat, skyndibita, sætindum og bara öllu tilheyrandi er orðið svo gífurlega mikið að það er mjög auðvelt að týna sér í óhollum og næringarsnauðum kostum. Mér fannst því komin tími til að taka nokkur skref til baka og hugsa meira um það hvað ég set ofan í mig. Þegar við systur byrjuðum þetta vegan ferðalag okkar áttum við heima saman og þá var úrvalið af óhollum vegan mat ekki neitt. Við borðuðum því alveg ótrúlega hollt alla daga og sukk var bara eiginlega ekki í boði. Ég er mikið farin að sakna þess, þar sem maður var alltaf stútfullur af orku og leið alveg ótrúlega vel. Ekki misskilja þetta samt, ég er mjög ánægð með sukk úrvalið, það þarf bara aðeins að passa sig að gleyma ekki að næra líkaman almennilega líka.

Ég vissi þó að ég þyrfti að finna eitthvað sem mér fannst gott til að grípa í þegar sætindalöngunin færi að láta bera á sér. Þegar við Ívar vorum að ferðast fyrir ári kynntumst við Clif bar. Við boðuðum mjög mikið af þeim þar sem þeir fengust víða og voru mjög næringaríkir og góðir. Mér datt því í hug að reyna að búa til eitthvað svipað. Einhver svona góð orkustykki sem væru holl og næringarík.

Það er þó hægt að fá fjöldan allan af tilbúnum næringarstykkjum í flestum búðum, sum mjög góð og önnur síðri, en þau hafa það öll sameiginlegt að vera alveg virkilega dýr. Mig kítlaði því mikið í fingurna að reyna að gera eitthvað svona sjálf heima. Það sparar manni alltaf hellings pening að búa til hlutina sjálfur og svo finnst mér alveg frábært að vita alveg upp á hár hvað er í matnum sem ég er að borða.

Eins og mér datt í hug var alls ekki flókið að gera stykkin sjálfur og það tók enga stund. Þau heppnuðust líka alveg ótrúlega vel og hafa verið til hérna heima síðan ég bakaði þau fyrst í byrjun janúar. Við tökum þessi stykki með okkur út um allt, en þau hafa oft bjargað okkur þegar maginn hefur verið sár og við að flýta okkur eitthvað. Það er fyrir öllu að hafa eitthvað gott til að grípa í og vita á sama tíma að það er stútfullt af hollri og góðri næringu.

Hráefni:

 • 15 fersk­ar döðlur
 • 1 dl haframjólk
 • 1 msk. möndl­u­smjör
 • 2 tsk. kó­kospálma­syk­ur (eða sæta að eig­in vali)
 • 1/ - 1 msk. hrákakó
 • 1/ dl veg­an-súkkulaðiprótein (við notuðum hráa próteinið frá Sun warri­or)
 • 2 msk. hör­fræmjöl
 • 1 1/ dl trölla­hafr­ar (við not­umst við glút­en­lausa hafra)
 • 1 dl poppað kínóa (en það færst í heilsubúðum sem og hagkaup og nettó)
 • 1/ dl kó­kos­mjöl
 • 30 gr 70% súkkulaði

Aðferð:

 1. Byrjið á því að taka stein­ana úr öll­um döðlun­um.
 2. Setjið döðlur, haframjólk, möndl­u­smjör, kó­kospálma­syk­ur, kakó og prótein í bland­ara eða mat­vinnslu­vél og blandið þar til þetta verður að sléttu mauki.
 3. Hrærið mauk­inu sam­an við hafr­ana, kínóað, kó­kos­mjölið og súkkulaðið með sleif þar til það er vel blandað sam­an.
 4. Það má bæði rúlla deig­inu í kúl­ur og borða hrá­ar eða móta í stykki og baka við 180°C í 15 mín­út­ur. Ég mæli með að prófa hvort tveggja og finna út hvað ykk­ur finnst best.

Njótið vel
-Júlía Sif

Pulled Oumph! borgari með jalapeno mæjó og gómsæt ídýfa

Ég held að flestum Íslendingum líði þessa dagana eins og þeir gangi um í draumi. Karlalandsliðið okkar í fótbolta spilar í átta liða úrslitum á Evrópumeistaramótinu á morgun. Þetta lið er eitt af átta bestu fótboltaliðum evrópu. Og ekki gengur kvennaliðinu verr, efstar í undankeppni evrópumótsins sem fer fram á næsta ári, búnar að skora tæp 30 mörk og fá engin á sig. Ég er allavega í sjokki og ekkert smá stolt af þessu fólki og því að litla landið okkar skari fram úr á svo mörgum sviðum. Líkt og flestir Íslendingar ætla ég að horfa á leikinn á sunnudaginn, en leikurinn er sýndur klukkan 19:00, einmitt á kvöldmatartíma. Því er eiginlega nauðsynlegt að hafa eitthvað gott að borða á meðan. Það verður þó að vera eitthvað auðvelt þar sem spennan og stressið sem við munum finna fyrir á sunnudaginn mun örugglega hindra flókna eldamennsku. Ég ákvað því að á sunnudaginn þyrfti ég að hafa eitthvað rosalega gott en einnig rosalega auðvelt í matinn.

