Gómsætt grænkálssnakk

IMG_8736.jpg

Ég gleymi því aldrei þegar ég smakkaði grænkál í fyrsta sinn. Ég hafði enga hugmynd um hvernig ætti að matreiða það svo ég skellti því í skál ásamt allskonar grænmeti og útbjó stærðarinnar salat. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvernig mér leið þegar ég tók fyrsta bitann. Kálið var gróft, þykkt og stíft. Ég gat með engu móti skilið afhverju grænkálið var svona vinsæl fæða og afhverju fólk borðaði ekki miklu frekar venjulegt iceberg. Ég ákvað því að grænkál væri ekki minn tebolli.

IMG_8636.jpg
IMG_8644.jpg

Það leið þó ekki á löngu þar til ég fékk grænkálssalat sem lét mig endurskoða málið. Salatið var mjúkt, yndislega bragðgott og síður en svo erfitt að tyggja. Ég lærði þá að galdurinn til að útbúa gott grænkálssalat er að nudda það vel uppúr góðri dressingu. Síðan þá hefur grænkál verið reglulegur partur af matarræðinu mínu. 

Grænkál er hægt að njóta á ýmsa vegu. Auk þess að henta vel í salöt er það góður grunnur í þeytinga og græna safa, en einnig er hægt að útbúa úr því dýrindis grænkálssnakk. Ég viðurkenni að ég hafði ekki mikla trú á því að mér myndi þykja grænkálssnakk neitt svakalega gott. Mér hefði seint dottið í hug að gera snakk úr káli, en var þó svolítið forvitin. Það má með sanni segja að snakkið hafi komið mér gríðarlega á óvart. Ég ætla að deila með ykkur uppskriftinni sem ég geri yfirleitt, en hún er bæði einföld og fljótleg. 

IMG_8688.jpg
IMG_8710-2.jpg

Grænkálssnakk

Uppskriftin er fyrir tvær ofnplötur

 • 1 búnt grænkál
 • 1 msk olía
 • 2 tsk hvítlauksduft
 • 1 tsk laukduft
 • Chili flögur eftir smekk
 • 3 msk næringarger
 • salt eftir smekk
 1. Hitið ofninn á sira 150°c
 2. Þvoið grænkálið, þurrkið það vel, fjarlægið blöðin af stilkunum og rífið hvert blað í nokkra stóra bita
 3. Setjið grænkálið í stóra skál og nuddið olíunni saman við. Passið að hún þekji öll blöði. 
 4. Hellið kryddunum og næringargerinu út í og blandið vel saman við kálið
 5. Leggið kálið á ofnplötu með bökunarpappír. Það skiptir máli að dreifa vel úr kálinu og hafa einungis eitt lag á hverri plötu svo snakkið verði stökkt og gott. Þess vegna geri ég frekar tvær plötur ef ég þarf.
 6. Bakið snakkið á 140°c hita í 20-25 mínútur. stundum sný ég plötunni þegar bökunartíminn er hálfnaður en það er samt ekki nauðsynlegt. 
 7. Leyfið snakkinu að kólna aðeins á plötunni áður en það er borið fram. 

Mér finnst gott að útbúa ídýfu með snakkinu. Uppskriftin af henni er mjög einföld. Ég blanda sýrða rjómanum frá Oatly saman við laukduft, hvítlauksduft, steinselju eða kóríander, salt og pipar. Þessi ídýfa er virkilega góð og hentar mjög vel með grænkálssnakkinu sem og öðru snakki. 

Helga María

 

Bananamöffins

download (4).jpeg

Þegar ég á banana sem eru orðnir mjög þroskaðir skelli ég yfirleitt í þessar góðu bananamuffins en ég baka þær örugglega að minnsta kosti einu sinni í viku. En þær eru ótrúlega góðar og hollar og fara einstaklega vel í nestisboxi

download (2).jpeg

Hráefni:

 • 1 bolli spelt frá himneskri hollustu
 • 1/2 bolli malað haframjöl frá himneskri hollustu
 • 1 tsk matarsódi
 • 1 tsk lyftiduft
 • 1/2 tsk kanill
 • 1 bolli stappaðir bananar (rúmlega 3)
 • 1/3 bolli hlynsíróp
 • 1 bolli plöntumjólk
 • 1 bolli saxað súkkulaði eða rúsínur

Aðferð:

 1. Blandið þurrefnunum saman í skál
 2. Bætið öllu nema súkkulaðinu/rúsínunum saman við og hrærið saman. Setjið súkkulaðið/rúsínurnar síðast og blandið við deigið.
 3. Bakið muffinsarnar í 18-20 mín í 175°C heitum ofni.
download (1).jpeg

Njótið vel
- Júlía Sif

Sumarlegt salat

Þar sem ég er vegan þarf ég yfirleitt alltaf að taka með mér nesti í vinnuna. Ég elda stórar máltíðir svo það sé nóg fyrir bæði mig og kærastann minn í hádegismat daginn eftir. Stundum henntar það þó ekki alveg, t.d. þegar að við förum út að borða eða höfum einfaldlega ekki tíma til að elda stóra góða máltíð, en þá er hægt að redda sér á alls konar vegu.

