Ég ætla að breyta lífi mínu - 2. kafli

IMG_9687.jpg

Síðasta vika hefur verið áhugaverð. Mér hefur að mörgu leyti liðið eins og ég sé að fá tækifæri til að byrja upp á nýtt. Tækifæri til að sleppa frá mér öllum þeim hugmyndum og skoðunum um það hver ég er og hvað ég get og get ekki. Það er nefnilega magnað að stoppa um stund og átta sig á því að hausinn á manni setur manni gríðarlega mikil takmörk. Við göngum í gegnum lífið með rödd í höfðinu sem stoppar ekki. Hún gefur okkur endalaust af óumbeðnum ráðum og tjáir okkur skoðanir sínar á öllum sköpuðum hlutum. Ef röddin í höfðinu á okkur væri önnur manneskja værum við löngu búin að segja henni að hypja sig. Hver vill umgangast einhvern allar stundir sem talar við okkur á sama hátt og röddin í höfðinu á það til að gera? Við getum ekki þaggað niður í röddinni og þess vegna er svo mikilvægt að gera hana að okkar besta vini. Svo það sé á hreinu, þá er ég að tala um hugsanir okkar. Við hugsum allan liðlangan daginn og oft um eitthvað sem skiptir voðalega litlu máli eða jafnvel lætur okkur líða virkilega illa. Oft er líka erfitt að greina á milli staðreynda og svo okkar upplifunum á hlutunum, sem eru þegar allt kemur til alls, bara okkar upplifun. 

Síðan ég birti síðustu færslu hef ég upplifað margar og miklar tilfinningar, þó eiginlega bara jákvæðar. Ég viðurkenni að ég var svolítið hrædd um að ekkert myndi breytast hjá mér og þessi árs skuldbinding mín myndi verða að engu. Í dag er ég síður en svo hrædd um það og ég get sagt að ég hafi ekki upplifað jafn góða viku í langan tíma. Mér líður á margan hátt eins og ég sé önnur manneskja. Ekki vegna þess að ég er skyndilega allt öðruvísi en ég var áður heldur vegna þess að með því að taka ákvörðun um að breyta lífi mínu, og segja frá því á blogginu og á snappinu okkar, líður mér eins og ég hafi klifið vegg sem ég taldi mig ekki komast yfir. Eins fékk ég fjöldann allan af skilaboðum frá fólki sem annaðhvort vildi sýna mér stuðning eða jafnvel taka þátt í þessu átaki með mér og ég get ekki lýst því hvað mér þykir vænt um það. 

IMG_9839.jpg

Í síðustu viku

  • Vaknaði ég fyrir klukkan 9 á hverjum degi
  • Klæddi ég mig í föt á hverjum degi og kósýgallinn hefur fengið smá hvíld
  • Átti ég yndislegt símtal við Katrínu litlu systur mína.
  • Átti ég yndislegt símtal við ömmu mína
  • Prufaði ég mig áfram með kökuuppskrift sem kemur á bloggið á næstu dögum
  • Mætti ég á kóræfingu og æfði mig vel fyrir hana
  • Fór ég á kaffihús, las ljóð, drakk gott kaffi og spjallaði við Sigga
  • Fór ég í spennandi atvinnuviðtal varðandi sumarvinnu
  • Gekk ég frá eftir mig jafn óðum og leið ég kjölfarið mun betur í umhverfinu mínu
  • Minnti mig á það daglega að ég ber ábyrgð á lífinu mínu og þó ég hafi ekki fullkomna stjórn á því sem kemur fyrir mig, hef ég stjórn á því hvernig ég bregst við því. 
  • Þvoði ég á mér andlitið á hverju kvöldi fyrir svefninn
  • Hlustaði ég mikið á tónlist og uppgvötaði frábæra nýja hljómsveit
  • Borðaði ég næringarríkan mat og keypti engar óþarfa umbúðir
  • Datt ég tvisvar í hálkunni og langaði ekki að hverfa inn í sjálfa mig!!

Það sem mér tókst ekki nógu vel í síðustu viku en ætla að gera betur þessa viku:

  • Ég gaf mér ekki tíma á kvöldin þar sem ég lagði frá mér símann. Ég er að reyna að vera meira meðvituð um símanotkunina og það er virkilega áhugavert hvað ég á það til að teygja mig í símann þegar mér leiðist
  • Ég borðaði enga máltíð án þess að hafa afþreyingu. Ég hef áttað mig á því að ég er alltaf með Snapchat, Instagram, Youtube myndbönd, hlaðvörp eða hljóðbækur í gangi á meðan ég borða og mig langar að breyta því
  • Ég póstaði ekki Instagram myndum jafn oft og ég ætlaði mér
  • Ég gerði ekki uppskriftarfærslu 
  • Ég hreyfði mig ekkert að viti, en það er þó vegna þess að ég er að jafna mig eftir snúinn ökkla og tók ákvörðun um að taka því rólega síðustu vikuna. Ég fór samt eitthvað út úr húsi alla dagana og er ánægð með það. 
IMG_9716-2.jpg

Þessa vikuna ætla ég að:

  • Halda áfram þeim daglegu venjum sem ég hef náð að tileinka mér síðustu vikuna 
  • Halda áfram með lagið sem ég hef verið að búa til síðustu daga
  • Skrifa meira
  • Lesa fleiri ljóð
  • Gera tvær uppskriftafærslur sem ég er búin að undirbúa
  • Hitta vini okkar Sigga um helgina
  • Undirbúa samstarfið sem við Júlía erum að fara í
  • Hreyfa mig daglega, hvort sem það er að fara í ræktina, göngutúr eða gera æfingar hérna heima
  • Fara á allavega eitt kaffihúsadeit með sjálfri mér 
  • Halda áfram að þykja svona vænt um sjálfa mig 
  • MUNA að það er eðlilegt að ekki séu allir dagar fullkomnir. Ég er ekki að reyna að vera fullkomin eða glöð alla daga, það eru óraunhæfar kröfur sem gagnast engum
  • Færa lögheimilið mitt!! Kommon Helga, þú hefur haft endalausan tíma til að gera þetta
IMG_9700.jpg

Ég hlakka til að heyra í ykkur að viku liðinni! 

