Vegan gnocchi með aspas og spínati

IMG_3109-9.jpg

Uppskrift dagsins er af heimagerðu gnocchi með aspas, hvítlauk, hvítvíni og spínati. Þetta er dásamlega gott og sjálft gnocchiið inniheldur bara þrjú hráefni, kartöflur, hveiti og salt. Það er að sjálfsögðu hægt að nota það í allskonar uppskriftir, bara eins og pasta, en þessi útgáfa er svakalega góð og mér finnst svolítill veitingahúsafílingur í réttinum.

IMG_3081.jpg

Eins og þið kannski sum vitið höfum við Júlía haldið úti veganistur.is í þrjú ár í sumar, en fyrir það vorum við í rúmt ár einungis með Facebook síðu og Instagram. Veganistur áttu fyrst að vera hversdagsleg Facebook síða þar sem við skelltum inn símamyndum af kvöldmatnum okkar án þess að hugsa mikið um það, og sýndum fólki einfaldlega hvað það er auðvelt að vera vegan. Facebook síðan óx mun hraðar en við hefðum haldið og við fórum að fá allskonar fyrirspurnir um hvort við gætum gert uppskriftir af þessu og hinu og smám saman breyttust Veganistur í uppskriftarsíðu.

IMG_3085-3.jpg

Við fórum fljótt að finna fyrir því að fólk væri að fylgjast með og í kjölfarið vildum við leggja meiri vinnu og metnað í bæði uppskriftirnar og myndirnar. Það var svo vorið 2016 að við ákváðum að útbúa alvörunni vefsíðu og þá má segja að boltinn hafi farið að rúlla. Það sem fyrst átti bara að vera lítið áhugamál hefur orðið að risastórum hluta af lífinu okkar. Í dag eru Veganistur það sem við leggjum hvað mesta vinnu í og höfum mikla ástríðu fyrir. Það eruð þið, lesendur okkar, sem gefið okkur endalausan innblástur og styrk til að gera eins vel og við getum. Ykkur erum við gríðarlega þakklátar.

IMG_3088-3.jpg

Við Júlía stöndum tvær í þessu og sjáum um allt sem viðkemur blogginu samhliða fullu námi og öðrum verkefnum. Það getur verið gríðarlega kostnaðarsamt að útbúa nýtt efni fyrir bloggið, bæði í peningum og tíma talið. Kostnaðurinn er misjafn, en við vöndum valið okkar á samstörfum við önnur fyrirtæki virkilega vel og tókum snemma ákvörðun um að hafa engar auglýsingar að öðru tagi á blogginu. Allur peningur og tími sem við leggjum í bloggið okkar og uppskriftir er fyllilega þess virði og við munum aldrei sjá eftir einni einustu krónu.

IMG_3089-2.jpg

Okkur hafa borist margar fyrirspurnir um hvernig sé hægt að styrkja okkur og hingað til hefur það einungis verið hægt með því að lesa og deila blogginu okkar, og þið hafið svo sannarlega gert það. Við erum virkilega hrærðar yfir því hvað þið eruð mörg sem heimsækið síðuna okkar daglega og látið orðið berast til þeirra sem þið þekkið. Þið eruð æði!

IMG_3091-2.jpg

Við höfum þó ákveðið eftir mikla umhugsun að opna Patreon aðgang fyrir þá sem hafa áhuga á að styrkja okkur. Það er einfaldlega svo við höfum meira frelsi varðandi uppskriftir og þurfum ekki að skipuleggja bloggfærslur einungis útfrá því hvað við eigum mikinn pening hverju sinni. Með því að styrkja okkur hjálpar þú semsagt til við að auka svigrúm og afkastagetu okkar. Eins höfum við lengi verið með uppskriftarbók í maganum og við iðum í skinninu við að koma henni út og deila með ykkur ennþá fleiri ótrúlega spennandi og gómsætum uppskriftum.

Á Patreon síðunni okkar sérðu hvað við bjóðum ykkur í staðinn og eitt af því er aðgangur að lokaðri Facebook grúppu þar sem við Júlía munum elda með ykkur live í hverri viku. Við erum ekkert smá spenntar fyrir því og fyrsta uppskriftin sem ég ætla að gera með ykkur er akkúrat þessi. Ég hlakka ekkert smá til og mun svo deila með ykkur nákvæmri tímasetningu þegar nær dregur.

IMG_3093-2.jpg

Við viljum enn og aftur þakka ykkur fyrir. Þegar við stofnuðum Veganistur höfðum við ekki hugmynd um hvað við myndum fá mikinn stuðning frá ykkur öllum. Án ykkar værum við ekki á þeim stað sem við erum í dag.

IMG_3106-5.jpg

Gnocchi

 • 2 bollar stappaðar kartöflur

 • 1,5- 2 bollar hveiti

 • 1,5 tsk salt

Það sem fer með á pönnuna

 • Vegan smjör til að steikja uppúr. Ég setti alveg vænan bita.

