Vegan páskaegg

Ég hef ekki keypt mér páskaegg um páskana síðan ég gerðist vegan. Í staðinn hef ég lagt það í vana minn að kaupa mér bara uppáhalds vegan nammið mitt og háma það í mig á meðan að hinir gæða sér á eggjunum sínum. Úrvalið af vegan nammi er orðið svo gríðarlegt í dag að það er ekkert mál fyrir grænkera að njóta hátíðarinnar.

Þetta árið er þó hægt að fá vegan páskaegg í Krónunni en ég ákvað samt að búa mér til mitt eigið egg í fyrsta skipti. Páskaeggið í Krónunni er úr suðusúkkulaði en mig langaði í egg úr vegan mjólkursúkkulaði sem myndi minna meira á það sem ég var vön að borða áður. Ég hafði hugsað um að búa mér til páskaegg í svolítinn tíma en aldrei lagt í það. Ég ákvað að láta reyna á það og ég sé svo sannarlega ekki eftir því.

Það að gera heimagerð páskaegg var þó örlítið meira maus en ég hélt. Það var alls ekki flókið eða erfitt, það var bara aðeins tímafrekara en ég hafði gert ráð fyrir. Ég varð sem betur fer ótrúlega sátt með útkomuna sem gerði þetta allt þess virði.  Ég ætla að deila með ykkur mínum ráðum og því nammi sem ég notaði í eggin.

Ichoc súkkulaðið er uppáhalds súkkulaðið mitt og því fannst mér tilvalið að nota það til að útbúa páskaeggin. Ichoc er vegan mjólkursúkkulaði gert úr hrísgrjónamjólk og það fæst í nokkrum tegundum sem eru allar ómótstæðilega góðar. Súkkulaðið hentaði fullkomlega í páskaeggin sem gerði mig að sjálfsgöðu virkilega glaða, það var mjög auðvelt að vinna með það og það harnaði vel. Páskaegg eru ekki alvöru páskaegg nema þau séu stútfull af gómsætu nammi. Ef maður ætlar á annað borð að belgja sig út af sykri verður maður að gera það almennilega. Ég fór því í leiðangur og valdi mitt uppaáhalds nammi til þess að setja inní eggin. Formin fékk ég í búðinni Allt í köku, en þar fást páskaeggjamót í öllum stærðum og gerðum. Ég notaði mót sem eru 19 centímetrar en mér finnst það mjög mátuleg stærð.

Hráefni í eitt egg:

 • 4 plötur Ichoc súkkulaði (320 gr) (Classic súkkulaðið henntar best en ég gerði líka úr hvíta súkkulaðinu og núggat súkkulaðinu)
 • það nammi sem hugurinn girnist (ég notaði eftirfarandi)
  • bubs hlaup (fæst í Krónunni)
  • biona hlaup (fæst í Nettó)
  • dökkt brak (fæst í Iceland)
  • lakkrís (flestur íslenskur lakkrís er vegan, fyrir utan fylltan lakkrís og lakkrískonfekt. ATH mjólkursýra er vegan og hefur ekkert með kúamjólk að gera)
  • svartur brjóstsykur
  • Hjúpaður lakkrís sem ég hjúpaði sjálf með classic súkkulaðinu

Aðferð:

 1. Það er nauðsynlegt að "tempra" súkkulaðið eins og það er kallað en þá er 2/3 af súkkulaðinu eða í þessu tilfelli u.þ.b. 200 gr brætt yfir vatnsbaði og hrært í á meðan. Þegar súkkulaðið er bráðið er það tekið af hitanum og restinni sem var tekin frá (1/3) bætt út í og hrært þar til allt er bráðnað.
 2. Súkkulaðinu er hellt í páskaeggjaformin og vellt um í góða stund. Mér fannst best að setja vel í fomin, velta því um og leggja fomin svo á hvolf yfir skálina í allt að 10 mínútur. Þetta er svo endurtekið nokkrum sinnum eða þar til frekar þykkt lag af súkkulaði hefur myndast í formin. Passa þarf að brúnirnar séu einnig þykkar svo auðvelt sé að festa eggin saman.
 3. Ef setja á eitthvað í súkkulaðið líkt og lakkrískurl eða krispies er best að setja eitt lag af súkkulaði fyrst í formin áður en kurlinu er bætt út í. 
 4. Formin þurfa síðan að sitja í frysti í allavega 30 mínútur eða þar til súkkulaðið hefur losnað frá plastinu. Þegar fomið er lagt á hvolf á eggið að detta auðvledlega úr.
 5. Til að festa eggin saman er best að vera með súkkulaði sem hefur verið "temprað" og leyft að kólna við stofuhita þar til það verður ágætlega þykkt. Munið að fylla eggin með nammi og málshætti áður en því er lokað.

