Vefjur með sojabitum, baunum og grænmeti

Í kvöld gerði ég vefjur með soyabitum og grænmeti og ég held ég geti sagt að svona vefjur eru með því betra sem ég fæ. Mér finnst mjög gott að setja í þær hummus og grænmeti, hrísgrjón og steikt tófú eða tófúhræru jafnvel. Í kvöld gerði ég þó það sem ég geri langoftast og það eru vefjur með soyabitum, baunamauki, avokado og grænmeti. Þær eru æðislega góðar og eldamennskan tekur ekki langan tíma. 

Hráefni: 
1 poki af soyabitum frá anamma - Fást í Bónus og Hagkaup
Taco krydd eða annað grillkrydd að eigin vali
2 avókadó (miðað við kvöldmat fyrir 2)
1 dós baunamauk/refried beans frá Santa Maria
Salsasósa
Gúrka
Rauðlaukur
Tómatur
Gular baunir
Kál
Vefjur

Aðferð: 
1.Ég byrja á því að steikja bitana. Ég nota taco kryddið sem fæst í bréfum og er í sömu deild og vefjurnar, salsa sósan og baunamaukið. 

2. Á meðan sker ég grænmetið, stappa avókadó og hræri af og til í bitunum svo þeir brenni ekki við. 

3. Þegar bitarnir eru tilbúnir færi ég þá af pönnunni og set vefjuna á hana í staðinn. Ég leyfi henni að liggja á pönnunni í sirka 20 sekúndur og sný henni svo við og leyfi henni að liggja í aðrar 20 sek á þeirri hlið. 

4. þegar vefjan er tilbúin set ég hana á disk, smyr baunamaukinu og avókadóstöppunni á miðja vefjuna, set svo bitana og grænmetið á og að lokum salsasósuna. (fyrir þá sem borða ekki salsasósu er rosalega gott að nota BBQ í staðinn).

Ég reyni svo að loka henni og það fer eftir því hversu svöng ég er hvort það heppnast. Stundum hef ég troðið svo miklu í að úr verður mikill subbuskapur en ég reyni yfirleitt að hemja mig svo ég nái að rúlla henni upp. 

Þetta er frábær kvöldmatur sem tekur ekki langan tíma að gera og krefst ekki mikilla hæfileika í eldhúsinu. 

Njótið
Helga María