Minnislisti 1: Þegar ég er týnd

Suma daga líður mér eins og lífið mitt einkennist af þoku. Þá er ég ekki að tala um svona huggulega þoku sem hengur fyrir utan gluggann minn eins og falleg hvít slæða. Ég er að tala um þokuna sem lætur sér ekki nægja að læðast hægt um götur bæjarins, heldur treður sér inn fyrir útidyrnar og gluggana og smokrar sér inní hausinn á mér.

Hún er þung og blindandi og full af afbrýðissemi. Með allskonar brögðum tekst henni að fá mig til að gleyma því hvað ég er ástfangin af lífinu. Hún vill nefnilega að ég elski engan nema sig, og til þess að ég sjái alls ekki í gegnum hana gengur hún stundum undir öðru nafni og kallar sig ,,þægindarammann.”
Þokan vill að við höfum það þægilegt saman og henni er illa við allt sem er henni ókunnugt eða erfitt. Henni líður best í hausnum á mér þar sem hún er óhult og oftar en ekki grátbiður hún mig að vera bara heima og helst á náttfötunum. Hún segir að það sé notalegt, þægilegt og kósý…

Í fyrstu er þokan eins og góður vinur. Hún huggar mig, heldur í höndina á mér þegar ég er hrædd, og telur mér trú um að hún sé komin til að passa mig. Passa að ég geri ekki eitthvað sem gæti orðið erfitt eða valdið mér vonbrigðum. Hún hvíslar að mér að hún muni sjá til þess að enginn geti sært mig, gagnrýnt mig, hafnað mér eða gert lítið úr mér. Margir myndu halda að um sanna vináttu væri að ræða. Ég fell að minnsta kosti oft fyrir þessu.
Það tekur mig þó yfirleitt ekki langan tíma að átta mig á því að þokan er ekki komin til að hjálpa mér, þó hún haldi það kannski. Ég fer að sjá allskonar mynstur sem benda mér á að sambandið okkar sé eitrað. Hún ein hefur stjórnina og hún er frek og eigingjörn. Samskipti við umheiminn eru ekki henni að skapi og oftar en ekki hlýði ég. Það er einfaldast.

Fyrst þegar ég áttaði mig á þessu fylltist ég reiði. Mér leið eins og ég hefði verið í ofbeldisfullu sambandi í mörg ár og enginn hefði látið mig vita. Mín vanlíðan var öllum í kringum mig að kenna, það varaði mig enginn við. Eftir nokkurn tíma viðurkenndi ég þó loksins að ef ég ætti í ofbeldissambandi við einhvern þá væri það við sjálfa mig. Ég hafði búið þokuna til og hleypt henni inn. Ég hafði í rauninni beðið hana að koma í hvert skipti sem ég var hrædd við að takast á við vandamál, erfið verkefni eða sjálfa mig. Ég hafði beðið hana að vefja sig utan um mig eins og mjúkan bómul og telja mér trú um að ég þyrfti í rauninni ekki að takast á við neitt, að ég mætti vera heima og loka augunum fyrir því sem væri í gangi fyrir utan rammann. Þægindarammann.

Við þessa uppgötvun öðlaðist ég ákveðið vald sem ég vissi ekki að ég hefði. Ég sá að það er ég sjálf sem hef vald yfir tilfinningum mínum og það er enginn nema ég sem getur látið mér líða betur eða verr.  Með tímanum hef ég lært ákveðnar leiðir til þess að ýta þokunni frá svo ég sjái skýrar. Þrátt fyrir það á ég auðvelt með að leyfa þokunni að koma sér vel fyrir enn þann dag í dag. Það er nefnilega svo auðvelt að gleyma því hvað skiptir máli og sækjast í öryggið, flýja inn í ramman, breiða yfir haus.