Gleðilega páska

22710108_10155093561382525_553341027_n.jpg

Afmælis brunch + tvær uppskriftir

Ég átti 21. árs afmæli í vikunni og ákvað að bjóða vinum mínum í smá brunch um helgina. Ég var búin að ákveða fyrir löngu að halda upp á afmælið mitt þar sem ég hef ekki gert það í mörg ár. Ég ætlaði að halda partý og bjóða öllum og hafa rosa gaman en þar sem ég er alls ekki djamm manneskja hætti ég fljótt við það þegar ég fór að hugsa þetta betur. Ég alveg elska að elda eins og þið vitið líklegast öll en það sem mér finnst eiginlega ennþá skemmtilegra er að leyfið öðrum að njóta með mér. Ég ákvað því að bjóða þeim í brunch þar sem að það er svo rosalega vinsælt hjá öllum núna.

Mér fannst tilvalið að gera smá bloggfærslu úr þessu til þess að sýna ykkur að það er ekkert mál að gera risastóran og góðan brunch með alls konar góðgæti þó maður sé vegan. Engin af vinum mínum sem komu er vegan en auðvitað var allt sem var í boði vegan og þeim fannst þetta ótrúlega gott og söknuðu einskis. Það þarf því engin að vera hræddur við að bjóða bara uppá vegan bakkelsi í boðum þar sem að lang flestir eru ekki einu sinni að fara að átta sig á því! Ég ætla því að deila með ykkur því sem ég bauð upp á ásamt tveimur uppskriftum.

 

Matseðilinn í afmælis brunchinum var eftirfarandi:

Amerískar pönnukökur m/bönunum, jarðaberjum og sírópi
Heimabakað brauð
Fræbrauð
Hummus & Pestó
Kasjú ostakaka
Bakaðar baunir
Pinto-villisveppapylsur
Gulrótarmuffis
Súkkulaðimuffins
Vatsmelónur & appelsínur

Epla og engifer safi
Appelsínusafi
Súkkulaði haframjólk

Hér fyrir neðan ætla ég að deila með ykkur uppskriftunum af pinto-villisveppapylsum og mjög einföldu heimabökuðu brauði.

Ernubrauð

Erna er í tengdafjölskyldunni minni en hún á heiðurinn af þessu brauði. Þetta brauð er svo ótrúlega einfalt og gott að það er bakaðr fyrir hverja einustu veislu í jfölskyldunni. Það er hægt að leika sér með það eins og hugurinn girnist en ég set oft ólífur og sólþurrkaðar tómata í það eða hvítlauk. Hérna kemur uppskrift af hinu hefðbundna brauði en hægt er að bæta við eftir eigin höfði.

Hráefni:

 • 1/2 lítri volgt vatn
 • 3 tsk þurrger
 • 1 msk salt
 • 600 gr hveiti
 • olía og gróft salt til að smyrja

Aðferð:

 1. Setjið volgt vatn í skál og dreyfið þurrgerinu yfir. Leyfið þessu að standa í 5 mínútur áður en haldið er lengra.
 2. Bætið hveitinu og saltinu útí. (Ef setja á eitthvað fleira í brauðið er best að bæta því útí á þessu stigi, áður en deigið er hrært saman.)
 3. Hrærið deigið með sleif þar til hveitið er alveg blandað, sem sagt ekkert þurrt hveiti eftir. Setjið plastfilmu eða poka yfir skálina og leyfið henni að standa í ísskáp í 8 klukkustundir eða yfir nótt.
 4. Hellið deiginu beint á plötu, smyrjið með olíu og dreyfið vel af salti yfir. Bakið við 200°C í 50 mínútur eða þar til brauðið er gullið að ofan.