 • 200 gr aspas. Ég notaði frosinn í þetta sinn

 • Tvær lúkur babyspínat

 • 2 hvítlauksgeirar

 • 1 dl hvítvín (má sleppa)

 • Ristaðar furuhnetur til að strá yfir

Aðferð:

 1. Sjóðið kartöflur og afhýðið. Stappið þær vel með kartöflustappara eða gaffi og setjið í stóra skál.

 2. Bætið hveitinu og saltinu saman við. Ég byrjaði á því að setja 1,5 bolla hveiti og bætti svo aðeins við eftir þörf. Hrærið saman við og hafið í huga að þetta verður mjög mjölkennt til að byrja með. Hrærið eins vel og þið getið með sleif og færið svo yfir á borð og notið hendurnar til að hnoða þetta saman í deig.

 3. Skiptið deiginu niður í fjóra hluta, rúllið þá út og skerið sirka 2 cm bita úr þeim.

 4. Það má sleppa þessu skrefi og elda bitana einfaldlega eins og þeir eru þegar búið er að skera þá niður, en ég vildi útbúa smá gnocchi munstur og notaði til þess gaffal. Margir eiga sérstakt bretti sem gerir það mun auðveldara, en ég læt gaffalinn duga. Ég tók bita og flatti hann létt út á gaffalinn og rúllaði svo upp. Ég hefði kannski getað sýnt aðeins skýrari mynd af því hvernig þetta er gert, en það er fullt af myndböndum á youtube sem sýna það mun betur en mér hefði tekist. Passið að strá smá hveiti yfir bitana og láta þá ekki liggja saman á meðan þið gerið þetta því þeir munu festast saman og verða að einni klessu.

 5. Steikið á pönnu hvítlauk, aspas, og spínat uppúr smjörinu. hækkið hitann og hellið hvítvíninu út í og lækkið hitann svo aftur eftir nokkrar mínútur.

 6. Sjóðið vatn í stórum potti og saltið smá. Þegar suðan er vel komin upp skuluði hella gnocchiinu í. Ég myndi ekki setja þá alla í einu þar sem þetta eru svolítið margir bitar. Veiðið bitana upp þegar þeir hafa flotið upp á yfirborðið sem tekur um 90 sekúndur.

 7. Sigtið allt vatn af bitunum og skellið þeim á pönnuna og steikið þá í nokkrar mínútur. Saltið og piprið eftir smekk.

 8. Berið fram með því sem ykkur lystir, en mér finnst alltaf gott að útbúa gómsætt hvítlauksbrauð með.

Takk fyrir að lesa og vonandi líkar ykkur vel

Veganistur <3

Vegan lasagna með Anamma sojahakki

IMG_0541.jpg

Stuttu eftir að við opnuðum bloggið okkar birtum við uppskrift af gómsætu grænmetislasagna. Sú uppskrift hefur lengi verið í uppáhaldi og er elduð ansi oft á okkar heimili. Eins og mér finnst uppskriftin æðisleg, hef ég svolítið verið að prufa mig áfram með nýja uppskrift sem minnir e.t.v. meira á þetta klassíska lasagna sem margir þekkja. Þessi uppskrift er svolítið öðruvísi en hin og inniheldur meðal annars sojahakk í stað linsubauna. Þetta lasagna er svo ótrúlega gott að ég eldaði það tvo daga í röð í síðustu viku. 

IMG_0462.jpg

Það hefur komið mér svolítið á óvart hvað mér þykir lasagna gott, því mér þótti það aldrei neitt sérstakt þegar ég var yngri. Ég taldi mér trú um að rétturinn væri bara ekkert fyrir mig, þar til fyrir nokkrum árum þegar ég ákvað að gefa honum annan séns. Ég er gríðarlega fegin að hafa gert það, því í dag er það eitt af því besta sem ég fæ. 

IMG_0468.jpg

Ég hef mikið notað vörurnar frá Anamma síðustu ár og þær valda aldrei vonbrigðum. Anamma er sænskt fyrirtæki sem útbýr einungis vegan matvörur og leggur mikinn metnað og vinnu í vörurnar sínar. Nýlega breyttu þau uppskriftunum á öllum vörunum sínum, og bættu helling við úrvalið hjá sér, og nú bragðast maturinn þeirra enn betur en áður. Í lasagnað fannst mér fullkomið að nota hakkið frá þeim, en ég á alltaf til poka af því í frystinum. Vörurnar frá Anamma fást meðal annars í Bónus, Melabúðinni og Fjarðarkaupum. 

Eitt af því besta við að gera lasagna er að hægt er að nota í það allt það grænmeti sem til er í ísskápnum. Í uppskriftina í færslunni nota ég t.d gulrætur, kúrbít og spínat, en það er síður en svo heilagt. Ég nota yfirleitt bara það sem ég á til sem hentar mér mjög vel, því ég elska að breyta til. 