Ég skrifa þessi orð sem áminningu fyrir sjálfa mig svo ég gleymi ekki hvað það er gott að elska lífið og hversu mikilvægt það er að elska sig sjálfa.
Ég ætla því að lista niður hlutina sem hjálpa mér við að draga frá sólu þegar þokan smeygir sér inn fyrir augun á mér og reynir að leiða mig burt frá lífinu.

1. Ég hlusta á tónlist.

Ég veit að það kann að þykja klisjukennt en tónlist er eitt það mikilvægasta í mínu lífi. Hún hefur áhrif á mig sem ég fæ ekki lýst. Mér þykir tónlistin magnað tjáningarform og hún hefur hjálpað mér í gegnum mörg erfið tímabil. Tónlistarval mitt ræðst algjörlega af því í hvernig skapi ég er, þess vegna er Spotify einn af mínum bestu vinum. Þar bý ég til ,,playlista" af lögum sem passa við allskonar tilefni. 
Hérna er listi af lögum sem ég hlusta á þegar mig langar að komast út úr þokunni og líða betur. Lögin eru vel valin og hafa líklega ekki sömu áhrif á ykkur öll og þau hafa á mig, enda upplifum við tónlist hvert á eigin hátt. Hinsvegar getur vel verið að listinn sé akkúrat það sem þið eruð að leita að og þess vegna ætla ég að deila honum með ykkur. Listinn heitir ,,In love with life” og inniheldur lög sem hjálpa mér að muna að elska lífið. Þegar ég set listann í gang líður mér eins og ég komist í annan heim og mér finnst tilveran breyta um lit. 

 

2. Ég fer í göngutúr.

Göngutúrar eru líklega besta ráðið sem ég get gefið þeim sem eru fastir í einhversskonar ,,fönki.” Þó myndi ég ráðleggja ykkur að vera viðbúin: þokan mun gera allt sem í hennar valdi stendur til þess að hindra ykkur frá því að reima á ykkur skóna. ,,Þú nennir ekkert í göngutúr. Kveiktu frekar á Netflix og renndu aðeins yfir Facebook í nokkrar mínútur... eða nokkra klukkutíma.” mun hún hvísla að ykkur. Eins og það er freistandi að hlýða og hjúfra sig undir teppi er svo óskaplega mikilvægt að gefa þokunni puttann og stíga út fyrir, allavega í nokkrar mínútur. Göngutúr þarf ekki að þýða klukkutímalöng ganga, það er hægt labba bara stuttan hring um hverfið. Ég hef alltaf notið þess að labba. Ég labba samt ekkert endilega til þess að labba. Oft fæ ég mér göngutúr því ég er svo spennt að hlusta á nýjan tónlist sem ég var að uppgötva, skemmtilega hljóðbók, hlaðvarp eða einfaldlega fuglasönginn. Með aldrinum finn ég þó hversu kær náttúran er mér. Ég get gleymt mér í nokkrar mínútur við það að horfa á fallegt tré og ég stend mig oft að því að verða gjörsamlega hugfangin af náttúrunni í kringum mig. Göngutúrar eru við allra hæfi. Þú getur fengið hreyfingu, hlustað á hugljúfa tónlist eða fræðandi hljóðbók, og virt fyrir þér umhverfið allt á sama tíma.  Það sem mér finnst samt oft skipta mestu máli er ferska loftið. Ég hef ekki tölu á því hversu oft ég hef legið uppi í rúmi nánast öskrandi úr gráti, liðið eins og lífið mitt sé að brotna undan fótum mér, eins og vandamál mín séu svo gríðarleg að engin leið sé að leysa úr þeim, ákveðið svo að fá mér göngutúr og komið heim eins og önnur manneskja. Yfirleitt þarf ekki meira en fyrsta andardráttinn sem ég tek þegar ég stíg út úr húsinu til að gjörbreyta líðan minni. Það er eins og ég átti mig skyndilega á því að mín gríðarstóru vandamál eru í raun svo agnarsmá þegar á heildina er litið. Þegar ég stíg svo aftur inn heima hjá mér er hausinn á mér mun skýrari og ég þar af leiðandi mun betur í stakk búin til þess að takast á við það sem hefur verið að hrjá mig.