Þegar ég var í Svíþjóð hjá Helgu í maí fórum við á skyndibitastaðinn Max, en hann er nýlega farin að bjóða upp á vegan borgara. Þetta er þó ekki hinn hefðbundni grænmetisborgari en uppistaðan í honum var Pulled Oumph. Mér datt því í hug að reyna að endurgera þennan borgara þar sem ekki er erfitt að nálgast Pulled Oumph þessa dagana á Íslandi. Það gekk líka svona ljómandi vel og útkoman varð æðisleg máltíð sem tók örskamman tíma að útbúa. Ég ætla að deila með ykkur uppskriftinni af borgaranum svo þið getið notið hans yfir leiknum á morgun líkt og ég mun gera.

Pulled Oumph borgari (ein uppskrift verður að tveimur borgurum)

1 poki Pulled Oumph
2 hamborgarabrauð (athugið að brauðin sem þið kaupið séuð vegan, en brauðin frá Myllu eru það til dæmis)
Það grænmeti sem hugurinn girnist, en ég notaði kál, gúrku og tómata.
Jalapeno mæjónes

Borgarinn er mjög auðveldur í eldamennsku en það eina sem þarf að gera er að steikja Oumphið þar til það er tilbúið og setja á hamborgarabrauð ásamt sósunni og grænmetinu. Ég bar borgarann fram með kartöflubátum og vegan hrásalati. En uppskriftin af hrásaltinu má finna HÉR. Fyrir þá sem ekki vita hvað Oumph er, þá er það soja kjöt sem líkist kjúklingi mjög mikið. Pulled Oumph er í bbq sósu og því þarf ekki einu sinni að krydda það og því mjög auðvelt að gera góða máltíð úr því. Hægt er að fá Oumph í nánast öllum Krónu búðum á landinu.

Jalapeno mæjónes

1 dl vegan mæjónes
3 skífur niðursoðið jalapeno mjög smátt skorið
nokkrir dropar af sítrónusafa
salt og pipar

Hrærið öllu saman í skál. Hægt er að fá vegan mæjónes t.d. í Hagkaup frá Just Mayo en mér finnst lang best að gera bara heimatilbúið mæjónes en það er mjög auðvelt. Uppskrif af mæjó er að finna HÉR


Ég ætla einnig að deila með ykkur uppáhalds sjónvarpsmönnsinu mínu. Þessa ídýfu kenndi mamma vinkonun minnar okkur að gera þegar við vorum litlar en mér fannst þessi uppskrift hljóma svo illa að ég var staðráðin í að mér myndi sko ekki finnast þetta gott. Ástæðan var örugglega sú að ídýfan samanstendur af sósu með fullt af grænmeti ofan á. Mér fannst alveg furðulegt að maður myndi setja grænmeti á eitthvað sem ætti að vera borðað yfir sjónvarpinu á föstudagskvöldi. Ég hefði þó ekki getað haft meira rangt fyrir mér þar sem þessi ídýfa er það besta sem ég veit og heldur betur tilvalinn með leiknum á sunnudaginn. Einnig er hún alls ekkert óholl og þarf maður því ekki að sitja með samviskubit eftir að maður gæðir sér á henni.

Ídýfa Önnu í Túni (ein uppskrift verður að ágætisstærð af ídýfu sem gott er að deila með vinum og fjölskyldu)

1 dós vegan rjómaostur (tofutti rjómaosturinn er mjög góður en hann fæst í Hagkaup)
1 dós (sirka 300 gr) salsa sósa
Það grænmeti sem hugurinn girnist, t.d. kál, gúrka, tómatar og paprika, en það er það sem ég notaði

Hrærið rjómaostinn ötlitla stund með handþeytara. Hrærið salsasósunni út í og setjið blönduna í það ílát sem þið hyggist bera ídýfuna fram í. Gott er að nota einhversskona eldfast mót eða bakka en blandan á að vera sirka einn cm þykk í botninum. Skerir grænmetið mjög smátt og stráið yfir. Berið ídýfuna fram kalda með tortilla snakki eða svörtu doritos, en það er vegan. Ef tíminn fyrir leikinn er naumur er gott að gera ídýfuna fyrr um daginn en þá er sniðugt að skera vatnsmesta partin úr gúrkunni (miðjuna) og sleppa tómötunum svo ídýfan verði ekki vatnskennd.

 

Ég hvet alla til að prófa þessar uppskriftir og hafa með leiknum á morgun, en ef þið gerið það má alltaf pósta á instagram og merkja #veganistur eða senda okkur myndir á snapchat, en við elskum að fá myndir frá ykkur.

 

 Júlía Sif