IMG_0522.jpg
IMG_0531.jpg

Lasagna fyrir 4-6

Hakk í tómatsósu:

 • 1 poki hakk frá Anamma (325g)

 • 1 miðlungsstór laukur

 • 2 hvítlauksgeirar

 • 2 dósir niðursoðnir tómatar

 • Grillkrydd eftir smekk

 • Oregano eftir smekk (ég er vön að setja frekar mikið)

 • 1 msk balsamik edik

 • salt og pipar

Grænmeti og lasagnaplötur:

 • 1 lítill kúrbítur eða 1/2 stór skorinn í þunnar lengjur. Ég einfaldlega sneiði hann niður með flysjaranum mínum.

 • Sirka 2 gulrætur (1 bolli) skornar í lengjur. Ég nota sömu aðferð og við kúrbítinn.

 • 2 lúkur spínat. Það má alveg vera meira frekar en lítið af spínati því það hverfur nánast við eldun.

 • 1 pakki lasagnaplötur. Það er misjafnt hvað fólk vill hafa mikið af plötum, en ég hafði fjögur lög og notaði þrjár í hvert lag svo það fóru tólf plötur alls í lasagnað hjá mér.

Rjómaostasósa:

 • 1 askja vegan rjómaostur (yfirleitt 150-250g)

 • 2 msk ljóst tahini

 • 1/2 grænmetisteningur

 • 1/2 bolli vatn

 • 1/2 bolli ósæt sojamjólk

 • salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

 1. Byrjið á því að pressa hvítlauk og saxa laukinn og steikið á pönnu með örlítilli olíu á miðlungshita.

 2. Bætið hakkinu út í þegar laukurinn er orðinn mjúkur og steikið þar til það hefur þiðnað. Athugið að vegan hakk má steikja beint úr frystinum svo það þarf alls ekki að þíða það fyrir.

 3. Kryddið hakkið með grillkryddi að eigin vali og bætið svo tómötunum útá ásamt oregano og balsamik edik og leyfið því að malla í nokkrar mínútur og smakkið til. Mögulega þarf að bæta við meira af kryddunum, salti og pipar.

 4. Leggið blönduna til hliðar og steikið grænmetið örstutt á annarri pönnu með smá olíu. Það þarf ekki að vera neitt rosalega vel steikt en samt alveg búið að mýkjast svolítið. Leggið til hliðar.

 5. Setjið hráefnin í rjómaostasósuna í pott og hrærið vel saman þar til hún er orðin heit og laus við kekki. Smakkið til og bætið við salti og pipar ef þarf.

 6. Það er engin regla til um það hvernig setja á lasagna saman og ég held ég geri það aldrei nákvæmlega eins. Ég byrja hinsvegar alltaf á því að setja tómatsósu neðst og passa að hún þekji botninn vel.
  Næst raða ég lasagnaplötum og það passar fullkomlega að setja þrjár í hvert lag í mínu eldfasta móti.
  Næst smyr ég yfir góðu lagi af rjómaostasósunni og þar á eftir raða ég grænmetinu yfir, og endurtek svo leikinn.
  Ég nota ekki vegan ost á lasagnað, heldur passa ég að eiga svolítið eftir af rjómaostasósunni sem ég helli yfir áður en lasagnað fer í ofninn.

 7. Bakið við 190°c í 35-40 mínútur.

Við mælum með því að bera lasagnað fram með góðu salat og hvítlauksbrauði. 

Njótið
Veganistur

anamma.png

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Anamma á Íslandi-

 

Vegan hakk og spaghettí

IMG_9011-2.jpg

Í janúar ætlum við, í samstarfi við Krónuna, að útbúa fjóra gríðarlega einfalda rétti sem tekur einungis nokkrar mínútur að elda. Réttirnir munu henta öllum, hvort sem þeir eru að taka sín fyrstu skref í lífsstílnum eða löngu orðnir sjóaðir. Réttirnir eru fullkomnir fyrir þá sem eru á síðasta snúningi með að kaupa í matinn eða einfaldlega nenna ekki að hafa mikið fyrir kvöldmatnum eftir langan vinnu- eða skóladag. Þó eru þeir líka tilvaldir fyrir þá sem elska að elda og munu réttirnir allir bjóða upp á að hægt sé að bæta við því sem manni þykir gott ef maður er í stuði til að eyða meiri tíma í eldamennskuna. Réttirnir munu passa fyrir alla fjölskylduna og líka fyrir þá sem eru svolítið efins varðandi vegan mat. 

Mér fannst viðeigandi að byrja á þeirri máltíð sem ég geri hvað oftast þegar ég vil elda eitthvað sem er fljótlegt en á sama tíma bragðgott og saðsamt. Hakk og spaghettí hefur alla tíð verið í uppáhaldi hjá mér og enn frekar eftir að ég varð vegan. Sojahakkið frá Hälsans Kök er ótrúlega gott og hentar mjög vel í þennan rétt. Ég er ekki viss um að margir myndu taka eftir því að um vegan hakk sé að ræða þegar þeir borða það í réttum eins og þessum. 