Pinto-villisveppapylsur

Ég ákvað þrátt fyrir að mikið sé af vegan pylsum á markaðnum í dag, að gera mínar eigin. Þær komu ótrúlega vel út en þessa uppskrift má einnig nota í buff eða sem grænmetiskæfu ofan á brauð og kex. Það er hægt að gera stóra uppskrift og frysta pylsurnar eða buffin en mér finnst það ótrúlega þægilegt t.d. til þess að grípa með mér í nesti þegar ekki hefur gefist mikill tími í að útbúa eitthvað annað.

Hráefni:

 • 2 dósir pintobaunir (480 gr eftir að vatnið er tekið frá)
 • 2 msk olía 
 • 1 bolli frosnir villisveppir (mælt áður en þeir eru steiktir)
 • 1/2 meðalstór laukur
 • 2 hvítlauksrif
 • 3 sólþurrkaðir tómatar
 • 1 msk franskar jurtir (herbs de provence krydd)
 • 1 msk grænmetiskraftur
 • salt og pipar eftir smekk
 • 2 dl hveitiglútein eða malað haframjöl (því er sleppt ef gera á grænmetiskæfu)

Aðferð:

 1. Steikið laukinn, sveppina og hvítlaukinn upp úr olíunni í góðan tíma.
 2. Setjið allt nema hveitiglúteinið eða haframjölið í blandara eða matvinnsluvél og vinnið saman þar til vel blandað. 
 3. Hrærið hveitiglúteininu eða haframjölinu út í með sleif.
 4. Mótið pylsur, bollur eða buff og bakið við 180°C í 20-25 mínútur. 

Takk fyrir mig
-Júlía Sif

Vegan brauðterta

Brauðtertur voru virkilega vinsælar hér áður fyrr. Varla kom það fyrir að maður færi í veislu þar sem ekki voru bornar á borð fallega skreyttar brauðtertur. Svo virðist sem þær séu að detta úr tísku og persónulega datt okkur aldrei í hug að reyna að "veganæsa" slíka uppskrift. Fyrir ári fórum við svo að taka eftir ákveðnu "trendi" á sænskum facebookhóp þar sem meðlimir hópsins kepptust við að útbúa fallegustu vegan brauðtertuna, eða ,,smörgåstårta¨ eins og hún er kölluð á sænsku. Þar sem okkur þykir skemmtilegt að sýna ykkur hversu auðvelt er að útbúa vegan útgáfur af því sem manni þykir gott að borða ákváðum við að útbúa vegan brauðtertu og getum sagt ykkur að hún kom okkur virkilega mikið á óvart.

Við ákváðum að hafa tvær týpur af fyllingu. Annarsvegar tófú "eggjasalat" og hinsvegar "skinkusalat" með reyktri vegan skinku. Bæði salötin smakkast virkilega vel og skinkusalatið munum við hiklaust gera við fleiri tilefni.

Það er einfalt að gera brauðtertu og við erum hissa á því að hafa ekki dottið það í hug fyrr. Hver og einn getur að sjálfsögðu gert þá fyllingu sem hann langar en við erum mjög ánægðar með þessi salöt. Reykta vegan skinkan sem við notuðum gefur brauðtertunni skemmtilega jólalegt bragð. 

Eitt af því skemmtilegasta við að "veganæsa" klassískar uppskriftir er hvað fólk verður vanalega hissa yfir því að þetta sé vegan. Fólk á það til að halda að vegan matur smakkist ekki eins vel og sé minna spennandi. Þessvegna er svo skemmtilegt að sjá svipinn á fólki þegar það uppgvötar að því hefur svo sannarlega skjátlast. 

