Vegan Domino's pizza!

IMG_2545.jpg

Janúar hefur fljótt orðið stærsti mánuður grænkera með átakinu Veganúar. Með hverju ári fjölgar þáttakendum Veganúar gríðarlega og í kjölfarið hafa veitingastaðir og matvöruverslanir brugðist við með fjölbreyttara úrvali. Nú í ár taka Domino's þátt í fyrsta skipti, okkur og öðrum til mikillar gleði, og bjóða upp á vegan ost á pizzurnar sínar. Það hafa margir beðið eftir því að geta keypt sér glóðvolga pizzu á þriðjudagstilboði með vegan osti.

IMG_2435.jpg
IMG_2460-3.jpg

Domino's býður upp á einn vegan botn en það er sá lauflétti. Á matseðlinum er að finna Grænmetisparadís, en á henni eru kirsuberjatómatar, spínat, sveppir, svartar ólífur, hvítlaukur og rauðlaukur. Hingað til hefur verið hægt að fá hana vegan með því að sleppa ostinum en vegan osturinn setur algjörlega punktinn yfir i-ið. Auk hennar setti Júlía saman sína eigin pizzu og á henni var rauðlaukur, sveppir, ólífur, nachos og bbq sósa. Báðar pizzurnar smökkuðust æðislega sérstaklega með hvítlauksolíunni sem okkur þykir ómissandi á pizzu. Eins og er bjóða Domino's einungis upp á vegan ost í janúar af tilefni Veganúar en vonandi ef viðtökur eru góðar halda þau honum á matseðlinum. 

Hver er þín uppáhalds vegan samsetning á pizzu? 

IMG_2524.jpg
a36a75faea87c5253c9212e18f1504e0.png

        þessi færsla er unnin í samstarfi við Domino's 

Veganistur mæla með: Vítamínunum frá TERRA NOVA

IMG_0217.jpg

Við erum oft spurðar út í vítamín. ,,Þarf ekki að taka alveg óteljandi vítamín þegar maður er vegan? Takið þið ekki örugglega vítamín? Þið verðið nú að passa að fá öll vítamín sem þið þurfið." Það virðast margir breytast í næringarfræðinga þegar orðið vegan berst til tals. Yfirleitt er þetta fólk sem hefur annars engan áhuga á næringu og heilsu og því þurfum við oft að útskýra fyrir þeim að það sé alls ekki meira vesen fyrir grænkera að passa að þeir fái öll næringarefni. Báðar erum við hraustari eftir að við urðum vegan því við borðum mun fjölbreyttari mat en við gerðum áður. Við innbyrðum mikið magn af fersku grænmeti og ávöxtum og erum meðvitaðar um það hvað hollur matur skiptir miklu máli fyrir bæði andlega og líkamlega heilsu. Vítamínskortur er því alls ekki eitthvað sem hægt er að tengja við vegan matarræði. Við erum öll misjöfn og eigum mis auðvelt með að upptöku vítamíns, hvort sem við borðum dýraafurðir eða ekki. Eins er mjög mismunandi hversu hollan mat fólk borðar og margir hafa engan áhuga á því að spá í næringu burtséð frá því hvort þeir eru vegan eða ekki. 

Okkur þykir mjög mikilvægt að allir fylgist vel með matarræðinu sínu og reyni að borða hollt og fjölbreytt. Gott er að taki vítamín samhliða því til að auka líkur á betri helsu og vellíðan. Mikilvægt er þó að hafa í huga að vítamín koma alls ekki í staðin fyrir hollt og næringarríkt matarræði. Við systur tökum báðar eitthvað af vítamínum en pössum okkur alltaf fyrst og fremst að borða næringarríkan og fjölbreyttan mat.  Á sama tíma og við veljum hráefnið sem við borðum vel, tökum við ekki inn hvaða vítamín sem er. Okkur finnst mikilvægt að velja hágæða vítamín sem við getum treyst að innihaldi náttúruleg efni og séu 100% vegan. Við tökum því inn vítamínin frá merkinu TERRA NOVA. Við höfum notað vörurnar þeirra í langan tíma, bæði vítamínin, græna duftið þeirra og rauðrófuduft til þess að drekka fyrir æfingar. Merkið fæst í Nettó og eru þau með mjög gott úrval af vítamínum og dufti frá merkinu á mjög góðu verði. 