IMG_9094-2.jpg

Það er að sjálfsögðu misjafnt hvaða grænmeti fólk notar í hakk og spaghettí en í þetta skiptið vildi ég hafa þetta virkilega einfalt og notaði frosnar grænar baunir og svartar ólífur. Mér finnst ólífurnar eiginlega þarfar í réttinn en vissulega þykja ekki öllum ólífur góðar og vilja því nota eitthvað annað. Ég myndi þá mæla með sveppum og gulrótum. 

IMG_9078-3.jpg
IMG_9090.jpg

Ég útbjó hvítlauksbrauð og hemp-parmesan sem meðlæti en fyrir þá sem hafa ekki tíma eða nenna ekki að útbúa meðlæti er t.d mjög gott að hafa bara baguette og vegan smjör. Þó er alls ekki þörf á því að hafa meðlæti þar sem rétturinn er saðsamur og bragðgóður einn og sér. 

IMG_9103-2.jpg

Hakk og spaghettí - fyrir 4

 • 400g Spaghettí frá Gestus
 • 1 poki hakk frá Hälsans Kök
 • Olía til steikingar
 • 1 krukka pastasósa frá Gestus
 • 1 dl frosnar grænar baunir (má sleppa)
 • 1 dl svartar ólívur skornar í sneiðar (má sleppa)

Aðferð

1. Sjóðið pastað eftir leiðbeiningunum á pakkanum. Gott er að setja örlítið salt í pottinn og nokkra dropa af olíu

2. Hitið olíu á pönnu og steikið hakkið í sirka fjórar mínútur

3. Bætið grænu baununum, ólívunum og pastasósunni á pönnuna og leyfið því að malla í sirka sjö mínútur

4. Smakkið til með salti og pipar

Hérna eru svo uppskriftir af:
Hvítlauksbrauði
Hemp-parmesan

-Veganistur

krónan.png

-Færslan er unnin í samstarfi við Krónuna og fást öll hráefnin þar-

Hrísgrjónanúðlur með hnetusmjörssósu og tofu

IMG_1389.jpg

Þá er veturinn kominn langt á veg og flestir komnir á fullt, rútínan loksins að verða komin á ról aftur og allir á fullu í sínu, allan daginn. Meðlimir fjölskyldunnar fara út á morgnanna hver í sína átt og hittast oft ekki aftur fyr en um kvöldmatarleytið. "En hvað á að hafa í matinn?" Þetta er ein leiðinlegasta umræða sem flestar fjölskyldur þurfa að eiga á hverjum degi. Hvort sem fjölskyldna samanstendur af einni manneskju eða átta þarf alltaf að hafa eitthvað í matinn og bara að ákveða það getur verið mikill hausverkur, hvað þá að þurfa að ákveða það á hverjum einasta degi.

IMG_1252.jpg

Eg sagði þessari spurningu stríð á hendur fyrir nokkrum árum og fór að gera matseðla um helgar fyrir viku í senn sem eg verslaði svo inn fyrir í einni ferð. Þvílíkur léttir að þurfa ekkert að hugsa um það, dag eftir dag, hvað ég eigi að hafa í matinn. Fara bara út í daginn vitandi nákvæmlega hvað á að vera í kvöldmat og að allt sé til í ísskápnum í akkúrat þann rétt. Hins vegar er auðvitað ekki alltaf auðvelt að setja niður á blað 6 máltíðir í einu, það er oft snúið, stundum alveg ótrúlega létt en stundum eins og það séu bara ekki til fleiri réttir í heiminum en tveir eða þrír. Ég er hins vegar komin með ágætis æfingu og enn ágætara gagnasafn af vikumatseðlum og fannst því komin tími til að leyfa ykkur að njóta góðs af. Við systur höfum því ákvaða að gera vikumatseðil að vikulegum færslum hérna á blogginu og vonum að ykkur líki vel.

IMG_1384.jpg
IMG_1386.jpg

Þó eru auðvitað ekki næstum allar uppskriftirnar af réttunum hérna inná blogginu en munum við auðvitað bæta í smátt og smátt og reyna að koma öllum okkar uppáhalds réttum hingað inn. Í þessari viku eru hnetusmjörs-tofu-núðlur á matseðlinum og fannst mér því tilvalið að setja þá uppskrift inn samhliða honum en þessar núðlur eru í algjöru uppaháldi hjá okkur þessa stundina. Þær eru alveg ótrúlega bragðgóðar og matarmiklar, og ekki skemmir fyrir hversu hollar og næringarríkar þær eru í leiðinni.