Helga María

 

Ég ætla að breyta lífi mínu - 1. kafli

Ég sá myndband um daginn sem hafði mikil áhrif á mig. Í myndbandinu segir ung kona frá því hvernig hún ætli að breyta lífi sínu á 365 dögum. Í kjölfarið fór ég að skoða líf mitt og sérstaklega þá hluti sem ég er ósátt við en hef ekki gert mikið til þess að breyta. Á síðustu dögum hef ég smám saman áttað mig á því hvernig ég hef beðið eftir því að lífið segi mér hvenær röðin sé komin að mér. Þá muni allt sem þarf að laga í mínu lífi kippast í liðinn og ég verði betri manneskja, með betri venjur og betra hugarfar. 

IMG_9595-2.jpg

Ég hef í rauninni eytt gríðarlegum tíma í að haga mér og hugsa eins og það sé ekki í mínum verkahring að búa mér til það líf sem ég vil lifa, svona eins og að með því að viðurkenna að ábyrgðin sé virkilega mín þurfi ég að standa upp og gera eitthvað í því, sem er auðvitað ekki jafn þægilegt og að sitja heima og bíða eftir að lífið banki uppá og bjóði manni í einhverskonar allsherjar "make-over." 
  Eftir að hafa horft á myndbandið, hugsað um það í nokkra daga, horft á það aftur, og svo einu sinni enn, ákvað ég að taka Dottie til fyrirmyndar og skora á sjálfa mig að breyta lífi mínu næstu 365 daga og leyfa ykkur að fylgjast með. Ég er ekki að tala um áramótaheit sem ég gleymi eftir viku, heldur er ég að tala um það að leggja mig alla fram, í fyrsta sinn á ævinni, við að laga það sem ég hef viljað laga en aldrei komið mér í. 
   Síðustu ár hef ég verið óánægð með margt í lífinu mínu og margt í eigin fari en það er einmitt ákveðið vandamál út af fyrir sig. Ég hef nefnilega verið föst í því að einblína einungis á það sem ég er ósátt við og það sem ég vil HÆTTA að gera í stað þess að hugsa um hvernig ég get bætt nýjum og jákvæðum venjum inn í lífið mitt. Næstu 365 daga ætla ég hinsvegar að einbeita mér að því að tileinka mér jákvæðar venjur sem ég tel að muni gera mér og fólkinu í kringum mig gott. Í stað þess að hugsa stanslaust um það sem ég vil hætta að gera ætla ég að hugsa um það sem ég vil byrja að gera. Ég ætla að gera mitt besta, en ætla á sama tíma að muna að "mitt besta" getur breyst frá degi til dags og að þó mér gangi verr í dag en í gær þýðir það ekki að ég sé að standa mig illa eða að mér sé að misheppnast. 

En þrátt fyrir að dagsformið sé og muni alltaf vera misjafnt er það víst að dagurinn í dag er dagurinn sem ég ætla alltaf að muna. 14. mars 2018. Dagurinn sem ég ákvað að taka ábyrgð á eigin lífi og leggja í fyrsta skipti mikla vinnu í að byggja upp það líf sem ég vil lifa og búa mér til þær jákvæðu venjur sem ég tel að munu hjálpa mér að vera hamingjusöm og heilbrigð.  Hér eru nokkur dæmi um venjur sem mig hefur dauðlangað að tileinka mér en aldrei tekið almennilega ákvörðun um að virkilega reyna að gera:

image_6483441 (3).jpg

Það er sagt að það taki allt frá tveimur vikum til tvo mánuði að mynda nýjar venjur. Eins og sá tími virðist oft líða löturhægt þegar maður einbeitir sér að því að breyta venjum sínum til hins betra, þá flýgur tíminn þegar kemur að því að mynda sér "ósiði" eða minna heilbrigðar venjur. Dæmi um það er þegar ég byrja að hreyfa mig. Eftir að hafa mætt í ræktina í fjóra daga í röð finnst mér ég hafa svitnað og púlað mánuðum saman, en svo tek ég varla eftir því þegar ég hef verið í sömu kósýbuxunum næstu fjóra daga límd við sófann. 

Þegar við fluttum til Svíþjóðar þótti mér erfitt hvað ég var mikið ein. Ég þekkti mjög fáa og var oft einmana. Það var þó fljótt að venjast, og svo hætti einveran að vera mér erfið og fór að vera þægileg.  Fyrr en varði var hún orðin það sem ég þekkti best. Ég vandist því líka hratt að þurfa lítið að fara út úr húsi svo kósýgallinn varð ákveðinn einkennisklæðnaður sem gerði það að verkum að oft varð mér lítið úr verki yfir daginn. Ég hef nefnilega komist að því að þegar ég klæði mig eins og ég sé á leið í vinnuna þá líður mér eins og ég sé í vinnunni og er minna líkleg til þess að sitja á sófanum og horfa á Youtube í marga klukkutíma. 

IMG_9671.jpg

Næsta árið mun ég ekki einungis einbeita mér að daglegum venjum heldur einnig stærri hlutum og markmiðum. ég ætla að gera fjóra lista; 

  • Það sem ég vil hafa áorkað að ári liðnu
  • Það sem ég vil áorka yfir vikuna
  • Það sem ég vil gera daglega
  • Það sem ég ætla að gera í dag

Listarnir munu líklega breytast eitthvað þegar líður á árið en ég mun leyfa ykkur að fylgjast með því. 

