Bókhveiti pönnukökur

Þessar bókhveiti pönnukökur eru svo unaðslega bragðgóðar og á sama tíma hlægilega einfaldar. Ég hef verið svolítið hrædd við að prufa mig áfram með glúteinlaus hveiti en er farin að sjá hversu auðvelt það er. Þessar pönnukökur innihalda einungis þrjú hráefni en hægt er að setja hvað sem maður vill inní þær. Ég hef bæði prófað að borða þær með baunum, grænmeti og pestó en einnig með banönum og döðlu-súkkulaði sósu. Hvoru tveggja passar alveg æðislega og héðan í frá mun ég passa að eiga alltaf bókhveiti til í eldhússkápnum. 

Eins og ég segi er algjörlega hægt að leyfa hugmyndafluginu að ráða þegar kemur að því að fylla pönnukökurnar. Í þetta sinn átti ég ekkert svakalega mikið til í ísskápnum svo ég setti í þær heimagerðan hummus, rautt pestó og lárperu. Það kom æðislega vel út. Rauða pestóið frá henni Sollu er vegan og það myndi passa rosalega vel inní vefjurnar. Það hefur hinsvegar alltaf verið á dagskrá hjá mér að prófa að gera mitt eigið rautt pestó og ég mun að sjálfsögðu deila með ykkur uppskriftinni þegar hún verður klár. 

Pönnukökur:
3 dl bókhveiti
6 dl vatn
1/2 tsk salt

1. blandið saman bókhveiti og salti

2. hellið vatninu útí smám saman og hrærið vel. Mér finnst best að setja sirka tvo dl í einu. 

3. leyfið deiginu að sitja í 30 - 60 mínútur

4. steikið þunnar pönnukökur á pönnu með örlítilli olíu. Ég myndi mæla með að steikja þær sirka 3 mínútur á hvorri hlið en þið finnið hvað hentar ykkur. 

Njótið
Helga María