Það er gaman að heyra hversu margir eru farnir að gera uppskriftirnar okkar. Við höfum fengið sendar myndir þar sem fólk hefur bakað súkkulaðikökuna okkar eða gert aspasbrauðið fyrir ættingja og vini sem eru vegan. Fyrir nokkrum árum þótti fólki yfirleitt mjög stressandi að fá vegan manneskju í matarboð eða veislu því flestir vissu ekkert hvað þeir gætu boðið þeim uppá. Nú er þetta loksins að breytast og fólk farið að sjá hversu auðvelt það er að útbúa vegan rétti. Brauðtertan er einmitt tilvalinn réttur til þess að mæta með í veislu til þess að sýna öðrum að veganismi stoppar mann ekkert í því að borða góðan og fallegan mat. Við vegan fólkið getum svo sannarlega belgt okkur út um jólin á smákökum, lakkrístoppum, súkkulaðitertum og brauðréttum alveg eins og aðrir. 

Hráefni

Vegan brauðterta

 • 1 pakki af brauðtertubrauði
 • Vegan eggjasalat (uppskrift fyrir neðan)
 • Vegan skinkusalat (uppskrift fyrir neðan)
 • Auka mæjónes til að smyrja á tertuna (við gerum okkar mæjónes sjálfar, það er hægt að kaupa margar týpur af vegan mæjó til dæmis í Hagkaup og Gló fákafeni en okkur þykir alltaf miklu betra að gera okkar eigin. Það tekur innan við 5 mínútur og smakkast æðislega. Uppskriftin okkar er HÉR og tvöföld uppskrift passar fullkomlega í brauðtertuna, bæði í salötin og til að smyrja utan um tertuna)
 • Grænmeti til að skreyta. Það fer að sjálfsögðu bara eftir smekk og hugmyndaflugi hvað fólk kýs að hafa ofan á tertunni. Við notuðum graslauk, steinselju, kirsuberjatómata, gúrku og radísur. 

1. Leyfið brauðinu að þiðna og skerið skorpuna af

2. Smyrjið salötunum á hverja brauðsneið fyrir sig

3. Smyrjið vegan mæjónesi utan um brauðtertuna og skreytið með því sem ykkur dettur í hug

4. Ef þið hafið tök á er fínt að leyfa tertunni að fara í ísskáp í svolítinn tíma en þá er þægilegra að skera hana, hinsvegar er það bara aukaatriði og skiptir engu hvað bragðið varðar. 

Salat 1 - Tófú "eggjasalat"

 • 1 tófústykki (við kaupum tófúið sem fæst í Bónus)
 • Örlítil olía til steikingar
 • 1/2 tsk túrmerik
 • 1 tsk hvítlauksduft
 • 1 tsk laukduft
 • 1 msk sítrónusafi
 • 1 og 1/2 dl vegan mæjónes. 
 • 1 dl hreint sojajógúrt frá Sojade (jógúrtin fæst í Bónus og Hagkaup og ein dolla af stærri gerðinni er nóg í bæði salötin)
 • 1 tsk gróft sinnep eða dijon sinnep
 • 1 msk smátt skorinn graslaukur
 • salt og pipar eftir smekk

1. Brjótið tófúið niður á pönnu og steikið létt uppúr smá olíu, kryddum og sítrónusafa.

2. Leyfið tófúhrærunni að kólna í nokkrar mínútur, setjið hana í stóra skál og blandið mæjó, jógúrt, sinnepi og graslauk saman við. 

Salat 2 - Vegan skinkusalat

 • 1 dós blandað grænmeti frá Ora
 • 1 bréf vegan skinka (Við notuðum reyktu skinkuna frá Astrid och Aporna sem kom nýlega í Hagkaup. Auk þess fæst góð skinka frá Veggyness í Nettó)
 • 1 og 1/2 dl vegan mæjónes
 • 1 dl hreina jógúrtin frá Sojade
 • 1/2 tsk hlynsíróp
 • salt eftir smekk

1. Skerið skinkuna í bita og blandið öllu saman í skál.

 

 

Við vonum að þið njótið! 
Veganistur

 

 

Innbakað hátíðarOumph!

Þegar gerast skal vegan er það oft jólamaturinn sem þvælist hvað mest fyrir fólki. Hvað skal borða á jólunum? er spurning sem við fáum ótrúlega oft á hverju ári. Flestir eiga margar góðar jólaminningar og tengjast þær nánast allar mat. Margir eru mjög vanafastir og líður illa við tilhugsunina um að borða eitthvað annað en það sem þau eru vön á jólunum. Við systur komumst hinsvegar að því að jólin verða alveg jafn hátíðleg og eftirminnileg sama hvað við borðum. Vegan matur er nefnilega ekki síðri öðrum mat líkt og margir virðast oft halda. 

