Buddha skál

Þessi skál er stútfull af næringarríkum mat sem gefur manni ekkert nema eintóma gleði og vellíðan. Ofnbakað grænmeti, kjúklingabaunir og tahinisósa eru allt dæmi um mat sem er í miklu uppáhaldi hjá mér og því geri ég þennan rétt nánast vikulega. 

-Ég byrjaði á því að hita ofninn í 180°C

-Á meðan ofninn hitnaði skar ég niður grænmetið. Í þetta sinn notaði ég einn rauðlauk, hálfa papriku, nokkrar kartöflur, hálfan kúrbít og lítinn brokkólíhaus. Það er alls ekkert heilagt og ég nota yfirleitt bara það grænmeti sem ég á í ísskápnum. 

-Ég setti grænmetið á ofnplötu ásamt smá ólífuolíu, salti og pipar og bakaði það í sirka 30 mínútur. Ég set alltaf bökunarpappír á plötuna til þess að komast hjá því að nota mikið af olíu.

Þegar 10 mínútur voru í að grænmetið yrði klárt steikti ég kjúklingabaunir á pönnu. Ég notaði 2 dósir af kjúklingabaunum og skolaði þær vel í sigti áður. Mér finnst gott að leika mér þegar ég krydda kjúklingabaunir og þær verða því nánast aldrei alveg eins. Í kvöld notaði ég 2 tsk cumin, 2 tsk chili duft, 2 tsk hvítlauk og salt eftir smekk. Ég steikti þær í 10 mínútur á meðalháum hita eða þangað til þær urðu örlítið dekkri. 

Þegar ég tók grænmetið út voru kartöflurnar ekki alveg tilbúnar svo ég tók hitt grænmetið af plötunni, setti slatta af spínati við hliðina á kartöflunum og bakaði örlítið lengur. Spínat skreppur alveg svakalega mikið saman í ofninum svo það má setja heilan helling á plötuna. 

Að lokum blandaði ég tahinisósu. Ég setti sirka 2 msk af tahini, örlítið af sítrónusafa og örlítið af vatni í glas og hrærði saman. Ég bætti vatni við í örlitlu magni í einu þangað til ég fékk þá áferð sem ég vildi. Ég saltaði sósuna svo smávegis.

Njótið
Helga María