Baunakássa

Ég geri mér fulla grein fyrir því að flestir réttir sem ég birti hérna eru baunakássur eða súpur. Ástæðan fyrir því er sú að ég elska fátt jafn mikið og þegar matargerðin þarfnast lítillar fyrirhafnar og maður kemst upp með að elda allt í einum og sama pottinum. Að vísu sauð ég brún hrísgrjón með kássunni í þetta sinn en hún er mjög góð og saðsöm ein og sér. Kássan er stútfull af næringu og hún erótrúlega góð á bragðið. 

Hráefni:
2 stórar gulrætur skornar smátt
1/2 stór sæt kartafla eða 1 lítil flysjuð og skorin smátt
2 gulir laukar saxaðir
2-3 hvítlauksgeirar rifnir eða pressaðir
1 bolli frosnar maísbaunir
1 dós grænar linsubaunir (ég nota þessar frá Biona) skolaðar vel undir köldu vatni
2 dósir svartar baunir skolaðar vel undir köldu vatni
2 dósir niðursoðnir tómatar
1 tsk cumin
4 msk chiliduft
1 msk paprikuduft
1 lárviðarlauf
Grænmetisteningur
4-5 bollar vatn
2 tsk tabasco sósa eða 1 msk chili tómatssósa
1 msk agave sýróp ef ykkur finnst þurfa smá sætu.
Nokkrir dropar af lime safa

Aðferð:

1. Ég byrjaði á því að skera niður grænmetið og setja það í stóran pott ásamt örlitlu vatni. Ef þið viljið nota olíu frekar þá er það ekkert mál. Ég steikti grænmetið uppúr vatninu í nokkrar mínútur eða þangað til laukurinn var orðinn mjúkur.

2. Næst bætti ég hvítlauknum, lárviðarlaufinu og kryddunum út í og hrærði þeim vel saman við grænmetið og leyfði því að malla í sirka 2 mínútur. 

3. Næst hellti ég vatninu útí pottinn og ég byrjaði á því að nota 4 bolla og bætti svo aðeins við í lokinn til að þynna kássuna. Ásamt vatninu setti ég tómatana og grænmetiskraftinn. Ég leyfði þessu að malla í sirka 30 mínútur.

4. Á sama tíma byrjaði ég að sjóða vatn fyrir hrísgrjónin. Ég notaði brún grjón og þau taka aðeins lengri tíma en þessi hvítu. 

5. Að lokum bætti ég baununum, tabasco sósunni og agave sýrópinu út í og leyfði þessu að malla í 20 mínútur í viðbót. 

Ég bar kássuna fram með brúnum grjónum og smá skvettu af lime safa. Maturinn var ótrúlega góður og kássan er jafnvel enn betri daginn eftir. 


Helga María