 

Það sem ég vil hafa áorkað að ári liðnu

  • Ég ætla að vera komin langt með að vinna úr erfiðum minningum og lífsreynslum sem hafa fylgt mér til dagsins í dag og haft hamlandi áhrif á mig
  • Ég ætla að vera farin að tala reiprennandi sænsku 
  • Ég ætla að vera orðin örugg með að tala við ókunnuga án þess að finnast ég þurfa að biðjast afsökunar á því hver ég er og hvernig ég er
  • Ég ætla að vera búin að ná mun betri líkamlegri heilsu og muna að þó ég sé með vanvirkan skjaldkirtil er ég ekki fórnarlamb sjúkdómsins
  • Ég ætla að vera búin að kaupa mér nýja Canon vél því mín er eldgömul og lúin
  • Ég ætla, ásamt Júlíu, að vera búin að gera handrit að matreiðslubók! 
  • Ég ætla að læra að elska sjálfa mig og vera í kjölfarið betur fær um að sýna fólkinu í kringum mig ást og umhyggju
  • Ég ætla fyrst og fremst að vera ég sjálf og muna alla daga að þó ég eigi slæman dag sé engin ástæða til að brjóta mig niður eða finnast mér vera að mistakast

Það sem ég vil áorka vikulega

  • Blogga í hverri viku - Birta bæði uppskriftarfærslu og vikulegar færslur um þessa áskorun
  • Hringja í ömmu í hverri viku
  • Hringja í systkini mín í hverri viku
  • Mæta á kóræfingar
  • Versla vel inn eftir skipulagi til að eiga nóg af næringarríkum mat yfir vikuna
  • Elda nýja uppskrift í hverri viku
  • Skrifa að minnsta kosti eitt ljóð í hverri viku
  • Fara á kaffihúsadeit með sjálfri mér einu sinni í viku með tölvuna mína og skrifa

Það sem ég vil gera daglega

  • Vakna fyrir klukkan 9 alla daga
  • Hugleiða í allavega 10 mínútur (mér líður svo miklu betur þegar ég geri það)
  • Fara eitthvað út úr húsi daglega, þrátt fyrir að hafa ekkert sérstakt erindi
  • Hreyfa mig eitthvað daglega, hvort sem það er að fara í göngutúr eða í ræktina
  • Pósta mynd á Instagram á hverjum degi
  • Klæða mig eins og ég sé á leið í vinnuna þó ég sé bara að fara að vinna heima 
  • Gefa mér hálftíma á hverju kvöldi áður en ég fer að sofa þar sem ég kíki ekkert á símann
  • Þvo á mér andlitið á hverjum degi
  • Skrifa daglega punkta og hugleiðingar um hvernig mér gengur að breyta lífi mínu - vera hreinskilin
  • Hafa hreint og fínt þegar ég fer að sofa á kvöldin
  • Vaska upp strax eftir kvöldmatinn svo ekkert uppvask sé þegar ég vakna daginn eftir
  • Muna að taka skjaldkirtilslyfin mín á hverjum degi

Það sem ég ætla að gera í dag (14. mars 2018)

  • Vera farin á fætur klukkan 9
  • Fara í eins kalda sturtu og ég þoli (treystið mér, manni líður svo vel eftir á)
  • Klára að skrifa þessa færslu og koma henni í loftið
  • Pósta mynd á Instagram
  • Fara á sóprana kóræfingu
  • Elda kvöldmat handa okkur Sigga
  • Ryksuga íbúðina og þurrka af
  • Þvo á mér andlitið í lok dagsins
IMG_9698-2.jpg

Ég hlakka til að leyfa ykkur að fylgjast með, en fyrst og fremst er ég að gera þetta fyrir sjálfa mig. Tilhugsunin um að birta þessa færslu hræðir mig örlítið því um leið og hún er komin í loftið er ekki aftur snúið. Hinsvegar er það mögnuð tilfinning að vita að frá og með þessarri stundu muni allt breytast. Ég er ekki að búast við því að lífið verði allt í einu dans á rósum og ég skælbrosandi alla daga, en ég veit fyrir víst að ég mun í fyrsta skipti leggja mig alla fram við að búa mér til það líf sem ég vil lifa og það er mögnuð tilfinning. Ef mér mistekst hryllilega get ég í fyrsta sinn sagt að ég hafi allavega reynt mitt besta. 

Helga María 

Vikumatseðill 5. - 10.mars

IMG_2306.jpg

Vikumatseðill 5.mars til 10.mars

Mánudagur:
Hnetusmjörsnúðlur með tofu.

Þriðjudagur:
Grjónagrautur með haframjólk, kanilsykri og góðu brauði með vegan osti

Miðvikudagur:
Mexíkógrýta með kartöflumús og Oatly sýrðum rjóma

Fimmtudagur:
Linsurbaunadahl, steikt tofu, hrísgrjón og salat.

Föstudagur:
Oumph borgari með chilli mæjó og kartöflubátum.

Laugardagur:
Rjómapasta með Oumph! og sveppum og "heimagert" hvítlauksbrauð.

22710108_10155093561382525_553341027_n.jpg

Vegan stroganoff - Veganoff

IMG_9530.jpg

Hvað er stroganoff? 

Stroganoff er upprunalega rússneskur réttur og inniheldur nautakjötsbita sem látnir eru malla í brúnni sósu úr sýrðum rjóma og bornir fram með pasta eða hrísgrjónum. Rétturinn hefur breyst mikið í gegnum tíðina en í dag eru yfirleitt sveppir og laukur í sósunni ásamt dijon sinnepi og einhverskonar súpukrafti. Mig hefur lengi langað að gera vegan útgáfu af þessum rétti en ég smakkaði hann fyrir mörgum árum í Lettlandi og þótti ekkert smá góður. Ég lét loksins verða að því um daginn og útkoman varð æðisleg. 

IMG_9451.jpg

Ég átti til poka af Oumph! í frystinum og afgangs rauðvín svo ég sló til og sé sko ekki eftir því. Ég bið ykkur að taka því ekki illa þótt uppskriftin sé að einhverju leyti ólík hefðbundinni stroganoff uppskrift, en þrátt fyrir að hún sé ekki alveg eins þá er bragðið ekkert síðra. 

IMG_9465.jpg

Ég ætlaði að hafa kóríander í uppskriftinni en þar sem kærastinn minn getur ekki fyrir sitt litla líf borðað ferskt kóríander ákvað ég að setja það frekar út á diskinn og það kom gríðarlega vel út. Ég held það sé sniðugt að gera það bara nema maður sé viss um að allir sem eru í mat borði kóríander. 