IMG_1439.jpg
IMG_1461.jpg

Hráefni:

 • 1/2 pakki hrísgrjónanúðlur

 • 1/2 kubbur tofu

 • 1/2 haus brokkoli

 • 1/2 græn paprika

 • u.þ.b. 10 cm af blaðlauk

 • u.þ.b. 1 bolli harricot baunir (ég kaupi frosnar)

 • u.þ.b. 1 bolli hvítkál skorið í þunnar ræmur

 • 4 gulrætur

 • Hnetsmjörssósa:

  • 2 bollar vatn

  • 2-3 msk grænmetiskraftur

  • 4 kúfullar msk hnetusmjör

  • 1 msk tamarisósa

  • 3 hvítlauksgeirar

  • 2 ferskar döðlur (muna að taka steininn úr)

  • 2 tsk rautt karrý mauk (red curry paste)

  • smá sítrónusafi kreystur úr ferskri sítrónu (má alveg sleppa)

  • salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

 1. Mér finnst best að byrja á því að setja vatn í frekar stóran pott og kveikja undir, þá er það farið að sjóða og hægt að setja núðlurnar útí, þegar ég hef undirbúið allt hitt.

 2. Ég sker tofuið niður en mér finnst best að henda því bara inn í ofn eins og það er, ekki með neinu kryddi eða neitt og leyfa því að vera þar á meðan að ég steiji grænmetið og útbý hnetusósuna.

 3. Skerið grænmetið niður eftir smekk og steikið létt upp úr örlitlu vatni

 4. Setjið öll hréfnin fyrir sósuna í blandara ðea matvinnsluvél og blandið vel þar til allt er komið vel saman.

 5. Sjóðið núðlurnar í vatninu eftir leiðbeiningum á pakkningunni.

 6. Takið tófuið út og bætið út á pönnuna með grænmetinu, hellið síðan hnetusósunni yfir það og leyfið suðunni á henni að koma upp. Mér finnst best að leyfa sósunni að malla í 5-7 mínútur áður en ég blanda núðlunum saman við.

 7. Berið réttinn fram einan og sér eða með spírum og muldum salthnetum

Njótið vel

22710108_10155093561382525_553341027_n.jpg

Vegan mac & cheese

unnamed (11).jpg

Mac and cheese er réttur sem fæstir íslendingar alast upp við að borða. Við eigum ekki einu sinni til íslenskt nafn yfir réttinn. Makkarónur með osti gæti gengið en það hljómar ekkert svakalega spennandi. Við systur höfum ekki oft smakkað mac and cheese og Í þau fáu skipti höfum við ekki skilið hæpið. Ekki fyrr en við smökkuðum vegan útgáfu þar sem ostasósan var búin til úr graskeri og kasjúhnetum. Eins og það hljómar nú furðulega smakkast það virkilega vel. Við vissum strax að við yrðum að búa til uppskrift innblásna af þeirri hugmynd. 

Rétturinn gæti ekki verið einfaldari, nema kannski ef sósan væri úr dufti og kæmi úr pakka, en þó munar ekki miklu. Þessi pínulitla auka-fyrirhöfn er algörlega þess virði því þetta er bæði virkilega bragðgott og svo er sósan næringarrík og inniheldur einungis holl og góð hráefni. 

Mac and cheese er vanalega ekkert svakalega hollur réttur en í þessu tilfelli er hann það. Margir þola illa hvítt hveiti en það er hægt að nota hvaða pasta sem er með þessari sósu. Fyrir ykkur sem borðið ekki glútein er að sjálfsögðu ekkert mál að nota glúteinlaust pasta, við höfum margoft notað svoleiðis og það er nákvæmlega enginn munur á bragðinu.

 

Hráefni

 • 450g butternut grasker

 • 350g pasta

 • 150g kasjúhnetur

 • 1/2 laukur - við notuðum lítinn lauk. Ef ykkar er í stærri kanntinum mælum við með að nota 1/4

 • 1/4 haus brokkólí

 • 1 tsk gróft sinnep

 • 3 msk næringarger

 • 1 dl jurtamjólk að eigin vali - við notuðum haframjólk frá Oatly

 • 2 tsk pasta rossa krydd frá Santa maria (eða annað sambærilegt krydd)

 • 1 tsk hvítlauksduft

 • 1 msk sítrónusafi

 • salt og pipar eftir smekk

Aðferð

 1. Leggið kasjúhneturnar í bleyti í að minnsta kosti klukkustund. Það er mjög fínt að setja þær í bleyti kvöldið áður og leyfa þeim að liggja yfir nótt svo þær séu orðnar vel mjúkar. Þetta fer allt eftir blandaranum sem þið eigið. Því betri sem hann er, því styttra þurfa þær að liggja í bleyti.

 2. Skerið graskerið niður í teninga og gufusjóðið í 15-20 mínútur

 3. Mýkið laukinn á pönnu

 4. Sjóðið pasta eftir leiðbeiningum á pakkanum

 5. Steikið brokkólí á pönnu í nokkrar mínútur

 6. Setjið öll hráefnin fyrir utan pastað og brokkólíið í blandara og blandið vel.

 7. Setjið pastað í stóra skál ásamt brokkólíinu, hellið sósunni útí og hrærið saman.

 8. Okkur þykir gott að bera þetta fram með ristuðu brauði

Vonum að þið njótið!
Veganistur

Fullkomið grænmetis lasanga

Ég varð snemma ástfangin af ítölskum mat. Það var eitthvað við pasta, pizzur, tómatlagaðar sósur og þessar einstöku kryddjurtir sem heillaði mig. Ég held að pasta hafi alltaf verið einn af mínum uppáhalds mat, hvort sem það var pasta með kjötsósu, lasanga, kalt pastasalat eða pestópasta. Það er eitthvað við þennan rétt, hann getur bæði verið svo látlaus með einfaldri sósu en á sama tíma svo fínn með aðeins meiri tíma og ást.

