Karrý með smjörbaunum

Í kvöld gerði ég æðislegt karrý með smjörbaunum og kókosmjólk. Ég keypti í gær curry paste frá Patak's í fyrsta sinn og það sló svo sannarlega í gegn. Ég notaði Madras paste og það er alveg frekar sterkt svo ef þið eruð viðkvæm fyrir krydduðum mat er betra að kaupa kannski mildari týpuna frá þeim. 

Hráefni: 
1 paprika
2 frekar litlir gulir laukar
2 frekar litlir hvítlauksgeirar
1 tsk rifið ferskt engifer
1/4 krukka Patak's madras paste (minni á það enn og aftur að þetta er mjög sterkt og best er að setja smá í einu og smakka til)
1 grænmetisteningur
1 dós kókosmjólk
2 dósir smjörbaunir frá Biona
2 lúkur ferkst spínat

Aðferð:
-Ég byrjaði á því að skera paprikuna og laukinn niður og steikja uppúr smá vatni í ca 5 mínútur eða þangað til það var orðið svolítið mjúkt
-Næst pressaði ég hvítlauk, reif engifer og bætti út á pönnuna
-Kókosmjólkinni hellti ég út ásamt karrýmaukinu
-Ég helti smjörbaununum í sigti og skolaði vel undir köldu vatni. Því næst hellti ég þeim á pönnuna ásamt grænmetisteningi og leyfði þessu að malla í ca 20-30 mínútur.
-Á meðan rétturinn mallaði sauð ég mér hrísgrjón í potti til að hafa með. 
-Þegar rétturinn var alveg að verða tilbúin setti ég spínatið útí og lét þetta malla í nokkrar mínútur þangað til spínatið var orðið mjúkt. 
-Það getur verið að ykkur finnist þurfa meira salt en mér fannst þetta mjög passlegt svona. 

Ótrúlega fljótlegur og bragðgóður kvöldmatur ! 

-Helga María