Ég ákvað að bera réttinn fram með hrísgrjónum og útbjó túrmerík-grjón. Þau eru einfaldlega gerð með því að hella örlitlu túrmeríkkryddi út í pottinn meðan grjónin eru að sjóða. Bæði verða þau falleg á litinn og kryddið gefur gott bragð. Þó er mikilvægt að setja ekki of mikið heldur strá örlitlu þannig grjónin verði fallega gul. 

IMG_9515.jpg

Hráefni:

  • 1 poki Oumph! the chunk (Ég notaði filet sem er nákvæmlega eins nema bara stærra, því ég fann ekki the chunk úti í búð)

  • 1 askja sveppir (250g)

  • 1 laukur

  • 2 hvítlauksgeirar

  • 2 msk dijon sinnep

  • 2 tsk tómatpúrra

  • 2,5 dl Oatly matreiðslurjómi

  • 1 dl Oatly sýrður rjómi

  • 1 dl vatn

  • 1/2 dl vegan rauðvín

  • 1 sveppateningur

  • 1/2 msk dökk sojasósa

  • safi úr ca 1/4 sítrónu

  • salt og pipar

  • Kóríander (má sleppa)

Aðferð:

  1. Takið Oumphið úr frystinum og leyfið því að þiðna í svona 20 mínútur áður en það er matreitt

  2. Saxið niður laukinn og hvítlaukinn og skerið sveppina niður. Ég hef sveppina í svolítið stærri bitum fyrir þennan rétt. Steikið á pönnu upp úr olíu þar til laukurinn fær gylltan lit og sveppirnir hafa mýkst vel.

  3. Skerið Oumphið niður í munnbita. Mér finnst gott að gera það svo ég fái aðeins meira úr pakkanum því sumir bitarnir geta verið svolítið stórir. Þið sjáið á myndunum að ofan hversu stórir bitarnir voru hjá mér. Bætið Oumphinu út á pönnuna ásamt tómatpúrrunni og dijon sinnepinu og steikið í nokkrar mínútur

  4. Hellið rauðvíninu út á pönnuna og hækkið hitann á sama tíma í nokkrar mínútur á meðan

  5. Lækkið hitann aftur niður í miðlungs og bætið rjómanum, sýrða rjómanum, vatninu, sveppakraftinum og sojasósunni út á pönnuna. Leyfið þessu að malla í 10-15 mínútur

  6. Smakkið til með salti og pipar og kreistið sítrónusafann yfir áður en þið berið matinn fram.

Berið fram með grjónum eða pasta. Hérna er uppskrift af fljótlegu hvítlauksbrauði sem er einstaklega gott að bera fram með. 

Veganistur

Vikumatseðill 12.feb - 17.feb

IMG_6705.jpg

Vikumatseðill 12.feb til 17.feb

Mánudagur:
Halsans Kök kjötbollur með piparsósu og kartöflumús

Þriðjudagur:
SaltOumph! og baunasúpa

Miðvikudagur:
Tandori sætkartöflu og svartbaunapottréttur, hrísgrjón, Oatly sýrður rjómi og salat

Fimmtudagur:
Kalt pastasalat með fersku grænmeti og sólþurkuðum tómötum

Föstudagur:
Föstudagspizza

Laugardagur:
Sveppasúpa og heimagert brauð

22710108_10155093561382525_553341027_n.jpg

Vefjur með falafel, hummus og chili-mæjó

IMG_9277-2.jpg
IMG_9227-2.jpg

Nú er janúar að líða undir lok sem þýðir að Veganúar fer að klárast. Okkur hefur þótt virkilega gaman að sjá hversu margir eru að taka þátt í ár og við hvetjum að sjálfsögðu alla til að halda áfram. Eins þætti okkur gaman að heyra hvernig ykkur hefur gengið í Veganúar og hvaða matur ykkur hefur þótt standa fram úr. 

IMG_9252-2.jpg
IMG_9260.jpg

Þessi færsla er sú síðasta í samstarfi okkar við Krónuna í Veganúar en okkur fannst tilvalið að enda á falafel vefjum sem eru í miklu uppáhaldi hjá okkur. Falafel eru bollur gerðar úr kjúlingabaunum og allskyns kryddum. Bollurnar eiga uppruna sinn að rekja til Egyptalands og eru yfirleitt borðaðar í pítubrauði eða vefjum. Okkur þykir best að borða falafel í vefju, með hummus, grænmeti og sterkri sósu. 

IMG_9275-3.jpg
IMG_9287.jpg

Hér er listinn yfir hráefnin. Það er svolítið erfitt að lista niður hlutföll því það er misjafnt hvað fólk vill setja mikið í vefjurnar sínar og hvort fólk borðar fleiri en eina vefju. 

  • Vefjur - Við mælum með þeim frá Planet Deli og Banderos

  • Falafelbollur frá Hälsans Kök - Pakkinn er 300g og miðast við þrjá fullorðna

  • Hummus frá Tribe 

  • Salat að eigin vali

  • Rauðlaukur (má sleppa)

  • Kirsuberjatómatar (má sleppa)

  • Sriracha mæjó frá Flying goose

  1.  Eldið falafelbollurnar eftir leiðbeiningum á pakkanum. Það er bæði hægt að steikja þær á pönnu eða í bakaraofni og við mælum með því síðarnefnda. 

  2. Hitið vefjurnar í nokkrar sekúndur í ofninum eða í örbylgjuofni

  3. Smyrjið vefjuna með hummus, raðið falafelbollunum og því grænmeti sem ykkur lystir ofan á og endið svo á sriracha mæjóinu. Það er virkilega bragðgott en heldur sterkt svo við mælum með að setja ekki of mikið til að byrja með. 

  4. Rúllið vefjurnar upp og njótið!

Veganistur

 

krónan.png

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Krónuna og fást öll hráefnin þar

Vikumatseðill 29.jan - 3.feb

IMG_9275-3.jpg

Vikumatseðill 29.jan til 3.feb

Mánudagur:
Lasanga með hvítlauksbrauði og salati

Þriðjudagur:
Kókos-karrý súpa með góðu brauði

Miðvikudagur:
Arabískt kúskús salat með fersku grænmeti og döðlum. 