Ég á alltaf til grænmetisbuff eða bollur í frystinum til að grípa í og svo er úrvalið af fljótlegum vegan mat alltaf að aukast. Snemma í vetur kom á markaðinn skyndiréttur frá Allos. Þegar ég sá þetta ákvað ég að grípa nokkra pakka með og prófa. Við prófuðum að taka réttina með okkur í nesti en urðum ósátt hvað þeir eru lítið mettandi. Við hefðum örugglega þurft að taka þrjá hvort til þess að verða södd, en réttirnir voru aftur á móti virkilega bragðgóðir.

Um daginn ákvað ég að prufa mig áfram með réttina. Ég átti ennþá tvo pakka og þar sem við vorum ekkert rosalega spennt fyrir réttunum, ákvað ég að gá hvort ég gæti ekki kryddað örlítið uppá þá. Útkoman var æðislegt sumarsalat sem kom okkur báðum mikið á óvart. Við höfum verið dugleg að úbúa samskonar salöt og taka með okkur í nesti. Þau verða þó aldrei alveg eins því við nýtum það sem við eigum í ísskápnum hverju sinni. Salötin eru mettandi en þó frekar létt og henta því einnig vel sem hádegismatur á sólríkum degi. 

Ég skiptist á að nota grjón, bygg, kínóa eða kúskús. Svo set ég grænmeti, ávexti og fræ. Það er hægt að leika sér endalaust með þetta og finna hvað manni þykir best. Réttirnir eru bragðmiklir svo það er óþarfi að krydda salötin aukalega. 

Hráefni:

 • 1 pakki Allos vegan skyndiréttur
 • 1 bolli einhvers konar grunnur (Í þessu salati var ég með kúskús og kínóa í bland)
 • spínat
 • kirsuberjatómatar
 • epli
 • graskersfræ

Aðferð:

 1. Eldið skyndiréttinn eftir leiðbeiningum á pakkanum og sjóðið þann grunn sem þið hyggist nota. Mér finnst gott að sjóða kínóa og kúskús upp úr smá grænmetiskrafti.
 2. Leyfið skyndiréttinum og grunninum að kólna en á meðan er hægt að undirbúa restina af salatinu og blanda þessu svo saman þegar allt hefur kólnað vel.
 3. Ég sker spínatið, tómatana og eplin í litla bita svo auðvelt sé að borða salatið. Fræin set ég heil saman við.

Júlía Sif

Betra en túnfisksalat

Hverjum hefði geta dottið í hug að kjúklingabaunir gætu líkst túnfiski? Ekki okkur að minnsta kosti. Við vorum mjög skeptískar þegar við heyrðum af því fyrst, að hægt væri að útbúa mæjónessalat með kjúklingabaunum sem minnti á túnfisksalat. Það tók okkur langan tíma að langa að prufa því við höfðum ekki háar væntingar. Við urðum því hissa þegar við loksins létum til skara skríða. Salatið svipar vissulega til túnfisksalats en er að okkar mati mun betra á bragðið og hefur ekki sterka lykt. Við getum því notið þess að borða salatið án þess að hafa áhyggjur af fólkinu í kring. 

Nýverið hóf Krónan að selja vegan mæjónes. Það eru nú þegar nokkrar tegundir á markaðnum en fyrst núna er hægt að kaupa vegan mæjó í íslenskri framleiðslu. Við ákváðum að nýta tækifærið og búa til gómsætar samlokur með kjúklingabaunasalati. Uppskriftin af salatinu er einföld, fljótleg og virkilega bragðgóð. Það kom mjög vel út að nota mæjónesið og við erum spenntar að prufa það í fleiri rétti.

Salatið er tilvalið á ritz kex og á samlokur. Það er líka gott útá grænt salat með allskonar grænmeti og graskersfræjum. Í þetta sinn ákváðum við að útbúa "djúsí" samlokur með káli, avókadó, tómötum, rauðlauk og kjúklingabaunasalatinu. Samlokan fékk að sjálfsögðu toppeinkunn hjá okkur. 

