Matardagbók 2

Nú hef ég verið í Noregi í sirka mánuð og líkar dvölin vel. Norðmenn eru alltaf að bæta sig þegar kemur að úrvali af vegan mat. Þeir hafa þó ekki tærnar þar sem Svíarnir hafa hælana. Við höfum því verið dugleg að elda mat bara frá grunni og svona og við finnum að þegar úrvalið af vegan "sukk" mat er minna, og mun dýrara þar að auki, er auðveldara að borða frekar hollan heimatilbúinn mat. Við höfum grillað mikið, hvort sem það er tófú, grænmetisspjót, kartöflur eða jafnvel vegan pylsur og borgara. Mér finnst mun skemmtilegra að grilla núna heldur en þegar ég borðaði kjöt. Tja, mér finnst eiginlega bara miklu skemmtilegra að elda yfirhöfuð eftir að ég varð vegan. 

Morgunmatur:
Ég er búin að borða graut nánast daglega síðastliðinn mánuð. Mér finnst ekkert sérstaklega gott að elda hafrana mína. Ég einfaldlega helli glúteinlausum höfrum í skál ásamt hrísmjólk og leyfi þeim að standa í sirka tvær mínútur svo þeir mýkist aðeins í mjólkinni. Svo toppa ég grautinn með því sem mig langar, oftast eru það ávextir, múslí, agave síróp, hetusmjör eða fleira því um líkt. 

Tengdamamma mín ræktar jarðarber í garðinum sínum sem ég hef notað óspart, enda alveg gríðarlega sæt og bragðgóð. Ég hef verið dugleg að týna þau úr garðinum og nota á grautinn minn eða í þeytinga. 

Hádegismatur:
Ég er mikið fyrir pottrétti og súpur. Það er eitthvað svo yndislegt að geta skellt hráefnum í pott og leyft þeim að malla án þess að þurfa mikið að spá í því. Ég fer sjálf sjaldan eftir uppskriftum þegar ég geri súpur og pottrétti, skelli bara því sem ég á í pott og bý til einhverja gómsæta næringarbombu. Þessi réttur var dæmi um svoleiðis. Ég setti í pott niðurskorinn blómkálshaus, rauðlauk, papriku, sveppi, gulrætur og hvítlauk og leyfði því að malla með smávegins af vatni í sirka 10 mínútur. Því næst bætti ég grænmetiskrafti, kókosmjólk, örlitlu vatni í viðbót og tveimur fernum af niðursoðnum grænum linsubaunum. Ég kryddaði með kóríander, papriku, salti og pipar og leyfði að malla í 20 mínútur í viðbót. þegar sirka 5 mínútur voru eftir setti ég fullt af spínati útí. Svo bar ég pottréttinn fram með hrísgrjónum, toppaði hann með fersku grænmeti og kreisti safa úr hálfri límónu yfir. Ótrúlega næringarríkur og góður hádegismatur.

Millimál:
Ég hef í nokkra mánuði verið að gera tilraun á sjálfri mér. Ég tók út glútein og langaði að sjá hvort það hefði einhver áhrif á skjaldkirtilinn minn. Núna síðan ég kom til Noregs hef ég  tekið glútein aðeins inn aftur til þess að sjá hvernig það fer í mig. Ég get ekki sagt að ég finni einhvern svakalegan mun á mér en þó svolítinn. Ég held ég reyni að sleppa því eins og ég get því ég finn að það hefur hjálpað mér að ná betri bata. Þessi heilhveiti-vaffla var þó alls ekki glúteinlaus. Hún var æðislega góð og ég mun birta uppskrift af henni á blogginu bráðum. Í þetta skipti toppaði ég hana með berjum, banönum, kasjúhnetum og súkkulaðisósu. 

Kvöldmatur:
Eins og ég sagði að ofan þá erum við rosalega dugleg að grilla þessa dagana. Grillað tófú er í algjöru uppáhaldi. Uppskriftin af mareneringunni sem ég nota er hérna. Með tófúinu grilluðum við grænmetisspjót sem ég kryddaði með salti, pipar og þurrkuðum jurtum, maísstöngla og kartöflur sem við borðuðum sjálfsögðu með vegan smjöri, salti og þurrkaðri steinselju. Við vorum í stuði til að gera vel við okkur svo við útbjuggum sveppasósu úr vegan matreiðslurjóma, grænmetiskrafti, sveppum, smá tamarisósu og rauðvínsdreitli. Vá ég fæ bara vatn í munninn við að skrifa þetta! 

Það getur getur enginn sagt að ekki sé hægt að næra sig á vegan matarræði. Halló, það er endalaust úrval af fáránlega góðu og næringarríku hráefni sem ekki kemur úr dýraríkinu. Það að gerast vegan getur reynst manni erfitt.. í svona viku.. því eftir það hefur maður lært að lesa á pakkningar og sér hvað þetta er fáránlega lítið mál! :D

Helga María