Fimmtudagur:
Falafelvefjur með hummus og grænmeti

Föstudagur:
Nachos með blómkálshakki, svörtum baunum, kasjúostasósu, salsa, guacamole og fersku grænmeti

Laugardagur:
Mac and cheese með glútenlausu pasta og steiktu brokkolí

22710108_10155093561382525_553341027_n.jpg

Kjúklingabaunakarrý

IMG_2023.jpg

Baunir eru dæmi um mat sem ég kunni alls ekki að meta áður en ég varð vegan. Ég held að ástæðan sé fyrst og fremst sú að ég ólst ekki upp við að borða þær, að undanskildum þessum hefðbundnu grænu og gulu baunum sem flestir þekkja. Þegar ég gerðist grænkeri fór ég fljótt að læra að elda baunir og fyrir mér opnaðist nýr heimur. Í dag eru þær í algjöru uppáhaldi hjá mér. 

IMG_1867.jpg

Baunir eru virkilega hollar. Þær innihalda prótín, mikið af trefjum og alls kynns fleirum góðum næringarefnum. Eins finnst varla ódýrari matur í heiminum í dag og henta því vel námsmönnum eins og mér. hægt er að kaupa þurrar baunir og sjóða í stórum skömmtum og frysta t.d, en þær fást einnig tilbúnar í dós og þarfnast þá nánast engrar fyrirhafnar.  Ég viðurkenni að ég mætti vera duglegri að sjóða mínar eigin baunir en það er bara svo ótrúlega auðvelt að kaupa þær tilbúnar í dós.

IMG_1882.jpg
IMG_1926.jpg

Síðustu ár hafa baunir verið virkilega stór partur af mínu mataræði og má segja að ég eldi einhverskonar baunir á hverjum degi. Það eru til ótrúlega margar tegundir af þeim sem allar hafa sína eiginleika og því eru möguleikarnir miklir. Kjúklingabaunir verða oftar en ekki fyrir valinu því þær eru fullkomnar í allskyns rétti, hvort sem það er hummus, falafelbollur, kryddaðar og ristaðar í ofni eða á pönnu, út á salöt eða í pottrétti. 

IMG_1958.jpg

Í þessari viku ákváðum við systur í samstarfi við Krónuna að deila með ykkur einni af okkar einföldustu baunauppskrift. Ég held að það sé einhverskonar karrýpottréttur á matseðlinum okkar í hverri einustu viku en það er vegna þess hversu einfalt og þægilegt er að gera slíka rétti. Það er einnig hægt að gera þennan rétt svo ótrúlega fjölbreyttan að maður fær aldrei leið á honum. Sú útgáfa sem við deilum með ykkur í þessari viku er sú allra einfaldasta en það þarf einungis fjögur hráefni í réttinn, og gengur hann fullkomlega sem máltíð einn og sér en einnig er hægt að hafa alls kyns gott meðlæti með honum.

IMG_1995.jpg

Hráefni:

Aðferð:

  1. saxið laukinn og steikið upp úr örlitlu vatni þar til mjúkur. 

  2. Setjið madras maukið út í, 1/4 ef þið viljið hafa réttinn mildan og meira fyrir sterkari útgáfu.

  3. Hellið vatninu af baununum og bætið þeim útí ásamt kókosmjólkinni og sjóðið í 10 til 15 mínútur

Réttinn má bera fram einan og sér en hann er einnig virkilega góður með hrísgrjónum ,salati og auðveldu pönnubrauði. HÉR er uppskrift af virkilega einföldu brauði.

-Veganistur

Færslan er unnin í samstarfi við Krónuna og fást öll hráefnin þar.

Færslan er unnin í samstarfi við Krónuna og fást öll hráefnin þar.

Pönnubrauð

IMG_1978.jpg
IMG_1985.jpg

Heimabakað brauð getur sett punktinn yfir i-ið þegar kemur að ýmsum máltíðum. Það er því virkilega hentugt að kunna að gera einfalt og fljótlegt brauð til að hafa með matnum. Ég komst fyrir nokkru upp á lagið með að gera pönnubrauð en það er einstaklega þægilegt þar sem þarf hvorki að hefa það né baka í ofni.  Hráefnunum er einfaldlega skellt saman og brauðið steikt í nokkrar mínútur á pönnu. Þetta brauð passar fullkomlega með alls konar pottréttum og súpum.

IMG_2011.jpg

Hráefni:

  • 4 dl spelt hveiti

  • 2 dl vatn

  • örlítið salt

Aðferð:

  1. Blandið öllum hráefnunum saman og bætið við meiru hveiti ef deigið er blautt.

  2. Skiptið deiginu í 6 litlar kúlur.

  3. Fletjið kúlurnar út og steikið í nokkrar mínútur á heitri þurri pönnu.

  4. Gott er að pensla brauðið með vegan hvítlaukssmjöri um leið og það kemur af pönnunni en það er alls ekki nauðsynlegt.

-Veganistur

 

Vikumatseðill 22.-26. janúar

IMG_5558.jpg

Vikumatseðill 22.janúar til 26.janúar

Mánudagur:
Rjómapasta og hvítlauksbrauð

Þriðjudagur:
Grænmetisbuff, soðið bygg, litríkt salat og heimagerð pítusósa - gerð úr vegan mæjónesi, herbs de provence kryddi (frönskum jurtum) og smá salti.

Miðvikudagur:
Linsubaunasúpa

Fimmtudagur:
Fljótlegt kjúklingabaunakarrý (uppskrift kemur á morgun)

Föstudagur:
Taco Fredag, eins og Svíarnir segja: Vefjur með vegan hakki, salsasósu, Oatly sýrðum rjóma, grænmeti og guacomole

veganisturundirskrift.jpg

Vegan Domino's pizza!