Við höfum báðar prófað margt, annars vegar rétti sem hafa heppnast mjög vel og hins vegar rétti sem hafa endað í ruslinu. Ein jólin var það hnetusteik sem brann við, önnur jólin hnetusteik sem var óæt og fleira þess háttar. Svo hafa það verið gómsætar sveppasúpur sem hinir í fjölskyldunni geta ekki staðist og mjög gómsætar hnetusteikur. Við höfum komist að því að það skiptir í rauninni litlu máli hvað við borðum á jólnum, svo lengi sem það er gott.  Eftir þónokkuð mörg veganjól, áramót, páska og fleiri hátíðir höfum við þó loksins fundið rétt sem okkur finnst vera fullkomin fyrir hátíðirnar. 

Helga kynntist Oumph! vörunum á undan flestum Íslendingum þar sem hún bjó í Svíþjóð, en þaðan er varan upprunalega. Fyrir þá sem ekki vita hvað Oumph! er þá er það soyjakjöt sem inniheldur einungis soyja, vatn og olíu og er lang besta soyjakjötið á markaðnum í dag að okkar mati. Helga ákvað eftir að hafa kynnst þessari vöru að gera einhvern rétt úr henni um jólin í fyrra.  Tengdamamma hennar var að innbaka einhvers konar kjöt í smjördeigi og fannst henni tilvalið að prófa bara eitthvað þess háttar með Oumphinu.

Það kom ekkert smá vel út og vörum við staðráðnar í því að fyrir jólin í ár myndum við deila uppskriftinni með ykkur. Við fundum rosalega mikla þörf fyrir uppskrift af einhverju öðru en hnetusteik fyrir þessi jól. Hnetusteik er algengasti jólamatur grænmetisæta og sumir skiljanlega komnir með smá leið á henni. Júlía er að minnsta kosti spennt fyrir því að borða eitthvað annað þessi jóla eftir að hafa borðað hnetusteikina á aðfangadag, annan í jólum, gamlárskvöld og nýársdag í fyrra.  

Innbakað hátíðarOumph! (10 bökur)

 • 1 poki OumphI (annað hvort the chunk eða garlic and thyme)

 • 1-2 skallotlaukar

 • 3 hvítlauksrif

 • 2-4 blöð grænkál, allt eftir smekk

 • 1 tsk rósmarín

 • salt og pipar eftir smekk

 • 1 dl Oatly-hafrarjómi

 • 1 tsk gróft sinnep

 • 1/2 sveppateningur

 • 1 pakki Findus smjördeig

Aðferð:

 1. Leyfið Oumphinu að þiðna þar til auðvelt er að skera það í litla bita. Saxið einnig niður laukinn og grænkálið og setjið til hliðar.

 2. Steikið Oumphið upp úr smá olíu þar til það er vel heitt og setjið síðan laukinn, grænkálið og hvítlaukinn útí ásamt kryddunum.

 3. Steikið þetta í nágóðan tíma, eða um 10 - 15 mínútur, áður en rjómanum, sveppakraftinum og sinnepinu er bætt út í.

 4. Leyfið fyllingunni að hitna vel áður en slökkt er undir, en rjóminn þarf ekki að sjóða.

 5. Fletjið hverju smjördeigsplötu örlítið út (ekki hafa áhyggjur þó þið eigið ekki kökukefli, við redduðum okkur með glerflösku hehe) og skerið í tvennt. Leggið hvern ferhyrning af smjördeigi í eitt hólf á möffinsskúffu og setjið sirka 2 msk af fyllingunni ofan í. Festið öll fjögur hornin vel saman.

 6. Penslið hverja böku með þeirra plöntusmjólk sem er til hverju sinni, það má einnig nota afgangin af hafrarjómanum og bakið við 190 °C í 20 til 30 mínútur eða þar til gullinbrúnar.