Okkur langaði aðeins að segja ykkur frá okkar uppáhalds vítamínum og hvers vegan við veljum þessi ákveðnu vítamín.

IMG_0224-3.jpg

Hér fyrir ofan eru þau vítamín sem Júlía  notar lang mest.  Hún valdi þessi þrjú vítamín algjörlega útfrá sínu daglega lífi og henta þau henni alveg ótrúlega vel. Þessi vítamín eru:

Calcium/Magnesium: Þessi vítamín valdi ég þar sem magnesíum hjálpar við endurheimt eftir æfingar og eins og við vitum þurfa allir kalk fyrir beinin. Mér fannst þetta því mjög góð balnda þar sem ég æfi mjög mikið og var t.d. að æfa fyrir hálfmarathon í allt sumar sem ég hljóp núna í ágúst.

Probiotic complex: Þetta valdi ég þar sem að ég hef alltaf haft smá meltingarvandamál. Mér finnst ég geta haldið meltingarvandamálunum mínum mjög vel niðri með því að borða holla og hreina fæðu og hreyfa mig á hverjum degi. En mér finnst þó mjög gott fyrir mig að taka góðgerla samhliða hollu matarræði en þá næ ég að útiloka þessi áþægindi alveg líka á nammidögum ;)

Beetroot juice preworkout: Ég hef í þó nokkurn tíma drukkið rauðrófusafa fyrir æfingar en rauðrófusafinn inniheldur til dæmis efni sem hjálpa til við súrefnisupptöku í vöðvunum. Þegar ég fann þetta duft var ég ótrúlega glöð en mér finnst þetta miklu þægilegra en að kaupa rauðrófusafa í fernu þar sem hann skemmist frekar hratt þegar fernan hefur verið opnuð. Þetta pre workout er einnig laust við öll aukaefni, koffín og þess háttar en mér finnst mörg pre workout innihalda mikið af óæskilegaum efnum. Þetta preworkout inniheldur fleiri jurtir en bara rauðrófur og er blandan mjög úthugsuð en hún á til dæmis að stuðla að aukinni orku og styrk við æfingar og bæta ónæmiskerfið.

Auk þess tekur Júlía líkt og Helga d-vítamín, aðalega á veturna þó, og B12 vítamín frá sama merki.

IMG_0232-2.jpg

Hérna eru vítamínin sem Helga tekur inn daglega og hafa hjálpað henni helling í sinni baráttu við vanvirkan skjaldkirtil. 

B12
Ef það er eitthvað vítamín sem grænkerar þurfa að taka sérstaklega er það B12. Grænmeti og ávexti innihalda ekki B12 en það fæst úr bakteríunum sem lifa á grænmetinu. Þó er ekkert mál að fá vítamínið í jurtaformi og eru töflurnar frá Terra Nova virkilega góður kostur. Vert er að taka fram að það er mjög algengt að fólk glími við B12 skort, hvort sem það borðar kjöt eða ekki. Margir eiga erfitt með upptöku á vítamíninu og þurfa jafnvel að fá b12 sprautur þrátt fyrir að borða dýraafurðir í hvert mál. Skortur á b12 helst því ekki í hendur við það að vera grænmetisæta. Við mælum þó með því að grænkerar taki vítamínið inn til þess að fyrirbyggja skort. Helga er með vanvirkan skjaldkirtil og þarf því að passa sig að taka alltaf inn B12 því það er algengt að fólk með vanvirkan skjaldkirtil þjáist af B12 vítamín skorti. 

D3
D3 vítamín er oft kallað sólarvítamínið. Húðin framleiðir vítamínið þegar hún verður fyrir áhrifum útfjólublárra geisla sólarljóss. Þar sem við Íslendingar búum við mikið myrkur yfir vetrartímann er virkilega mikilvægt að passa uppá það að taka D vítamín. D vítamín er ekki einungis mikilvægt fyrir beinin okkar heldur getur það fyrirbyggt skammdegisþunglyndi. Síðan við byrjuðum að taka inn D3 vítamín finnum við svakalegan mun á okkur yfir vetrartímann. 