Í þetta skiptið ætlum við þó að deila með ykkur uppskrift á einföldu, klassísku grænmetislasanga. Það er langt síðan við fengum fyrst fyrirspurn um að gera lasagna uppskrift.  Lasagna er réttur sem maður getur leikið sér endalaust með. Það skiptir eiginlega ekki máli hvaða grænmeti maður notar, það verður alltaf gómsætt. Þessi uppskrift er mjög hefðbundin og þægileg, en við stefnum á að birta uppskriftir af alls kyns mismunandi útgáfum af þessum skemmtilega rétt í framtíðinni. 

I uppskriftina notuðum við meðal annars Violife rjómaost sem gefur réttinum mjög skemmtilegt bragð. Brúnu linsubaunirnar gera líka mikið fyrir réttinn að okkar mati. Grænmetið er hinsvegar smekksatriði. Það er að sjálfsögðu hægt að nota bara það sem er til í ísskápnum en við ákváðum að nota það sem er í uppáhaldi hjá okkur að þessu sinni. 

það halda margir að það sé rosalegt vesen að útbúa lasagna en í rauninni er það verulega einfalt. Það er tekur kannski smá stund að setja það saman en það er skemmtilegt og algjörlega þess virði. 

Það sem er hins vegar mjög þægilegt við lasanga er að það er í góðu lagi að undirbúið það daginn áður en það skal borið fram. Því hentar það fullkomlega þegar maður fær fólk í mat því maður getur haft það tilbúið í ísskápnunm og skellt því í ofninn rétt áður en gestina ber að garði. Ekkert uppvask eða stress.

Hráefni:

 • 1/2 bolli þurrar brúnar linsur
 • 1 msk grænmetiskraftur
 • 2 til 3 hvítlauksgeirar
 • 1/2 til 1 paprika
 • 1 meðalstór laukur
 • 3 gulrætur
 • hálfur meðalstór blómkálshaus
 • 1 1/2 dós niðursoðnir tómatar
 • 3 msk tómatpúrra
 • 1 msk þurrkuð basilíka
 • 1 msk þurrkað oregano
 • 2 msk grænmetiskraftur
 • salt og pipar
 • spínat
 • 1 dós violife rjómaostur með kryddjurtabragði (herbs)
 • lasanga plötur (passa að þær innihaldi ekki egg)
 • vegan ostur (við notuðum ost frá merkinu follow your heart sem fæst í Gló)

Aðferð

 1. Byrjið á því að skola linsurnar vel og sjóða upp úr einni matskeið af grænmetiskrafti í 40 mínútur. Á meðan er gott að undirbúa fyllinguna.
 2. Skerið gulrætur, papriku og lauk venjulega niður en blómkálið er best að saxa mjög smátt svo það líkist örlítið hakki. Steikið grænmetið með kryddunum og hvítlauknum þangað til það mýkist aðeins. Þegar grænmeti sem nota á í fyllingar og pottrétti líkt og í þessari uppskrift er algjör óþarfi að steikja það upp úr olíu en okkur finnst best að nota bara nokkrar msk af vatni.
 3. Bætið niðursoðnum tómötum og tómatpúrru útí ásamt grænmetiskraftinum. Látið suðuna koma upp og setjið þá soðnar linsurnar saman við og smakkið til með salti og pipar. Leyfið fyllingunni að sjóða í um 10 mínútur og bræðið rjómaostinn í potti á lágum hita á meðan. Það þarf að hræra vel í rjómaostinum á meðan svo hann brenni ekki við.
 4. Setjið í eldfast mót, fyllingu, spínat, lasangaplötur og síðast þunnt lag af rjómaostinum. Endurtakið þrisvar til fjórum sinnum þar til mótið er nánast fullt. Endið síðan á fyllingu og setjið ostin yfir hana.
 5. Bakið í 190°C heitum ofni í 20-25 mínútur.

Lasanga smakkast einstaklega vel borið fram með góðu fersku salati og hvítlauksbrauði, en það er þó alveg nóg eitt og sér.

Glútenlaust rjómapasta

IMG_1390.JPG

Ég hef aðeins verið að prófa mig áfram við að elda glútenlausan mat, en ég elska pasta og er mjög oft með það í matinn. Þegar reyna á að gera hina ýmsu pastarétti glútenlausa þarf að finna staðgengil fyrir aðal hráefnið, pastað sjálft. Það eru til alls kyns glútenlaus pasta í flestum búðum í dag en ég hef ekki smakkað mörg þeirra ennþá. Þó hefur mig lengi langað að prófa að elda baunapasta, en ég hef séð svoleiðis í mörgum búðum í soldin tíma. Ég ákvað að láta verða af því og keypti svartbauna-pasta, en ásamt því er hægt að fæ bæði soyjabauna-pasta og edamame-pasta. Pakkinn af pastanu er frekar dýr en 200gr pakki var nóg fyrir fjórar fullorðnar manneskjur í kvöldmat þar sem pastað stækkar alveg rosalega mikið við suðu. 