Við bárum innbakaða Oumphið fram með brúnuðum kartöflum, rauðvínssveppasósu, grænum baunum og rauðkáli.

Rauðvíns-sveppasósa

 • 100 gr sveppir

 • 1 peli Oatly-hafrarjómi (250ml)

 • 1 msk rauðvín

 • 1/2 sveppateningur

 • salt og pipar

 • 2 msk hveiti

 • 3/4 dl vatn

 1. Steikið sveppina þar þeir eru mjúkir og svolítið vökvi myndast.

 2. Bætið rjóma, rauðvíni, sveppateningi, salti og pipar á í pottinn og látið sjóða í u.þ.b. 15 mínútur,

 3. Hristið eða þeytið saman með písk vatninu og hveitinu þar til alveg kekklaust og hellið út í í mjórri bunu á meðan hrært er stanslaust í súpunni.

 4. Leyfið suðunni að koma aftur upp og slökkvið undir.

Brúnaðar kartöflur (10-12 litlar)

 • 10-12 soðnar litlar kartöflur

 • 50 gr vegan smjör

 • 100 gr sykur

 • 1/2 dl Oatly-hafrarjómi

 1. Bræðið sykurinn á meðalhita á pönnu og passið að fylgjast vel með.

 2. Setjið smjörið útí um leið og sykurinn er bráðinn svo hann brenni ekki.

 3. Þegar smjörið er bráðið er slökkt undir, rjómanum hellt útí og hrært standslaust í hálfa mínútu áður en kartöflunum er helt út í.

Njótið vel
-Veganistur

 

 

Klassísk súkkulaðiterta

Súkkulaðikökur eru í miklu uppáhaldi hjá flestum. Þegar við gerðumst vegan urðu vinir og ættingar oftar en ekki stressaðir að fá okkur í afmælis- og matarboð. Þeim fannst tilhugsunin um að baka vegan köku yfirþyrmandi og ómöguleg. ,,Getið þið ekki bakað sjálfar bara, ég kann ekkert að baka svona vegan kökur" heyrðum við í hvert einasta skipti. Ástæðan fyrir því að fólk hræðist bakstur á vegan kökum er yfirleitt sá algengi misskilningur að vegan kökur innihaldi þrjátíu hráefni og að það taki marga klukkutíma að búa þær til. Það gæti hreinlega ekki verið meira fjarri sanni.

Kakan okkar er gríðarlega einföld og virkar bæði sem hefðbundin súkkulaðikaka og einnig sem dýrindis bollakökur. Þeir sem hafa smakkað hjá okkur kökuna eru yfirleitt steinhissa á því hvað hún er bragðgóð. ,,Vá þetta bragðast nú bara nákvæmlega eins og súkkulaðikakan sem ég er vön að gera."
Ástæðan er einmitt sá algengi misskilningur að vegan matur og kökur séu alltaf öðruvísi og verri á bragðið en annar matur. Aftur gæti það ekki verið meira fjarri sanni. 

Kökuna birti Helga fyrir tveimur árum á www.helgamaria.com. Hún varð strax lang vinsælasta uppskriftin á síðunni og var birt meðal annars á vefsíðu Kvennablaðsins. Fljótlega fór það að spyrjast út að til væri uppskrift af vegan súkkulaðiköku sem innihéldi færri en tíu hráefni og ekki bara það, að hún innihéldi einungis hráefni sem allir þekkja og flestir eiga til inni í skáp. Skyndilega hætti fólkið í kringum okkur að vera hrætt við að fá okkur í afmælisveislur. Í dag notar til dæmis mágkona Júlíu þessa uppskrift í sínum veislum og amma okkar hefur verið að biðja Júlíu að baka fyrir sig botna til að bjóða gestum uppá. 

download (12).jpeg

Það er ekki einungis kakan sem slær í gegn heldur skiptir smjörkremið miklu máli líka. Það er nefnilega ekkert mál að útbúa vegan smjörkrem og það myndi enginn þekkja það í sundur frá öðru kremi. Það fæst gríðarlega gott vegan smjör bæði í Hagkaup og Gló Fákafeni frá merkinu Earth balance, en okkur þykir mjög fínt að nota smjörlíkið frá Krónunni í kremið okkar. Það er ódýrara og alveg 100% vegan líka. 

