Súpa úr grænum linsubaunum

Þessi súpa er æðisleg. Hún er úr grænum linsubaunum og bragðast ekkert smá vel út. 

-Ég byrjaði á því að skera niður einn gulan lauk og setti í pott ásamt ólífuolíu.
-Eftir sirka fimm mínútur bætti ég útí 1 tsk kóríander, 1 tsk cumin, 1 tsk cayenne pipar, 1 tsk paprikudufti, 2 söxuðum hvítlauksgeirum og smá bút af söxuðu engifer. Ég hrærði því vel saman og passaði að kryddin dreifðu sér vel. 
-Næst bætti ég útí 4 niðurskornum kartöflum (frekar litlum), 2 niðurskornum gulrótum, 1/2 rauðri papriku, lófafylli af grænkáli, 2 bollum af vatni og einum grænmetistening . 
-Ég notaði eina dós af lífrænum grænum linsubaunum frá Biona sem ég keypti í Nettó. Ég hellti þeim í sigti og skolaði vel undir köldu vatni þangað til hætti að freyða. 
-Ég setti baunirnar útí og leyfði þessu að sjóða í rúman hálftíma. Ég smakkaði til og saltaði súpuna eftir því hvað mér fannst þurfa. 

Með þessu borðaði ég stórt salat með tómötum, avókadó og baunaspírum. 

Frábær kvöldmatur, stútfullur af næringu og ótrúlega góður á bragðið!

Helga María