Einhvernveginn fannst mér líklegra að rjómasósa myndi passa með svartbaunapastanu frekar en sósa með tómatgrunn. Rjómapasta hefur alltaf verið smá spariréttur hjá mér en það geri ég alltaf þegar mig langar í eitthvað extra gott. Ég átti kebab Oumph í frystinum og datt í hug að það myndi passa vel í þennan rétt. Ég notaði svo það grænmeti sem ég átti til í ísskápnum, en mér finnst sveppir og laukur allavega vera nauðsyn í rjómapasta. Uppskriftin passar fyrir fjóra.

Hráefni:

 • 1 pakki svartbaunapasta
 • 1 bolli niðurskorið Oumph að eigin vali (ég notaði Kebab Oumph)
 • u.þ.b. 4 sveppir
 • hálfur rauðlaukur
 • u.þ.b. 1 bolli brokkolíblóm
 • tveir hvítlauksgeirar/1/4 lítill kínverskur hvítlaukur
 • rjómasósugrunnur (uppskrift neðar í færslunni)
 • salt og pipar eftir smekk
 • 2 msk Pasta Rossa krydd frá Santa Maria
 • 2 msk maísmjöl

Aðferð:

 1.  Byrjið á því setja vatn í pott, kveikja undir og leyfa suðunni að koma upp. Á meðan er sniðugt að undribúa grænmetið. Þegar suðan kemur upp er pastað sett út í og látið sjóða í 4-6 mínútur, en ég sauð mitt pasta í 6 mínútur. Aðskiljið pastað nokkrum sinnum með gaffli á meðan það síður.
 2. Skerið grænmetið eins og þið viljið hafa það, en ég reyni að skera það ekki of smátt, og steikið ásamt Oumph'inu upp úr örlítilli olíu og pressuðum hvítlauknum í nokkrar mínútur.
 3. Þegar grænmetið hefur mýkst er rjómasósunni hellt út í ásamt kryddunum og suðan látinn koma upp. Stráið maísmjölinu yfir, hrærið vel í og leyfið sósunni svo að sjóða í 4-5 mínútur.
 4. Pastanu er síðan hrært saman við þegar slökkt hefur verið undir pönnunni.

Rjómasósugrunnur:

 • 1 dós kókosmjólk
 • 1/4 dl næringarger
 • 1/2 grænmetisteningur

Aðferð:

 1. Öllu er blandað saman í skál og notað eftir aðferðinni hér að ofan. 

Það sem ég elska mest við þennan rétt er hversu einfaldur hann er þó svo að hann sé í fínni kanntinum og passi æðislega vel í matarboðið. Ég bar mitt pasta fram með ristuðu grófu brauði með vegan smjöri og vegan parmesan ostinum frá Follow Your Heart, en hann fæst í Gló Fákafeni og Hagkaup.

-Júlía Sif

Gómsætt rjómapasta

Pasta er líklega eitthvað sem öllum þykir gott. Uppáhalds pastaréttirnir mínir eru lasagna, kalt pastasalat, pasta með grænu pestó og að sjálfsögðu rjómapasta. Síðan ég var barn hef ég haldið uppá pasta í rjómasósu og þá sérstaklega það sem mamma var vön að gera fyrir mig. Þegar ég gerðist vegan útbjó ég mína eigin uppskrift af rjómapasta sem minnti á það sem ég var vön að borða. 

Það eru til nokkrar tegundir af vegan matreiðslurjóma. Persónulega finnst mér sojarjóminn frá Naturli bestur, hann fæst í Nettó. Ég hef gert pastað með kókosrjóma og mér finnst það einnig mjög gott. Ég á enn eftir að prufa möndlurjóma en hrísrjóminn finnst mér sístur, aðallega vegna þess hversu sætur hann er. 
Galdra-hráefnið er svo næringarger sem gerir ótrúlega mikið fyrir sósuna. Næringarger er óvirkt ger sem er stútfullt af vítamínum, þar á meðal b12. Næringarger er eitt af mínum uppáahalds hráefnum. Það gefur svolítið ostalegt bragð svo það er oft notað í stað osts í allskonar uppskriftir. Ég strái næringargeri nánast út á allt og mæli með því að fólk kaupi sér dollu. Ég mæli með gerinu frá Engevita sem fæst meðal annars í Bónus og Hagkaup.