Þriðji algengi misskilningurinn hvað varðar vegan bakstur er sá að vegan kökur séu hollustukökur. Fólk setur oft upp svip þegar við segjumst ætla að baka köku því það sér fyrir sér harða hráfæðiköku úr hnetum og döðlum.  

Ef þið eruð að leita ykkur að uppskrift af hollri köku er þessi uppskrift ekki fyrir ykkur. Hér er á ferð klassísk súkkulaðikaka úr hveiti og sykri og uppistaða kremsins er smjörlíki og flórsykur. 

Júlía nýtur þess mikið að útbúa fallegar kökur. Þegar hún útskrifaðist úr menntaskóla bakaði hún súkkulaðikökur og skreytti með hvítum rósum úr smjörkremi. Gestir veislunnar voru handvissir um að kökurnar hefði hún pantað úr bakaríi.

Súkkulaðikaka

 • 3 bollar hveiti
 • 2 bollar sykur
 • 1/2 bolli kakó
 • 2 tsk matarsódi
 • 1 tsk salt
 • 2 bollar vatn
 • 2/3 bolli bragðlaus olía - við notuðum sólblómaolíu
 • 2 tsk vanilludropar
 • 1 msk eplaedik

1. Hitið ofninn í 175°c með blæstri

2. Blandið þurrefnum saman í skál 

3. Bætið restinni af hráefnunum saman við og hrærið þar til engir kekkir eru í deiginu

4. Smyrjið tvö kökuform og skiptið deiginu jafnt í þau.  Þessi uppskrift passar akkurat í tvö 24 cm hringlaga kökuform. Það er þó einnig hægt að baka kökuna í eldföstu móti.

5. bakið í 20-30 mínútur

 

Smjörkrem

 • 350g smjörlíki við stofuhita
 • 500g flórsykur
 • 1/2 dl kælt, sterkt uppáhelt kaffi
 • 1 msk kakó
 • 1 tsk vanilludropar
 • 50g 70% súkkulaði

1. Þeytið smjörið í hrærivél eða með rafmagnsþeytara þar til það er mjúkt

2. Bætið öllum hráefnum nema súkkulaðinu útí og hrærið vel saman

3. Bræðið súkkulaðið og hellið því útí og hrærið á meðan á litlum hraða

4. Leyfið kökubotnunum að kólna alveg áður en kreminu er smurt á. 

ATH: Ef þið ætlið að gera rósir á kökuna þarf að gera eina og hálfa uppskrift af kreminu. Það fer mjög mikið krem í rósirnar. Okkur þykir gott að gera bara tvöfallda uppskrift af kreminu og ef það verður afgangur frystum við það og setjum á bollakökur við tækifæri. 

Njótið
Veganistur 

 

Heitt rúllubrauð með aspas og sveppum

Síðastliðin ár hefur mér þótt virkilega gaman að prufa mig áfram með allskonar uppskriftir. Þegar ég tók út dýraafurðir varð það að svolitlu sporti hjá mér að veganæsa rétti sem mér þóttu góðir. Hinsvegar lagði ég einhvernveginn aldrei í að útbúa vegan heitan brauðrétt. Ég held að það hafi verið vegna þess að svona brauðréttir voru virkilega eitt það besta sem ég fékk, og ég var mögulega hrædd um að valda sjálfri mér vonbrigðum. Ég prufaði það svo í fyrsta sinn í gær og ég eiginlega trúi ekki að ég hafi verið vegan í rúm 5 ár og farið í gegnum afmælisveislur og jólaboð og svona án þess að gera svona brauðrétt. Þetta er bæði fáránlega einfalt og smakkast aaalveg eins og þessir sem ég var vön að elska sem barn. Ég bauð ömmu minni uppá réttinn, sem er langt frá því að vera vegan, og henni þótti hann gjörsamlega æðislegur. Það eitt og sér er nógu góð staðfesting á því að þetta hafi heppnast vel hjá mér!