IMG_2545.jpg

Janúar hefur fljótt orðið stærsti mánuður grænkera með átakinu Veganúar. Með hverju ári fjölgar þáttakendum Veganúar gríðarlega og í kjölfarið hafa veitingastaðir og matvöruverslanir brugðist við með fjölbreyttara úrvali. Nú í ár taka Domino's þátt í fyrsta skipti, okkur og öðrum til mikillar gleði, og bjóða upp á vegan ost á pizzurnar sínar. Það hafa margir beðið eftir því að geta keypt sér glóðvolga pizzu á þriðjudagstilboði með vegan osti.

IMG_2435.jpg
IMG_2460-3.jpg

Domino's býður upp á einn vegan botn en það er sá lauflétti. Á matseðlinum er að finna Grænmetisparadís, en á henni eru kirsuberjatómatar, spínat, sveppir, svartar ólífur, hvítlaukur og rauðlaukur. Hingað til hefur verið hægt að fá hana vegan með því að sleppa ostinum en vegan osturinn setur algjörlega punktinn yfir i-ið. Auk hennar setti Júlía saman sína eigin pizzu og á henni var rauðlaukur, sveppir, ólífur, nachos og bbq sósa. Báðar pizzurnar smökkuðust æðislega sérstaklega með hvítlauksolíunni sem okkur þykir ómissandi á pizzu. Eins og er bjóða Domino's einungis upp á vegan ost í janúar af tilefni Veganúar en vonandi ef viðtökur eru góðar halda þau honum á matseðlinum. 

Hver er þín uppáhalds vegan samsetning á pizzu? 

IMG_2524.jpg
a36a75faea87c5253c9212e18f1504e0.png

        þessi færsla er unnin í samstarfi við Domino's 

Heimagerð Pizza

IMG_2187.jpg

Þegar ég segi fólki að einn af mínum uppáhaldsmat sé pizza, verður það oft mjög hissa eða finnst það hljóma mjög óspennandi. Það sér þá oft fyrir sér einhverja hollustupizzu með engu á nema sósu og spínati. Föstudagspizzan okkar lítur hins vegar alls ekki þannig út, þar sem það er orðið ótrúlega auðvelt að fá fullt af alls konar góðum ostum og áleggi svo pizzan verður virkilega bragðgóð og ekki síðri en venjulegar pizzur. Það kemur fólki einnig oft á óvart að pizzadeig líkt og flest brauð er nánast alltaf vegan og því ekkert mál að bæði panta pizzu og fá tilbúið pizzadeig út í búð sem er vegan. Pizzasósa er annað sem er eiginlega alltaf vegan og þetta er því ekkert flóknara en svo að kaupa pizzadeig og álegg og skella því í ofninn.

Webp.net-gifmaker.gif

Við systur ákváðum því í samstarfi við Krónuna að sýna ykkur hvernig við gerum okkar uppáhalds heimagerðu pizzur. Við vildum hafa pizzurnar eins auðveldar og hægt er og notuðumst því við keypt pizzadeig og tilbúna pizzasósu, en það gerum við til að sýna fram á að vegan matargerð geti verið virkilega auðveld og ekki svo frábrugðin annarri matargerð. Við ákvaðum að gera þetta í samstarfi við Krónuna þar sem þau hafa mikið og fjölbreytt úrval af vegan ostum og ættu því allir að geta fundið ost við sitt hæfi. Við settum saman tvær pizzur, eina sem er mjög auðveld og þarf ekki mikið af hráefni og síðan eina örlítið flóknari útgáfu. Það sem okkur finnst hins vegar best við pizzur er að það er hægt að setja nánast allt sem að hugurinn girnist á þær og því oft til eitthvað sniðugt í ísskápnum til að skella á pizzadeig. 

IMG_2216.jpg
IMG_2361.jpg

Auðveld útgáfa:

Aðferð:

  1. Rúllið deiginu út á plötu og dreifið pizzasósunni yfir

  2. Okkur finnst best að setja ostin næst og hitt áleggið síðan þar ofan á, þó er gott að geyma smá ost til að setja síðast en það er ekki nauðsynlegt

  3. Gott er að leyfa Oumphinu aðeins að þiðna og skera það niður áður en því er dreift yfir

  4. Bakið pizzuna í u.þ.b. 20 mínutur við 200°C

Fyrir flóknari útgáfu bætið ofan á:

Færslan er unnin í samstarfi við Krónuna og fást öll hráefnin þar

Færslan er unnin í samstarfi við Krónuna og fást öll hráefnin þar

Vegan hakk og spaghettí

IMG_9011-2.jpg

Í janúar ætlum við, í samstarfi við Krónuna, að útbúa fjóra gríðarlega einfalda rétti sem tekur einungis nokkrar mínútur að elda. Réttirnir munu henta öllum, hvort sem þeir eru að taka sín fyrstu skref í lífsstílnum eða löngu orðnir sjóaðir. Réttirnir eru fullkomnir fyrir þá sem eru á síðasta snúningi með að kaupa í matinn eða einfaldlega nenna ekki að hafa mikið fyrir kvöldmatnum eftir langan vinnu- eða skóladag. Þó eru þeir líka tilvaldir fyrir þá sem elska að elda og munu réttirnir allir bjóða upp á að hægt sé að bæta við því sem manni þykir gott ef maður er í stuði til að eyða meiri tíma í eldamennskuna. Réttirnir munu passa fyrir alla fjölskylduna og líka fyrir þá sem eru svolítið efins varðandi vegan mat. 

Mér fannst viðeigandi að byrja á þeirri máltíð sem ég geri hvað oftast þegar ég vil elda eitthvað sem er fljótlegt en á sama tíma bragðgott og saðsamt. Hakk og spaghettí hefur alla tíð verið í uppáhaldi hjá mér og enn frekar eftir að ég varð vegan. Sojahakkið frá Hälsans Kök er ótrúlega gott og hentar mjög vel í þennan rétt. Ég er ekki viss um að margir myndu taka eftir því að um vegan hakk sé að ræða þegar þeir borða það í réttum eins og þessum. 

IMG_9094-2.jpg

Það er að sjálfsögðu misjafnt hvaða grænmeti fólk notar í hakk og spaghettí en í þetta skiptið vildi ég hafa þetta virkilega einfalt og notaði frosnar grænar baunir og svartar ólífur. Mér finnst ólífurnar eiginlega þarfar í réttinn en vissulega þykja ekki öllum ólífur góðar og vilja því nota eitthvað annað. Ég myndi þá mæla með sveppum og gulrótum. 