3. Ég les, hlusta á hljóðbækur og hlaðvörp.

Ég hef alltaf haft gaman af því að lesa. Þegar ég var barn og unglingur fór ég oft í gegnum eina bók á dag. Eftir því sem ég eldist les ég minna. Það olli mér lengi vel miklu hugarangri og hálfgerðu samviskubiti. Hljóðbækur hafa algjörlega breytt því. Ég sest kannski minna niður og les en ég myndi vilja, en í staðinn er ég dugleg að hlusta á hljóðbækur sem mér þykja áhugaverðar. Ég hlusta á þær í sporvagninum og strætó, þegar ég sinni heimilisstörfunum og þegar ég fer út að labba. Hlaðvörp eða ,,podcöst” hafa einnig breytt lífinu mínu til muna. Það er til ógrynni af virkilega áhugaverðum hlaðvörpum sem gefa mér mikinn innblástur og eru mörg hver mjög fræðandi. Það getur verið svo hughreystandi að hlusta á samræður fólks sem maður tengir við eða lítur upp til þegar manni líður illa. Ég mæli með Audible fyrir þá sem langar að finna skemmtilegar hljóðbækur. Uppáhalds hlaðvörpin mín eru The Rich Roll Podcast, Waking up with Sam Harris, Orð um bækur og Icetralia. Ég hlusta á þau í podcas-forriti í símanum mínum. 

4. Ég sinni verkefninu sem ég hef verið að forðast/hundsa.

Frestunaráráttu kannast flestir við. Við grínumst oft með hugtakið en mörg vitum við að frestunarárátta er ekkert grín. Við höfum líklega öll reynslu af henni en við vitum kannski ekki alltaf hvað veldur. Hvers vegna hlaupum við frá því sem er erfitt og látum sem það sé ekki til þar til við lendum á vegg og getum ekki hundsað það lengur? Ég get ekki talað fyrir okkur öll en ég geri það þegar ég er hrædd. Ég á það nefnilega til að verða svolítið hrædd og fullvissa sjálfa mig um það að mér muni ekki takast tiltekið verkefni. Ég á það líka til að mikla verkin fyrir mér og í þeim aðstæðum líður mér oft eins og það sé best að láta þau eiga sig. Þetta á við um allskonar verkefni, hvort sem það er að svara mikilvægum tölvupósti, borga reikninga eða jafnvel bara vaska upp. Eitt af því sem hefur hjálpað á þeim stundum, þegar verkefnin hafa hrannast upp og mér líður eins og ég sé að drukkna, er að velja mér eitt verkefni til þess að klára. Þó það sé ekki nema að vaska upp leirtauið sem hefur safnast saman, eða þurrka af eldhúsborðinu, gerir það heilmikið. Þegar ég er týnd í þokunni er það ákveðið afrek að klára eitt verkefni, sama hversu lítið það er. Þegar mér hefur liðið eins og ég geti ekki klárað neitt gefur það mér sjálfstraust að geta strikað eitt atriði af listanum. Trúið mér, oft er þetta mjög erfitt, en í hvert skipti er það þess virði. Þegar eitt verk er yfirstaðið sé ég oft að hin eru ekki endilega eins stór og ég hélt, og næ ég þannig að vinna mig niður listann. 

5. Ég geri eitthvað skapandi, og/eða útbý mér næringarríka máltíð.