Full spectrum Multivitamin
Ég tek alltaf multivítamín. Full spectrum vítamínið frá Terra Nova er frábær kostur fyrir þá sem vilja geta fengið allt úr einni töflu. Yfir vetrartímann tek ég D3 töflurnar og B12 samhliða Full spectrum töflunum en á sumrin læt ég mér nægja að taka Full spectrum daglega, b12 annan hvorn dag og sleppi D3 töflunum nánast alveg þar sem Full spectrum inniheldur D3 í minna magni og ég reyni að nýta sólargeislana vel. 

Njótið vel
-Veganistur

Færslan er unnin í samstarfi við Nettó og fást TERRA NOVA vítamínin þar.

Færslan er unnin í samstarfi við Nettó og fást TERRA NOVA vítamínin þar.
 

 

Veganistur mæla með: Bike Cave

Snemma árs 2015 fóru að berast fréttir af því að hamborgarastaður hér á landi væri farinn að bjóða upp á vegan kokteilsósu. Þessar fréttir voru vægast sagt spennandi þar sem engin skyndibitastaður á landinu hafði boðið upp á þess háttar metnað í vegan matreiðslu áður. Sögusagninar virtust ekki einungis vera sannar heldur var kokteilsósan og maturinn allur þvílíkt góður! Staðurinn heitir Bike Cave og kúrir í Skerjafirðinum en frá því að staðurinn opnaði með sína vegan kokteilsósu hefur hann svo sannarlega ekki slakað á. Vegan borgari, ostur, kokteilsósa, bernaissósa og pítusósa er meðal annars á boðstólnum og maður verður ekki svikin þegar lífið kallar á feita skyndibitamáltíð, sem við vitum öll að gerist öðru hverju.

Ef maginn kallar á eitthvað létt með yndislegri lifandi tónlistinni sem Bike Cave býður upp á hverja helgi er Deli Koftast algjörlega málið. Indverskar bollur með sósu og hvítlauksbrauði er hinn fullkomni "bar" réttur til að njóta t.d. með einum köldum eða sem forrétt.

Franskarnar á Bike Cave þurfa alveg klárlega sér umfjöllun en við viljum meina að þessar franskar séu þær bestu á landinu. Hægt er að velja á milli fjögurra mismunandi tegunda en uppáhaldið okkar eru krossararnir og krullurnar. Þessar franskar eru svo vel kryddaðar og auðvitað spilar kokteilsósan risa stórt hlutverk! Við getum haft það eftir flestum sem hafa smakkað þessa sósu að hún sé alveg eins og venjuleg kokteilsósa.

Pítan er alveg einstök og sósan er, líkt og kokteilsósan var á sínum tíma, algjör nýjung á veitingastaðamarkaðnum. Og ekki er sósan spöruð, en ásamt henni fær maður fullt af fersku grænmeti og annað hvort kartöflurösti eða chillibuff. Pítan er uppáhald okkar veganista en við pöntum okkur auðvitað alltaf franskar með.

Hægt er að velja á milli tveggja vegan borgar á Bike Cave. Annars vegar er það venjulegur grænmetisborgari sem er mjög klassískur og ekki skemmir það á hversu góðu verði hann er. Líkt og í pítuna velur maður annað hvort kartöflurrösti eða chillibuff. Við mælum með buffinu en okkur finnst það passa ótrúlega vel með sósunni sem er á borgaranum. Hins vegar er það vegan lúxusborgarinn, en hann er ens og nafnið gefur til kynna algjör lúxus. Á borgaranum er nýjasta sósa Bike Cave, vegan bernaissósa, ásamt sojabuffi, vegan osti og fersku grænmeti. Þessi borgari er klárlega sveitasta vegan máltíð sem hægt er að finna á landinu í dag en það er einmitt það sem hefur vantað á veitingastaði sem bjóða uppá vegan valkosti hingað til.

Þeir sem leita að ekta skyndibitamat sem inniheldur enga grimmd eða þjáningu verða svo sannarlega ekki sviknir á Bike Cave en þangað förum við alltaf þegar okkur langar í smá svindlmat.

Af hverju nota ég mánabikarinn?