Neikvæða hliðin á svona gómsætum rjómapastaréttum er sú að þeir geta verið þungir í magann. Ég man að mér leið stundum eins og ég væri með stein í maganum þegar ég hafði borðað mig sadda af svona pasta. Mér finnst vegan rjómapasta samt fara mun betur í magann. Jurtarjóminn er einhvernveginn léttari en hinn. Um nokkurt skeið hef ég líka borðað eins lítið af glúteini og ég mögulega get og ég verð að segja að glúteinlaust pasta fer miklu betur í mig. Það er til fullt af góðu glúteinlausu pasta hvort sem það er úr baunum, kínóa eða maís. Það sem ég notaði í þetta sinn er úr maís og það er ómögulegt að finna bragðmun á því og hveitipasta.

Hráefni

1/2 askja sveppir
1/2 rauð paprika
1/2 haus brokkólí 
1/2 grænmetisteningur
1-2 fernur jurta-matreiðslurjómi (mæli með Oatly sem fæst í krónunni)
1/2 tsk hvítlauksduft
1/2 tsk paprikuduft
Örlítið af olíu til steikingar
200 g pasta
3 msk næringarger
salt og pipar eftir smekk


Aðferð:

1. Steikið grænmetið á pönnunni uppúr örlítilli olíu

2. Sjóðið pasta í potti á meðan grænmetið steikist á pönnunni

3. Hellið rjómanum út á pönnuna þegar grænmetið er vel steikt. Bætið grænmetiskrafti, næringargeri og kryddum út á og látið malla í nokkrar mínútur á lágum hita. 

4. Hellið pastanu út á pönnuna þegar það er soðið í gegn. Bætið næringargeri, salti og pipar við ef ykkur finnst vanta. Ég á það til að bæta næringargeri útá því ég fæ einfaldlega ekki nóg af því!

Þegar ég er í stuði útbý ég hvítlauksbrauð og ber fram með pastanu en yfirleitt borða ég það bara eitt og sér. Ég vona að þið njótið vel.

Helga María

 


 

 

Pasta með rjómaostasósu

Ég hef alltaf verið mikill aðdáandi pastarétta og þá aðallega pasta í rjómasósu. Það hefur auðvitað ekkert breyst eftir að ég varð vegan því eins og við flest vitum er til fullt af ótrúlega góðum vegan matreiðslurjóma, smurosti og rjómaosti sem virkar ótrúlega vel í slíka rétti. Nýlega hófu verslanir Hagkaups og Bónus að selja rjómaost frá merkinu Tofutti 

Hann er ótrúlega góður og ég hef notað hreina rjómaostinn bæði í krem á kökur og á kex með sultu.
Hvítlauks og jurta rjómaostinn hentar svo rosalega vel í allskonar rjómasósur og útbjó ég um daginn þessa æðislegu sósu sem ég hef bæði notað í kartöflugratín, sem hvíta sósu í lasagna og sem sósu í pastarétt. 

Innihaldið er: 
2 msk ljóst tahini
2 msk rjómaosturinn frá tofutti
grænmetisteningur
1 bolli sojamjólk
maísmjöl til að þykkja
Salt og pipar eftir smekk

Allt sett saman í pott og hrært í þessu þar til suða kemur upp. 
Hún á að vera alveg svolítið þykk. 

Fáránlega góð sósa sem passar með allskonar

Njótið
Helga María

 

Einfaldur spagettíréttur

Í kvöld var spaghetti í matinn. Það er eitt af því sem ég geri þegar ég er í litlu stuði fyrir eldamennsku eða svo svöng að ég þarf eitthvað sem tekur stutta stund að elda. 

-Ég skar niður nokkra sveppi, einn lauk og eina papriku og setti á pönnu. Ég reyni að komast hjá því að nota olíu þegar ég elda svo ég steikti þetta uppúr vatni ásamt kjúklingabaunum sem ég skolaði fyrst. 

-Á meðan hitaði ég vatn í potti og þegar suðan kom upp setti ég heilhveiti spaghetti ofan í. Ég sauð spaghettiið í sirka 7 mínútur.

-Þegar grænmetið var orðið svolítið mjúkt hellti ég niðursoðnum tómötum í pönnuna og kryddaði með hvítlaukspipar, smá salti og pizza kryddi frá Pottagöldrum. 

Fyrir þá sem vilja er gott að setja smá tómatsósu yfir en það er alls ekki nauðsynlegt. Einnig keypti ég svartar ólífur alveg spes til að nota í þetta og steingleymdi þeim en mæli sterklega með því að hafa þær með! 

Góð og holl máltíð sem tók enga stund!


Njótið 
Helga María

 

Einfaldur pastaréttur með sólþurrkuðum tómötum


Í kvöld gerði ég mér pastarétt sem er líklega sá fljótlegasti sem til er. Ég byrjaði á því að sjóða heilhveiti pasta. Þegar það var tilbúið helti ég af því vatninu, bætti út í pottinn fersku spínati og sólþurkuðum tómötum og hrærði því saman þangað til spínatið var orðið örlítið mjúkt. 
Virkilega góður réttur og fullkominn fyrir þau kvöld sem maður varla nennir að elda E