Umhverfisvænar (zero waste) blæðingar

Síðasta sumar skrifaði ég færslu um mánabikarinn. (Smellið HÉR til að lesa hana.) Þar talaði ég meðal annars um það hvernig tilhugsunin um mánabikarinn hræddi mig og hvernig ég gafst strax upp þegar ég prufaði hann fyrir nokkrum árum. Ég er svo ánægð að hafa gefið bikarnum annan séns því hann hefur breytt lífi mínu til muna. Ég get glöð sagt að ég mun aldrei nota túrtappa aftur nema í algjöru neyðartilfelli. Það var þó ekki bara bikarinn sem hræddi mig. Mér þótti tilhugsunin um að nota taubindi enn verri. Ég gat með engu móti hugsað mér að nota fjölnota dömubindi, þrífa þau sjálf og þurfa að stússast svona mikið í sambandi við túrinn minn. Þegar ég byrjaði að nota bikarinn gjörbreyttist hugarfarið mitt gagnvart blæðingunum og ég áttaði mig á því hversu lítið mál það er að stússast örlítið í kringum þær. 

Það spyrja sig eflaust margir ,,hvers vegna samt? Er þetta virkilega þess virði? Hvað er að því að nota bara venjulega túrtappa og dömubindi??"
Ég ætla ekki að tala fyrir alla, en fyrir mitt leiti eru ástæðurnar mjög góðar.

  • Getið þið ímyndað ykkur hversu marga pakka af dömubindum og túrtöppum við kaupum yfir ævina? Eða hversu mikið magn af plasti er í einum pakka af Always dömubindum og O.B. túrtöppum? Ég hef ekki nákvæma tölu á því en ég veit að það er alls ekkert smáræði. Hversu miklu magni af túrtöppum og dömubindum ætli sé urðað á hverju ári? Þegar ég fór að spá í þessu fór mér að þykja erfitt að horfa uppá ruslafötuna inná baðherberginu mínu fyllast í hvert skipti sem ég var á blæðingum. Það var þá sem ég ákvað að ég yrði að gera eitthvað í málunum og keypti mér mánabikarinn.
  • Mælt er með því að skipta um túrtappa á þriggja klukkustunda fresti. Það er virkilega mikilvægt að fara eftir þeim ráðum. Ég gerði það aldrei og mér varð ekki meint af. Það á líklega við um flesta aðra en þó getur það verið lífshættulegt að nota sama túrtappa of lengi. Toxic shock syndrome (TSS) er sýking sem oftast er tengd við notkun túrtappa. Hún er sem betur fer sjaldgjæf en að mínu mati er það ekki þess virði að taka áhættuna. Það er því ekki hægt að redda umhverfisþættinum með því að ætla að nýta hvern tappa í lengri tíma. 
     
  • Túrtappar og dömubindi koma fallega hrein, skjannahvít og oft með ilmefnum. Mörg dömubindi eru hvíttuð með klór sem getur valdið skaða á viðkvæmum svæðum. Ef þið getið ekki hugsað ykkur að fara yfir í fjölnota mæli ég eindregið með því að kaupa lífrænar tíðarvörur. 

Taubindin eru frábær kostur fyrir þá sem geta ekki og/eða vilja ekki nota bikarinn. Ég nota bindin þegar blæðingarnar mínar eru svo léttar að mér finnst ekki taka því að setja bikarinn upp, en einnig á nóttunni þegar blæðingarnar eru hvað mestar og ég vil vera örugg að ekkert fari í rúmið ef bikarinn skyldi fyllast. Ég hafði ímyndað mér að þau væru virkilega óþægileg. Mér þótti einnota bindi alltaf óþægileg, fyrirferðarmikil og illa lyktandi. Taubindin eru allt önnur saga. Mér finnst þau virkilega þægileg og ég finn ekkert fyrir þeim. Þau lykta ekki og valda ekki sveppasýkingu.

Það er mismunandi hvernig fólki finnst best að þvo þau. Sumir byrja á því að leggja þau í bleyti í kalt vatn, til þess að ná úr þeim blóðinu, og þvo þau svo á 60°c. Öðrum þykir best að setja þau í vélina á kaldan þvott og síðan á venjulegt prógram. Ég myndi mæla með því að eiga PUL poka, skola hvert bindi eftir notkun og setja í pokann, og þvo svo í vélinni á svona þriggja daga fresti. Ég þvæ allavega ekki daglega og myndi ekki vilja keyra þvottavélina mína fyrir einungis eitt bindi. 

Hvar fæ ég taubindi á Íslandi?

Hérna er brot af þeim fyrirtækjum sem selja taubindi á Íslandi. Þið megið endilega hafa samband ef ég er að gleyma einhverjum. 

Mánabikarinn sem ég nota er frá merkinu Lunette og fæst í Gló Fákafeni. 

Einnig ætla ég að mæla með Facebook hópnum ,,Taubindatjatt" þar sem hægt er að spyrja að öllu sem tengist bindunum. Þessi hópur hjálpaði mér heilmikið þegar ég var að byrja. 

Munum að blæðingar eru ekkert til að skammast sín fyrir og eiga því ekki að vera feimnismál.

Helga María