Ég var 12 ára gömul þegar ég byrjaði fyrst á blæðingum. Á meðan mamma óskaði mér til hamingju með að vera orðin kona hugsaði ég að lífi mínu gæti allt eins verið lokið. Ekki skánaði það svo þegar ég sat með henni inni á baði á meðan hún kenndi mér að nota dömubindi. Mig langaði sko ekkert að þurfa að hafa ,,bleyju" í nærbuxunum í hverjum mánuði það sem eftir yrði. Ég var einnig fyrst af stelpunum í mínum bekk til þess að byrja og fannst það heldur betur skömmustulegt. Ég þoldi ekki þennan tíma mánaðarins, ekki aðeins vegna hræðilegu túrverkjanna sem ég fékk í hvert skipti, heldur einnig vegna þess að dömubindi þóttu mér óþolandi. Þau voru svo þykk og mér fannst alltaf eins og þau sæjust í gegnum buxurnar mínar. Ég lenti svo í nokkrum hræðilegum atvikum á unglingsárunum þar sem dömubindið færðist til og blóð lak í gegnum buxurnar mínar. Þegar maður er 13 ára er fátt jafn pínlegt og slíkar uppákomur. 

Þið getið því trúað því hversu ánægð ég var þegar ég uppgvötaði túrtappann. Eða okei, fyrst þegar ég prófaði túrtappa skildi ég ekki alveg hvernig hann virkaði. Ég rétt tillti honum inn sem olli því að ég fann alltaf mikið fyrir honum og t.d það að setjast niður varð mjög sársaukafullt. Ég gafst því upp og þorði ekki að prófa túrtappann aftur fyrr en um ári seinna. Þegar ég hafði lært hvernig hann virkaði var ekki aftur snúið. Vá, þvílík snilld! 
Loksins voru dömubindin úr sögunni. Ég gat farið í skólann án þess að hafa áhyggjur af því að blæða í gegn og verða að athlægi. Ég gat loksins farið á túr án þess að þurfa að spá í því að ég væri á túr. 

Það sem ég vissi ekki á þeim tíma er að túrtappar eru ekkert sérstaklega hollir og þeir geta jafnvel verið mjög hættulegir. Mamma hafði sagt mér að skipta alltaf yfir í dömubindi fyrir svefninn því það væri alls ekki hollt að vera með sama tappann yfir heila nótt. Ég hlýddi því, svona oftast.  Þó gerði ég stundum undantekningar þegar ég gisti annars staðar en heima hjá mér. Ég gleymdi líka oft að skipta um tappa og var með sama tappann mjög lengi yfir daginn, sérstaklega þegar túrinn var léttur. Satt best að segja spáði ég ekkert mikið í því hvort tapparnir væru hollir eða ekki því þeir voru svo ótrúlega þægilegir. 

Þegar ég gerðist vegan fór ég þó að setja spurningamerki við túrtappana vegna þess að þeir eru yfirleitt prófaðir á dýrum, hvort sem það eru tapparnir sjálfir eða klórinn sem bómullinn eru þrifinn upp úr. Túrtappar eru heldur ekkert svakalega umhverfisvænir sem truflaði mig líka svolítið. Ég vissi samt ekki alveg hvernig ég ætti að snúa mér í þessu og hélt áfram að nota þá í von um að finna einhverja betri lausn. 

Ég kynntist mánabikarnum þegar ég var tvítug. Ég keypti hann í Heilsuhúsinu. Ég hafði heyrt frábæra hluti um bikarinn og var því verulega spennt að prófa. Það sem ég hinsvegar vissi ekki þá er að maður þarf aðeins að læra á hann. Ég var svo ung og óþolinmóð að ég gafst strax upp og hætti að nenna að nota hann. Ég bið ykkur að gera ekki sömu mistök, þetta er fljótt að lærast og þá munuði aldrei vilja fara til baka. 

Bikarinn sem ég nota núna keypti ég í Svíþjóð og er frá finnska merkinu Lunette. Bikarinn fæst í Gló Fákafeni og er alveg frábær.
Lunette bikarinn kemur í tveimur stærðum. Minni stærðin er ætluð ungum stelpum sem hafa ekki sofið hjá og stelpum sem fá léttar blæðingar. Stærri gerðin er svo ætluð stelpum sem hafa sofið hjá og þeim sem fá meðal - miklar blæðingar. Ég nota stærri gerðina og finnst hún alveg fullkomin fyrir mig. Það er hægt að fá bikarinn í nokkrum litum en ég keypti þennan glæra. 