IMG_9078-3.jpg
IMG_9090.jpg

Ég útbjó hvítlauksbrauð og hemp-parmesan sem meðlæti en fyrir þá sem hafa ekki tíma eða nenna ekki að útbúa meðlæti er t.d mjög gott að hafa bara baguette og vegan smjör. Þó er alls ekki þörf á því að hafa meðlæti þar sem rétturinn er saðsamur og bragðgóður einn og sér. 

IMG_9103-2.jpg

Hakk og spaghettí - fyrir 4

  • 400g Spaghettí frá Gestus

  • 1 poki hakk frá Hälsans Kök

  • Olía til steikingar

  • 1 krukka pastasósa frá Gestus

  • 1 dl frosnar grænar baunir (má sleppa)

  • 1 dl svartar ólívur skornar í sneiðar (má sleppa)

Aðferð

1. Sjóðið pastað eftir leiðbeiningunum á pakkanum. Gott er að setja örlítið salt í pottinn og nokkra dropa af olíu

2. Hitið olíu á pönnu og steikið hakkið í sirka fjórar mínútur

3. Bætið grænu baununum, ólívunum og pastasósunni á pönnuna og leyfið því að malla í sirka sjö mínútur

4. Smakkið til með salti og pipar

Hérna eru svo uppskriftir af:
Hvítlauksbrauði
Hemp-parmesan

-Veganistur

krónan.png

-Færslan er unnin í samstarfi við Krónuna og fást öll hráefnin þar-

Hemp-parmesan

IMG_9105.jpg

Ég geri oft parmesan úr kasjúhnetum og næringargeri sem er fullkominn á pastarétti. Þar sem kærastinn minn er með ofnæmi fyrir hnetum byrjaði ég að prufa mig áfram og útbúa parmesan úr t.d sólblómafræjum og hempfræjum. Það bragðast virkilega vel og í dag ætla ég að deila með ykkur þessari einföldu uppskrift.

Hemp-parmesan:

  • 1/2 bolli hempfræ

  • 3 msk næringarger

  • Örlítið hvítlauksduft

  • Örlítið laukduft

  • 1/2 tsk salt

Skellið öllu í blandara og púlsið nokkrum sinnum. Það þarf ekki að mylja hann alveg niður í duft heldur er betra að hafa hann smá "chunky"

Veganistur

Einfalt hvítlauksbrauð

IMG_9107.jpg

Þessi uppskrift er svo einföld að hún telst varla sem uppskrift. Þó langaði okkur að deila henni með ykkur því þetta hvítlauksbrauð er ómissandi með góðum pastaréttum. Þegar við vorum yngri keypti mamma okkar stundum tilbúið hvítlauksbrauð til að setja í ofninn og við héldum mikið uppá það. Þetta brauð bragðast nákvæmlega eins, ef ekki betra.

IMG_9050.jpg

Hvítlauksbrauð:

  • Baguette

  • Vegan smör eftir smekk

  • 1-2 hvítlauksgeirar (fer eftir því hversu mikið smjör notað er)

  • Örlítið salt

Aðferð:

  1. Skerið baguette í sneiðar. Ekki skera alveg niður samt heldur búið til svona djúpar rákir en passið að brauðið haldist ennþá saman

  2. Blandið saman smöri, pressuðum hvítlauk og salti. Það fer alfarið eftir smekk hversu mikið hvítlaukssmjör fólk vill hafa. Ég vil hafa mitt vel safaríkt að innan svo ég notaði 2 kúfullar msk af smjöri og svo 2 frekar litla hvítlauksgeira

  3. Skiptið smjörinu niður í rákirnar og troðið því vel á milli. það má alveg verða smá eftir ofan á brauðinu, það er bara betra

  4. Setjið í ofninn á 200°c í nokkrar mínútur eða þar til brauðið er orðið smá gullið að ofan og smjörið alveg bráðið innan í

  5. Berið fram heitt með því sem ykkur lystir

-Veganistur

Vikumatseðill 8.jan til 13.jan

IMG_9090.jpg

Vikumatseðill 8. jan til 13.jan

Mánudagur
Grænmetissnitsel með kartöflum, salati og vegan bernease

Þriðjudagur
Mexíkóskur pottréttur með sætum kartöflum og baunum, borið fram með hrísgrjónum og salati

Miðvikudagur
Núðlur með tofu og grænmeti í sesam-soja dressingu

Fimmtudagur
Hakk og spagetti með hvítlauksbrauði og heimagerðum parmesan

Föstudagur
Nachos með oumphi, svörtum baunum, salsasósu, guacamole, sýrðum rjóma og fersku grænmeti

Laugardagur
Take-away ! :D

Vikumatseðill 2.jan til 6.jan

download (2).jpg

Vikumatseðill 2.janúar til 6.janúar

Þriðjudagur
Kínóasalat með rauðrófum, sólþurrkuðum tómötum og eplum

Miðvikudagur
Hnetusmjörsnúðlur með tofu

Fimmtudagur
Grjónagrautur

Föstudagur
speltpizza með vegan osti, pulled oumph! og grænmeti

Laugardagur 
Blómkáls- og kínóahakk taco með ostasósu, guacamole og sætum kartöflum

22710108_10155093561382525_553341027_n.jpg

Er ég svikahrappur?

Í mörg ár hef ég gengið um með stórt leyndarmál í brjóstinu. Það er í rauninni svo stórt að ég hef verið hrædd nánast daglega um að einhver lyfti af mér hulunni og heimurinn sjái loksins að ég er ekkert annað en einn stór brandari.

