Pasta með rjómaostasósu

Ég hef alltaf verið mikill aðdáandi pastarétta og þá aðallega pasta í rjómasósu. Það hefur auðvitað ekkert breyst eftir að ég varð vegan því eins og við flest vitum er til fullt af ótrúlega góðum vegan matreiðslurjóma, smurosti og rjómaosti sem virkar ótrúlega vel í slíka rétti. Nýlega hófu verslanir Hagkaups og Bónus að selja rjómaost frá merkinu Tofutti 

Hann er ótrúlega góður og ég hef notað hreina rjómaostinn bæði í krem á kökur og á kex með sultu.
Hvítlauks og jurta rjómaostinn hentar svo rosalega vel í allskonar rjómasósur og útbjó ég um daginn þessa æðislegu sósu sem ég hef bæði notað í kartöflugratín, sem hvíta sósu í lasagna og sem sósu í pastarétt. 

Innihaldið er: 
2 msk ljóst tahini
2 msk rjómaosturinn frá tofutti
grænmetisteningur
1 bolli sojamjólk
maísmjöl til að þykkja
Salt og pipar eftir smekk

Allt sett saman í pott og hrært í þessu þar til suða kemur upp. 
Hún á að vera alveg svolítið þykk. 

Fáránlega góð sósa sem passar með allskonar

Njótið
Helga María