Vegan ommelettur

 

Nýlega uppgvötaði ég að það er hægt að útbúa ommelettur úr kjúklingabaunahveiti.
Það halda líklega margir að þegar maður gerist vegan taki maður út úr matarræðinu allt það sem gefur lífinu gleði og endi sem líflaus, myglaður og dapur einstaklingur með litlausa húð og hor í nös.
Ég viðurkenni það alveg að svoleiðis hugsaði ég líka áður. Þegar ég gerðist vegan hélt ég að nú þyrfti ég að lifa á þurru byggi og spínati. Það var mér því mikill léttir þegar ég áttaði mig á því hvað ég hafði ótrúlega rangt fyrir mér. Ég hætti að borða þurrt bygg og ég eiginlega hef ekki getað borðað bygg síðan þó liðin séu hátt í fimm ár.
Það hvarflaði ekki að mér að þegar ég tæki eitthvað úr matarræðinu gæti ég yfirleitt alltaf fundið eitthvað sem kæmi í staðinn. Ég áttaði mig heldur ekki á því hvað ég myndi taka inn gríðarlega mikið af hráefnum í eldamennskuna sem mér hefði aldrei dottið í hug að nota áður fyrr. Dæmi um svoleiðis hráefni er kjúklingabaunahveiti. Ég hefði ekki fyrir mitt litla líf geta svarað því í hvað hægt væri að nota hveiti úr baunum. ,,Í súkkulaðiköku?? Nei takk!”

Það var svo um daginn að ég fór að prófa mig áfram með vegan ommelettugerð. Nú hef ég ekki borðað ommelettur síðan 2011 og aldrei saknað þeirra neitt svaðalega en mér fannst tilhugsunin um vegan ommelettur alveg svolítið spennandi.  Þær eru hollar, bragðgóðar og hægt að leika sér mikið með uppskriftina. Ég er farin að búa þær til oft í viku því það er svo grátlega auðvelt og fljótlegt.

Sum hráefnanna gætu hrætt ykkur í fyrstu, en treystið mér, þau bíta ekki!

Innihald:
1 bolli kjúklingabaunahveiti (fæst í Nettó)
1 höregg eða chiaegg (Aðferð útskýrð að neðan)
1 tsk eplaedik
1 tsk lyftiduft
½  tsk cumin
½  tsk paprika
1 tsk kala namak (Okei, þetta er indverskt salt, oft kallað svart salt, en er samt bleikt á litinn. Þetta salt er aaalveg eins og egg á bragðið, trúið mér, líkindin eru fáránleg. Ég bý í Svíþjóð svo ég er ekki viss hvar þetta salt fæst á Íslandi, en ég myndi giska á víetnamska markaðinn eða búðir í svipuðum dúr. Annars er hægt að panta það á netinu. Ef þið nennið ekki að þeysast um bæinn í leit að skrítnu salti og hafið engan áhuga á að versla það á netinu er ekkert mál að sleppa því, ommeletturnar verða samt ótrúlega góðar. Ég mæli samt með því að þið prófið!)
Salt og pipar eftir smekk
Vatn (Ég hef aldrei mælt það sérstaklega hversu mikið vatn ég set, en ég set smá og smá í einu þar til deigið er orðið svipað pönnukökudeigi.)

Aðferð:
1. Fyrst bý ég til höreggið. Það geri ég með því að blanda 1 msk af muldum hörfræjum saman við 3 msk af vatni og leyfa því að standa í 5 mínútur eða þar til áferðin á blöndunni minnir svolítið á gel.

2. Á meðan ég læt höreggið þykkna blanda ég saman þurrefnunum í stóra skál. Ég set yfirleitt meira af cumin og papriku en þessar ½ tsk en það er bara vegna þess að ég er brjáluð í kryddaðan mat. Ég meira að segja bæti oft allskonar kryddum útí og það kemur alltaf sjúklega vel út. Best er að byrja á því að setja minna frekar en meira og fikra sig svo áfram.

3. Þegar höreggið er orðið þykkt hræri ég því saman við þurrefnin ásamat vatninu. Deigið á að vera svona eins og pönnukökudeig. Ekki of þunnt samt því ommeletturnar eiga ekki að vera eins þunnar og t.d íslenskar pönnukökur.

4. Ég hita pönnu á meðalhita með örlítilli olíu og steiki ommeletturnar eins og pönnukökur. Á annarri pönnu steiki ég svo það grænmeti sem mér dettur í hug að hverju sinni og nota sem fyllingu. Það er algjörlega misjafnt eftir dögum hvað ég set og hvernig ég krydda það. Mér finnst einfaldlega best að nota bara allt það sem ég á til í ísskápnum.

Ég mæli með því að þið prófið þetta, hvort sem þið eruð vegan eða ekki, það er nefnilega alltaf gaman að breyta til og prófa eitthvað nýtt og spennandi.

Njótið
Helga María