Þegar þokan hefur komið sér vel fyrir hef ég engan áhuga á því að skapa. Ég gleymi hvað það er sem gefur mér hamingju og tilgang. Í þessu ástandi á ég jafnvel til að hætta að blogga, skrifa, taka myndir og syngja. Það er ekki vegna þess að mig hættir að langa að gera þessa hluti, heldur vegna þess að mér líður eins og ég geti ekki gert þá. Eftir því sem lengra líður verður það enn erfiðara og ef ég leyfi mér að sökkva dýpra fer mér að líða eins og ég kunni í raun ekki neitt. Ég fer að segja sjálfri mér að ég hafi kannski aldrei kunnað að blogga eða syngja, og sé því tilgangslaust að halda því áfram. 
Sem betur fer er ég farin að læra að svara þessum röddum þegar þær koma. Ég á að vita betur, og stundum geri ég það. Það sem hefur hjálpað mér að komast undan þessum hugsunum er að stilla klukkuna á símanum á tíu mínútur og setjast niður og skapa. Tíu mínútur eru ekki langur tími og í langflestum aðstæðum vel yfirstíganlegur. Þið trúið því ekki hvað þetta gerir mikið fyrir mig. Þegar ég stilli klukkuna og tek ákvörðun um að skapa eitthvað í litlar tíu mínútur gerist yfirleitt eitthvað innra með mér, þó það sé ónothæft ,,rusl" sem endar í tunnunni. Það kemur líka oft fyrir að ég slekk á klukkunni og ranka ekki við mér fyrr en nokkrum klukkutímum seinna með nýtt ljóð í höndunum. 
Það er svo merkilegt að þrátt fyrir að ég viti hvað það er sem gerir mig glaða og spennta fyrir lífinu er þessi rödd alltaf til staðar sem segir mér að það sé einfaldara að sleppa því að gera þá. Maður þarf bara að læra að þagga niður í röddinni og fylgja eigin innsæi.

Ástæðan fyrir því að ég hef eldamennsku með í þessum flokki er vegna þess að þegar ég elda þá er ég að skapa. Þegar ég gef mér tíma til þess að elda næringarríka og bragðgóða máltíð þá líður mér oft eins og ég sé að hugleiða. Þegar ég er dugleg að útbúa hollan og góðan mat á ég mun auðveldara með að segja þokunni að hypja sig og halda mínu striki. 

Að vera hreinskilin

Ég þarf að minna sjálfa mig á það oft á dag að það er ég sem ákveð hvernig ég kýs að lifa lífinu. Ég get ákveðið að sitja yfir sjónvarpinu í mörg ár vegna þess að ég er of hrædd til að lifa lífinu. Ég get líka ákveðið að slökkva á sjónvarpinu og opna augun fyrir því sem lífið hefur uppá að bjóða. Suma daga gleymi ég mér þó í þokunni og þá er erfitt að sjá skýrt. Eins og ég vildi óska að ég gæti skrifað færslu um það hvernig ég hleyp tíu kílómetra á hverjum degi og hugleiði í hálftíma langar mig frekar að vera hreinskilin. Þegar ég er týnd í þokunni er hlaup alls ekki á dagskrá. Hlutirnir á listanum gætu virkað ómerkilegir en þeir skipta mig mjög miklu máli þegar kemur að minni andlegu heilsu. Eins og ég sagði fyrir ofan er þessi færsla ákveðin áminning fyrir sjálfa mig því ég á oft erfitt með að muna hvað þessi atriði hjálpa mér mikið. Þó er ég alltaf að læra og ég passa mig að minna sjálfa mig á að ég þarf ekki að vera fullkomin, ég reyni að gera mitt besta og meira get ég ekki farið fram á. 

Ath: Af gefnu tilefni vil ég taka það fram að ég hef sjálf aldrei verið haldin þunglyndi en ég á mínar hæðir og lægðir eins og flest allir og sumar lægðirnar leggast dýpra en aðrar. Færslan er skrifuð sem áminning fyrir sjálfa mig til að muna hvernig ég tek á lægðunum. Ég myndi að sjálfsögðu ekki ráðleggja einstaklingum sem glíma við þunglyndi að fara bara í göngutúr eða vaska upp, ég myndi ráðleggja þeim að leita sér hjálpar. 

 

Helga María