Einfaldur hummus

Nú eru liðin fjögur ár síðan ég tók algjöra u-beygju í lífinu. Ég sat í sófanum heima og rakst alveg óvart á youtube myndband þar sem ung stelpa talaði um það hvernig veganismi bjargaði heilsunni hennar. Ég hafði eiginlega ekki hugmynd um það hvað það þýðir að vera vegan og varð forvitin. Ég eyddi kvöldinu í það að lesa um þennan ótrúlega furðulega lífsstíl og ákvað sama kvöld að nú væri ég orðin vegan. Mér fannst þetta aldrei erfitt, stressandi eða leiðinlegt heldur spennandi og eiginlega bara frekar kúl!
Ég var ekki mikill kokkur og hafði ekki þurft að hugsa mikið um eldamennsku fram að þessu og vissi eiginlega ekkert hvað ég átti að borða fyrstu mánuðina mína sem vegan. Það sem bjargaði mér oft á tíðum þegar ég stóð í eldhúsinu ringluð var hummus. Ég vissi hvernig átti að búa til einfaldan hummus og ég passaði mig að eiga hann eiginlega alltaf til í ísskápnum. Ég borðaði hann með öllu nánast, sem ídýfu með gulrótum, smurði honum á brauð, setti hann í pítur og vefjur með grænmeti, ofan á salat og notaði jafnvel sem sósu á pasta. Uppskriftin mín hefur breyst aðeins með árunum og ég hef gert allskonar tilraunir í hummusgerð. 

Uppskriftin sem ég ætla að deila með ykkur núna er mjög hefðbundin og klikkar aldrei. Það er hægt að bæta við hana þeim kryddum sem manni þykja góð og ég notaði í þetta sinn piri piri krydd en það er einnig hægt að setja papriku, cumin eða ferskt kóríander jafnvel. Einnig er hægt að skipta út tahini fyrir hnetsmjör eða ólífuolíu og hægt að nota lime í stað sítrónunnar. 

Hráefni:
-2 dósir kjúklingabaunir - Mikilvægt er að hella þeim í sigti og skola vel undir köldu vatni fyrst.
-3 msk tahini
-Safi úr 1/2 stórri sítrónu eða 1 lítilli
-2 hvítlauksgeirar
-Smá vatn - Mér finnst best að setja matvinnsluvélina af stað og hella vatninu mjög hægt og finna þannig áferðina sem mér þykir best. 
-Salt eftir smekk
-1/2 tsk piri piri krydd frá Pottagöldrum. - Kryddið er mjög sterkt og því er best að setja lítið fyrst og svo bæta við ef mann langar. 

Aðferð:
1. Setjið kjúklingabaunir, tahini, sítrónusafa og hvítlauksgeira í matvinnsluvél og maukið.
2. Hellið vatni hægt útí á meðan og finnið áferðina sem þið viljið
3. Saltið eftir smekk og bætið útí því kryddi sem ykkur þykir best að nota. Ég notaði piri piri og það kom rosalega vel út að mínu mati.

Helga María