25555656_10155226570832525_938399104_n.jpg

Oft á tíðum líður mér þó einnig eins og allir hafi komist að sannleikanum fyrir löngu en enginn þori að segja neitt og taki þess vegna þátt í leikritinu; enginn vilji búa til vandræðalega stemningu. Ég hef oft verið viss um að fólkið í kringum mig horfi inn í sálina á mér og hlægi yfir því sem kemur þeim fyrir sjónir. Til að varðveita leyndarmál af þessari stærðargráðu er best að láta lítið fyrir sér fara og gera hvað sem er til að komast hjá því að lenda í aðstæðum þar sem ég get verið afhjúpuð sem svikahrappurinn sem ég er.  Það versta sem gæti gerst er að vera uppgvötuð sem svikari og útskúfuð úr samfélaginu í kjölfarið. Enginn vill hafa svikahrapp í umhverfi sínu. 

Það var síðasta haust sem ég ákvað að gefa sjálfa mig fram og játa glæpinn í fyrsta sinn. Ég sagði kærastanum frá öllu saman og endaði á orðunum ,,Þú þekkir mig því miður ekki eins vel og þú hélst" viðbúinn því að hann myndi labba út úr lífi mínu og aldrei láta sjá sig meir. Ég var í óða önn að skipuleggja leið til að taka þetta allt til baka, láta sem þetta hafi verið grín eða jafnvel próf, sem ég hefði lagt fyrir hann til að sjá hvort hann elskaði mig í alvöru, þegar hann tjáði mér að það væri í raun ég sem þekkti sjálfa mig ekki eins vel og ég hafði haldið. Hann hélt áfram og sagði mér að ég væri enginn atvinnusvikari, þvert á móti væri ég arfaslakur lygari, og það sem ég héldi að gerði mig svona einstaka væri í raun heilkenni sem hrjáir stóran hluta fólks, impostor syndrome eða blekkingarheilkennið. Ég var síður en svo tilbúin til að kaupa þessa greiningu, en eftir að hafa lesið mér vel til um heilkennið áttaði ég mig á því að eina manneskjan sem ég hafði blekkt í öll þessi ár var ég sjálf. Tilfinningarnar sem fylgdu þessari uppgvötun voru blendnar. Ég var bæði fegin því að vera ekki svikahrappurinn sem ég hélt að ég væri, en á sama tíma fór það í taugarnar á mér að ég hefði ekki heyrt um þetta fyrr eða séð í gegnum þessar hugsanir. Fyrst og fremst vissi ég þó að líf mitt yrði ekki það sama. 

Hvað er blekkingarheilkennið?

Impostor syndrome, einnig kallað fraud syndrome, lýsir sér þannig að manneskja er sífellt hrædd um að verða uppljóstruð sem fraud eða svikahrappur. Þeir sem þjást af heilkenninu eru vissir um að þeir séu svikarar og hafi með blekkingum sínum tekist að ná árangri í lífinu sem þeir eigi í raun ekki skilið. Það er sama hversu miklum árangri er náð, skýringarnar eru yfirleitt á þann veg að um heppni sé að ræða. Maður hafi einfaldlega verið á réttum stað á réttum tíma, eða það sé vegna hæfileikans í að þykjast vera klárari eða færari en maður er í raun. Því er ómögulegt að eigna sér heiður fyrir afrek sín því það eru alltaf utanaðkomandi skýringar á þeim. Blekkingarheilkennið gerir það líka að verkum að manni þykir allir meira ekta en maður sjálfur; aðrir ná árangri því þeir hafa sanna hæfileika en manni sjálfum hefði aldrei tekist hið sama því maður kemst bara ákveðið langt með því að blekkja aðra. Þannig útskýrir blekkingarheilkennið sigra jafnt sem ósigra. 
Í mörg ár sannfærði ég sjálfa mig um að ég væri stanslaust að blekkja aðra og svíkja mig í gegnum allskonar aðstæður þegar ég gerði í raun ekki nokkurn skapaðan hlut því ég var of hrædd við að allir sæju hvað ég væri mikill lúser. Þegar ég horfði svo á aðra ná þeim árangri sem mig dreymdi um skildi ég það vel, enda höfðu þau í alvörunni það sem til þurfti. 

IMG_8230.jpg

Hvað breyttist eftir að ég lærði um blekkingarheilkennið?

Margt hefur breyst, en margt er oft ennþá eins. Ég á mína daga og mín móment þar sem ég virðist gleyma öllu sem ég hef lesið og helli mér í þetta gamla viðhorf. Ég er þó yfirleitt fljót upp úr því aftur og minni mig á að nú sé ég að blekkja sjálfa mig og halda aftur að mér.  Eftir að ég fór að kynna mér heilkennið hef ég verið dugleg að koma mér í aðstæður þar sem ég þarf að berjast gegn þessum hugsunum og yfirstíga hræðsluna við hvað öðrum þyki um mig. Ég ætla ekki að ljúga að ykkur að það sé auðvelt, það er virkilega erfitt að breyta hugsun sem hefur verið manni rótgróin í mörg ár. Það er ekkert grín að ætla að byrja að segja sjálfri mér að ég eigi stóran þátt í þeim árangri sem ég hef náð og að ég eigi hann skilið. Eins er erfitt að læra að taka hrósi og stoppa röddina í hausnum þegar hún hvíslar að fólk hrósi vegna þess að það vorkenni mér fyrir að vera svona misheppnuð, eða því ég hafi talið þeim trú um að ég sé betri en ég er. Á maður bara að standa hjá brosandi og trúa því að fólk hrósi manni því maður eigi hrósin skilið? Já! Algjörlega! 

Helga María
   

Vikumatseðill 19.nóv til 24.nóv

IMG_6705.jpg

Vikumatseðill 19. nóv til 24. nóv

Sunnudagur:
Vegan lasanga með hvítlauksbrauði og fersku salati

Mánudagur:
Linsubaunapottréttur með kartöflum í ofni, soyjajógúrtssósu og salati

Þriðjudagur:
Grænmetisbuff, soðnar kartöflur, sveppasósa og gufusoðnar harricotbaunir

Miðvikudagur:
Sveppasúpa með góðu brauði

Fimmudagur:
Út að borða

Föstudagur:
Supernachos með pulled oumph, svörtum baunum, salsasósu, ostasósu, sýrðum rjóma og fersku salati

22710108_10155093561382525_553341027_n.jpg