Hérna er listi yfir nokkra hluti sem ég hefði viljað að einhver segði mér áður en ég keypti mér mánabikar í fyrsta skipti:

1. Á bikarnum er stilkur til þess að auðvelt sé að ná honum út. Stilkurinn er hinsvegar of langur fyrir margar konur og þá þarf að klippa hann til, maður á nefnilega ekki að finna neitt fyrir bikarnum þegar hann er kominn upp. Ég endaði á því að þurfa að klippa minn svolítið niður.  Ég mæli með því að klippa bara lítið í einu og finna hvað hentar manni. 

2. Það þarf að brjóta bikarinn saman til þess að koma honum inn, það eru til nokkrar aðferðir sem taldar eru bestar til þess. Þetta getur tekið smá æfingu. Mér finnst best að setja hann upp á meðan ég sit á klósettinu eða fara niður í hnébeygju. 

Hérna er mynd sem sýnir aðferðina sem ég mér þykir best.

3. Þegar bikarinn er kominn inn þarf hann að opnast vel svo það leki ekki framhjá. Þetta er það sem mér fannst erfiðast. Maður þarf að vera svolítið þolinmóð við þetta. 

4. Bikarinn getur færst lengra upp í leggöngin og því getur verið svolítið erfitt að ná honum úr.  Fyrst þegar ég lenti í þessu fékk ég vægt taugaáfall. Ég komst samt fljótt að því að maður þarf engar áhyggjur að hafa. Hann fer aldrei svo langt að ekki sé hægt að ná honum niður. Það er nóg að nota kviðvöðvana aðeins og ýta honum þannig niður þar til maður nær taki á honum. Þegar maður nær taki á bikarnum klípur maður um endann á honum til þess að hleypa inn lofti. Þannig er auðveldast að ná honum út. 

5. Þegar maður tæmir hann en ætlar að setja inn aftur er best að hella úr honum í klósettið, skola hann með köldu vatni og svo með volgu vatni og örlítilli ilmefnalausri sápu ef maður vill. Í aðstæðum þar sem maður þarf að tæma hann þar sem enginn vaskur er í einrúmi, til dæmis á almenningssalernum, er nóg að þurrka hann með pappír eða jafnvel vera með vatnsflösku með sér sem hægt er að nota til þess að skola hann, svo þrífur maður hann bara betur þegar heim er komið.  Ef maður ætlar ekki að nota hann aftur strax er best að þvo hann og geyma svo í pokanum sem hann kemur í. 

6. Hjá sumum getur hann lekið örlítið og þá getur verið gott öryggisins vegna að vera með innlegg. Ég hef ekki lent í þessu sjálf en ég hef heyrt að sumar konur lendi í því. Það er mikilvægt að læra á blæðingarnar sínar og finna hversu oft maður þarf að tæma hann á dag þegar túrinn er sem mestur svo maður lendi ekki í því að hann byrji að leka. Ég fæ frekar miklar blæðingar fyrstu tvo dagana en mér dugir samt að tæma hann tvisvar til þrisvar á sólarhring. Sumum þykir samt öruggara að hafa innlegg og fyrir þær sem vilja ekki nota einnota innlegg er hægt að kaupa taubindi og einnig sérstakar nærbuxur fyrir konur á blæðingum sem gerðar eru til þess að leka ekki. Ég mun skrifa færslur um bæði taubindi og nærbuxurnar í náinni framtíð. 

7. Það þarf alls ekki að tæma bikarinn í hvert sinn sem maður fer á klósettið og maður getur vel haft hann yfir nótt án þess að hafa áhyggur af því að það sé óhollt eða hættulegt. Óhætt er að hafa bikarinn í allt að 12 klst í einu. Mælt er með því að tæma hann 2-4 sinnum á sólarhring og það fer alfarið eftir því hversu mikið blæðir hjá hverjum og einum hversu oft þarf að tæma hann. 

Ég vona að þið prófið að kaupa ykkur bikar. Hann endist í mörg ár ef farið er vel með hann, er umhverfisvænn og 100% vegan. Ég mæli eindregið með því að kaupa sér Lunette bikarinn, hann verður klárlega ykkar besti vinur! 

Helga María