Hráefni:

 • 1 dós kjúklingabaunir
 • 1/2 lítill rauðlaukur 
 • 1/2 bolli frosnar maísbaunir (leyfið þeim að þiðna áður en þið setjið þær í salatið samt)
 • 4 sneiðar jalapeno
 • 2 kúfullar msk vegan Krónumæjónes
 • 1/2 tsk gróft sinnep eða dijon sinnep
 • 1/2 tsk hvítlauksduft
 • 1/2 tsk paprikuduft
 • salt og pipar eftir smekk
 1. Stappið kjúklingabaunirnar gróflega með kartöflustöppu eða gaffli. 
 2. Saxið rauðlaukinn og jalapeno-sneiðarnar niður og blandið saman við kjúklingabaunirnar ásamt restinni af hráefnunum.

Berið fram eftir því sem ykkur þykir best.

 

Færslan er unnin í samstarfi við Krónuna og fást öll hráefnin þar

Fjórir auðveldir chia-grautar

Mér finnst ótrúlega þægilegt að gera mér chia-graut á kvöldin til að taka með mér í vinnuna daginn eftir. Það er svolítið síðan ég byrjaði að búa mér til grauta en fyrst um sinn flækti ég það mikið fyrir mér og grautarnir innihéldu mörg hráefni. Síðan þá hef ég þróað þá mikið og ákvað ég að deila með ykkur hversu einföld uppskriftin er orðin. Hver grautur inniheldur einungis þrjú hráefni. Það eru á markaðnum í dag alls konar tegudnri af plöntumjólk með alls konar mismunandi bragði. Mér finnst tilvalið að nota bragðbætta mjólk í grautinn minn til að auðvelda fjölbreyttni, en þá fæ ég ekki leið á grautnum. Ég ákvað að nota uppáhalds mjólkina mína í þetta skiptið en það er haframjólkin frá sænska merkinu Oatly.

Hefðbundni grauturinn

Þessi grautur er æðislegur og ótrúlega hollur. Vanillan er alls ekki nauðsynleg en hún gerir mjög gott bragð sem passar æðislega við peruna.

Hráefni:

 • 3 msk chiafræ
 • 250 ml Oatly haframjólk
 • Örlítið af lífrænni vanillu (má sleppa)
 • 1/2 pera

Aðferð:

 1. Hrærið saman chiafræunum, mjólkinni og vanillunni. 
 2. Skerið peruna í litla bita og bætið út í.
 3. Leyfið grautnum að sitja í allavega 30 mínútur í ísskáp áður en hann er borðaður. Ég geri minn á kvöldin og læt að bíða í ísskáp yfir nóttina.

 

Bleiki grauturinn

Ótrúlega góður grautur en það að hann sé bleikur gerir hann ennþá betri. 

Hráefni:

 • 3 msk chiafræ
 • 1 ferna Oatly jarðaberja drykkjarjógúrt
 • 1/2 - 1 epli

Aðferð:

 1. Hrærið saman chiafræunum og jógúrtinni
 2. Skerið eplið í litla bita og bætið út í.
 3. Leyfið grautnum að sitja í ísskáp í minns 30 mínútur. Ég geri minn á kvöldin og hef hann í ísskápnum yfir nótt.

 

 

 

Suðræni grauturinn

Þessi er uppáhalds grauturinn minn en ég er mjög mikið fyrir mangó. Hann bókstaflega kitlar bragðlaukana.

Hráefni:

 • 3 msk chiafræ
 • 1 ferna Oatly mangó og appelsínu drykkjarjógúrt (230 ml)
 • 1/2 mangó

Aðferð:

 1. Hrærið saman chiafræunum og drykkjarjógúrtinni
 2. Skerið mangóið í litla bita og setjið út í
 3. Leyfið grautnum að sitja í minnst 30 mín í ísskáp. Ég geri minn á kvöldið og leyfi honum að sitja yfir nótt.

 

 

Helgar grauturinn

Þessi grautur er tilvalinn fyrir laugardagsmorgnanna þar sem manni líður bókstaflega eins og maður sé að borða súkkulaðibúðing. Mér finnst súkkulaði og bananar passa fullkomlega saman og þess vegna toppaði ég hann með niðurskornum banana.

Hráefni:

 • 3 msk chiafræ
 • 250 ml Oatly súkkulaðimjólk
 • 1/2 - 1 banani

Aðferð:

 1. Hrærið saman chiafræunum og mjólkinni.
 2. skerið bananan í litla bita og blandið saman við
 3. Leyfið grautnum að sitja í að minnsta kosti 30 mínútur eða yfir nótt.