Í brauðréttinn nota ég meðal annars heimagerða mæjónesið mitt. Uppskriftina birti ég í annarri færslu í sumar og hérna er linkur á hana. Það er að sjálfsögðu hægt að kaupa vegan mæjónes útum allt en það er mun ódýrara að gera sitt eigið og alveg jafn gott, ef ekki betra. Ég á það til að mikla fyrir mér hlutina og ég frestaði því lengi að prufa að gera mæjó, aðallega því mér fannst það hljóma eins og svaka vesen en það er einmitt hlægilega einfalt. 

Annað hráefni sem mér þykir mikivægt í uppskriftinni er sveppakrafturinn. Hann gefur réttinum æðislegt bragð sem kemur í stað sveppasúpunnar frá Campbell/sveppasmurostsins sem ég notaði alltaf í brauðrétti áður en ég varð vegan. Það fást bæði sveppateningar frá Kallo og frá Knorr hér á landi. Ef þið notið þennan frá Knorr þarf alls ekki að salta fyllinguna því krafturinn er vel saltur. Ég hef ekki prufað að nota þennan frá Kallo svo ég er ekki viss hversu mikið salt er í honum. Að sjálfsögðu smakkið þið bara og finnið hvort ykkur finnst vanta salt. 

Rúllubrauðið kaupi ég frosið og það fæst í Bónus. Ég leyfi því að þiðna áður en ég nota það og það tekur yfirleitt svona rúmlega hálftíma. Brauðið kemur rúllað upp í plasti og gott er að leggja plastið undir brauðið, smyrja fyllingunni á og nota plastörkina til að rúlla brauðinu upp. Það verður nefnilega svolítið viðkvæmt þegar fyllingin er komin inn í það. 

Í fyrstu ætlaði ég að hafa rifinn vegan ost ofan á brauðinu en átti hann ekki til. Ég smurði því vel af vegan mæjónesinu ofan á og stráði kryddi yfir. Í þetta sinn notaði ég Old bay kryddið en það er líka æðislegt að nota bara paprikuduft. Eftir að hafa prufað þetta finnst mér ostur aaalgjör óþarfi ofan á þetta því mæjóið kemur svolítið út eins og bráðinn ostur og er sjúklega gott! 

Ég er svo ánægð að hafa loksins tekið af skarið og búið til svona heitt brauð. Þessi uppskrift mun svo sannarlega vera notuð mikið í framtíðinni við allskonar tilefni. Mig langar helst að halda veislu bara til þess að geta boðið uppá svona brauðrétt og vegan marengstertuna sem Júlía birti hérna á blogginu fyrir stuttu. Ég vona að ykkur líki uppskriftin og endilega sendið okkur snap (veganistur) ef þið gerið uppskriftirnar okkar, við elskum að fá að fylgjast með ykkur! :)

Hráefni:

1 Rúllubrauð. Ég notaði þetta brauð.
1 bolli vegan mæjónes. (Plús tvær matskeiðar auka til að smyrja ofan á brauðið áður en það fer í ofninn)
1 sveppateningur. Ég notaði þennan frá Knorr
100 g sveppir
Smávegis af olíu til að steikja sveppina uppúr
1/2 dós aspas plús 1 msk af safanum úr dósinni
Old bay krydd eða paprikuduft

Aðferð:

1. Hitið ofninn í 200°c

2. Skerið sveppina smátt og steikið á pönnu í svolítilli olíu í sirka 5 mínútur, eða þar til þeir eru svolítið mjúkir

3. Bætið mæjónesinu útá pönnuna ásamt sveppakrafi, aspasinum og safanum frá aspasinum og blandið vel saman

4. Smyrjið fyllingunni í rúllubrauðið og notið plastörkina sem fylgir með til þess að rúlla brauðinu upp. 

5. Smyrjið toppinn á brauðinu með mæjónesi og stráið kryddinu yfir

6. Bakið í ofninum í 15-20 mínútur. Það fer svolítið eftir því hvernig ofninn er. Endarnir á brauðinu voru orðnir svolítið gylltir þegar það var tilbúið og tók sirka 17 mínútur hjá mér. 

Ég vona innilega að uppskriftin muni nýtast ykkur. Mæli klárlega með því að prufa! 

Helga María