Smoothie skál

Þegar fer að vora minnkar löngunin í heitan hafragraut í morgunmatinn. Ég er mikill aðdáandi ávaxta og mér þykir æðislegt að útbúa gómsæta smoothie skál og toppa hana með hnetum, fræjum og öðru góðgæti. Mér finnst mikilvægt að festast ekki í því sama svo ég er dugleg að breyta til. 

Innihald:
1 frosinn banani
5 fersk jarðarber
lúka af frosnum berjum að eigin vali, það er líka gott að setja örlítið af frosnu mangó

1 dl kókosmjólk

Ég skellti öllu í blandarann og helti svo í skál. 

Þegar kemur að því að ákveða hvernig ég skreyti smoothie skálina er tvennt sem ræður úrslitum, hugmyndaflugið og hvaða hráefni ég á til hverju sinni. Í þetta sinn sneiddi ég niður banana, skar niður jarðarber og raðaði í skálina ásamt kókosmjöli, möluðum hörfræjum og muldum möndlum. Þið verðið að finna út hvað ykkur þykir best, möguleikarnir eru endalausir. Hvort sem það er granola, kiwi, mangó, appelsínur, vínber, chia fræ, kókosflögur, fleiri ber eða t.d ananas, ég get eiginlega lofað því að það mun koma vel út. 

Helga María


´