Kínóa og haframjöls laugardagsnammi

Ég elska að eyða tíma í eldhúsinu en um helgar þegar ég hef tíma langar mig oft að búa til eitthvað gott með kaffinu. Mér datt í hug þessa helgina að gera gömlu góðu rice krispies kökurnar sem allir þekkja örugglega vel. 

Það er örlítið vandasamt að finna vegan rice krispies hér á landi en það er þó til. Ég hef bara fundið það í Nettó en þeir virðast einungis selja vegan útgáfuna. Það sem þarf að passa þegar leita á af vegan úgáfunni er að ekki sé viðbætt D-vítamín í morgunkorninu. Ég átti því miður ekki rice krispies og nennti ekki út í búð þar sem ég vissi að ég ætti örugglega eitthvað sem ég gæti notað í staðin. 

Ég fann í skápunum hjá mér poppað kínóa og haframjöl og ákvað að prófa að nota það. Það kom ótrúlega vel út og er nammið hollara fyrir vikið. Ég ákvað því aðeins að breyta þessari hefðbundnu uppskrift og reyna að gera hana örlítið hollari. Ég skipti smjöri út fyrir kókosolíu og sykrinu fyrir kókospálmasykur og síróp, en þetta átti nú einu sinni að vera nammi. Ég ákvað svo að setja smá hnetusmjör útí þar sem ég átti það til og datt í hug að það myndi gefa mjög gott bragð.

Hráefni:

 • 150 ml kókosolía
 • 80 gr gott dökkt súkkulaði (ég notaði 70% súkkulaði)
 • 1/2 dl kókospálmasykur
 • 2 msk agave síróp
 • 1 dl hnetusmjör (ég nota hnetusmjörið frá Sollu)
 • 4 dl poppað kínóa
 • 3 dl haframjöl

Aðferð:

 1. Bræðið saman við lágan hita súkkulaði, kókospálmasykur og síróp. Það þarf að passa að hræra stanslaust í sykrinum því hann brennur mjög auðveldlega.
 2. Þegar sykurinn er bráðin setjið kókosolíuna útí og hitið þar til suðan kemur upp. Hrærið ennþá stanslaust í blöndunni svo hún brenni ekki.
 3. Takið pottið af hellinn um leið og suðan kemur upp og hrærið hnetusmjörinu út í. Leyfið blöndunni að kólna í 5-10 mínútur svo hún þykkni örlítið. 
 4. Hellið út í kínóanu og haframjölinu og hrærið vel svo það sé allt blandað í súkkulaðinu.
 5. Hellið blöndunni í eldfastmót, en það er mjög gott að hafa smjörpappír undir. Leyfið namminu að vera í frysti í 40-60 mínútur, áður en það er tekið út og skorið í bita.

Súkkulaði prótínstykki

Ég er búin að vera soldið að taka matarræðið mitt í gegn núna í janúar, eftir allt sukkið fyrir jólin. En nú er það orðið svoleiðis hérna á Íslandi að úrvalið af vegan mat, skyndibita, sætindum og bara öllu tilheyrandi er orðið svo gífurlega mikið að það er mjög auðvelt að týna sér í óhollum og næringarsnauðum kostum. Mér fannst því komin tími til að taka nokkur skref til baka og hugsa meira um það hvað ég set ofan í mig. Þegar við systur byrjuðum þetta vegan ferðalag okkar áttum við heima saman og þá var úrvalið af óhollum vegan mat ekki neitt. Við borðuðum því alveg ótrúlega hollt alla daga og sukk var bara eiginlega ekki í boði. Ég er mikið farin að sakna þess, þar sem maður var alltaf stútfullur af orku og leið alveg ótrúlega vel. Ekki misskilja þetta samt, ég er mjög ánægð með sukk úrvalið, það þarf bara aðeins að passa sig að gleyma ekki að næra líkaman almennilega líka.

Ég vissi þó að ég þyrfti að finna eitthvað sem mér fannst gott til að grípa í þegar sætindalöngunin færi að láta bera á sér. Þegar við Ívar vorum að ferðast fyrir ári kynntumst við Clif bar. Við boðuðum mjög mikið af þeim þar sem þeir fengust víða og voru mjög næringaríkir og góðir. Mér datt því í hug að reyna að búa til eitthvað svipað. Einhver svona góð orkustykki sem væru holl og næringarík.

Það er þó hægt að fá fjöldan allan af tilbúnum næringarstykkjum í flestum búðum, sum mjög góð og önnur síðri, en þau hafa það öll sameiginlegt að vera alveg virkilega dýr. Mig kítlaði því mikið í fingurna að reyna að gera eitthvað svona sjálf heima. Það sparar manni alltaf hellings pening að búa til hlutina sjálfur og svo finnst mér alveg frábært að vita alveg upp á hár hvað er í matnum sem ég er að borða.

