Einfaldur spagettíréttur

Í kvöld var spaghetti í matinn. Það er eitt af því sem ég geri þegar ég er í litlu stuði fyrir eldamennsku eða svo svöng að ég þarf eitthvað sem tekur stutta stund að elda. 

-Ég skar niður nokkra sveppi, einn lauk og eina papriku og setti á pönnu. Ég reyni að komast hjá því að nota olíu þegar ég elda svo ég steikti þetta uppúr vatni ásamt kjúklingabaunum sem ég skolaði fyrst. 

-Á meðan hitaði ég vatn í potti og þegar suðan kom upp setti ég heilhveiti spaghetti ofan í. Ég sauð spaghettiið í sirka 7 mínútur.

-Þegar grænmetið var orðið svolítið mjúkt hellti ég niðursoðnum tómötum í pönnuna og kryddaði með hvítlaukspipar, smá salti og pizza kryddi frá Pottagöldrum. 

Fyrir þá sem vilja er gott að setja smá tómatsósu yfir en það er alls ekki nauðsynlegt. Einnig keypti ég svartar ólífur alveg spes til að nota í þetta og steingleymdi þeim en mæli sterklega með því að hafa þær með! 

Góð og holl máltíð sem tók enga stund!


Njótið 
Helga María