Eins og mér datt í hug var alls ekki flókið að gera stykkin sjálfur og það tók enga stund. Þau heppnuðust líka alveg ótrúlega vel og hafa verið til hérna heima síðan ég bakaði þau fyrst í byrjun janúar. Við tökum þessi stykki með okkur út um allt, en þau hafa oft bjargað okkur þegar maginn hefur verið sár og við að flýta okkur eitthvað. Það er fyrir öllu að hafa eitthvað gott til að grípa í og vita á sama tíma að það er stútfullt af hollri og góðri næringu.

Hráefni:

 • 15 fersk­ar döðlur
 • 1 dl haframjólk
 • 1 msk. möndl­u­smjör
 • 2 tsk. kó­kospálma­syk­ur (eða sæta að eig­in vali)
 • 1/ - 1 msk. hrákakó
 • 1/ dl veg­an-súkkulaðiprótein (við notuðum hráa próteinið frá Sun warri­or)
 • 2 msk. hör­fræmjöl
 • 1 1/ dl trölla­hafr­ar (við not­umst við glút­en­lausa hafra)
 • 1 dl poppað kínóa (en það færst í heilsubúðum sem og hagkaup og nettó)
 • 1/ dl kó­kos­mjöl
 • 30 gr 70% súkkulaði

Aðferð:

 1. Byrjið á því að taka stein­ana úr öll­um döðlun­um.
 2. Setjið döðlur, haframjólk, möndl­u­smjör, kó­kospálma­syk­ur, kakó og prótein í bland­ara eða mat­vinnslu­vél og blandið þar til þetta verður að sléttu mauki.
 3. Hrærið mauk­inu sam­an við hafr­ana, kínóað, kó­kos­mjölið og súkkulaðið með sleif þar til það er vel blandað sam­an.
 4. Það má bæði rúlla deig­inu í kúl­ur og borða hrá­ar eða móta í stykki og baka við 180°C í 15 mín­út­ur. Ég mæli með að prófa hvort tveggja og finna út hvað ykk­ur finnst best.

Njótið vel
-Júlía Sif

Vegan döðlunammi

Þegar halda á veislur, hvort sem þær eru stórar eða litlar, boð eða bara þegar fólk ber að garði langar manni að geta boðið uppá eitthvað. Þá er gott að eiga eitthvað auðvelt, sem hægt er að henda í á örstundu eða grípa úr frystinum. Þessir döðlubitar henta ótrúlega vel með kaffinu, bæði um miðjan daginn og sem eitthvað sætt eftir matinn í boðinu. Það þarf nefnilega ekki alltaf að vera með eitthvað rosalega flókið svo að það slái í gegn. Þess vegna elska ég þessa uppskrift, hún er ótrúlega einföld en hittir alltaf beint í mark.

Hráefni:

 • 250 gr ferskar döðlur (u.þ.b. einn bolli þegar búið er að taka steinana úr)
 • 130 gr vegan smjör
 • 1/2 bolli kókospálmasykur
 • 100 gr lakkrís
 • 2 1/2 bolli rice krispies (passa að það sé vegan)
 • 150 gr suðusúkkulaði (1 1/2 plata)

Aðferð

 1. Saxið döðlurnar og setjið í pott ásamt smjörinu og sykrinum og bræðið yfir meðalhita. 
 2. Látið sjóða á vægum hita í 7-9 mínútur, eða þar til döðlurnar eru vel bráðnaðar.
 3. Saxið lakkrísinn í smátt kurl og blandið saman við rice krispies í skál. Þegar karamellan er tilbúinn er henni hellt yfir krispies'ið og þessu blandað vel saman. 
 4. Ég rúllaði mínu nammi upp í kúlur og hjúpaði ýmist með muldu krispies'i eða súkkulaði en einnig er hægt að dreifa blöndunni þétt í eldfast mót og hella bráðnu súkkulaði yfir. Þá er það látið sitja í frystinum í allt að klukkutíma áður en það er skorið í bita. 

Það þarf að passa vel þegar gera á þessar kúlur vegan að ekki allt rice krispies er vegan. Lang flest rice krispies sem fæst hér á landi frá kellog's hefur viðbætt D-vítamín sem er unnið úr ull. Það er þó ein tegund til frá þeim sem er vegan en hún fæst einungis í nettó en það sést vel á innihaldslýsingunni þar sem hún er mikið styttri og ekkert talað um viðbætt næringarefni og vítamín.

Njótið vel

-Júlía Sif